10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

Fyrstu tvö árin í lífi barnsins eru alveg einstök. Þau eru að uppgötva ALLT og læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Þau fara úr því að vera algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus yfir í að geta gengið, hlaupið, talað, borðað sjálf og svo margt fleira.

Það eru alveg takmörk fyrir því hvað svona lítil börn geta gert. Þau reyna gjarnan að stinga hlutum sem þau finna í munninn á sér, sum eru ekki farin að ganga og þessi yngstu leggja sig oft yfir daginn. Á móti kemur að fyrir þeim er flest allt nýtt og spennandi og það þarf yfirleitt ekki að hafa mikið fyrir því að hafa ofan af fyrir þeim. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman tíu einfaldar hugmyndir að hlutum til að gera með allra  yngstu börnunum í sumar sem allir ættu að geta gert með þeim óháð búsetu.

Mynd: Joshua Gaunt

1. Fjöruferð

Litlum börnum finnst mjög gaman að leika sér í sandinum og skoða allt sem leynist í fjörunni. Það getur verið sniðugt að taka sandkassadót með sér en það er ekki nauðsynlegt. Það er alveg hægt að leika með skeljar og greinar og annað sem maður finnur úti í náttúrunni. Svo er tilvalið að taka með sér nesti og gera sér ágætlega langa ferð úr þessu.

2. Leika í sandkassa

Eins og áður sagði hafa lítil börn mjög gaman af því að leika sér í sandi. Sandurinn getur alveg verið í garðinum heima eða á næsta róló. Gaman er að taka með sér fötu og skóflu til að leika með. Ef veðrið býður ekki upp á að leika úti í sandkassa er hægt að búa til svokallaðan leiksand. Leiksandur er búinn til úr hráefnum sem finnast í flestum eldhúsum og er því alveg ætur ef krökkunum langar að smakka sandinn. Það er t.d. hægt að búa til leiksand með því að mala cheerios eða blanda saman 8 pörtum af hveiti við 1 part af matarolíu (t.d. 4 dl hveiti og ½ dl matarolía). Svo þarf bara að finna eitthvað skemmtilegt dót til að leika með í sandinum eða fela dót í honum.

3. Sulla

Fátt finnst börnum skemmtilegra en að fá að sulla í vatni. Það eru margar útfærslur af sullinu og vel hægt að vera með það inni ef veðrið er ekki gott, eins og gerist reglulega á Íslandi þótt það eigi að vera sumar. Innisull er hægt að framkvæma í sturtunni eða baðinu (eða jafnvel í vaski) og leyfa þá barninu að fá ílát úr eldhúsinu til að sulla með. Ef veður leyfir er hægt að sulla úti í garði eða á svölunum. Skemmtilegast er að fá nokkur ílát og volgt vatn, eitthvað til að hræra með og annað sem manni dettur í hug. Þau geta dundað sér við þetta í dágóðan tíma. Klæddu barnið eftir veðri og þó það sé ekki sól er vel hægt að sulla í pollagalla og hlýjum fötum.

4. Sund

Það er mjög gaman að fara með börnum í sund. Þessi allra yngstu þurfa helst að vera í innilaug, sérstaklega ef það er kalt. Það þarf líka að muna að verja börnin fyrir sólinni. Eldri börnin geta auðvitað farið í sund í útilaugum og vaðlaugum. Ef foreldrarnir nenna ekki í sund með barninu þá er til önnur lausn; uppblásin sundlaug á svölunum eða í garðinum. Þau elska þetta flest og gaman er að fá eitthvað dót með sér í sundlaugina. Önnur hugmynd er að sameina boltalandið og uppblásnu sundlaugina og búa til sundboltaland. Eldri systkini hefðu sjálfsagt líka gaman af því.

Mynd: Rui Xu

5. Blása sápukúlur

Það síðasta vatnstengda er einfalt. Að blása sápukúlur með barninu, eða fyrir það. Fæst börn hafa styrkinn í að blása sápukúlur en hafa oft gaman af því að reyna að ná þeim. Það eru líka til alls konar sápukúluvélar sem blása fyrir mann og þá geta foreldrarnir tekið betur þátt í fjörinu.

6. Göngutúr

Það er alltaf gott og endurnærandi að fara í gönguferð. Þetta þarf ekki að vera flókið. Foreldrið röltir um nágrennið á meðan barnið sefur, ef það er ungt. Ef barnið er orðið eldra er hægt að hafa það í kerru og leyfa því að njóta umhverfisins og jafnvel stoppa á róló af og til.

Mynd: Janko Ferlic

7. Lautarferð

Lautarferð er nátengd göngutúrahugmyndinni hér að ofan en í þetta skiptið er markmiðið að taka með sér nesti í göngutúrinn og finna sér svo einhvern góðan stað til að borða mat saman. Reyndar þarf ekki einu sinni að fara lengra en út í garð.

8. Skógarferð

Gaman er að gera sér ferð í næsta skóg eða skógrækt. Í skóginum er margt að skoða; greinar, könglar, skordýr og fleira. Yngstu börnin geta verið í burðarpoka en þau sem eru farin að ganga geta spreytt sig á að ganga í nýju og krefjandi umhverfi. Ekki er vitlaust að taka með nesti.

Mynd: Jelleke Vanooteghem

9. Kríta

Að kríta er eitthvað sem smábörn og eldri  börn geta notið saman. Yngri börnin geta kannski ekki teiknað fallegar myndir ennþá en þeim finnst þau hluti af hópnum ef þau fá að vera með.

10. Mála með fingramálningu

Að mála með fingrunum er góður skynjunarleikur fyrir börn. Annað hvort er hægt að kaupa fingramálningu án allra eiturefna eða að búa til alveg örugga málningu með því að blanda saman mismunandi matarlitum við jógúrt. Þá er ekkert mál þótt eitthvað fari í munninn. Svo þarf bara að finna stað fyrir þau að mála á. Þetta verður subbulegt svo sturtan eða baðkarið er ágætiskostur ef ekki er í boði að vera úti.