Afmæli Jóns Árnasonar

Þann 17. ágúst nk. eru 204 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar. Hver er Jón Árnason eiginlega, spyrja sum sig kannski. Í mjög stuttu máli er Jón Árnason maðurinn sem safnaði saman íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Hann er eins konar Grimm-bróðir Íslendinga, enda varð hann fyrir áhrifum frá bræðrunum þýsku. Hér verður farið yfir ævi hans og störf.

Jón Árnason fæddist þann 17. ágúst árið 1819 á Hofi á Skagaströnd, þar sem faðir hans var prestur. Þegar Jón var á sjöunda ári dó faðir hans og var Jón þá með Steinunni, móður sinni. Jón fór síðan í Bessastaðaskóla og lauk stúdentsprófi þar árið 1843. Jón bjó mest alla ævina í Reykjavík og starfaði m.a. sem landsbókavörður og þjóðminjavörður. 

Jón fór að safna þjóðsögum og ævintýrum víðs vegar af landinu í samstarfi við Magnús Grímsson. Þeir gáfu út Íslenzk æfintýri árið 1852 en sú bók hlaut dræmar viðtökur. Þeir héldu þó áfram söfnuninni. Magnús lést árið 1860 en Jón hélt þó söfnuninni áfram einn. Á árunum 1862-1864 kom út ritið Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri í tveimur bindum. 

Jón Árnason dó árið 1888. 

Í tilefni þessa dags er tilvalið að lesa nokkrar vel valdar þjóðsögur fyrir börnin. Hér á vef Snerpu má finna fjölmargar þjóðsögur úr safni Jóns Árnasonar. Þjóðsögurnar okkar eru dýrmætur menningararfur sem sýnir okkur inn í fortíð þjóðarinnar, sér í lagi alþýðunnar. Þjóðsögurnar gengu mann fram af manni í margar kynslóðir og það er okkar hlutverk að koma þeim til þeirrar næstu.

 

Annað sniðugt sem hægt er að gera í tilefni dagsins er að skrifa sína eigin þjóðsögu eða ævintýri. Hægt er að nota sögukastið hér fyrir neðan. Þar þarf að kasta teningum til að finna út hver aðalpersóna sögunnar á að vera, hvenær sagan gerist, hvar og hvað gerist. Svo þarf bara að skálda í eyðurnar. 

Í lokin eru hér nokkrar gátur sem Jón Árnason og Ólafur Davíðsson söfnuðu á 19. öld og gáfu út í ritinu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur árið 1887. Gáturnar gætu verið nokkuð skrýtnar fyrir okkur á 21. öldinni en þið getið reynt að spreyta ykkur á þeim. 

Á ári hverju einu sinni

alla menn ég sæki heim,

þá sem ei mig eiga í minni

eg óvörum finn, og hverf frá þeim.

Á björtum degi ei birtist lýð,

bragnar sjá þá eigi,

en um nætur alla tíð

er hún ljós á vegi.

Eg er hús með aungum tveim

í mér liggja bræður fimm;

í hörðum kulda hlífi eg þeim,

þó hríðin verði köld og grimm.

Svör: Afmælisdagur, stjarna og vettlingar.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *