Barnaafmæli

Að skipuleggja barnaafmælið þarf ekki að vera flókið og oft eru einföldustu afmælin skemmtilegust. Barnaafmæli þurfa ekki að líta út eins og þau gera á instagram og pinterest, öll í ákveðnu litaþema með yfirdrifið magn af flottum veitingum. Það er líka hægt að halda gamaldags barnaafmæli með skúffuköku sem afmælisbarnið skreytti sjálft og skinkuhornum sem borðuð eru af Spiderman- eða prinsessupappadiskum. Það þýðir þó ekki að það megi ekki gefa sér smá tíma til að skipuleggja afmælið svo það fari sem best fram og stressið sé lágmarkað í undirbúningnum. Yfirleitt þykir afmælisbarninu skemmtilegt og spennandi að fá að taka þátt í undirbúningi veislunnar og ef það er hægt þá er frábært að leyfa því að vera með. Þetta getur búið til góðar minningar milli barsins og foreldra. Hér eru útprentanleg skipulagsblöð fyrir barnaafmæli: skipulagsblöð fyrir barnaafmæli, til að hjálpa þér að skipuleggja afmælið.

 

En það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar halda á barnaafmæli. 

 

pexels-vlada-karpovich-7099957
Tími og dagsetning

Dagsetning afmælisins ræðst fyrst og fremst af því hvenær barnið á raunverulega afmæli. Oft eru helgarnar fyrir eða eftir daginn notaðar í afmæli, því það getur verið strembið að halda afmæli á virkum dögum. Best er ef dagsetningin skarist ekki á við neina hátíðisdaga, t.d. er ekkert sérstaklega gaman að halda upp á afmælið sitt á páskadag eða á 17. júní. Gott er ef hægt er að passa upp á að bestu vinir eða vinkonur barnsins geti komist þennan dag. 

Það er svo mjög gott ráð að taka fram á boðskortinu bæði klukkan hvað afmælið byrjar en líka hvenær það endar, svo foreldrar geti sótt börnin sín á ákveðnum tíma. Það fer eftir aldri afmælisbarnsins og gestanna hversu langt afmælið ætti að vera en oft er nóg að hafa þau einn og hálfan til tvo tíma.

 

Gestalisti

Þegar skipuleggja á viðburð er mjög gott að að áætla í upphafi hversu margir munu mæta. Það gerir alla útreikninga á öðrum þáttum skipulagningarinnar auðveldari. Gestalisti fyrir barnaafmæli er einfaldlega þeir vinir eða vinkonur afmælisbarnsins sem það vill bjóða og svo einhverjir ættingjar líklega. Sumir foreldrar hafa þó stundum sér afmælisveislu fyrir vini og vinkonur barnsins og aðra fyrir ættingja og vini fjölskyldunnar. Það bjóða ekki öll heimili upp á mikið pláss fyrir afmælisveislur svo oft er þetta fyrirkomulag skynsamlegt.

Staðsetning

Mörg kjósa að hafa barnaafmælin í heimahúsi, enda er það ódýrasta lausnin, en það er líka hægt að leigja sali víða eða fara í t.d. bíó eða sund . Það er þá oft gert í þeim tilfellum sem tvö eða fleiri bekkjarsystkini halda afmælið sitt saman og bjóða öllum í bekknum eða árgangnum. Sé afmælið í heimahúsi er gott að merkja húsið eða íbúðina með blöðrum að utan svo gestir viti nákvæmlega hvert þeir eigi að fara. Ef ákveðin svæði heimilisins eru utan þess svæðis sem afmælisgestir mega vera á er gott að loka hurðum að þeim svæðum, jafnvel læsa. 

 

Boðskort

Boðskort fyrir barnaafmæli þurfa ekki að vera dýr. Sumir vilja gera kort í tölvu og láta prenta út en einnig er hægt að láta afmælisbarnið sjá um að búa til boðskort. Svo þarf að útdeila boðskortunum. Í sumum tilfellum er hægt að gera það í skólanum með leyfi kennara en þá gilda reglur um að annað hvort öllum í bekknum sé boðið eða annað hvort öllum strákunum eða öllum stelpunum. Ef aðeins útvöldum er boðið þarf að bjóða utan skólans. Einnig er hægt að senda út afmæliðboð rafrænt.

Í boðskortinu þarf að koma fram hver á að fá það, hvaða dag afmælið er haldið, hvenær það byrjar og endar, símanúmer eða önnur leið til að hafa samband við foreldra eða forráðamenn afmælisbarnsins og hvar afmælið er haldið. Gott er að afhenda eða bera út boðskortin um viku fyrr.

pexels-kampus-production-7159865
pexels-markus-spiske-369267
Veitingar

Í barnaafmælum er gott að hafa val um bæði sætt og ósætt. Það er mjög sniðugt að hafa ávexti í boði sem hluta af sætu veitingunum. Hægt er að panta eða kaupa allar veitingar ef tíminn til að baka og undirbúa er lítill. Þá er einfalt að fara í næsta stórmarkað eða bakarí og kaupa kökur, brauð, salöt og ávexti eða t.d. bara panta pizzu. Ef það á hins vegar að undirbúa og baka veitingarnar heima fyrir er gott að búa sér til plan um hvenær hvað verður bakað svo allt náist í tæka tíð. Oft er hægt að frysta kökubotna, brauðmeti og fleira þess háttar. Ekki gleyma drykkjum.

 

Skreytingar

Skreytingar fyrir barnaafmæli þurfa ekki að vera flóknar eða miklar, eða nokkrar yfir höfuð hafi maður ekki áhuga á slíku. Sé áætlunin að skreyta fyrir afmælið annað hvort hægt að föndra skraut sjálfur með afmælisbarninu eða kaupa það í búðum eða á netinu. Þetta fer allt eftir smekk og fjárhag fjölskyldunnar. Sum vilja hafa ákveðið þema í afmælinu og þá er hægt að sanka að sér skrauti sem gæti hentað jafnt og þétt á lengri tíma og safna saman skemmtilegu skrauti.

Ég get þó lofað þér því að það verða ekki dýru keyptu skreytingarnar sem börnin munu helst muna eftir úr afmælinu, þar vega leikirnir, afþreyingin og gjafirnar mun þyngra.

Gjafir

Stór hluti af því að eiga afmæli sem barn er að fá gjafirnar. Það getur verið mjög sniðugt að útbúa einfalt gjafaborð þar sem gestir geta lagt frá sér gjafirnar. Eftir að allir hafa snætt veitingar er sniðugt að opna pakkana og gaman er fyrir gestina, sem kannski voru búnir að úthugsa gjöfina til afmælisbarnsins, að fá að sjá þegar gjafirnar eru opnaðar. 

 

Afþreying og leikir

Það er ágætt að hafa eitthvað af afþreyingu í boði fyrir börnin, en alls ekki hafa of mikið í gangi. Oftast er nóg að fara í nokkra leiki og horfa svo jafnvel á eina bíómynd og borða popp. Það er svo auðvitað hægt að panta andlitsmálun, töframann, trúð eða önnu skemmtiatriði. Oft eru það þó gömlu góðu leikirnir sem slá alltaf í gegn. Þetta eru leikir eins og pakkaleikur og stoppdans. 

 

Gjafapokar

Nú í seinni tíð hafa sum farið að senda gjafapoka heim með gestunum eftir afmæli. Í þeim er oft eitthvað góðgæti og/eða lítil gjöf. Það er alls engin nauðsyn að gefa gjafapoka eftir afmæli en vissulega skemmtilegt fyrir gestina og gestgjafana.

pexels-vlada-karpovich-7100340