Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.