Að búa til hefðir og góðar minningar

Það er undir okkur, fullorðna fólkinu, komið að skapa hefðir og búa til góðar minningar fyrir börnin okkar. Þannig er það einfaldlega. Þegar ég hugsa til baka til æskuára minna fyllist hugur minn af góðum minningum, sem margar hverjar tengjast einmitt einhverjum fjölskylduhefðum. Gleðin við að sjá allt gamla jólaskrautið sett á sinn stað, lestur fyrir svefninn með mömmu, að búa til bolluvönd fyrir bolludaginn og Disney-myndin á föstudögum eru allt hefðir sem ég tengi við góðar minningar og mér verður hlýtt í hjartanu við að hugsa til baka til þessa tíma. Hefðir hverrar fjölskyldu færir fólkið nær hvoru öðru, skapa góðar minningar, yndislegar gæðastundir og býr þar að auki til ákveðinn fyrirsjáanleika sem sum börn þurfa alveg sérstaklega mikið af.

Rannsókn, sem gerð var á vegum Háskólans í Syracuse yfir 50 ára tímabil, sýnir að fjölskyldur sem halda í góðar og sterkar hefðir eru nánari, bundar traustari fjölskylduböndum, eru þrautseigari þegar upp koma vandamál sem þarf að leysa í sameiningu og ná að halda í bjartsýni og jákvæðni þótt eitthvað bjáti á. Börn í slíkum fjölskyldum upplifa sig elskuð og samþykkt sem manneskjur. Þau læra að þau geta treyst á aðra og fá oft sterkari persónulega sjálfsmynd – vita þá hvað það er sem gerir þau einstök og hvers konar manneskjur þau vilja vera.Þau standa sig einnig betur í námi. Gift pör eða pör í sambúð virðast einnig hamingjusamari og finna fyrir minni streitu í daglegu lífi (Fiese, B. H., Tomcho, T. J., Douglas, M., Josephs, K., Poltrock, S., & Baker, T., 2002).

Mynd: Libby Penner
Að búa til og þróa hefðir

Það er kannski rangt að kalla þetta að búa til hefðir því þær þróast kannski frekar. Við getum ákveðið að á aðventunni eigi alltaf að baka piparkökur en hefðin þróast kannski út í það að piparkökur eru keyptar og skreyttar, frekar en að þær séu bakaðar frá grunni eins og ætlunin var í upphafi. En í upphafi þurfum við samt sem áður að setja okkur markmið um að búa til einhverja hefð, sama hvernig hún svo þróast á endanum. 

Hefðir þurfa ekki að vera flóknar, sumar eru meira að segja framkvæmdar daglega. Sem dæmi er svefnrútínan í rauninni hefð, barninu þykir það sjálfsagt afskaplega notaleg stund þegar mamma eða pabbi syngja eða lesa fyrir það áður en það fer að sofa. Það er einnig hefð ef fjölskyldan borðar alltaf kvöldmat saman við matarborðið og spjallar um daginn. Þetta eru gæðastundir sem gefa okkur tækifæri til að eiga í góðum samskiptum við börnin okkar, styrkja tengslin og veitir þeim öryggi. 

En aftur að því að búa til og þróa hefðir. Ef maður vill vera skipulagður er gott að setjast niður og taka saman hefðir fjölskyldunnar. Hvað er það sem þið gerið saman á aðventunni eða á 17. júní? Ef það er lítið sem ekkert, gætuð þið þá gert eitthvað meira til að gera dagana eftirminnilega? Passið að hafa hefðirnar ekki flóknari eða tímafrekari en þið teljið ykkur ráða við. Hefðirnar þurfa alls ekkert að vera stórar og flóknar. Sem dæmi getur það alveg verið góð og skemmtileg hefð að baka fullt af smákökusortum fyrir jólin EN það er líka hægt að búa til (alveg jafn góða) hefð sem er þannig að foreldrarnir (eða foreldri) og börnin fara saman út í búð eða bakarí á fyrirfram ákveðnum degi og velja hvaða jólasmákökur eigi að kaupa fyrir þessi jól. Þessi hefð getur búið til alveg jafn góðar minningar og þær að baka smákökurnar frá grunni.

Ef fjölskyldan vill, eftir þessa lesningu, fara að búa til og þróa sínar eigin hefðir er hér listi af tilefnum til þess að vera með sérstakar hefðir. Þetta eru dagar sem eru miðaðir við meðal Íslendinginn, aðrar þjóðir eiga auðvitað sína eigin sérstöku daga. Listinn er ekki tæmandi, hvaða dagur sem er getur orðið sérstakur fyrir ykkar fjölskyldu ef þið bara viljið.

Mynd: Vitolda Klein
Yfir árið
Vetur (des-feb)
  • Fullveldisdagurinn
  • Aðventan
  • Þorláksmessa
  • Aðfangadagur
  • Jóladagur
  • Annar í jólum
  • Gamlársdagur
  • Nýjársdagur
  • Þrettándinn
  • Bóndadagur
  •  Þorrablót
  • Sólarkaffi
  • Bolludagur
  • Sprengidagur
  • Öskudagur
  • Valentínusardagur
  • Konudagur
  • Vetrarfrí
Vor (mar-maí)
  • Vorjafndægur
  • Fyrsti apríl
  • Páskar
  • Sumardagurinn fyrsti
  • Verkalýðsdagurinn
  • Mæðradagurinn
  • Uppstigningardagur
  • Hvítasunna
  • Eurovision
Sumar (jún-ágú)
Haust (sep-nóv)
  • Fyrsti skóladagurinn
  • Dagur íslenskrar náttúru
  • Haustjafndægur
  • Fyrsti vetrardagur
  • Hrekkjavaka
  • Haustfrí
  • Dagur íslenskrar tungu
Annað/ódagsett
  • Afmæli
  • Gifting
  • Skírn/nafngjöf
  • Barnsfæðing
  • Ættarmót
  • Fjölskyldumót
  • Ferming/siðfesta
  • Fjölskyldudeit
  • Kósýkvöld
  • Fjölskyldufundir
  • Kvöldmatur
  • Kvöldsaga
  • Daglegar hefðir
  • Vikulegar hefðir
  • Mæðgna/mægðina og feðga/feðgina-deit

Heimilisvefurinn hefur nú þegar tekið fyrir nokkra af þessum dögum og mun gera meira af því þegar að þeim kemur. Hægt er að smella á feitletruðu hátíðirnar til að fá hugmyndir og innblástur að hefðum og öðru skemmtilegu til að gera á þeim dögum.

Gangi ykkur vel!