Spilareglur

Kínaskák

Sjá ítarlegar spilareglur fyrir kínaskák hér.

Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

 

Á myndinni hér til hliðar getur leikmaður sett út laufa sexu.

 
 

Gangur spilsins: Sá sem er á vinstri hönd þess sem gaf byrjar spilið og svo gengur hringurinn réttsælis. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett niður spil af sömu sort eða sem er með sömu tölu og er á efsta spili kastbunkans. Sé t.d. laufa tvistur í borði getur leikmaðurinn sett út annað hvort tvist eða lauf. Sé leikmaður með fleiri en einn tvist getur hann sett þær allar út og þar með breytt um sort. Einnig er hægt að breyta um sort með því að settja niður áttu og segja þá í hvaða sort maður vill breyta. Áttur er hægt að leggja ofan á hvaða spil sem er, hún þarf ekki að vera í sömu sort og spilið í kastbunkanum. Ef leikmaður getur ekki sett neitt spil út má hann draga spil, þó að hámarki þrjú. Ef leikmaður dregur spil sem hann getur notað má hann nota það strax, ef ekki kemur nýtanlegt spil þarf leikmaður að segja pass og næsti leikmaður gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi verður hann að segja „Ólsen“ áður en næsti gerir. Ef það gleymist þarf leikmaðurinn að draga þrjú spil úr spilastokknum sem refsingu. Þótt leikmaður eigi tvö lík spil á hendi (t.d. tvær níur) þarf hann ekki að segja „Ólsen“ fyrr en hann hefur sett fyrra spilið niður og setur svo síðasta spilið sitt í kjölfarið. Þegar síðasta spilið er lagt út segir leikmaðurinn „Ólsen Ólsen“ og sigrar þar með spilið.

Ólsen Ólsen upp og niður

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður, nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við.

Markmið: Að vera fyrstur til að losa sig við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borðið og efsta spili stokksins er snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

 

 

Á myndinni hér til hliðar getur leikmaðurinn sett út annan þristinn.

Gangur spilsins: Í Ólsen Ólsen upp og niður skipta sortirnar engu máli, aðeins tölurnar. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en spilið sem er í kastbunkanum. Ef það er, sem dæmi, tvistur í borði má leikmaður setja annað hvort ás eða þrist út. Í kjölfarið má hann svo setja eins mörg spil út og hann getur, en alltaf þurfa þau að vera annað hvort einu hærra eða lægri en spilið á undan. Geti leikmaður ekki sett út spil má hann draga allt að þrjú spil. Ef hann getur ekki sett út neitt af þeim spilum segir hann pass og næsti gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi segir hann “Ólsen” og þegar síðasta spil af hendi er lagt í borðið segir leikmaðurinn “Ólsen Ólsen upp og niður” og vinnur þar með spilið. Eins og í venjulega spilinu þarf leikmaður að draga þrjú spil sem refsingu ef hann gleymir að segja “Ólsen”.

Ólsen Ólsen með stigum

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi og vera með sem fæst stig í lok spilsins.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum. Skrifblokk og blýantur/penni þarf að vera við höndina.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen með stigum spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema hvað refsistig eru gefin í lok hverrar umferðar. Spilað er upp í ákveðna tölu (t.d. 500) eða ákveðið margar umferðir spilaðar (t.d. 10). Sá vinnur sem er með fæst stig.

Á myndinni má sjá að leikmaðurinn endaði með tvo þrista, drottningu, sexu og sjöu. Ef leikmaður endar með þessi spil á hendi myndi hann fá 30 stig.

 

Stigagjöf: Þegar einn leikmaðurinn hefur unnið umferð þurfa aðrir leikmenn, sem enn eru með spil á hendi, að reikna út hvað þeir fengu mörg (refsi)stig. 

Ás-7 og 9 gilda sem 5 stig10 og mannspil gilda sem 10 stig og 8 gildir sem 25 stig

Hafi leikmaður t.d. níu, gosa og áttu á hendi við lok umferðar (þegar annar leikmaður hefur unnið) fær sá leikmaður 40 stig. Ef einhver leikmaður endar í t.d. 500 stigum eða meiru er spilinu lokið og sá sem er með lægstu stigin vinnur. Einnig er hægt að ákveða hversu margar umferðir verða spilaðar og þá vinnur sá leikmaður sem fæst stig hefur við lok t.d. tíundu umferðar.

Ólsen Ólsen klikk

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen klikk spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema að við reglurnar bætist að ef leikmaður setur út tvist þarf næsti leikmaður að draga tvö spil, ef ás er settur út snýst hringurinn við og ef drottning er látin út missir næsti leikmaður úr eina umferð. Áttur geta, eins og áður, breytt sortinni.

 

Á myndinni hér til hliðar þarf næsti leikmaður að draga tvö spil.

Langi Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Spilið gengur alveg eins fyrir sig og venjulegur Ólsen Ólsen nema hvað að þegar annar leikmaðurinn leggur út síðasta spilið og segir “Ólsen Ólsen” líkt og venjulega þarf hann að draga fimm spil og halda áfram með spilið en í þetta sinn eru sjöur orðnar að spilinu sem má breyta um sort. Ef sá leikmaður vinnur spilið svo aftur verða sexur að spilinu sem getur breytt um sort og svo koll af kolli þar til annar leikmaðurinn vinnur spilið þegar hann er kominn niður í ásana.

Svindl Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Þessi útgáfa af Ólsen Ólsen er ólík upprunalega spilinu því í því má reyna að svindla. Leikmaður getur reynt að fela spil án þess að aðrir leikmenn taki eftir eða leggja t.d. tvö niður í einu. Ef annar leikmaður tekur eftir svindlinu lætur hann vita og sá sem svindlaði dregur þrjú spil sem refsingu. Ef leikmaður ásakar annan leikmann ranglega um svindl, þarf sá sem ásakaði að draga sjálfur þrjú spil.