Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn

Senn líður að því að skólarnir fari að byrja aftur, leikskólarnir eru þó reyndar flestir byrjaðir aftur. Mörg börn bíða spennt eftir að byrja í skólanum, kannski mest þau sem eru að byrja í 1. bekk, en þessi eldri mörg hver líka. Það er gaman að hitta alla vinina aftur og eignast kannski nýja. Önnur eru ekki eins spennt og margar ástæður geta legið þar að baki. En hvort sem barnið þitt er spennt eða ekki eru hér nokkrar hefðir (því hefðir eru jú svo mikilvægar LINKUR) sem tengjast skólabyrjun. Hefðirnar gætu einnig hjálpað sumum af ofurspenntu að stytta biðina eða kvíðnu börnunum við að byrja í skóla. Ef ykkur langar til að taka upp einhverjar af þessum hefðum er það bara frábært, en það er engin pressa – þið gerið bara það sem er best fyrir fjölskylduna ykkar. 

Áður en skólinn byrjar

 

Niðurtalning að skólabyrjun

Hægt er að byrja mánuði fyrir skólasetningu eða t.d. tíu dögum fyrr. Hægt er að krossa yfir daga á dagatali eða búa til eins konar tíu daga “jóladagatal” með smá gjöfum sem er gott að eiga þegar skólinn byrjar, t.d. blýantar, litir og strokleður. 

 

Skólaföt

Það er hefð hjá mörgum að kaupa sérstök föt fyrir skólann. Þetta eru auðvitað bara venjuleg hversdagsföt en þau eru keypt sérstaklega svo börnin séu í nýjum og fínum fötum fyrsta skóladaginn.

 

Skólaálfurinn Skólína

Skólaálfurinn Skólína getur hjálpað kvíðnum börnum við að byrja í skólanum en hún líka einfaldlega skemmtileg hefð fyrir alla. Skólína sendir börnunum bréf við skólabyrjun og oft fylgir lítil gjöf með sem tengist skólanum eða föndri. Skólína sendir smá töfraduft með í umslaginu, það mætti líka vera töfradrykkur í flösku. Ef barnið notar duftið eða drekkur töfradrykkinn getur Skólína komið með í skólann til að passa upp á barnið. Þetta útskýrir hún sjálf í bréfinu. Hún útskýrir líka að þetta sé algjört leyndarmál sem má ekki segja neinum nema foreldrum því annars hætta töfrarnir að virka. Skólína er ósýnileg en hún er alltaf til staðar í skólabyrjun. Börn geta líka skrifað Skólínu og beðið hana um að koma og hjálpa sér með að byrja aftur í skólanum næsta ár. Skólína svarar þá alltaf með bréfi og minnir á hvað það var gaman í skólanum árið áður. Góð regla er að bréfin frá Skólínu komi tveimur dögum fyrir skólasetningu. Þessa hugmynd getur hver fjölskylda þróað áfram sjálf.

 

Viðtal

Áður en skólinn byrjar er gaman að taka viðtal við börnin og spyrja þau út í væntingar sínar og markmið fyrir árið eða annað sem ykkur dettur í hug. Þetta er þá skrifað niður og geymt í möppu eða á öðrum góðum stað.

 

Skólaskemmtun

Nei, ekki skemmtun á vegum skólans heldur lítið partý heima áður en skólinn byrjar til að fagna nýju skólaári. Hægt er að fara í leiki og dansa. 

 

Lesa sögur um skólann

Á hverju kvöldi áður en skólinn byrjar aftur er hægt að lesa skólatengdar sögur fyrir svefninn. Alls konar bækur má finna á bókasöfnum landsins um skólann t.d. Asnaskólann, Skóladraugurinn, Skólaráðráðgátuna, Langelstur í bekknum og bækur úr bókaflokknum Bekkurinn minn.

 

Kaupa skólavörur saman

Í dag eru reyndar margir skólar farnir að bjóða upp á flest skriffæri og stílabækur ókeypis í skólanum en þrátt fyrir það þarf stundum að kaupa nýja skólatösku, pennaveski, nestisbox, brúsa og sundpoka sem dæmi. Það getur verið skemmtileg hefð að kaupa það sem vantar saman. Stundum er líka hægt að kaupa einhverja skemmtilega liti eða penna fyrir skólann, sem þau myndu annars ekki fá þar.

 

Skólaföndur

Fyrir föndrarana og krakkana sem elska að dunda sér er fullkomin hefð að föndra eitthvað skólatengt áður en skólinn byrjar. Hægt er að finna gríðarlega margar hugmyndir á pinterest.

Fyrsta skóladaginn

 

Skólabolur

Fyrsta skóladaginn væri það skemmtileg hefð að skreyta bol og skrifa á hann t.d. “Fyrsti skóladagurinn 2023”. Í myndatökunni er barnið svo í bolnum. Þegar barnið útskrifast svo úr grunnskóla á það vonandi alla bolina ennþá. 

Önnur hugmynd að skólabol væri að kaupa bara einn bol í fullorðins stærð og bæta við handarfari barnsins fyrsta dag hvers skólaárs, út alla skólagönguna. 

 

Morgunverður

Önnur skemmtileg hefð fyrir fyrsta skóladaginn er að búa til flottan morgunverð. Eitthvað sem er kannski í uppáhaldi hjá krökkunum, t.d. pönnukökur, egg og beikon. Skólasetningar eru yfirleitt í kringum 9 eða 10 og því ætti að vera tími í flottari morgunverð þennan morguninn.

 

Mynd

Sennilega er þetta auðveldasta og augljósasta hefðin en líka ein sú skemmtilegasta, að taka mynd af barninu með skólatöskuna, tilbúið til að fara í skólann. Í framtíðinni verður svo gaman að skoða allar myndirnar saman. 

 

Myndband

Það gæti líka verið gaman að taka smá myndband af barninu fyrsta skóladaginn. Spyrja það kannski aðeins út í skólann og hvernig því líður. Seinna verður þá hægt að klippa saman öll myndböndin og búa til eitt lengra. 

 

Snarl eftir skóla

Fyrir B-týpurnar þarna úti sem ekki gátu bakað pönnukökur um morguninn er hér kannski betri hefð fyrir ykkur. Að fara með krakkana í bakarí eftir skólasetningu og fá ykkur eitthvað gott að  borða saman. 

Aðrar skólatengdar hefðir

 

Skólaminningabók

Hægt er að búa til skólaminningabók eða möppu og í hana er hægt að safna myndum frá skólanum, sögum, listaverkum, handarförum og fleiru. Hægt er að skrifa niður það helsta sem barninu finnst skemmtilegt í skólanum, hverjir vinir þess séu og fleira í þeim dúr.

 

Tímahylki

Ekki að þetta þurfi að vera eitthvað hylki. Þetta getur líka bara verið kassi eða box sem þið geymið allar skólaminningarnar í, myndir og bestu verkefnin. Gaman er að skoða tímahylkið árlega.

 

Vonandi nýtast þessar hugmyndir ykkur við að búa til ykkar eigin hefðir í skólabyrjun!

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *