Einfaldir og fljótlegir hrekkjavökubúningar

Það styttist í Hrekkjavökuna. Sum okkar eru farin að halda upp á þennan dag, oft fyrir börnin en mörgum þykir gaman að fara alla leið með skreytingar og búninga. Í kringum þennan árstíma getur maður þurft að mæta í búningi eitthvert, t.d. í búningapartý eða jafnvel í vinnuna. Fólk hefur mismikinn áhuga og tíma til að finna sér búning. Enn aðrir eru ekki tilbúnir til að kaupa búning eða hafa ekki efni á slíku. Hér er því listi af búningnum sem eru einfaldir og þarfnast ekki mjög mikillar fyrirhafnar, en eru fyrst og fremst ekki keyptir nýir (þeir eru alltaf svo lélegir). Búningarnir ganga líka allir fyrir öskudaginn og eru ekkert endilega allir neitt hræðilegir eða hrekkjavökulegir. Ef maður vill hafa búningana hrekkjavökulegri er einfaldlega hægt að bæta við gerviblóði eða marblettum (með augnskugga) við búningana.

Mynd: Simom Caban
Draugur

Einfaldur og sígildur búningur. Hvítt lak og skæri er allt sem þarf!

Mynd: Alicia Steels
Túristi

Þetta er annar mjög einfaldur búningur sem er mjög líklega til í fataskápnum hjá þér. Það sem þarf er t.d. stuttbuxur,  stuttermabolur eða hawaískyrta, sandalar (og sokkar), sólgleraugu, sólhattur eða derhúfa,  selfiestöng/myndavél, ferðabæklingar, bakpoki o.fl. í þeim dúr. Eitthvað sem (hallærislegur) túristi í sólarlandaferð myndi klæðast eða hafa með sér. Til þess að gera búninginn extra flottann er gott að setja vel af sólarpúðri og kinnalit í andlitið til að virðast útitekinn og hálfbrunninn í framan.

Mynd: Sam Moghadam Khamseh
Rokkstjarna

Annar búningur sem hægt er að búa til úr því sem er til í fataskápnum nú þegar (eða auðveldlega hægt að fá lánað). Það sem þarf er t.d. svört eða dökk föt, leðurjakki eða gallajakki, úfið hár, dökkur augnfarði og hugsanlega svart naglalakk, gervitattú og svartur varalitur. Til að gera búninginn enn betri væri hægt að hafa hljóðnema eða gítar með. Hægt er að búa til einfaldan hljóðnema með því að setja álpappír utan um písk.

Amma/afi

Það er mjög auðvelt að þykjast vera gamalt fólk. Best væri ef hægt væri að spreyja hárið grátt/hvítt en það er þó ekki nauðsynlegt. Ömmur geta klætt sig í (ýkt) ömmuleg föt, t.d. kjól og svuntu, verið með staf, gleraugu og sjal. Þær geta einnig haft með sér kökukrús með smákökum til að bjóða upp á. Við erum að vinna með stereotýpur hérna. Afar þurfa staf, axlarbönd, gleraugu og prjónavesti. 

Hippi

Nú þegar útvíðar buxur eru komnar aftur í tísku er mjög auðvelt að klæða sig sem hippa. Það sem þarf eru útvíðar buxur, stuttermabolur með orðinu „peace“ eða peace-merkinu eða annar hippalegur efri partur, slegið og helst sítt hár, hárband og mögulega hálsmen með peace-merkinu. Svo væri hægt að mála blóm á aðra kinnina og passa að mynda peace-merki með puttunum allan daginn.

Barbie, Ken og Elle Woods

Barbiemyndin var vinsæl í sumar og mörg klæddu sig upp eins og Barbie fyrir bíósýningar og það er vel hægt að endurnýta þann búning á Hrekkjavökunni. Bleikur klæðnaður og farði. Það er ekki flóknara en það. Einnig er hægt að segjast vera Elle Woods úr Legally Blonde en þá mætti bæta við hundabangsa.

Strákar, þið getið auðvitað verið Ken. 

Kokkur

Til að búa til kokkabúning þyrfti hvít eða svört föt og svuntu og svo væri hægt að vera annað hvort með kokkahatt eða einfaldlega hárnet. Hægt er svo að halda á píski eða sleif. Það þarf ekki að vera flóknara en það.

Mary Poppins

Annar búningur sem gæti verið til í fataskápnum er Mary Poppins. Það sem þarf er dökkt millisítt pils, dökkur blazer, hvít skyrta, rauð slaufa/borði eða trefill, svartur skór, hattur og hægt er að föndra blóm á hann, regnhlíf og síðast en ekki síst góð taska. 

 

Supercalifragilisticexpialidocious!

Mótmælandi

Mótmælandi getur nokkurn veginn klæðst hverju sem er. Gallabuxur og bolur henta t.d. mjög vel. Síðan þarf bara að útbúa spjald með mótmælaorðum. 

Klikkuð kattakona eða karl (Crazy cat lady)

Ef þú átt til kattabanga, helst nokkra, er ekkert mál að skella í svona búning. Þú þarft, auk bangsanna, skrýtinn klæðnað eða slopp. Klæðnaðurinn getur verið alls konar.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *