Afmæli Herdísar Egilsdóttur

Þann 18. Júlí næstkomandi verður einn af okkar ástsælustu barnabókahöfundum 89 ára gömul. Það er hún Herdís Egilsdóttir sem fæddist á þeim degi árið 1934 á Húsavík. Hún gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi og fór síðan í Kennaraskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi árið 1953 og fór svo að kenna í Ísaksskóla í Reykjavík. Hún kenndi þar til ársins 1998 og hafði þá kennt um 1500 börnum. Herdís var merkilegur kennari og þróaði kennsluaðferðir eins og Landnámsaðferðina. 

Herdís er einnig afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað fjöldan allan af bókum, leikritum, sjónvarpsefni og námsefni fyrir börn. Meðal bóka sem Herdís skrifaði eru bækurnar um Siggu og skessuna, sem urðu ansi margar og vinsælar, og bækurnar um Pappírs-Pésa, sem einnig urðu nokkuð margar.

Bækurnar um Siggu og skessuna og Pappírs-Pésa eru auðlesnar bækur fyrir krakka í yngri kantinum. Þær eru tilvaldar í sumarlesturinn fyrir krakka sem eru búin að læra að lesa og vantar bækur til að lesa þetta sumar til að halda við lestrarfærninni. Bækurnar hennar Herdísar eru til á bókasöfnum víða um land.

 

Við hér á Heimilisvefnum skorum á alla krakka að prófa að lesa allavega eina bók eftir Herdísi Egilsdóttur í tilefni dagsins. 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *