Afmæli Tove Jansson - Múmíndagurinn
Þann 9. ágúst næstkomandi er afmælisdagur Tove Jansson, höfundar Múmínálfanna. Tove fæddist árið 1914 í Helsinki í Finnlandi en var af finnlandssænskum ættum. Foreldrar hennar voru bæði listafólk, faðir hennar, Viktor, var myndhöggvari og móðir hennar, Signe, var grafískur hönnuður og myndskreytir. Tove átti tvo bræður, Per og Lars. Þeir fundu einnig köllun sína í listaheiminum, en Per varð ljósmyndari og Lars rithöfundur og teiknimyndasöguhöfundur. Tove skrifaði og skreytti sína fyrstu bók aðeins 14 ára gömul og var farin að selja teikningar í tímarit á svipuðum tíma.
Tove Jansson er fyrst og fremst þekkt fyrir að hafa skrifað sögurnar um Múmínálfana og þær verur þekkja sennilega flest. Fyrsta bókin um Múmínálfana kom út árið 1945 og kjölfarið fylgdu átta bækur til viðbótar um þá. Múmínálfarnir lenda í hinum ýmsu ævintýrum og persónur bókanna fjölbreyttar og skemmtilegar, þótt fyrst og fremst séu Múmínsnáðinn og Múmínmamma aðalpersónur bókanna.
Tove Jansson hitti lífsförunaut sinn, Tuulikki Pietilä eða Tooti, eins og hún var kölluð, árið 1956. Þær bjuggu í sitt hvorri íbúðinni í Helsinki en innangengt var á milli því samkynhneigð varð ekki lögleg fyrr en á 8. áratugnum í Finnlandi. Tove dó úr krabbameini þann 27. Júní 2001, 86 ára að aldri.
Til að halda upp á afmælisdag Tove Jansson og múmíndaginn er hægt að:
- Lesa múmínálfana og kynnast lífinu í Múmíndal.
- Halda múmínboð að hætti Múmínmömmu með því að;
- skreyta
- bjóða upp á pönnukökur með sultu
- dansa
- halda ræðu
- drekka saft úr múmínbollum
Það er auðvitað skemmtilegast ef þetta er gert í garðinum, en hver gerir það sem hentar. Hér er svo uppskrift að finnskum pönnukökum sem eru bakaðar í ofni.
Finnskar pönnukökur í ofni (Pannukakku)
150 g hveiti
1 tsk lyftiduft
2 msk sykur
Smá salt
4 egg
600 ml mjólk
25 g smjör, bráðið
- Setjið hveiti, lyftiduft, sykur og salt í stóra skál og hrærið saman.
- Bætið eggjunum út í skálina og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Á þessum tímapunkti er deigið mjög þykkt. Bætið mjólkinni við smátt og smátt, hærið á milli, þar til allt hefur blandast vel saman og deigið er kekkjalaust.
- Leyfið deiginu að standa í a.m.k. ½ klst. Það þykknar aðeins á þeim tíma.
- Um það bil 10 mínútum áður en pönnukökurnar fara í ofninn er hann hitaður í 180°C.
- Smyrjið eldfast mót með bráðna smjöinu og hellið deiginu í. Bakið í um 30 mínútur. Pönnukakan ætti að hafa risið vel og vera orðin gullinbrún að lit.
- Berið fram með flórsykri, sultu og rjóma.