Bestu jólamyndirnar
Eitt af því sem við tengjum flest við jólin eru jólamyndirnar. Flest eigum við okkar uppáhalds jólamynd sem er ómissandi hluti af jólahátíðinni. Sum verða að horfa á allar Harry Potter-myndirnar yfir jólin, önnur mega ekki sleppa því að horfa á Christmas Vacation fyrir jól og enn önnur myndu segja að það kæmu engin jól án þess að horfa á Home Alone. En sama hver við teljum að sé besta jólamynd allra tíma er vel hægt að bæta við nokkrum nýjum í safnið. Í gegnum árin hafa verið gefnar út ótal margar jólamyndir og margar þeirra eru… vægast sagt hræðilegar, en inn á milli leynast gullmolar. Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkrar af ástsælustu jólamyndum allra tíma (sumar falla þó inn í „elska að hata“-flokkinn) og þær sem fá ágætis einkunnir á IMDB. Allar myndirnar á listanum eru með yfir 5,5 í einkunn á síðunni. Listinn er settur upp sem áskorun um að horfa á allar myndirnar og gefa þeim einkunn. Alls eru 60 bíómyndir á listanum (og því er um að gera að byrja sem fyrst til að ná að klára fyrir áramót.) Bíómyndirnar eru fjölbreyttar, allt frá væmnum rómantískum gamanmyndum og barnamyndum yfir í hrollvekjur og mynd um fyrri heimstyrjöldina.