Senn líður að fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision, sem fer fram þann 9. maí . Ísland keppir reyndar á seinna undanúrslitakvöldinu þetta árið en það þýðir ekki að það megi ekki hafa gaman og horfa á fyrra kvöldið líka. En á fyrra kvöldinu eru tvö sigurstranglegustu lög keppninnar að keppa – Svíþjóð og Finnland. Þar að auki eru Noregur og Ísrael líka talin enda í top 10.
Að horfa á Eurovision saman með allri fjölskyldunni er góð samvera. Hægt er að gera daginn og dagana í Eurovision-vikunni nokkuð hátíðlega. Fyrir sumar fjölskyldur gæti verið gaman að föndra skreytingar saman til að hengja upp. Skreytingarnar geta verið alls kyns fánar og veifur – bæði íslenski fáninn og fánar þeirra þjóða sem maður heldur með.
Á sjálfum deginum getur verið gaman að bjóða upp á veitingar frá löndunum eða einhverju landinu sem er að keppa það kvöld. Það þarf ekki að vera að flókið að finna veitingar, margt er hægt að kaupa tilbúið úti í búð. Við vitum að það er ekki mikill tími fyrir venjulegar fjölskyldur að búa til einhverjar glæsilegar kræsingar á mánudegi eða þriðjudegi fyrir Eurovisionkvöld sem við keppum ekki einu sinni á.
Hér er því Eurovisionveisla fyrir þau sem hafa engan tíma til að dúllast í eldhúsinu:
- Noregur: Upphituð Grandiosa-pizza (a.m.k. til í Nettó og á Heimkaup). Tilbúinn graflax sem fæst í hvaða búð sem er, hægt að bera hann fram á korni-hrökkbrauði en kavíar væri líka við hæfi. Maarud-snakk er líka frá Noregi.
- Balkanskaginn: Ajvar-sósa og burek fæst tilbúið í miðausturlenskum verslunum (t.d. Istanbul market). Gott væri að kaupa flatbrauð til að dýfa í ajvar-sósuna.
- Portúgal: Pastel de nata fékkst einhvern tímann tilbúið í frysti í Costco.
- Írland: Bailey’s er frá Írlandi. Þetta er auðvitað ekki við hæfi ef börn eru í partýinu en það er til sælgæti sem er búið til úr Bailey’s líka, sem fullorðna fólkið gæti gætt sér á yfir Eurovision.
- Sviss: Það er gríðarlega margt hægt að bjóða frá Sviss. Í fyrsta lagi er hægt að bjóða upp á svissneska osta eins og Gruyère og Emmentaler. Sviss er einnig frægt fyrir að hafa fundið upp á múslí og því væri hægt að bjóða upp á granolastykki. Toblerone er svissnesk súkkulaði sem á að líkjast, Matterhorn, frægasta fjalli Sviss. Milka-súkkulaði er líka upphaflega svissneskt og sömuleiðis Nesquick.
- Ísrael: Auðvelt! Hummus og falafel, bæði fæst tilbúið í næstu verslun.
- Svíþjóð: Við bendum á sænska matarhornið í IKEA til að finna tilbúinn mat frá Svíþjóð. En í flestum verslunum er hægt að finna tilbúnar sænskar kjötbollur, kladdköku, bilar, marabou-súkkulaði, daim, kanilsnúða, gifflar-snúða, polarbrauð, Fun djús, hrökkbrauð og graflax.
- Holland: Hollenskir ostar eins og gouda, edam, Old Amsterdam og Prima Donna-ostur. Tony’s súkkulaði, sem fæst í mörgum búðum, er hollenskt. Svo er mögulega hægt að fá stroopwafel í einhverri búðinni.
- Finnland: Dumle-karamellur, skólakrít og tyrkisk pepper eru frá Finnlandi. Panda-lakkrís, sem er vegan, er líka þaðan.
Til að gera áhorfið enn meira spennandi og skemmtilegt er hægt að prenta út þetta stigablað hér fyrir neðan. Á blaðinu er hægt að gefa hverju atriði fyrir sig stig fyrir flutning, lag og atriði. Stigin geta verið í Eurovision-stíl, frá 1-8, 10 eða 12 stig eða eins og hver vill. Með þessu er hugsanlega hægt að spá fyrir um hvaða lönd komast áfram. Það er einnig hægt að leggja saman stig allra áhorfendanna í stofunni og sjá hvort að það sé betri spá.