Hugmyndir fyrir 17. júní
Hæ, hó, jibbí jei! Það er að koma 17. júní! Hvað ætlar þú að gera til að fagna þjóðhátíðardeginum í ár? Sum ætla sjálfsagt að kíkja á skipulagða dagskrá og hugsanlega fá sér köku í tilefni dagsins. Önnur gera ekkert sérstakt á þessum degi. Íslendingar gætu og mættu alveg gera meira úr þessum degi en gert er núna. Hinum megin við hafið halda Norðmenn rækilega upp á sinn dag, 17. maí, með skrúðgöngum og skála í mímósum yfir morgunmatnum.
Við hjá Heimilisvefnum værum til í að sjá Íslendinga halda betur og meira upp á þennan dag, bæði fyrir okkur fullorðnu og fyrir krakkana. Munum að það er í okkar höndum að búa til hefðir og skapa minningar fyrir næstu kynslóð. Ef við búum til okkar eigin góðu 17. júní-hefðir munu börnin vilja halda áfram með þær þegar þau vaxa úr grasi fyrir sín eigin börn. Og það er sko ýmislegt skemmtilegt hægt að gera í tilefni þessa merkilega dags.
Hér eru nokkrar hugmyndir að skemmtilegum hlutum til að gera á 17. júní – að mörgu leyti er 17. maí Norðmanna innblásturinn að hugmyndunum.
Skreytingar
Áður en dagurinn rennur upp er hægt að fara að byrja að skreyta heima hjá sér. Skreytingarnar þurfa ekki að vera flóknar og best er ef hægt er að nota þær ár eftir ár. Hægt er að kaupa íslenska fána af öllum stærðum og gerðum, servíettur, blöðrur, fánalengjur eða veifur o.fl. í búðum sem sérhæfa sig í partýskrauti. En fjölskyldan getur líka átt góða stund við að föndra skraut sjálf. Svo er fallegt að kaupa blómvönd í tilefni dagsins. Ef þið eigið fánastöng er auðvitað alveg nauðsynlegt að flagga.
Um gasblöðrur og fleira
Þetta tengist svolítið skreytingunum hér að ofan. Á 17. júní er auðvitað alveg klassískt að börnin fái gasblöðrur. Þetta er eitthvað sem mætti þó hreinlega sleppa. Því bæði búum við til óþarfa plastrusl og erum að sóa dýrmætri helíumauðlindinni. Stjörnu-Sævar útskýrði þetta vel og rökstuddi í Facebook-færslu fyrir 17. júní árið 2020. Í stað gasblaðra er miklu betra að kaupa sér íslenskan fána til að veifa og hann er hægt að nota ár eftir ár. Fáni, candyfloss, pylsa og hoppukastali – þurfa börnin eitthvað meira en það?
Skipulög dagskrá og skrúðganga
Ef einhver skipulögð dagskrá eða skrúðganga er í þínu bæjarfélagi er auðvitað einfalt að kíkja á það. Skemmtunin er oft miðuð að börnum á leikskólaaldri svo þetta er kannski ekki spennandi fyrir alla aldurshópa en stundum er eitthvað eins og andlitsmálning og hoppukastalar í boði líka. Ræðuhöldin höfða sennilega til fárra af yngri kynslóðinni (og líka þeirrar eldri reynar). Munið eftir fánum til að veifa!
Klæðnaður
Sama hvað þú kýst að gera á þessum degi er samt mjög einfalt að fara að minnsta kosti í fín föt. Þetta er einn af þessum dögum þar sem hægt er að dusta rykið af gamla þjóðbúningnum hennar ömmu og nota hann. Við hin, sem eigum ekki þjóðbúning, getum bara farið í venjuleg fín föt.
En talandi um klæðnað, að þá er gott að vera við öllu búin hvað veður varðar. Við búum jú á Íslandi og hér er allra veðra von, líka í júní.
Matur og fjölskylda
Það sem Norðmenn gera svo vel á þessum degi er að hitta vini og ættingja, oftast í morgunmat, bröns, kaffiboð eða grill um kvöldið. Þetta er vel hægt að gera hér. Bjóða vinum og/eða fjölskyldunni í morgunmat eða bröns og borða góðan hátíðarmat saman og skála í mímósum, freyðivíni – ja, eða bara eplasíder. Skipulögð dagskrá er oft á milli 11 og 15 á daginn svo ef maður vill halda áfram með að bjóða fólki heim eða fara í boð er hægt að vera með kaffiboð seinni partinn eða grillveislu um kvöldið. Hver hefur það eins og hann vill. Nokkrar hugmyndir að þjóðlegum bröns eða kaffiboði væri að hafa:
- Íslenskar pönnukökur, lummur eða vöfflur
- Hjónabandssæla
- Flatkökur með hangikjöti
- Rúgbrauð með smjöri
- Brauðterta og/eða heitur brauðréttur
- Rjómaterta (að sjálfsögðu skreytt með jarðarberjum og bláberjum)
- Kleinur
En auðvitað er hægt að hafa hvað sem er.
Leikir í garðinum
Tengt því að hitta fjölskylduna og vinina í mat þá er hægt að vera með leiki fyrir krakkana í garðinum. Sérstaklega á þetta vel við ef það er engin skipulögð dagskrá í bæjarfélaginu. Það er til dæmis hægt að fara í pokahlaup, stófiskaleik, fótbolta, pílu, badminton eða blása sápukúlur eða búa til einhverja þrautabraut eða þrautir fyrir þau. Önnur hugmyndi væri að hafa skrúðgöngu í kringum húsið eða dansa konga. Hvetjum fullorðna fólkið eindregið til að vera með í fíflalátunum.
Ef maður á ekki garð er vel hægt að fara í einhvern almenningsgarð eða grasflöt í nágrenninu.
Sjónvarpið
Rétt eins og mörgum finnst ómissandi að hafa kveikt á messunni yfir jólamatnum á aðfangadagskvöld til að skapa réttu stemninguna er hægt að hafa kveikt á sjónvarpinu yfir daginn. Það þarf ekkert endilega að horfa með heilum hug á hátíðardagskránna við Austurvöll en það er pínu hátíðleiki í því að hafa kveikt á þessu í bakgrunni. Á RÚV er þó nokkur hátíðardagskrá þennan dag. Um kvöldið getur svo fjölskyldan sest saman eftir daginn og horft á stórmyndina Með allt á hreinu (árið 2023 allavega).
Aðrar hugmyndir
Það er margt annað hægt að gera á 17. júní en bara þetta. Það er líka hægt að fara í sund og fá sér ís á eftir. Það er mjög íslenskt. Eins er hægt að fara í fjallgöngu og kannski taka með sér sparinesti og borða á toppnum. Eða sleppa fjallinu og fara í göngutúr og stoppa á einhverjum fallegum og góðum stað til að borða nesti. Nestið getur alveg verið frekar hátíðlegt, t.d. pönnukökur, kleinur, hjónabandssæla og flatkökur. Það er líka hægt að gera þetta að hjólatúr. Ef veðrið er ekki gott, eins og gerist nú nokkuð oft á 17. júní á Íslandi er hægt að fara í bíltúr eitthvert og fá sér svo kannski ís líka. Allt er þetta mjög íslenskt og skemmtilegt. En fyrst og fremst snýst þetta um að gera eitthvað með fjölskyldunni og okkar nánustu. Flest börn óska sér einskis heitar en að fá að vera meira með foreldrum og fjölskyldu.
Að lokum eru hér litamyndir með 17. júní-þema. Ein myndin er af íslenska fánanum og hana er hægt að nota til að skreyta.
Góða skemmtun og til hamingju Ísland!