Hvað er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum?
Það er ansi margt hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum. Sennilega er hægt að fyllar margar vikur af afþreyingu innan Höfuðborgarsvæðisins án þess að gera það sama tvisvar. Sama hvort þið búið í borginni eða eruð í heimsókn í nokkra daga þá er þetta góður listi fyrir ykkur. Listinn inniheldur mjög fjölbreyttar hugmyndir að afþreyingu sem hentar börnum og unglingum og fjölskyldum þeirra. Sumt hentar yngri börnum, annað eldri, en allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Á listanum eru ekki neinir hlutir sem þarf að skrá sig á, eins og námskeið fyrir börn, en sumt gæti þurft að bóka með örlitlum fyrirvara. Eins eru þetta ekki hlutir sem hægt er að gera hvar sem er, eins og að baka með krökkunum eða byggja virki, heldur hlutir sem er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu sérstaklega (eða nánar tiltekið, innan sveitarfélagsmarka Hafnarfjarðar, Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness).
Listinn verður uppfærður eftir því sem úrvalið breytist og þegar við komumst að einhverju nýju. Nú eru 126 hugmyndir komnar inn:
Það sem hægt er að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum:
Árbæjarsafn hentar börnum á öllum aldri. Þar eru dýr, leikföng, útigrill og búð, auk fjölda húsa og muna til að skoða.
Ástjörn er fallegt vatn í Hafnarfirði og er göngustígur þar í kring. Þar er mikið fuglalíf en athugið að það er ekki leyfilegt að fara að vatninu á varptíma fugla (1. maí – 15. júlí).
Bíó
Nokkur kvikmyndahús eru staðsett á Höfuðborgarsvæðinu og sýna flest þeirra barnamyndir.
Bíó Paradís – Laugarásbíó – Sambíóin Egilshöll – Sambíóin Kringlunni – Sambíóin Álfabakka – Smárabíó
Bogfimi
Bogfimisetrið býður upp á bogfimi fyrir alla fjölskylduna. Börn verða að vera í fylgd með fullorðnum. Gott er að panta tíma fyrir fram en það er ekki nauðsynlegt.
Bókasafn
Fjölmörg bókasöfn eru á Höfuðborgarsvæðinu og mörg þeirra eru með sérstök barnahorn. Bókasöfnin eru þessi:
– Álfanessafn við Eyvindarstaðaveg
– Borgarbókasafnið Árbæ, Hraunbæ 119
– Borgarbókasafnið Gerðubergi, Gerðubergi 3-5
– Borgarbókasafnið Grófinni, Tryggvagötu 15
– Borgarbókasafnið Klébergi, Kollagrun 2-6
– Borgarbókasafnið Kringlunni, Listabraut 3
– Borgarbókasafnið Sólheimum, Sólheimum 23a
– Borgarbókasafnið Spönginni, Sönginni 41
– Borgarbókasafnið Úlfarsárdal, Úlfarsbraut 122-124
– Bókasafn Kópavogs, Hamraborg
– Bókasafn Kópavogs, Núpalind 7
– Bókasafn Garðabæjar v/ Garðatorg 7
– Bókasafn Hafnarfjarðar, Strandgötu 1
Byggðasafn Hafnarfjarðar er á nokkrum stöðum í gamla hluta Hafnarfjarðar. Þar er hægt að skoða sýningar á gömlum munum og byggingar.
Dótabúð
Að fara í dótabúð til að skoða dótið sem þar er til sölu getur verið góð skemmtun fyrir sum börn. Önnur ráða ekki við það að skoða bara og vilja kaupa eitthvað.
Elliðaárdalur er stórt og flott útivistarsvæði á miðju Höfuðborgarsvæðinu. Þar er hægt að ganga eða hjóla um, skoða kanínur, leika í leiktækjum, busla, klifra og margt fleira.
Hægt er að fara í fallega göngu í kringum Elliðavatn. Gangan í kringum vatnið er auðveld.
Fjallganga
Á og við Höfuðborgarsvæðið má finna fjölmörg fjöll sem skemmtilegt er að ganga á fyrir krakka. Þetta eru t.d.
– Ásfjall
– Búrfell og Búrfellsgjá í Hafnarfirði
– Esjan
– Hafrafjall og Reykjafell við Hafravatn
– Mosfell
– Reykjafell
– Úlfarsfell
– Æsustaðafjall
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þarf vart að kynna fyrir fólki. Þar er hægt að skoða íslensku dýrin, fara í leiktæki og sulla. Í garðinum er veitingasalur en einnig er fín aðstaða til að borða nesti og jafnvel grilla á útigrilli.
Fjöruferð
Á Höfuðborgarsvæðinu eru nokkrar skemmtilegar fjörur til að fara í fjöruferð. Þær eru t.d. þessar:
– Álftanes
– Geldinganes
– Grafarvogur
– Grótta
– Herjólfsgata í Hafnarfirði, samsíða götunni
– Kársnesströnd
– Neðan við Staði í Grafarvogi
Í Fly Over Iceland er hægt að fara í flott sýndarútsýnisflug yfir Ísland með ýmsum tæknibrellum. Skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna, en börnin verða þó að vera orðin 100 cm.
Foreldramorgnar
Víðsvegar um Höfuðborgarsvæðið er hægt að fara á foreldramorgna hjá kirkjum og bókasöfnum fyrir foreldra með börn undir 2 ára.
Innst í Fossvogsdal eru svokallaðir Fossvogsbakkar. Þeir eru friðaðir en þar er hægt að sjá sjávarsetlög frá lok ísaldar og þar er hægt að finna ýmsa steingervinga, aðallega skeljar lindýra. Þó ekki megi taka steingervinga með sér eða spilla neinu gæti verið gaman að reyna að sjá hvort maður geti komið auga á einhverja.
Fossvogsdalur
Fossvogsdalur er mjög fallegur dalur og útivistarsvæði á miðju Höfuðborgarsvæðinu. Þar eru leikvellir og ýmislegt fleira skemmtilegt. Hægt er að ganga um eða hjóla.
Fótboltaland er fótboltaskemmtigarður með alls kyns afþreyingu fyrir börn og fullorðna sem tengist allt á einhvern hátt fótbolta.
Á Höfuðborgarsvæðinu eru a.m.k. fimmtán folfvellir! Það er hálfur mánuður af folfi ef farið er á einn folfvöll á dag.
Geldinganes
Geldinganes er útivistarsvæði í Grafarvogi sem er tengt landi með eiði. Á Geldinganesi er lausaganga hunda leyfð og þar er gott að fara í göngutúr.
Í og við Reykjavík eru 275 staðir þar sem hægt er að finna geocach-hluti. Geocaching er app sem hjálpar þér að finna ákveðna hluti, sem eru faldir ákveðnum stöðum um allan heim. Þetta er eins konar fjársjóðsleit.
Golf
Á Höfuðborgarsvæðinu má finna allavega tólf golfvelli. Þetta eru
– Golfvöllurinn á Seltjarnarnesi
– Hlíðavöllur í Mosfellsbæ
– Bakkakot í Mosfellsdal
– Hvaleyrarvöllur og Steinkotsvöllur í Hafnarfirði
– Setbergsvöllur milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar
– Brautarholt á Kjalarnesi
– Leirdalsvöllur í Kópavogi
– Vífiðsstaðavöllur í Garðabæ
– Korpúlfsstaðavöllur í Grafarvogi
– Grafarholtsvöllur
– Urriðavöllur
Einnig eru nokkrir golfhermar víðs vegar um Höfuðborgarsvæðið.
Það er ljúft að heimsækja Grasagarðinn í Laugardalnum á fallegum dögum og ganga þar um. Á sumrin er kaffihúsið opið og þar er hægt að sjá fiska í tjörn.
Grilla úti – lautarferð
Útigrill eru staðsett á ýmsum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu. Gaman er að fara með t.d. pylsur og grilla í góðu veðri og borða úti í náttúrunni.
Grótta
Hægt er að fara í bíltúr út á Gróttu og skoða fuglalífið og fjöruna. Grótta er líka yndislega fallegur staður í sólsetrinu.
Grundargerðisgarður er skemmtilegur almenningsgarður í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík sem gaman er að kíkja á. Þar er fallegur blómagarður og leiksvæði fyrir börn.
Í Guðmundarlundi í Kópavogi er ýmislegt hægt að gera. Þar er skógrækt Kópavogs og fullt af gönguleiðum, folfvöllur, minigolfvöllur, útigrill, leiktæki og stór flöt til útileikja.
Í Gufunesi í Reykjavík er Frístundagarðurinn staðsettur. Þetta er virkilega skemmtilegt útivistarsvæði fyrir fjölskyldur og börn. Þar er risastór kastali og ævintýrahóll, vatnsleiktæki, tjarnir, burstabær fyrir yngstu börnin, ærslabelgur, petanquevöllur, folfvöllur, rathlaupsbraut og strandblak. Þar er auk þess útigrill.
Gæludýrabúð
Fyrir mörg yngri börn getur verið gaman að kíkja á dýrin í gæludýrabúðum. Það er alltaf heillandi að horfa á fiskana synda og naggrísi og hamstra leika sér.
Göngutúr
Þar sem höfuðborgarsvæðið er mjög stórt er hægt að fara í marga göngutúra án þess að skoða það sama tvisvar. Það er hægt að ganga um hin fjölmörgu útivistarsvæði sem svæðið hefur upp á að bjóða eða skoða nýtt hverfi. Hér er hugmynd að Álfahring í Hafnarfirði, hér eru fleiri hugmyndir að gönguleiðum í Hafnarfirði og fyrir Garðabæ.
Í Hallgrímskirkju er hægt að fara upp í turninn og njóta útsýnisins yfir borgina.
Í Hamrinum í Hafnarfirði eiga að búa álfar. Þar er víðsýnt og í góðu skyggni er hægt að sjá fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Á Hamrinum er útsýnisskífa. Á leiðinni upp á Hamarinn er hægt að telja Flensborgartröppurnar og gá hvað þær eru margar.
Hádegishólar eru staðsettir í Salahverfi í Kópavogi. Árið 1992 var þar reyst stúba, en stúba er helgidómur þeirra sem aðhyllast Búdddadóm. Á Hádegishólum má einnig sjá jökulrispur frá því að síðustu ísöld lauk.
Heiðmörk
Hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum í Heiðmörk. Þar er hægt að ganga um skóginn og síðan eru nokkur svæði þar sem er hægt að stoppa og leika sér.
Í Kapelluhrauni í Hafnarfirði, á móti álverinu í Straumsvík, er steinbyrgi þar sem líkneski heilagrar Barböru fannst árið 1950. Byrgið eru leifar kaþólskrar kapellu frá miðöldum og gaman getur verið að skoða byrgið fyrir þau sem hafa áhuga á slíku.
Í Hafnarfirði er fallegur almenningsgarður sem heitir Hellisgerði. Þar er tjörn og gaman er að taka með sér teppi og nesti og borða í garðinum. Á aðventunni er Hellisgerði breytt í töfraheim með seríum.
Hestaferð
Með smá fyrirvara er hægt að panta hestaferð með fjölskyldunni á hestaleigum á og við Höfuðborgarsvæðið.
Himnastiginn er langur tröppustígur í Kópavogi sem liggur úr Kópavogsdal og upp á Digranesheiði. Alls eru tröppurnar 207 og það getur verið ágætis áskorun fyrir krakka að ganga eða hlaupa alla leið upp.
Hjólatúr
Ef maður hefur aðgang að hjóli er hægt að skella sér í hjólatúr með fjölskyldunni, t.d. um Fossvoginn eða Elliðaárdal. Hjólastígar á Höfuðborgarsvæðinu eru orðnir margir og eru mjög góðir.
Hlíðargarður er fallegur skrúðgarður í Kópavogi og gaman er að labba um hann í góðu veðri.
Hljóðvapp er hljóðganga um sögu og samtíma í hlaðvarpsformi. Hægt er að setja hljóðvapp í gang og fara á upphafsreit. Síðan gengur maður leiðina og hlustar á fróðleik og ýmislegt skemmtilegt um umhverfið.
Rétt sunnan við Tjörnina í Reykjavík er skemmtilegur lystigarður sem heitir Hljómskálagarðurinn. Þar eru leiktæki, útigrill og svo auðvitað hljómskálinn sjálfur.
Á Hraðastöðum í Mosfellsveit er hægt að koma og kíkja á dýrin og fara í reiðtúr.
Úti á Granda er Hvalasafnið staðsett. Þar er hægt að sjá líkön í raunstærð af hvölunum sem lifa umhverfis Ísland. Þar er einnig kaffihús og ágætis barnahorn.
Gaman er að fara með krökkum að Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði. Þar er flott útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna.
Í Höfuðstöðinni er litrík sýning sem gaman er að kíkja á, kaffihús og smiðjur fyrir krakkana. Í sumar (2024) býður Höfuðstöðin einnig upp á foreldramorgna mánudaga til fimmtudaga þar sem börn frá 0-14 ára eru velkomin.
Á Hönnunarsafni Íslands er hægt að skoða alls kyns hönnun og listhandverk.
Það getur verið gaman fyrir krakka að fara í IKEA og skoða uppstilltu húsin, leikföngin eða þá að fara í Småland. Svo er alltaf gaman að fá sér að borða þar.
Ísbúð
Á Höfuðborgarsvæðinu eru ísbúðir í nánast hverju hverfi og gaman er að fara í þær og fá sér smá ís og jafnvel göngutúr eða bíltúr á eftir.
Kaffihús
Fjölmörg kaffihús eru á Höfuðborgarsvæðinu og gaman er að setjast á þau og fá sér kaffi- eða kakósopa og eitthvað gott að borða. Sum þeirra eru extra skemmtileg fyrir krakka, t.d.
Gaman er að ganga Kárnesið í góðu veðri. Gönguleiðin er falleg enda að mestu við sjóinn.
Keila
Að fara í keilu er klassískt að gera með krökkunum. Í Keiluhöllinni er hægt að komast í keilu og síðan er hægt að fá sér að borða á Shake&Pizza eftir það.
Klambratún
Á Klambratúni er ýmislegt hægt að gera. Þar er strandblaksvöllur, frisbígolf, körfuboltavöllur, leikvöllur, stórt tún og síðan eru alltaf einhverjar myndlistarsýningar á Kjarvalsstöðum, ásamt því að þar er veitingastaður.
Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga og er eitt af dýpstu vötnum landsins. Vatnið er fallegt og nóg að skoða í kringum vatnið. Áður fyrr var talið að ormskrímsli ætti heima í vatninu. Gaman er að ganga hjá vatninu og svo er hægt að veiða í því ef maður á Veiðikortið.
Klifur
Hægt er að komast í klifur í Klifurhúsinu. Það er staðsett á þremur stöðum á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta gæti verið skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna.
Í Kópavogsdal er gott útivistarsvæði, leiktæki og fallegar gönguleiðir. Þar er einnig tjörn og hægt að gefa öndunum að borða.
Í Kringlunni er að sjálfsögðu hægt að skoða búðir og versla ýmislegt. Þar er einnig hægt að fara með krakka á aldrinum 3-9 ára í Ævintýraland eða leika á litla leikvellinum á neðstu hæðinni. Eins finnst flestum ungum börnum mjög spennandi að fá að sitja í tækjunum sem eru á víð og dreif um verslunarmiðstöðina.
Séu ekki of miklar jarðhræringar í gangi á Reykjanesi er hægt að fara og skoða Krýsuvík. Þar er litfagurt hverasvæði, Seltún, og stórbrotið landslag sem gaman er að ganga um í. Hægt er að skoða Grænavatn, Sveifluháls og Krýsuvíkurberg, sem er eitt stærsta fuglabjarg landsins.
Landakotstún er opið svæði í Vesturbænum. Þar er fallegt tún, leikvöllur og síðan er hgæt að skoða Landakotskirkju. Þetta er tilvalinn staður fyrir lautarferð.
Landnámssýningin er í miðbæ Reykjavíkur og þar geta gestir fengið að sjá hvernig Reykjavík þróaðist frá landnámi og til dagsins í dag.
Það er auðveldlega hægt að eyða heilum degi í Laugardalnum. Þar eru leikvellir, Grasagarðurinn, þvottalaugarnar og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Um dalinn liggja ótal göngustígar og Kaffihúsið og Hostelið Kaffi Dalur er þar einnig, en þar er mjög gott barnahorn fyrir yngstu börnin.
Lautarferð
Líkt og annars staðar á landinu er hægt að fara í lautarferð á Höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að finna sér einhvern flottan leikvöll, útivistarsvæði eða annað og borða þar nesti saman. Dæmi um góð svæði í slíkt eru:
– Botn Grafarvogsins
– Elliðaárdalur
– Guðmundarlundur
– Heiðmörk
– Hvaleyrarvatn
– Klambratún
– Víðistaðatún
Í Lava Show í Reykjavík er hægt að sjá hvernig hraun myndast og rennur við 1100°C hita.
Leikhópurinn Lotta heldur sýningar fyrir börn alla miðvikudaga kl. 18:00 í Elliðaárdalnum (sumarið 2024).
Leikhús
Með örlitlum fyrirvara er hægt að fara í leikhús með krökkunum. Stundum getur þurft að bóka með fyrirvara á sýningar en það er líka hægt að vera heppin og fá miða á sýningu fljótlega. Í Reykjavík eru Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið starfandi. Einnig má skoða fleiri sýningar á tix.is.
Leikvellir
Það er gríðarlegt magn leikvalla á Höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru í það minnsta 695 talsins. Margir tilheyra leik- eða grunnskólum en öll sveitarfélögin hafa þó einnig almenna leikvelli sem eru opnir öllum hvenær sem er.
Garðabær – leikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 60)
Hafnarfjörður – leikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 100)
Kópavogur – leikskólar | grunnskólar | gæsluvellir | opnir leikvellir (a.m.k. 86)
Mosfellsbær –öll leiksvæði (44)
Reykjavík – leikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 390)
Seltjarnarnes – leikskólar | grunnskólar | opin leiksvæði (~15)
Fyrir þau sem hafa áhuga á listum er gaman að kíkja á Listasafn Einars Jónssonar en þar er hægt að sjá styttur eftir listamanninn.
Hamarkotslækur í Hafnarfirði er skemmtilegur lækur sem rennur neðan Kinnahverfis. Þar er hægt að ganga um og gefa öndunum að borða.
Í Vatnsendahverfi í Kópavogi er lundur sem kallast Magnúsarlundur. Þar er útikennslusvæði fyrir nálæga leik- og grunnskóla. Lundurinn er fullkominn í litla skógar-eða lautarferð.
Maríuhellar eru hraunraásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar. Hellarnir eru þrír, Urriðakosthellir, Vífilsstaðahellir og Draugahellir. Fyrir ævintýragjarna krakka er gaman að fara og skoða þessa hella.
Opni leikskólinn Memmm býður foreldrum og ungum börnum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til þess að leika og hitta aðrar fjölskyldur. Leikskólinn er opinn þrisvar í viku og er gjaldfrjáls.
Miðbær Hafnarfjarðar
Miðbær Hafnarfjarðar er lítill og krúttlegur en þar er þó gaman að labba um, skoða búðir og setjast á kaffihús.
Miðbær Reykjavíkur
Í miðbæ Reykjavíkur er ýmislegt hægt að skoða. Þar er gaman að ganga um, skoða búðir, setjast á kaffihús, borða góðan mat og skoða nokkra almenningsgarða.
Margir myndu kannski ekki halda það en Efra-Breiðholt leynir heldur betur á sér. Á miðsvæði Efra-Breiðholts er ýmislegt í boði. Þar eru leiksvæði, trjálundir, grasflatir, almenningsgarður, hoppubelgur og fleira.
Minigolf
Minigolf er heldur aðgengilegri íþrótt en venjulegt golf og það eru nokkrir staðir á Höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á minigolf. Það eru t.d. Minigarðurinn, Skemmtigarðurinn og svo er minigolfvöllur í Guðmundarlundi í Kópavogi.
Í Minjagarðinum á Hofsstöðum er hægt að skoða leifar landnámsskála frá 10. eða 11. öld. Þar er nýuppfærð sýning með fræðsluskiltum og margmiðlunarsjónaukum sem gefa gestum tækifæri á að skyggnast inn í fortíðina. Það er opið allan sólarhringinn í Minjagarðinum en síðan er hgæt að fara á sýninguna Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7.
Í Nauthólsvík í Reykjavík er dásamleg ylströnd með heitum pottum og góðri sturtuaðstöðu. Þar er einnig útigrill og lítil sjoppa. Gott er að taka með sundföt og skóflur og fötur til að leika í sandinum.
Náttúrufræðistofa Kópavogs er staðsett í Hamraborg. Þar er hægt að sjá uppstoppaða fugla, fiska og fleira úr náttúru Íslands, en það besta er að það kostar ekkert inn á safnið!
Noztra er skapandi smiðja fyrir alla. Í Noztru er hægt að kaupa leirhluti til að mála, sem eru síðan brenndir fyrir viðskiptavini. Þetta getur verið góð skemmtun fyrir fjölskyldur.
Við höfnina í Reykjavík er hægt að fara í parísarhjól. Hversu skemmtilegt! Það er ódýrara að panta miðana fyrirfram á netinu en það er líka hægt að mæta bara.
Í Perlunni er ýmislegt hægt að gera. Þar er ísbúð, veitingastaður, útsýni og nokkrar sýningar, t.d. norðurljósasýning, jökla- og íshellasýning, eldgosasýning og sýning um lífríkið í vötnum Íslands. Það kostar inn á sýningarnar en það er hægt að fá kort fyrir íslenska ríkisborgara til að komast ókeypis inn í Perluna ætli maður ekki inn á neina sýningu.
Píla
Það er hægt að komast í pílu með krökkunum á nokkrum stöðum. Stundum eru einhver tímamörk á því hvenær krakkar mega vera með, en krakkar verða alltaf að vera í fylgd með fullorðnum á pílustöðum.
Staðir sem bjóða upp á pílu eru: Bullseye, Keiluhöllin, Skor, Oche
Ratleikur
Það getur verið gaman fyrir fjölskylduna að fara í ratleik en þeir krefjast oft töluverðrar fyrirhafnar. En örvæntið ekki, hér eru nokkrir tilbúnir ratleikir sem hægt er að fara í á höfuðborgarsvæðinu:
– Ratvís
Einnig má finna einhverja ratleiki á Turfhunt-appinu.
Reynisvatn og Sæmundarsel
Reynisvatn í Grafarholti er frábært útivistarsvæði. Þar geta krakkar fengið góða útrás við að klifra og hlaupa úti í náttúrunni. Sæmundarsel liggur austan við Reynisvatn en þar er fallegst skógarrjóður með þrautabraut og eldstæði.
Rútstún
Rútstún er skemmtilegur leikvöllur í Kársnesinu í Kópavogi. Þar eru óvenjuleg leiktæki sem gaman er að prófa. Síðan er Sundlaug Kópavogs við hliðina.
Sandahlíð er útivistarsvæði í landi Vífilsstaða. Þar er gaman að ganga í skógræktinni og svo er leikvöllur fyrir krakkana.
Seljatjörn
Seljatjörn er skemmtileg tjörn í Seljahverfinu í Reykjavík. Þar er hægt að gefa öndunum, reyna að veiða síli eða vaða.
Shuffleboard / Shufl
Hægt er að fara með fjölskylduna í Shuffleboard í Oche í Kringlunni.
Á Siglunesi við Nauthólsvík er bátaleiga en þar er hægt að leigja sér árabát eða kajak á ákveðnum tímum og sigla um fallega Fossvoginn.
Á Sjóminjasafninu í Reykjavík er hægt að fræðast um hafið og sjósókn í Reykjavík síðustu 150 árin. Stundum eru viðburðir á safninu t.d. leiðsögn um varðskip.
Skautar
Það er hægt að fara á skauta í Reykjavík nánast allt árið um kring og einnig úti yfir veturinn. Tveir staðir bjóða upp á skautasvelli inni:
Eins hafa stundum verið sett upp tímabundin skautasvell í desember í Hafnarfirði og á Ingólfstorgi.
Skemmtigarðurinn býður upp á alls konar skemmtun fyrir fjölskyldur t.d. minigolf, lasertag, þrautaleiki, fótboltagolf og klessubolta.
Á skemmtisvæðinu í Smáralind er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt. Þar er meðal annars hægt að fara í lasertag og leika sér í leiktækjasalnum.
Skíði og snjóbretti
Á veturna er hægt að komast á skíði og snjóbretti á Höfuðborgarsvæðinu. Stærsta svæðið er í Bláfjöllum en einnig eru litlar skíðalyftur í Skálafelli, Ártúnsbrekku, Grafarvogi og Seljahverfi (lokað tímabundið).
Trampólíngarðuinn Skopp er skemmtun sem höfðar til flestra barna. Sér svæði er fyrir yngstu börnin til að hoppa (0-5 ára).
Skógarferð
Það er ævintýralegt að fara í góða skógarferð. Gaman er að taka með sér nesti eða heitt kakó. Hægt er að tína sveppi, köngla, steina, lauf og margt fleira. Klifra í trjám og skoða allt það sem skógurinn hefur upp á að bjóða. Á höfuðborgarsvæðinu eru 11 skógar eða skógræktarsvæði.
Smalaholt er útivistarsvæði í landi Vífilsstaða. Smalaholt er fyrsta skógræktin í Garðabæ. Gaman er að ganga stígana í Smalaholti og staldra við á áningastöðunum.
Í Smáralind eru litlir leikvellir og tæki fyrir unga krakka að leika sér í. Þetta getur t.d. hentað fólki með mjög lítil börn sem þarf að komast aðeins út úr húsi í brjáluðu veðri.
Í Spilavinum er hægt að koma og spila alls kyns spil. Í kjallara Spilavina er dásamlegt leiksvæði fyrir yngri börnin og spilasalur fyrir fjölskyldur.
Stekkjarflöt er staðsett í nágrenni Álafosskvosarinnar í Mosfellsbæ. Þar er ærslabelgur og fleiri skemmtileg leiktæki, útigrill og tjörn til að veiða síli í.
Strandblak
Þegar veður leyfir er hægt að fara í strandblak á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Strandsblaksvellir eru staðsettir á þessum stöðum (og mögulega fleirum):
– Klambratúni
– Furulundi í Heiðmörk
– Gufunesbæ
Straumur er sérkennileg á með hraun allt í kring. Við ánna liggur falleg gönguleið sem gaman er að ganga.
Strætóferð
Börn sem eru ekki vön að fara í strætó getur fundist mjög skemmtilegt og spennandi að fara ferð með strætó.
Sund
Á höfuðborgarsvæðinu eru 18 sundlaugar til að prófa. Það má vel reyna að fara í þær allar á einu sumri.
Sögusafnið er staðsett úti á Granda í Reykjavík. Þar er hægt að kynnast Íslandssögunni á skemmtilegan og fræðandi hátt. Þar er hægt að fá að máta vopn og klæði víkinga.
Tjörnin í Reykjavík
Tjörnin í Reykjavík er alltaf falleg og hægt er að ganga hringinn í kringum hana. Þar eru yfirleitt margir fuglar sem vilja glaðir fá eitthvað í gogginn.
Vatnsleikjagarðurinn í Elliðaárdal
Við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal er virkilega skemmtilegur vatnsleikjagarður. Þar er hægt að leika sér í hlýju vatni, fara í sandkassann og skríða í gegnum röð. Við garðinn er starfrækt kaffihús, þar sem foreldrarnir geta setið í rólegheitunum á meðan krakkarnir leika sér.
Víðistaðatún
Á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er hægt að bralla margt skemmtilegt. Þar er tjörn, ærlsabelgur, leiktæki, frisbígolfvöllur, stórar grasflatir og fleira.
Fyrir fjölskyldur sem hafa áhuga á lækningajurtum er hægt að kíkja í Urtagarðinn á Seltjarnarnesi. Þar er hægt að finna safn lækningajurta sem hafa verið nýttar til næringar og heilsubótar hér á landi.
Úlfarsárdalur
Dalurinn á milli hverfanna í Grafarholti og Úlfarsárdal nefnist Úlfarsárdalur. Þar eru útigrill og skemmtileg á. Leiktæki eru á skólalóðinni við Dalskóla en annars er hægt að njóta þess að ganga í fallegri náttúru.
Út að borða
Það er alltaf gaman að fara út að borða og á höfuðborgarsvæðinu eru gríðarlega margir veitingastaðir af öllum stærðum og gerðum. Fyrir foreldra með yngri börn getur það hins vegar verið töluverð vinna að fara út að borða. En þá eru nokkrir staðir með góð barnahorn, þar sem krakkarnir geta leikið á meðan þau bíða eftir matnum eða eftir að þau eru búin með matinn.
Þetta eru t.d. KFC í Mosfellsbæ, Mathús Garðabæjar, American Style á Höfða, Klambrar Bistró, IKEA, Hamborgarabúllan á Höfða, 27 mathús og bar, Metró í Skeifunni og við Smáratorg.
Valhúsahæð er útivistarsvæði á Seltjarnarnesi sem hægt er að ganga um. Þar er útsýnisskífa, fótboltavöllur og frisbígolfvöllur, auk þess eru þar húsarústir og tóftir.
Veiða
Hægt er að veiða á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að fara að dorga á smábátabryggjunni við Vogabyggð og með veiðikortinu er hægt að veiða í Kleifarvatni, Vífilssstaðavatni og Elliðavatni. Svo eru ótal tjarnir og vötn á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að reyna að veiða síli með háfum.
Út í Viðey er auðvelt að komast enda eru bátaferðir þangað nokkrar á dag yfir sumartímann og siglingin tekur aðeins um 5-10 mínútur. Eyjan á sér mikla sögu og eru ein elstu hús landsins en er einnig frábært útivistarsvæði.
Víghóll
Víghóll er útivistarsvæði í Kópavogi. Þar er útsýnisskífa (og frábært útsýni) og jökulsorfnir klapparhólar.
Wapp er app sem fer með þér í gönguferð um leið og þú fræðist um umhverfið og sögur sem tengjast því. Í appinu eru leiðarlýsingar á gönguleiðum og nokkrar gönguleiðanna eru á höfuðborgarsvæðinu.
Ylströndin í Sjálandshverfi
Ylströndin er staðsett við Vesturbrú í Sjálandshverfi í Garðabæ. Þar er hægt að leika sér í sandinum og vaða.
Yndisgarðurinn í Fossvogi og fleiri garðar
Yndisgarðurinn er staðsettur vestan við Gróðrastöðina Mörk og fyrstu plönturnar þar voru gróðursettar árið 2010. Þetta er fallegur garður sem gaman er að ganga um í og skoða plönturnar. Á sömu slóðum má finna Aldingarðinn, þar sem verið er að ræka alls kyns ávaxtatré, Sígræna garðinn, trjásafnið og Rósagarðinn.
Á Þjóðminjasafninu er hægt að skoða sögu Íslands frá landnámi til okkar daga. Á safninu er sérstakt rými fyrir börn að leika sér í, eins eru smiðjur á sunnudögum yfir veturinn fyrir krakka og svo er boðið upp á ratleiki (á sjö tungumálum).
Á höfuðborgarsvæðinu eru um 30 ærlsabelgir og það getur verið ágætis verkefni að prófa þá sem flesta.
Ævintýraferðir Heimilisvefsins eru ferðir um bæi og hverfi þar sem allir leikvellir svæðisins eru skoðaðir. Oft tekur þetta heilan dag (fer eftir aldri barnanna) og gaman er að taka með sér nesti og fleira.
Ævintýragarðurinn í Ullarnesbrekkum í Mosfellsbæ er skemmtilegur staður. Þar eru skemmtileg leiktæki og ærslabelgur.
Öskjuhlíð er útivistarsvæði í Reykjavík. Þar er gaman að ganga um skóginn, skoða mannvistarleifar frá stríðsárunum, svo er stundum hægt að sjá kanínur.