Hvað er hægt að gera með krökkunum á haustin?
Haustið er yndislegur tími sem býður upp á svo margt skemmtilegt til að gera með krökkunum. Vissulega má búast við vondu veðri en svo koma líka fínir dagar á milli.
Heimilisvefurinn hefur búið til lista með fullt af hlutum til að gera með krökkunum á haustin, hvort sem það þarf að vera inni eða úti. Listinn er hugsaður þannig að hægt sé að gera hlutina nánast hvar sem er. Þess vegna eru t.d. Kringlan eða Klifurhúsið eða aðrir ákveðnir staðir ekki á listanum. Það sem fer á listann á að vera hægt að gera sama hvort þú býrð í Mývatnssveit, New York eða á Flateyri.
Miðað er við að haustið sé sirka september, október og nóvember og að ekki sé kominn (mikill) snjór. (Já, við vitum að það er ekki alltaf þannig samt!)
Hægt er að nýta sér þennan lista á marvíslegan hátt. Í fyrsta lagi er hægt að skoða listann og velja eitthvað sem hentar og öllum líst vel á að gera. Í öðru lagi er hægt að skipuleggja sig og búa til einhvers konar „haustsamverudagatal“ og velja þá spennandi hluti af listanum til að setja á dagatalið. Þriðja hugmyndin væri að búa til „buckelista“ fyrir haustið. Þá þurfa hlutirnir ekki að gerast á ákveðnum dögum en listinn yfir hluti til að gera er til staðar. Enn önnur hugmynd væri að skrifa niður hugmyndir sem manni finnst spennandi á miða og setja í krukku og draga síðan þegar hentar.
Líklega bætist við listann með tímanum þegar við finnum eitthvað nýtt og spennandi að gera. Á haustlistanum eru núna 166 hlutir til að gera með krökkunum á haustin:
Astrid Lindgren
Astrid Lindgren á afmæli 14. nóvember og því er vel hægt að gera eitthvað skemmtilegt tengt þeim degi. Astrid skrifaði gríðarlega margar ástsælar bækur sem kynslóðir hafa vaxið upp með. Hægt er að lesa sögurnar, horfa á bíómyndirnar, tálga eins og Emil eða gera eitthvað stórfurðulegt eins og Lína langsokkur.
Baðbombur
Eigi maður bað er mjög skemmtilegt að búa til baðbombur með krökkunum (en ef maður nennir því ekki eða hefur ekki tíma er hægt að kaupa þær líka – það er alltaf spenandi að fara í bað með baðbombu). Efnið í baðbomburnar á að vera hægt að fá í næstu matvörubúð og apóteki. Hér er dæmi um hvernig hægt er að búa til baðbombu en auðvelt er að finna uppskriftir með smá gúgli.
Baðsalt
Eins og með baðbombur er hægt að búa til baðsölt í baðið. Auðvelt er að finna einfaldar uppskriftir að baðsöltum með smá gúgli og það ætti að vera hægt að kaupa innihaldsefnin í næstu matvörubúð og apóteki.
Baka
Sama hver árstíðin er, þá er alltaf hægt að bara eitthvað gott. Það er þó tilvalið að baka eitthvað „haustlegt“ á haustin. Til dæmis döðlubrauð, eplaköku, amerískar pönnukökur, gulrótarköku, kanilsnúða, skrímslaköku, bananabrauð, kryddbrauð og smákökur. Vel er hægt að gera einhvers konar kökur sem eru skornar út eins og laufblöð og máluð með gulum, rauðum og appelsínugulum glassúr.
Baksturskeppni
Hægt er að halda baksturskeppni á milli fjölskyldumeðlima.
Svo getur fjölskyldan líka tekið saman þátt í smákökusamkeppni Kornax og reynt að vinna flotta vinninga. Skilafresturinn fyrir uppskriftirnar er yfirleitt um miðjan nóvember.
Berjamó
Ef veðrið er enn gott í september er hægt að kíkja í berjamó og tína ber.
Bíltúr
Fjölskyldan getur farið saman í bíltúr, ekki er verra ef keyptur er í ís og bíltúrinn breytist í ísbíltúr.
Bíó eða bíómynd
Það er alltaf gaman að horfa á góða mynd. Ef það er ekki hægt að fara í bíó þá er hægt að finna góða bíómynd og hafa bíókvöld og poppa heima. Stundum geta krakkarnir valið mynd, en svo geta foreldrarnir líka sýnt krökkunum uppáhalds myndirnar sínar síðan þau voru börn.
Borðspilagerð
Fyrir þær fjölskyldur sem hafa gaman af því að spila getur verið skemmtilegt að vinna í því að búa til sitt eigið borðspil og spila það síðan.
Bókamerki
Þar sem skólarnir eru byrjaðir á þessum tíma er vel við hæfi að föndra saman fallegt bókamerki fyrir heimalesturinn.
Bókasafn
Það er alltaf gaman að fara á bókasafnið að lesa skemmtilegar bækur og hafa það notalegt. Mörg bókasöfn bjóða upp á viðburði fyrir börn sem gaman er að taka þátt í.
Brandarar
Finna brandara, segja brandara, búa til nýja brandara. Það er allt mjög skemmtilegt.
Brunch
Hægt er að hafa brunch einn góðan haustdag, annað hvort bara fyrir fjölskylduna eða bjóða fleirum. Það er hægt að baka pönnukökur, steikja egg og beikon og margt fleira og borða svo góða máltíð saman.
Búningar
Fyrir Hrekkjavökuna er hægt að búa til búninga heima.
Ef maður á marga búninga heima hjá sér nú þegar er líka hægt að fara í búningana og leika sér.
C. S. Lewis
Afmælisdagur C. S. Lewis er 29. nóvember. Fyrir þau sem ekki vita er C. S. Lewis breskur rithöfunur sem skrifaði bækurnar um Narníu. 29. nóvember er því fínn tími til að byrja að lesa bækurnar eða horfa á myndirnar með krökkunum, ef þau hafa áhuga á ævintýraheimi.
Dagbók
Það að hvetja krakkana til að byrja að skrifa í dagbók er góð hugmynd (fyrir þau sem eru læs og skrifandi). Dagbókin getur verið um hvað sem er, ekkert endilega bara leyndarmál þeirra, þetta getur líka verið sameiginleg dagbók fjölskyldunnar um hvað þau gerðu skemmtilegt þetta haustið. Sama hvað verður fyrir valinu er mjög hollt að halda dagbók til að vinna úr hugsunum og tilfinningum fyrir marga.
Dansa
Dansa, hvað er betra en að dansa?
Draugasögur
Á þessum árstíma er farið að dimma mikið og því tilvalið að segja draugasögur. Hér eru nokkrar íslenskar draugasögur.
Dulmál
Saman er hægt að búa til dulmál og prófa svo að tala það eða skrifa.
Dúkkuhús
Það er vel hægt að prófa að búa til dúkkuhús heima. Dúkkuhúsið má vera úr hvaða efni sem þið eigið til sem hentar og síðan er hægt að búa til húsgögn í það, mála herbergin, sauma gardínur og skreyta það fallega.
Dúkkulísur
Dúkkulísur eru alltaf skemmtilegar þó það sjáist minna af þeim í dag en áður. Það er vel hægt að búa til dúkkulísur heima – það eina sem þarf eru blöð og litir.
Elda saman
Gaman getur verið að elda saman einhvern haustlegan mat, t.d. góða súpu.
Eltingaleikur
Eltingaleikur er alltaf klassískur. Inni eða úti, skiptir ekki máli – bara að hafa gaman.
Farfuglar
Á haustin er hægt að fylgjast með farfuglunum. Þeir fara einn af öðrum suður á bóginn og stundum má sjá gæsir í oddaflugi. Það er líka vel hægt að fræðast aðeins um farfuglana.
Feluleikur
Sígildur leikur sem krökkum finnst alltaf skemmtilegur (ungum allavega). Hægt er að fela sig eða hluti.
Fjallganga
Það er alltaf hressandi að fara í fjallgöngu og ef vel viðrar þetta haustið er vel hægt að fara í eina eða tvær fjallgöngur.
Fjöruferð
Ef ekki er farið að frysta og snjóa er ekkert mál að fara í fjöruferð með krökkunum (þ.e.a.s. ef maður býr ekki lengst inni í landi). Það þarf bara að klæða sig vel og gera ráð fyrir að það sé líklega ekki hægt að byggja sandkastala.
Fleyta kerlingar
Annað tengt fjöruferð eða ferð að vatni – fleyta kerlingar. Það þarf þó að finna steina sem eru flatir og góðir.
Fljúga flugdreka
Þegar það er hvorki of lítill né of mikill vindur er hægt að fljúga flugdreka á Íslandi.
Fljúga í rokinu
Ef það er lægð yfir landinu er hægt að fara út og reyna að fljúga í rokinu.
Flóamarkaður
Á flóa- og nytjamörkuðum er hægt að finna alls kyns fjársjóði. Sumum börnum gæti þótt gaman að fara. Hér er listi yfir nytjamarkaði á Íslandi.
Flöskuskeyti
Það getur verið gaman að prófa að senda flöskuskeyti og sjá hvort einhver finni það.
Fondú
Eigi fjölskyldan fondúpott, eða eitthvað til að halda venjulegum potti heitum á borði, er upplagt að hafa fondúkvöld eitt gott haustkvöldið – osta- eða súkkulaðifondú – skiptir ekki máli því bæði er gott!
Fótbolti
Mörg hafa áhuga á fótbolta. Það er hægt að fara á fótboltaleik, horfa á hann í sjónvarpinu eða safna í lið og fara út í fótbolta.
Frisbígolf
Frisbígolfvellir eru komnir út um allt land.
Fuglafit
Svolítið gamaldags leikur en örugglega gaman að kenna krökkunum þetta. Til að rifja þetta upp er meira að segja hægt að fara á Youtube.
Fuglamatur
Þegar líða tekur á haustið fer maturinn að minnka hjá fuglunum og því gaman að geta gefið þeim smáveigis að borða. Hægt er að kaupa eða búa til sinn eigin fuglamat.
Föndra
Það er hægt að kaupa tilbúna pakka úti í búð eða finna eitthvað sniðugt á netinu (t.d. pinterest).
Gefa öndunum
Nú þegar ungarnir eru farnir úr hreiðrinu er óhætt að gefa öndunum að borða en athugið að hvítt brauð er ekkert hollara fyrir þær en okkur.
Geocaching er sniðugt app fyrir síma sem vísar manni veginn á falda fjársjóði víðs vegar um heiminn. Það eru geocaching-hlutir á hinum ólíklegustu stöðum og líklega er einhver í nágrenni við þig.
Goggur
Það er hægt að búa til gogg, hugsanlega með haustþema eða bara eins og ykkur langar til.
Granóla/múslí
Á netinu er hægt að finna alls kyns ljúffengar uppskriftir að granóla eða múslí. Það er ekkert smá gaman að byrja kaldan haustdag á heimatilbúnu granóla.
Grilla sykurpúða
Ef ekki er búið að ganga frá grillinu fyrir haustið er hægt að grilla sykurpúða eða búa til lítinn varðeld (við öruggar aðstæður) eða nota arininn, ef slíkt er til staðar.
Grímugerð
Það er gaman að búa til grímur. Þær geta verið allt frá flóknari gifsgrímum og yfir í einfaldar grímur búnar til úr pappadiskum. Hér hjálpa netið og Pinterest mikið við að finna hugmyndir.
Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir fæddist þann 7. september 1935 og dó 2022. Hún var einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands og gaf út fjölmargar ástsælar barnabækur sem flestir þekkja. Þetta eru bækur eins og Jón Oddur og Jón Bjarni, Sitji guðs englar, Ekkert að þakka og Öðruvísi dagar. Á afmælisdegi hennar væri því hægt að lesa einhverja af bókunum hennar eða jafnvel horfa á sígildu barnamyndina um Jón Odd og Jón Bjarna.
Göngutúr
Það er yndislegt að fara í göngutúr í fallegu haustveðri og skoða liti haustins. Hvar sem maður er staddur er hægt að fara í göngutúr. Ef stutt er í Hrekkjavökuna er hægt að fara í göngutúr í kirkjugarði.
Halda upp á hátíðir haustsins
Hægt er að halda upp á alls kyns hausthátíðir ef áhugi er fyrir því. Þetta geta t.d. verið:
Alþjóðlegur dagur friðar
Þessi dagur er haldinn 21. september ár hvert og er tileinkaður heimsfriði. Hægt er að gera eitthvað tengt þessu á þessum degi.
Dagur hinna dánu – Allraheilagramessa
Allraheilagramessa? Hvað er nú það? Jú, það er dagur sem haldinn er hátíðlegur í Mexíkó (og víðar í kristnum löndum með öðru sniði) þann 1. og 2. nóvember ár hvert. Þið hafið kannski heyrt um hann sem dia de los muertos eða the day of the dead.
Þessa daga, 1. og 2. nóvember, má vel föndra eitthvað tengt þessum degi og fræðast um Mexíkó. Dagurinn virkar litríkur og skemmtilegur og ýmsar hefðir eru tengdar honum. Ef við getum haldið upp á Hrekkjavökuna, af hverju ekki þá að fræðast um hefðir í fleiri löndum og prófa?
Dagur íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru er 16. september ár hvert. Þann dag er hægt að fræðast um íslenska náttúru eða það sem enn betra er – að fara út í náttúruna og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Dagur íslenskrar tungu
Þann 16. nóvember ár hvert er Dagur íslenskrar tungu. Á þeim degi er hægt að gera eitthvað mjög íslenskt og vanda sig við að sletta ekki neitt. Hlusta á íslenska tónlist (á íslensku), horfa á íslenskar myndir og lesa bækur eða annað sem ykkur dettur í hug.
Diwali
Hér er komin önnur útlend hátíð sem einhver gætu hafa heyrt um. Þessi er frá Indlandi og er haldin hátíðlega af hindúum, jaínum, síkum og nepölskum búddistum. Hátíðin er haldin í október eða nóvember ár hvert og stendur yfir í sex daga. Við þetta tilefni er hægt að fræðast um Indland og skoða hefðirnar tengdar þessari indversku hátíð ljóssins.
Feðradagurinn
Á Íslandi er haldið upp á Feðradaginn þann 14. nóvember. Fyrir þann dag er hægt að föndra eða finna einhverja fallega gjöf handa pabba. Eins er hægt að skipuleggja eitthvað skemmtilegt fyrir hann þann daginn.
Fyrsti vetrardagur
Fyrsti vetrardagur er í lok október ár hvert. Þá líkur sumrinu formlega samkvæmt gamla tímatalinu okkar. Gaman er að búa til smá hefð fyrir þennan dag enda er hann alltaf á laugardegi.
Haustjafndægur
Haustjafndægur er alltaf einhvern tímann á tímabilinu 21.-24. september. Þann dag er nóttin jafn löng og dagurinn. Hægt er að búa til hefðir fyrir þennan dag og halda upp á hann.
Hrekkjavaka
Margar íslenskar fjölskyldur eru nú þegar farnar að halda upp á Hrekkjavökuna með því að skreyta og gera ýmislegt tengt henni. Í sumum hverfum og bæjum landsins er einnig hægt að fara út að sníkja nammi.
Kvennafrídagurinn
Kvennafrídagurinn er 24. október ár hvert. Þennan dag hafa konur lagt niður störf alls sjö sinnum síðan 1975.
Þakkargjörðarhátíðin
Þakkargjörðarhátíðin er haldin í Bandaríkjunum í nóvember og í október í Kanada. Það má vel halda einhvers konar þakkargjörðarhátíð á Íslandi líka og þakka fyrir allt það góða sem maður hefur í lífinu. Hægt er að útfæra hátíðina eins og maður vill.
Haustdrykkur
Það er kannski ekki til einhver einn ákveðinn haustdrykkur en það er hægt að búa til uppskrift að honum. Það er t.d. hægt að hita eplasíder með kryddum eða finna eitthvað annað á netinu.
Haustkrans
Rétt eins og það er hægt að búa til jólakrans, þá er vel hægt að búa til haustkrans til að skreyta hurðina með. Það er meira að segja auðvelt og skemmtilegt verkefni að fara út í náttúruna og safna könglum og laufum fyrir kransinn.
Heimaheilsulind
Yfirleitt er aldurstakmark í heilsulindir/spa en þá er líka hægt að hafa svoleiðis heima í kósý. Kaupa maska, skera niður gúrkur, gera eitthvað flott í hárið og hlusta á róandi tónlist við kertaljós.
Heimsókn
Það er alltaf gaman að kíkja í heimsókn til vina eða vandamanna.
Heitt kakó
Strax í september er oft orðið alveg nógu kalt til að fara að geta drukkið heitt kakó við gott tækifæri.
Hekla
Þó maður kunni ekkert að hekla er í dag vel hægt að læra það á netinu.
Hestbak
Víða er hægt að komast á hestbak. Yfirleitt kostar það samt þó nokkuð ef maður þekkir ekki einhvern sem á hesta.
Hjóla
Þó það sé komið haust er líklega enn hægt að fara út að hjóla.
Hljóðfæri
Það er hægt að búa til hljóðfæri ef maður á þau ekki til og semja svo tónlist!
Hoppa
Það er hægt að hoppa í pollum, laufum eða á ærslabelg á haustin.
Hrekkjavökupiparkökuhús
Rétt eins og það er hægt að búa til jólalegt piparkökuhús í desember er vel hægt að búa til smákökuhús með hrekkjavökuþema. Það þarf ekki að hafa deigið endilega með piparkökubragði – svo þetta sé ekki of jólalegt. Svo er hægt að láta ímyndunaraflið taka sig á flug við að búa til hrekkjavökuhús.
Hryllingsmynd eða hrekkjavökumynd
Ef börnin eru nógu gömul (16 ára eða eldri sem sagt) er hægt að horfa á hryllingsmynd saman. Fyrir aðeins yngri börn er hægt að horfa á klassískar hrekkjavökumyndir eins og Hocus Pocus.
Húsdýragarður/sveit
Sé í boði að komast í húsdýragarð eða hreinlega fara í sveit er haustið mjög skemmtilegur tími í það.
Ísgerð
Það er vel hægt að búa til sinn eigin ís heima. Hægt er að búa til sínar eigin gómsætu bragðtegundir og leika sér svolítið. Með smá gúgli má finna ýmsar uppskriftir.
Jóga
Nú er orðið mjög auðvelt að fara í jóga hvar sem er. Á Youtube má finna fjölmörg myndbönd sem leiða mann í gegnum allt frá auðveldu jóga fyrir lítil börn og upp í flóknari tíma.
Jóladagatal
Í nóvember er hægt að fara að huga að ýmsu tengdu jólunum til þess að dreifa álaginu. Eitt af því sem þarf að gerast í nóvember eru jóladagatölin (þau eru jú opnuð strax 1. desember). Það er hægt að ákveða með krökkunum hvernig jóladagatöl þau vilja. Svo er einstaklega gaman að búa til jóladagatöl fyrir aðra og krakkarnir geta tekið þátt í því.
Kaffiboð
Það þarf ekkert sérstakt tilefni til að halda kaffiboð. Sumum krökkum gæti þótt gaman að skipuleggja eitt slíkt með t.d. vinum eða ættingjum. Það þarf að ákveða hvenær boðið á að vera, hvað á að hafa í boði og ef til vill hvernig á að skreyta. Svo þarf að baka og undirbúa, sem er ekki síður skemmtilegt!
Karaoke
Leynast sönghæfileikar í fjölskyldunni? Það er hægt að finna ýmis lög fyrir heima-karaoke á netinu.
Kertagerð
Sé maður tilbúinn til að borga smá er hægt að kaupa allt fyrir kertagerð í föndurverslunum. Svo má auðvitað nota kertaafganga líka. En kertagerð getur verið fín skemmtun fyrir krakka (sem eru orðin nógu gömul).
Koddaslagur
Slagur með koddum. Þarf að útskýra þetta eitthvað frekar?
Kokkakeppni
Kokkakeppni milli fjölskyldumeðlima má útfæra á ýmsan hátt. Hægt er að hafa það þannig að helmingur fjölskyldunnar eigi að sjá um að elda kvöldmat úr því sem er til í eldhúsinu eitt kvöldið og hinn helmingurinn daginn eftir. Það er líka hægt að hafa ákveðið hráefni sem verður að nota í réttinn.
Kósýkvöld
Kósýkvöld getur þýtt mismunandi hluti fyrir hvern og einn. En kósýkvöld eru þó almennt róleg og hugguleg. Hægt er að útbúa smá snarl, horfa á mynd, spila, slappa af og ýmislegt fleira.
Kristín Helga Gunnarsdóttir og Gunnar Helgason
Þessir frábæru barnabókahöfundar eiga afmæli saman daginn, 24. nóvember. Það er því tilvalið að kíkja á bókasafnið og prófa að lesa bók eftir annað þeirra eða bæði.
Eftir Gunnar liggur svo mikið magn af barnaefni, bíómyndir, þættir, sögur og fleira.
Landslagsmynd
Ef veður er gott er hægt að koma sér fyrir í náttúrunni og mála fallega landslagsmynd í haustlitunum.
Lautarferð
Ef veðrið er enn sæmilegt og enginn snjór farinn að birtast er hægt að fara í lautarferð, þótt það sé haust. Það þarf yfirleitt bara að vera vel klæddur. Ef veðrið er hins vegar ekki gott er hægt að hafa lautarferðina á stofugólfinu. Það er alltaf jafn gaman að borða nesti.
Lego
Það er hægt að gera ýmislegt sniðugt með legokubbum. Fyrir utan það að leika sér í ímyndunarleikjum eða byggja eftir leiðbeiningunum á pakkanum þá er hægt að finna alls kyns hugmyndir á netinu og Pinterest að einhverju til að byggja. Það er einnig hægt að búa til stuttmyndir eða töff ljósmyndir með legókörlum eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.
Leikir úti
Ef nógu margir fást til að vera með er gaman að fara út í klassísku leikina, t.d. yfir, brennibolta, löggu og bófa, fallin spýta, eina króna, dimmalimm og stórfiskaleik. Fleiri leiki er hægt að finna á síðum eins og Leikjavefnum.
Leikrit
Ef það er ekki hægt að fara á leiksýningu eða í leikhús er hægt að búa til leikrit heima hjá sér og sýna það svo.
Leikvöllur
Það er alltaf hægt að fara út á næsta róló til að leika eða fara á nýjan sem maður hefur aldrei prófað áður – kannski í næsta bæjarfélagi.
Leira
Sama hvort leirað er með einföldum leir úr búðinni eða alvöru leir sem á svo að brenna, þá er alltaf gaman að leira.
Lesa saman
Það er (oftast) mjög huggulegt að lesa saman góða bók. Ef börnin eru farin að lesa er hægt að skiptast á að lesa og koma þannig heimalestrinum inn.
Lestraráskorun
Þar sem skólarnir eru líklegast tiltölulega nýbyrjaðir er gott að taka lestraráskorun – heima. Lestraráskorunin getur verið allaveganna. Bara eins og hentar ykkar fjölskyldu. Einhverjum hentar kannski að búa til lestrarbingó og prófa þá að lesa á hinum og þessum stöðum eða við aðrar aðstæður en venjulega. Aðrar áskoranir geta verið þannig að barnið sjá vel hvað það hefur lesið mikið hingað til. Kannski eru jafnvel einhver verðlaun í boði eftir lestraráskorunina ef vel gengur.
Listaverk úr laufum
Þar sem laufin eru farin að falla á þessum árstíma og eru í alls kyns fallegum litum er tilvalið að fara út að safna nokkrum laufum og finna svo eitthvað sniðugt að gera úr þeim á t.d. Pinterest.
Lita myndir
Hvort sem þið prentið út litamyndir af netinu eða litið í litabók er það að lita saman alltaf skemmtilegt.
Ljósmyndabingó
Hægt er að finna alls kyns bingóspjöld á netinu fyrir ljósmyndabingó og svo er hægt að skella sér út og fara í bingóið.
Læra um önnur lönd
Ef áhugi er hjá krökkunum er hægt að fræðast um önnur lönd. Það er hægt að skoða fána landsins, þjóðsöng, menningu, hlusta á lög frá landinu, prófa uppskriftir að vinsælum réttum frá landinu og margt fleira.
Mála
Vatnslitir, fingramálning, þekjumálning eða annað. Það er gaman að mála myndir saman.
Mála kerti
Til þess að mála kerti þarf að nota sprittkerti sem „málningu“. Kveikt er á sprittkertunum, sem eru kannski í nokkrum litum. Síðan er hægt að nota pensil til að mála kertið með bráðnu vaxinu.
Mála steina
Hægt er að fara út í smá göngutúr og finna nokkra fína steina sem hægt er að mála svo.
Minningabók
Fyrir föndrara er gaman að búa til minningabók um haustið (e. scrapbook) til að muna eftir góðu tímunum.
Myndaratleikur
Hægt er að útbúa myndaratleik, annað hvort með krökkunum eða fyrir þá. Það eina sem þarf að gera er að labba um bæinn eða hverfið og taka myndir af skemmtilegum hlutum. Svo eiga þátttakendur að reyna að finna þessa hluti og taka sjálfu af sér/liðinu sínu með þessum sömu skemmtilegu hlutum.
Náttfatapartý
Hægt er að hafa náttfatapartý. Það er annað hvort hægt að gera það með bara fjölskyldunni eða bjóða vini/vinkonu barnanna með. Hvað gert er í náttfatapartýinu getur svo verið hvað sem ykkur dettur í hug – en það verða allir að vera í náttfötum.
Nornaseyði
Ímyndunarafl barnanna er mjög nytsamlegt þegar brugga á nornaseyði.
Nýr dans
Hægt er að fara á Youtube eða TikTok og læra nýjan dans með krökkunum.
Nýtt spil
Fyrir þau sem elska að spila getur verið gaman að læra nýtt spil. Hér eru nokkrar spilareglur.
Ný uppskrift
Hægt er að finna nýjar uppskriftir til að prófa á netinu eða í bókum.
Origami
Á Youtube er fjöldinn allur af leiðbeiningum fyrir origami. Líklega væri hægt að fá bækur um origami á bókasafninu líka.
París eða aðrir leikir með krít
Ef vel viðrar og ekki er rigning er hægt að fara út með krítar og teikna upp leiki eins og pógó og parís. Eins er hægt að búa til skemmtilegar þrautir.
Perla
Það er hægt að finna „uppskriftir“ að perli á netinu eða einfaldlega búa til eitthvað sjálf.
Pizzupartý
Hægt er að halda í pizzupartý!
Prjóna
Það er vel hægt að prjóna með krökkunum og ef maður kann ekki að prjóna er hægt að læra það á netinu í dag, t.d. hér.
Pumpkin Spice Latte
Í Pumpkin Spice Latte þarf alls ekkert að vera neitt kaffi. Það er vel hægt að búa til kakó- eða mjólkurútgáfu.
Puttastríð
Einn, tveir, þrír, puttastríð!
Púsla
Persónulega finnst mér púsl með góðum teiknuðum myndum, þar sem mikið er að gerast, skemmtilegust.
Pressa laufblöð
Það er ekki flókið að pressa laufblöð. Það sem þarf er eldhúspappír eða dagblöð. Laufin eru sett á milli tveggja blaða og þungur hlutur svo settur ofan á. Síðan þarf einfaldlega að bíða og leyfa laufblöðunum að þorna. Það tekur u.þ.b. viku eða lengur.
Raka lauf
Er garðurinn orðinn fullur af laufum? Farið út að raka og svo er ekki leiðilegt að hoppa á hrúgurnar á eftir.
Ratleikur
Það er hægt að búa til ratleik saman eða fyrir krakkana. Eins eru til tilbúnir ratleikir hjá nokkrum sveitarfélögum og á Turfhunt-appinu.
Réttir
Í september eru réttir víða um land og gaman er að kíkja með fjölskyldunni í þær.
Roald Dahl
13. september er afmælisdagur barnabókarithöfundarins Roalds Dahls. Roald Dahl skrifaði fjölmargar barnabækur m.a. Kalla og sælgætisgerðina (Charlie and the Chocolate Factory), Matthildi og Jóa og risaferskjuna. Margar bíómyndir hafa verið gerðar eftir bókunum hans. Þetta er því tilvalinn dagur til að kynna krökkunum fyrir sígildu myndinni um Mathildu eða prófa að lesa um Jóa og risaferkskjuna.
Safn
Á haustin er oft leiðilegt veður og þá er tilvalið að vera inni á safni að skoða alls konar merkilega hluti.
Safna laufum, könglum o.fl.
Á þessum árstíma er tilvalið að hafa út að finna skemmtileg laufblöð, köngla og fleira slíkt í skóginum.
Saftgerð
Hér eru leiðbeiningar við saftgerð.
Sauma
Ef það er til saumavél á heimilinu getur verið gaman að spreyta sig á því að sauma föt. Það er hægt að fá mjög góðar leiðbeiningar fyrir allt mögulegt á Youtube í dag ef maður kann ekki að sauma.
Sauma út
Hvort sem það er krosssaumur eða annars konar útsaumur er mjög notalegt að sitja uppi í sófa í vondu veðri og sauma. Hugmyndir og leiðbeiningar er auðvelt að finna á netinu nú til dags.
Sápugerð
Til þess að búa til sápu þarf vissulega ýmsa hluti sem fást ekki endilega í næstu matvörubúð en það er engu að síður mjög gaman að búa til sína eigin sápu.
Semja lag
Það geta allir samið lög!
Semja ljóð
Það geta líka allir samið ljóð og þau passa oft vel með lögunum.
Setja niður haustlauka
Á haustin er hægt að setja niður haustlauka sem munu svo koma upp næsta vor og gleðja okkur.
Skera út grasker eða mála það
Í október er hægt að fara að skera út eða mála grasker til að hafa sem skraut heima um Hrekkjavökuna. Ef graskerið er skorið út er gaman að setja kerti inn í það.
Skógarferð
Gaman er að gera sér ferð í næstu skógrækt með nesti og skoða fallegu haustlitina.
Skreyta húsið
Hægt er að búa til skraut eða kaupa til að skreyta húsið með haustskrauti eða hrekkjavökuskrauti.
Skrifa jólagjafalista
Þegar líða fer á haustið er hægt að fara að skrifa niður það sem mann langar til að fá í jólagjöf.
Skrifa sögu
Að skrifa haustsögu er skemmtilegt verkefni fyrir skapandi krakka.
Skutlur
Hægt er að búa til alls konar gerðir af skutlum. Eins er hægt að hafa skutlukeppni til að sjá hver kemst lengst.
Skynjunarleikur
Fyrir þau allra yngstu gæti verið gaman að búa til skynjunarleik með haustþema eða öðru þema sem tengist hátíðum haustsins.
Slímgerð
Það er ekki flókið að búa til slím og getur verið mjög gaman að gera það með krökkunum. Í tilefni árstíðarinnar er hægt að hafa það appelsínugult.
Smakka nýtt nammi
Þetta er góð hugmynd fyrir föstudags- eða laugardagskvöld með fjölskyldunni. Kaupa nokkrar tegundir af nýju nammi sem enginn hefur smakkað og smakka svo allar tegundirnar saman.
Snyrtivörugerð
Maskar, skrúbbar, baðbombur og fleira er hægt að búa til heima hjá sér og það getur verið mjög skemmtilegt.
Sokkabrúður
Ef til eru margir stakir sokkar á heimilinu gæti verið kominn tími til að draga fram nálar, tvinna og tölur til að búa til sokkabrúður.
Spilagaldrar
Hægt er að æfa sig í spilagöldrum og læra nýja á netinu og prófa þá svo á einhverjum.
Spilakvöld/spila
Fátt er skemmtilegra en spilakvöld með fjölskyldunni. En það þarf auðvitað ekki að gera þetta að kvöldi. Hvort sem það eru borðspil eða spilastokkur þá er alltaf hægt að grípa í spil. Á netinu er hægt að finna spilareglur að alls kyns spilum, svo ef áhugi er fyrir því að prófa eitthvað nýtt er það ekki vandamál í dag.
Spurningaleikur
Fjölskyldan eða einn úr fjölskyldunni getur búið til spurningaleik fyrir hina. Þetta geta verið alls konar spurningaleikir en kahoot stendur líka alveg fyrir sínu.
Stimplar
Hægt er að búa til stimpla úr t.d. laufblöðum og kartöflum.
Strætóferð
Þegar krakkarnir eru ungir er enn mjög spennandi að fara í strætó.
Sultugerð
Á haustin fáum við alls kyns ber og það getur verið gaman að læra að búa til sultu úr þeim.
Sumarbústaður
Þetta er að vísu ekki hægt að gera heima hjá sér eða í nágrenninu en þetta er engu að síður mjög haustlegt og skemmtilegt.
Sund
Held að sund þurfi ekki nánari útskýringar. Yfirleitt elska börn að fara í sund.
Söfnun
Haustið er frábær tími til að byrja að safna hlutum (t.d. könglum, laufblöðum) eða frímerkjum, servíettum, límmiðum eða öðru slíku.
Taka haustmyndir
Skellið ykkur út og takið myndir af fallegu litunum.
Taka til í fataskápum
Nú er góður árstími til að hreinsa til í fataskápunum.
Tefla
Góð æfing fyrir heilann og góð samverustund!
Teikna
Hægt er að teikna hvað sem er eða teikna eitthvað tengt haustinu eða hátíðum þess.
Telja á öðru tungumáli
Til gamans má læra að telja á öðru tungumáli, t.d. kóresku, arabísku, sænsku eða svahílí.
Tie-dye bolir
Með þó nokkrum undirbúningi og smá innkaupum er hægt að búa til flotta tie-dye bolli heima hjá sér.
Tilraunir
Tilraunir geta hentað börnum á öllum aldri, þær verða bara flóknari eftir því sem börnin stækka. Til eru þúsundir hugmynda að tilraunum fyrir börn á netinu.
Trölladeig
Hér er uppskrift að fínu trölladeigi.
Töfrabrögð
Hægt er að læra alls kyns töfrabrögð í bókum eða á netinu.
Undirbúa jólin
Þegar líður á haustið er hægt að fara að huga að jólaundirbúningnum.
Veiða
Með háf eða veiðistöng í farteskinu er hægt að fara að dorga eða veiða síli með háfi – allavega fyrrihluta haustsins.
Vera ferðamaður
Hægt er að fara dagsferð í nágrenninu og skoða alla helstu ferðamannastaði svæðisins nú þegar ekki er eins stappað á þeim.
Virki
Hægt er að byggja virki á haustin. Inni úr púðum og teppum eða úti ef búið er að snjóa.
Þrautabraut
Þrautabraut má útbúa inni eða úti.