Jónsmessan: hugmyndir að hefðum
Jónsmessa ber upp á 24. júní ár hvert. Hún er merkt á mörg íslensk dagatöl en ekki allir vita hvað þessi Jónsmessa er og af hverju hún er eitthvað sérstök.
En Jónsmessa er sem sagt fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Talið er að Jóhannes hafi skírt Jesús og það er vegna hans sem ýmsir kristnir söfnuðir skíra safnaðarmeðlimi sína. Það er ekki vitað hvenær Jóhannes fæddist og líklega eru ekki miklar líkur á að það hafi verið nákvæmlega 24. júní. Þessi dagur var að sjálfsögðu valinn þegar kristna átti Evrópu og Rómverjar héldu upp á 24. júní sem sumarsólstöðuhátíð (24. des var einmitt vetrarsólstöðuhátíð). Í Norður-Evrópu voru sólstöðuhátíðir einnig haldnar hátíðlegar um svipað leyti. Þar voru haldin mikil blót á þessum dögum. Þegar kristni var tekin upp yfirtóku Jónsmessa (og Jólin) gömlu sólstöðuhátíðirnar.
Á Íslandi var Jónsmessa líklega meiri hátíð í kaþólskum sið og Jónsmessa var reyndar helgidagur (og þá frídagur) þar til 1770. Í dag eru lítil sem engin hátíðarhöld tengd deginum, meira er um það í t.d. Svíþjóð og Finnlandi. Í þeim löndum eru haldnar miklar veislur, brennur og dansleikir sem tengdust oft yfirnáttúrulegum verum á borð við nornum, púkum og draugum. Það hefur ekki tíðkast hér, a.m.k. í ekki í seinni tíð. Við Íslendingar eigum þó nokkrar venjur og þjóðtrú tengda Jónsmessunótt.
Þjóðtrú tengd Jónsmessu
Jónsmessunótt hefur lengi verið álitin ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins hér á landi ásamt jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt. Allar þessar nætur eru nálægt sólhvörfum og eiga það sameiginlegt að þær þóttu góðar til útisetu á krossgötum, að kýr tali og að selir fari úr hömum sínum. Sú þjóðtrú er líka þekkt víða um Evrópu. Hjátrú sem er einungis tengd Jónsmessu er svo;
Döggin
Á Jónmessunótt átti fólk að velta sér nakið upp úr dögginni. Döggin átti að geta læknað kláða og fjöldan allan af öðrum húðmeinum. Helst átti að láta döggina þorna sjálfa á líkamanum. Margir láta það duga að setja dögg í andlit sitt eða ganga berfættir í henni.
Náttúrusteinar
Á Jónsmessunótt á að vera líklegra að finna náttúrusteina með töframátt en aðrar nætur ársins. Ýmsa töfrasteina má finna í náttúru Íslands, samkvæmt þjóðtrúnni. Lausnarsteinar eru steinar sem eiga að hjálpa konum við barnsburð og sömuleiðis kúm. Óskasteinar eða varnarsteinar geta hjálpað manni gegn illum öflum. Lífssteinar eiga að geta grætt sár og hulinhjálmssteinn veitir eiganda sínum hulinshjálm, gerir mann m.a.o. ósýnilegan.
Sumir staðir á Íslandi eru taldir líklegri til að geyma náttúrusteina með töframætti. Það eru t.d. Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi, Klakkur milli Kolgrafarfjarðar og Grundarfjarðar, Kofri við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi, Tindastóll í Skagafirði upp undan Glerhallavík og Baula í Borgarfirði. Á síðastnefnda fjallinu á að vera tjörn á tindinum og í henni óskasteinn. Steininn flýtur aðeins upp á Jónsmessunótt og sá sem nær steininum fær óskir sínar uppfylltar.
Grös og blóm
Jónsmessunótt þykir góð nótt til að tína ýmsar lækningajurtir s.s. lyfjagras, horblöðku, brennisóley og mjaðjurt. Eiga þessar jurtir að hafa lækningamátt og sumar mátti meira að segja nota til annars. Mjaðjurt var t.d. hæg t að nota til að vita hver hefði stolið af manni og með brönugrasi var hægt að vinna ástir einhvers.
Önnur hjátrú eða hefð tengd Jónsmessunni er að ógiftar konur eða stúlkur geti tínt sjö (eða níu) mismunandi blómategundir á Jónsmessunótt en það þarf þó að gerast í hljóði. Blómvöndurinn er svo settur undir koddann og um nóttina á þær að dreyma framtíðar maka sinn.
Hin Norðurlöndin
Á hinum Norðurlöndunum, og sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi, er Jónsmessan stór fjölskyldu- og sumarhátíð. Þar eru margar eru margar hefðir tengdar deginum (og nóttunni auðvitað). Öll löndin eiga það sameiginlegt að hafa brennu á Jónsmessunótt og fara í leiki. Í Danmörku eru pappírsnornir brenndar og lög sungin við brennuna.
Í Finnlandi er farið í miðsumarssauna, brennur haldnar og dansar dansaðir með fjölskyldu og vinum við maístöngina. Sveitarfélög hafa boðið upp á brennur og skemmtanir í seinni tíð. Hátíðarmatinn má ekki vanta og eru fiskréttir og kartöflur vinsælastar ásamt jarðarberjum.
Miðsumarshátíðin í Svíþjóð er nokkuð lík þeirri í Finnlandi, þar er dansað í kringum maístöngina, sem er stöng sem er skreytt með laufum, blómum og marglitum borðum. Farið er í leik eftir dansinn og algengt fyrir konur og börn að vera með blómakrans í hárínu. Í Svíþjóð er algengasti maturinn á þessum degi, síld, sýrður rjómi, graslaukur, kartöflur og jarðarber í eftirrétt. Kartöflurnar eru gjarnan bornar fram með dilli og snaps drukkið með matnum.
Að búa til Jónsmessuhefðir
Líklega verður Jónsmessa aldrei jafn stór hátíð hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Við getum hins vegar sjálf tekið það upp hjá okkur að halda aðeins upp á þennan dag með okkar nánustu fjölskyldu. Eins og áður hefur komið fram hér á Heimilisvefnum þá þurfum við að muna að það erum við sem sköpum minningar og búum til hefðir fyrir næstu kynslóð. Ef við búum eitthvað til úr Jónsmessunni verður hún sérstök fyrir börnunum okkar.
Auðvitað má Jónsmessan vera jafn stór eða lítil og fólk vill en það er margt sem er hægt að gera með fjölskyldunni á þessum degi og nóttina áður. Af íslenskum hefðum er auðvelt að;
- Velta sér upp úr dögginni eða a.m.k. labba um berfættur í henni.
- Tína sjö eða níu blómategundir og setja undir koddann hjá sér og fá þá að sjá væntanlega maka í draumi.
- Leita að óskasteinum, sem á að vera auðveldara þessa nótt en aðrar. Hugsanlega er hægt að fara í fjallgöngu þetta kvöld til að reyna að leita að steinum á fjöllum.
Af siðum og hefðum hinna Norðurlandanna er hægt að;
- Brenna pappírsnornir að hætti Dana.
- Fara í sauna að hætti Finna eða gufubað.
- Búa til blómakrans til að hafa á hausnum.
- Fara í skemmtilega leiki úti.
- Borða góðan fiskrétt með kartöflum og jarðarber með rjóma í eftirrétt.
- Ef maður vill fara “all in” þá er hægt að hafa brennu eða varðeld og syngja nokkur lög. Athugið að óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns, skv. 21. gr. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en 1 m³ af efni. Sjá hér.