Kínaskák
Nú þegar mörg eru komin í sumarfrí er vel við hæfi að birta skemmtilegar spilareglur. Kínaskák er tilvalið spil fyrir útileguna eða sumarbústaðinn í sumar en hentar sennilega frekar eldri börnum, unglingum og fullorðnum. Þetta er virkilega skemmtilegt spil sem hentar allt að sex leikmönnum.
Spilastokkur
Tveir stokkar fyrir 2-4 leikmenn, þrír stokkar fyrir 5-6 leikmenn. Tveir jókerar eru hafðir með hverjum stokk.
Markmið
Að losa sig við öll spil af hendi í hverri umferð og fá þar með sem fæst stig eftir átta umferðir.
Gjöf
Hver leikmaður fær þrettán spil eftir að stokkarnir hafa verið vel stokkaðir. Hefð er fyrir því að gefa aðeins eitt spil í einu. Restin af bunkanum er lagður í grúfu á mitt spilaborðið og hefsta spilinu snúið við og sett í kastbunkann við hliðina á spilabunkanum.
Reglur og gangur leiksins:
Alls eru spilaðar átta umferðir í spilinu. Í hverri umferð safna leikmenn þrennum og/eða röðum sem þeir leggja niður á borðið til að losa sig við spil. Röð inniheldur a.m.k. fjögur spil af sömu sort og ás getur verið bæði hæstur eða lægstur (Dæmi: H3, H4, H5 og H6). Ætli leikmaður sér að safna fleiri en einni röð verða þær að vera af sitt hvorri sortinni. Þrenna inniheldur a.m.k. þrjú eins spil, sem þurfa þó ekki að vera af sömu sort, t.d. þrjár áttur eða fimm tíur.
Í hverri umferð eru ákveðin markmið sem þarf leikmaður þarf að uppfylla til að hann megi leggja spil niður á borðið þegar röðin kemur að honum. Eftir að leikmaður hefur lagt spil niður má hann leggja spil við raðir og þrennur hinna leikmannanna. Ef leikmaður setur niður jóker getur annar leikmaður stolið honum með því að skipta honum út fyrir rétta spilinu. Það er þó aðeins hægt að stela jókerum sé leikmaðurinn sjálfur búinn að setja spil á borðið.
Til þess að safna spilum í raðir og þrennur þurfa leikmenn að skiptast á að draga eitt spil og henda öðru. Hægt er að draga spil úr bunkanum á miðju spilaborðsins eða úr kastbunkanum. Hafi leikmaðurinn sem er að gera ekki áhuga á efsta spili kastbunkans mega aðrir leikmenn „kaupa“ spilið og kalla þá „kaupi“. Sá sem „keypti“ spilið tekur þá spilið en dregur einnig efsta spilið í spilabunkanum en hendir engu út í staðinn. Aðeins má kaupa þrisvar í hverri umferð (því er alls hægt að vera með 19 spil á hendi). Fyrstur kemur, fyrstur fær gildir um kaup. Komi upp ágreiningur um hver það var sem má „kaupa“ spilið er dregið um það. Í áttundu umferð er ekki í boði að „kaupa“.
Umferðir
Í hverri umferð er unnið að ákveðnu markmiði. Markmiðin eru þessi:
- Röð og þrenna
- Tvær þrennur
- Tvær raðir
- Tvær þrennur og ein röð
- Tvær raðir og ein þrenna
- Þrjár þrennur
- Þrjár raðir
- Tvær raðir og tvær þrennur
Í lokaumferðinni þarf leikmaður að nota öll þrettán spilin sín auk eins sem dregið er úr bunka til að loka.
Lok umferða og stigagjöf
Umferð lýkur þegar einhver leikmannanna hefur klárað öll spilin sín og lokað. Allir aðrir leikmenn fá þó að gera einu sinni enn til að fá tækifæri til að losa sig við fleiri spil. Þegar það er búið hefst talning stiga. Leikmaðurinn sem lokaði umferðinni fær engin stig en hinir leikmennirnir fá stig eftir því hvaða spil þeir hafa á hendi. Stigin eru eftirfarandi:
Jóker = 20 stig
Ás = 15 stig
9, 10 og mannspil = 10 stig
2-8 = 5 stig
Dæmi: Jóna endar með þrjú spil á hendi, kóng, tíu og ás. Hún endar því með 10+10+15= 35 stig þessa umferðina.
Sá leikmaður sem hefur fæst stig fengið eftir allar átta umferðirnar vinnur spilið!
Hér eru svo fleiri spilareglur fyrir spilaóða leikmenn!