Leikir í barnaafmæli

Þegar halda á barnaafmæli er oft sniðugt að vera búin að undirbúa einhverja leiki, sérstaklega ef afmælið á að vera í heimahúsi. Leikirnir þurfa að taka mið af þroska afmælisbarnsins og gestanna en vera um leið skemmtilegir. Leikir hjálpa mikið til við að halda afmælisgestunum uppteknum og passa að allt fari ekki úr böndunum. Hér eru nokkrar hugmyndir að leikjum sem hægt er að framkvæma í innandyra heimahúsi.

1. Stóladans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: Jafn margir stólar og þátttakendur og góð tónlist

Stólunum er raðað upp í lengju með bökin saman. Stjórnandi leiksins tekur einn stólinn burt og setur tónlistina í gang. Þátttakendur ganga í kringum stólana þar til tónlistin stoppar. Þegar tónlistin stoppar eiga þátttakendur að reyna að fá sér sæti en vegna þess að búið er að fjarlægja einn stól verður einn útundan. Hann er úr leik. Stjórnandi leiksins tekur þá annan stól burt og setur tónlistina í gang. Þannig gengur þetta koll af kolli þar til aðeins einn stóll er eftir. Sá er sigurvegari sem nær að setjast á þennan eina stól sem er eftir þegar tónlistin hættir í síðasta sinn.

Mynd: Hamid Roshaan
Mynd: Hamid Roshaan
2. Stoppdans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: tónlist

Stoppdans virkar þannig að þátttakendur dansa á meðan tónlistin hljómar en þurfa að stoppa um leið og tónlistin þagnar. Ef einhver þátttakendanna hreyfir sig eftir að tónlistin hefur verið stoppuð er hann úr leik. Svo fer tónlistin aftur í gang og er stoppuð aftur skömmu síðar. Þeir sem hreyfa sig eru úr leik og þannig gengur þetta koll af kolli. Leikinn er hægt að spila í ákveðinn tíma eða þar til einhver einn stendur uppi sem sigurvegari.

3. Setudans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: tónlist

Setudans er mjög líkur stoppdansi nema að þegar tónlistin þagnar eiga allir þátttakendur að setjast á gólfið. Sá sem er síðastur til að setjast er úr leik. Leikurinn gengur þannig þar til aðeins einn keppandi er eftir.

4. Pakkaleikur

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: glaðningur sem hefur verið pakkað inn í mörg lög af pappír og tónlist

Til eru margar útgáfur af pakkaleikjum. Einfaldasta og algengasta útgáfan er þannnig að pakkinn gengur á milli þátttakenda á meðan tónlistin er spiluð. Þegar tónlistin stoppar má sá sem hélt á pakkanum reyna að opna hann. Þegar tónlistin fer aftur í gang heldur pakkinn áfram hringinn og þegar tónlistin stoppar aftur fær þátttakandinn að reyna að opna pakkann. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einhver þátttakendanna nær að opna pakkann og fá þá glaðninginn.

Mynd: Victoria Rodriguez
Mynd: Victoria Rodriguez
5. Pakkaleikur með teningi

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: pakki með  mörgum lögum af pappír, teningur og vettlingar eða ofnhanskar

Pakkaleikur með teningi er líkur hefðbundnum pakkaleik en ekki er notuð tónlist í þetta sinn heldur teningur og vettlingar. Pakkinn er hafður í miðjunni til að byrja með og teningi er kastað til skiptis af þátttakendum. Um leið og einhver þátttakendanna fær sexu hefst leikurinn fyrir alvöru. Þátttakandinn sem fékk sexuna lætur næsta þátttakenda hafa teninginn og tekur pakkann, setur á sig vettlinga eða ofnhanska og reynir að opna eins mörg lög af pappír og hann getur á meðan næsti þátttakandi kastar teningnum eins oft og hann getur þar til hann fær sexu. Þá lætur þátttakandinn með pakkann þann sem kastaði sexunni fá pakkann og hann reynir að opna eins mikið af pakkanum og hann getur með vettlinga á höndunum. Næsti leikmaður er þá byrjaður að kasta teningnum. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einhverjum tekst að opna pakkann og fá þá glaðninginn.

Mynd: Sirio
Mynd: Sirio
6. Söguleikur

Fjöldi þátttakenda: 3-20

Áhöld: miðar og skriffæri fyrir alla þátttakendur

Söguleikurinn gengur þannig fyrir sig að allir þátttakendur leiksins fá einn eða fleiri miða og eiga að skrifa eitt nafnorð (t.d. Ragga, skæri, sól, bak, kind) á miðann (það má líka ákveða að hafa t.d. sagnorð). Miðarnir eru svo brotnir saman og settir í eitthvað ílát eða poka. Sögumaðurinn byrjar þá að búa til sögu en stoppar söguna reglulega og dregur miða með orði og fléttar orðið inn í söguna. Dæmi: Einu sinni var … (miði dreginn) þvottavél… og hún hét … (miði dreginn)… Sól. Þannig gengur sagan áfram þar til allir  miðarnir eru búnir og úr þessu kemur vonandi skemmtileg og fyndin saga.

7. Spurningaleikir

Það er gaman að hafa spurningaleiki í afmælum og þeir geta verið alls konar og sérsniðnir að aldri og þörfum hópsins. Kahoot er mjög auðveldur og aðgengilegur leikur fyrir flesta (ef börnin/unglingarnir eiga síma). Ef símar eru ekki til staðar er hægt að hafa hefðbundinn “pub quiz” leik þar sem spyrillinn spyr og þátttakendur skrifa svarið niður á blað. Passið bara að hafa spurningarnar ekki of erfiðar en þær geta verið nánast um hvað sem er.

8. Hver er undir teppinu?

Fjöldi þátttakenda: 6-20

Áhöld: teppi

Hver er undir teppinu? er einfaldur leikur fyrir yngri börn. Þátttakendur setjast í hring og sá sem er hann fer fram. Á meðan ákveður stjórnandinn hver á að fara undir teppið. Þegar sá sem er hann kemur aftur inn á hann að giska hver það er sem er undir teppinu. Þegar fattast hefur hver er undir teppinu fær sá sem var undir teppinu að vera hann næst. Leik er lokið þegar allilr hafa fengið að prófa að fara undir teppið og vera hann.

Mynd: Hossein Azarbad
Mynd: Hossein Azarbad
9. Í grænni lautu

Fjöldi þátttakenda: 5-20

Áhöld: hringur

Hér er annar sígildur og einfaldur leikur fyrir börn frá 4 ára aldri. Leikurinn er þannig að einn er hann og sá grúfir sig í miðjum hringnum. Hringur er látinn í lóf eins þátttakandans í hringnum og síðan leiðast þátttakendur og ganga í hring á meðan þessi vísa er sungin: Í grænni lautu þar geymi ég hringinn, sem mér var gefinn og hvar er hann nú, sem mér var gefinn og hvar er hann nú? Þegar söngnum lýkur stendur sá sem er hann upp og þátttakendurnir rétta fram kreppta hnefa eins og ef þeir væru með hringinn. Sá sem er hann fær þá þrjár tilraunir til að finna út hver er með hringinn í lófa sínum. Ef hann finnur ekki hringinn grúfir hann aftur, en í næsta skipti eru hendurnar hafðar fyrir aftan bak sem slegið var á í fyrra skiptið.

Mynd: Hamid Roshaan
Mynd: Hamid Roshaan
10. Flöskustútur

Fjöldi þátttakenda: 4-20

Áhöld: flaska

Þátttakendur raða sér í hring sitjandi á gólfinu og einn byrjar að vera hann. Sá sem er hann byrjar á að segja: Sá sem flöskustútur lendir á… og svo eitthvað sem sá sem flöskustútur lendir á að gera eins og t.d. að hoppa fimm sinnum á einum fæti eða fara í kollhnís eða hvað sem honum dettur í hug. Síðan snýr þátttakandinn flöskunni og sá sem flaskan bendir þegar hún stoppar þarf að gera það sem átti að gera. Sá þátttakandi fær svo að gera næst.

11. Bingó

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: bingóspjöld o.fl.

Bingó er alltaf skemmtilegt að fara í og hægt er að prenta út bingóspjöld af netinu ef maður á ekki bingóspjöld og það sem þarf. Það er ekki nauðsynlegt að hafa verðlaun, þó það sé alveg skemmtilegt. Verðlaunin geta líka verið þau að fá að vera stjórnandinn í næsta leik.

12. Að fela hlut

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: einhver hlutur (t.d. spil úr spilastokki, lítil bók, leikfang)

Einn úr hópnum byrjar að fela hlutinn sem ákveðinn er. Hinir þátttakendurnir fara fram á meðan. Hlutinn er best að fela þannig að það sjáist örlítið í hann. Sá sem faldi segir hinum hvort hluturinn sé falinn hátt (fugl), lágt (fiskur) eða einhvers staðar þar á milli (kisa). Svo hefst leitin og sá sem finnur hlutinn fær að fela næst. Þannig gengur þetta koll af kolli. Það er einnig hægt að leika þennan leik þannig að þátttakendur fá að vita hvort þeir séu heitir eða kaldir eftir því hversu nálægt hlutnum þeir eru eða gefa aðrar vísbendingar.

cake, candles, birthday cake-947438.jpg
13. Feluleikur

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: engin

Feluleik þarf varla að útskýra fyrir neinum en gaman getur verið að fara í feluleik með öllum í afmælinu. Hægt er að fara í feluleik inni jafnt sem úti.