Madesu - baunaréttur frá Kongó
Hér kemur uppskrift að vegan baunarétti frá Kongó. Nafnið þýðir einfaldlega baunir á lingala og rétturinn er borðaður víða í mið-Afríku. Stundum er kjöti eða fiski bætt út í en það er ekki nauðsynlegt, rétturinn bragðast dásamlega einn og sér og það er tilvalið að elda hann þegar kólna fer í veðri.
Það getur verið vandasamt að fá pálmaolíu en hún fæst í öllum afrískum verslunum og í Fisku. Ef olían fæst ekki á þínu svæði er vel hægt að nota venjulega matarolíu.
1 laukur, saxaður
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
3 vorlaukar, sneiddir
1 dós hakkaðir tómatar
1 tsk chilimauk
2 lárviðarlauf
1 tsk kóríanderduft
500 g blandaðar baunir í dós
2 grænmetisteningar
1/4 tsk múskat
1 lúka blandaðar kryddjurtir (ég notaði steinselju og kóríander)
rauð pálmaolía (eða matarolía)
salt (ef þarf)
1. Byrjið á að skera niður grænmetið og hafa það tilbúið.
2. Hitið olíu á pönnu og steikið lauk, hvítlauk og vorlauk í nokkrar mínútur.
3. Bætið við tómötum, lárviðarlaufum og chilimauki og látið malla í 10-15 mínútur.
4. Setjið kóríanderduft, baunir, grænmetisteninga, múskat og kryddjurtir út á pönnuna og hrærið vel.
5. Bætið við 2 dl af vatni, hrærið og leyfið svo sósunni að þykkna aftur í 15-20 mínútur.
6. Smakkið til með salti ef þarf og berið fram með hrísgrjónum.
Þennan bragðmikla rétt er vel hægt að frysta og borða síðar. Rétturinn versnar síður en svo við upphitun, eins og á við um marga pottrétti.