Kvöldmatur

Það að finna út hvað á að vera í kvöldmatinn getur oft reynst heimilisfólkinu erfið þraut. Enginn veit hvað á að hafa í matinn og allir farnir að verða svangir. Eitt af heimilisfólkinu fer í búðina og kemur heim með negulnagla og súrsíld. Flestir kannast sjálfsagt við þetta vandamál en það eru til lausnir við þessu. Ein af algengustu og einföldustu lausnunum við því að finna hvað er á að vera í matinn er að búa til matseðil. Það þarf þó smá skipulagningu með dálitlum fyrirvara.

Matseðlagerð 

Til þess að gera matseðil þarf fyrst að ákveða hversu langt í tímann maður ætlar að skipuleggja. Sum vilja ekki skipuleggja lengra en viku fram í tímann. Önnur vilja skipuleggja allan mánuðinn. Sama hversu langt fram í tímann þú ætlar að skipuleggja eru hér nokkur góð ráð sem geta hjálpað til við gerð matseðilsins:

  • Á sumum heimilum þarf að gera ráð fyrir að afgangar safnist upp. Því getur verið gott að hafa einn dag í viku þar sem afgangar eru borðaðir. Ef afgangarnir duga ekki alveg má bæta við t.d. skyri eða einfaldri súpu og verður það þá í rauninni margrétta máltíð.
  • Gott er að búa til sjónrænt skipulag, annað hvort að búa það til í tölvu og prenta út eða teikna það á blað. Hér eru slík blöð tilbúin til útprentunar: Matseðill – vikur og Matseðill – mánuður.

  • Fyrir sumar fjölskyldur þarf að gera ráð fyrir einum eða fleirum dögum þar sem fjölskyldan borðar ekki heima. Þetta á við um fjölskyldur sem fara mikið í mat annað eða út að borða. Þá er betra að skipuleggja færri máltíðir í viku.

  • Gott er að skipuleggja dag þar sem eldað er úr hráefni, sem hefur safnast upp eftir eldamennskuna hina dagana, og fer að skemmast. Það fer eftir því hvað hefur safnast upp hvað er hægt að gera en oft er hægt að búa til salöt, samlokur eða súpur úr því sem er til í ísskápnum. 
  • Öll fjölskyldan getur tekið þátt í matseðlagerðinni. Ef börn eru á heimilinu geta þau fengið að velja hvað er í matinn einn og einn dag. 
  • Það getur verið gott að eiga til lista af vinsælum réttum sem hægt er að grípa í ef allt heimilisfólkið er hugmyndasnautt.
  • Það er tilvalið að nýta rykföllnu matreiðslubækurnar við matseðlagerðina og prófa nýja rétti úr þeim af og til. Það gerist nefnilega oft að maður fer að elda það sama aftur og aftur. En flestir eru til í tilbreytingar endrum og sinnum.
Á Heimilisvefnum eru nokkur verkfæri sem geta hjálpað þér við matseðlagerðina:

Kvöldmatarhugmyndir

Nokkrar hugmyndir að réttum til að hafa í kvöldmatinn. 

Hvað á ég að hafa í matinn?

     Síðan velur hvað þú átt að hafa í matinn. 

Uppskriftasmiðurinn

Kemur með handahófskenndar tillögur að hráefni í rétti.

Salatsmiðurinn

Eins og uppskriftasmiðurinn nema kemur með tillögur að hráefnum í salat.

Þegar matseðillinn er tilbúinn þarf svo bara að gera innkaupalista og skella sér út í búð eða panta vörurnar á netinu.