Mjög einföld spil fyrir ung börn

Spil er kannski full stórt til orða tekið. Þetta eru kannski frekar leikir með spilastokki fyrir ung börn heldur en eiginleg spil. Leikirnir henta börnum sem eru svona tveggja til þriggja ára. Þeir eru einfaldir og skemmtilegir fyrir þennan aldurshóp, sem er ekki alveg farinn að spila spil ennþá en eru kannski áhugasöm um spil. 

Leikirnir geta æft börnin í að þekkja spilin, ekki endilega tölurnar þó, heldur sortirnar og litina. Þetta ætti að undirbúa þau vel undir að spila alvöru spil þegar þau eru orðin aðeins eldri.

Auðvitað er þetta svo bara fínasta skemmtun fyrir þau og góð afþreying.

Athugað að það getur verið gott að nota spilastokk sem má eyðileggjast þegar um svona ung börn er að ræða. 

Flokkun

Flokkun er einfaldur leikur þar sem markmiðið er að flokka spilin eftir litum. Barnið fær 10-15 spil og á að flokka þau eftir því hvort þau eru rauð eða svört. Sjá myndina hér fyrir neðan.

Para saman

Til þess að spila para saman þarf að finna til 6-8 pör af mismunandi sortum (hjarta, spaði, tígull, lauf). Spilunum er raðað á hvolf á borð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Barnið getur svo flett tveimur spilum í einu og reynt að finna spil sem passa saman, t.d. tvo tígla eða tvö hjörtu. Spilið er nokkurn veginn eins og minnisspil en aðeins auðveldara og ekki með ströngum reglum. 

 

Giska og flokka

Í þessum leik eru spilin í hrúgu á hvolfi á borðinu og barnið dregur eitt spil í einu og giskar á hvort það komi svart eða rautt spil. Svörtu og rauðu spilin mega svo fara í hvor sinn bunkann, sama hvort giskað var rétt á eða ekki. 

Tína

Klassískt spil sem flest okkar þekkja en spila sennilega sem sjaldnast. 

Í Tínu er bunkanum hent á borðið eða gólfið og svo þarf einfaldlega að tína upp spilin. 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *