Mömmukökuostakaka
Mömmukökuunnendur þessa lands ættu ekki að láta þessa djúsí ostaköku fram hjá sér fara. Hér eru mömmukökur komnar í ostakökubúning og þetta gæti verið flottur eftirréttur um jólin eða í jólaboðið.
Botn
200 g mömmukökur án krems
85 g smjör
Fylling
200 g mascarponeostur
250 g vanilluskyr
100 g flórsykur
2 dl rjómi
4 matarlímsblöð
1 tsk vanillusykur
Sósa
75 g rjómatöggur
2-3 msk rjómi
Til skrauts
Rjómi
Litlar mömmukökur
1. Byrjið á að stilla ofninn á 170°C og blástur.
2. Takið fram 20 cm smelluform og setjið bökunarpappír í botninn.
3. Myljið mömmukökur án krems í matvinnsluvél og bræðið smjör. Blandið saman og hellið í smelluformið.
4. Þjappið mömmukökumylsnunum í botninn og til hliðanna á forminu.
5. Bakið í ofni í 10 mínútur og kælið síðan.
6. Á meðan er hægt að byrja á fyllingunni með því að setja mascarponeost í skál og þeytið þangað til osturinn mýkist.
7. Bætið síðan við vanilluskyri, flórsykri og vanillusykri út í og þeytið saman þar til engir kekkir eru eftir.
8. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni.
9. Þeytið rjómann þar til hann er nokkuð mikið þeyttur og blandið honum svo varlega út í skyrblönduna.
10. Setjið 3-4 msk af vatni í lítinn pott og hitið. Kreistið vatnið úr matarlímsblöðunum og setjið út í pottinn með vatninu. Hrærið þangað til þau bráðna.
11. Bætið við vænni skeið af ostakökufyllingunni út í matarlími og takið pottinn af hitanum. Hrærið vel og bætið svo öllu út í restina af fyllingunni og hrærið mjög vel.
12. Takið botninn fram og hellið fyllingunni ofan í hann. Setjið kökuna aftur í ísskápinn og kælið í minnst 4 klst, helst yfir nótt.
13. Ekki löngu áður en kakan verður borin fram er hægt að byrja á karamellunni. Til að gera hana þarf einfaldlega að setja rjómatöggur og rjóma í pott og hita á miðlungs hita þar til karamellurnar hafa bráðnað alveg út í rjómann.
14. Dreifið karamellunni yfir kökuna.
15. Þeytið 1-2 dl af rjóma og skreytið kökuna með honum ásamt litlum mömmukökum.