Seinni undanúrslit Eurovision 2023

Nú er minna en vika í að Diljá, fulltrúi Íslands í Eurovision í ár, stígi á svið í Liverpool þann 11. maí. Við hér á Heimilisvefnum erum handviss um að hún eigi eftir að fljúga í úrslitin með þessu frábæra lagi. 
Flestir landsmenn munu að öllum líkindum setjast niður við sjónvarpið þetta kvöld og horfa á Ísland keppa. Til að gera kvöldið enn betra og skemmtilegra væri gaman að bjóða upp á veitingar frá löndunum sem eru að keppa þetta kvöld. En eins og í áður útgefinni færslu Heimilisvefsins um fyrra undanúrslitakvöldið verða hér upp taldar veitingar sem þarfnast lítils undirbúnings, eitthvað sem hægt er að kaupa í næstu verslun. 

  • Danmörk: Dagana 4.-14. maí eru einmitt danskir dagar í Hagkaup, þar ætti að vera hægt að finna fullt í Eurovisionpartýið. Annars er Owl-snakkið danskt og sömuleiðis Kim’s og Gestus-vörumerkin. Cocio-kókómjólkin er framleidd í Esbjerg í Danmörku og svo er ekki erfitt að kaupa eða búa til einfalt smurbrauð.
  • Rúmenía og Albanía: Ef fólk hefur tök á að kíkja á Istanbul market gæti verið til eitthvað af snakki, nammi og öðrum vörum frá löndunum á Balkanskaga.
  • Belgía: Belgar fundu upp á frönskum og því er við hæfi að bjóða upp á slíkt en þar eru þær alltaf borðaðar með mæjónesi. Belgar eru líka frægir fyrir belgískar vöfflur og súkkulaði. Af belgísku súkkulaði má nefna Godiva, Guylian, Cavalier (sykurlaust) og Cote d’Or vörumerkin. Cote d’Or er fyrirtækið sem framleiðir fílakaramellur, sem allir Íslendingar ættu að þekkja.
  • Kýpur: Halloumi-ostur (kallast grillostur hjá MS), ólífur og pítubrauð.
  • Ísland: snakk og nammi í næstu búð?
  • Grikkland: Fetaostur, ólífur og pítubrauð. Baklava er líka vinsæl þar (og reyndar í mörgum löndum á Balkanskaga), hana er hægt að fá í miðausturlenskum búðum. 
  • Pólland: Prins póló og svo er til fullt í næstu pólsku verslun. Endilega prófið eitthvað nýtt og skemmtilegt. 
  • Austurríki: Eins og Mozart var sjálfur, eru mozartkúlur frá Austurríki og Red Bull líka. Það ætti að halda öllum vakandi fram yfir úrslit! (Red Bull er samt auðvitað bara fyrir fullorðna)

Til að gera áhorfið enn meira spennandi og skemmtilegt er hægt að prenta út þetta stigablað hér fyrir neðan. Á blaðinu er hægt að gefa hverju atriði fyrir sig stig fyrir flutning, lag og atriði. Stigin geta verið í Eurovision-stíl, frá 1-8, 10 eða 12 stig eða eins og hver vill. Með þessu er hugsanlega hægt að spá fyrir um hvaða lönd komast áfram. Það er einnig hægt að leggja saman stig allra áhorfendanna í stofunni og sjá hvort að það sé betri spá.

Góða skemmtun og gleðilega Eurovisionhátíð!