Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Norðurlandi

Þegar maí fer senn að ljúka heldur Heimilisvefurinn áfram ferð sinni um tjaldsvæði landsins og erum við nú stödd á Norðurlandi. Tjaldsvæðin voru valin eftir því hversu mikil skemmtun og afþreying er fyrir börnin í allra næsta nágrenni, helst á eða alveg við tjaldsvæðið sjálft (þó stundum séu gerðar smá undantekningar). 

 

Hér eru þau tjaldsvæði á Norðurlandi sem okkur á Heimilisvefnum þótti hljóma mest spennandi fyrir fjölskyldur fyrir komandi útilegur í sumar.  Þetta eru tjaldsvæði sem eru t.d. nálægt sundlaugum og skólum, tjaldsvæði sem hafa eitthvað alveg einstakt í næsta nágrenni við sig eða bjóða jafnvel upp á dagskrá.

12. Tjaldsvæðið á Sauðárkróki

Við hlið Sundlaugar Sauðárkróks er að finna ágætis tjaldsvæði með ærlsabelg fyrir krakkana. Stutt í alla helstu þjónustu.

11. Tjaldsvæðið á Raufarhöfn

Tjaldsvæðið á Raufarhöfn er vel staðsett hvað varðar afþreyingu, alveg upp við sundlaugina og grunnskólann. Þar að auki er tjörn alveg við tjaldsvæðið.

freysteinn-g-jonsson-6AXFYOOtY3k-unsplash
Grenivík

10. Tjaldsvæðið á Grenivík

Á Grenivík er tjaldsvæðið staðsett alveg við sundlaugina og grunnskólann og því er mjög stutt í sund og á góðan leikvöll.

9. Tjaldsvæðið á Hauganesi

Á tjaldsvæðinu á Hauganesi er fínasta aðstaða og þar er stutt í leikvöll fyrir krakkana með nýjum leiktækjum og í fallega sandfjöru með heitum pottum og sturtuaðstöðu.

8. Tjaldsvæðið í Varmahlíð

Tjaldsvæðið í Varmahlíð er gróið og fín svæði með ærslabelg fyrir krakkana. Í 250 metra fjarlægð er sundlaug og grunnskóli svo það er stutt að fara í sund og á góðan leikvöll.

7. Tjaldsvæðið á Dalvík

Á Dalvík er ágætis tjaldsvæði sem er staðsett við hlið sundlaugarinnar og grunnskólans í bænum. Þar er því góður leikvöllur og stutt í útisundlaug með rennibraut.

freysteinn-g-jonsson-DvXzEvyFI8Q-unsplash
freysteinn-g-jonsson-0AJy9qPFhZc-unsplash

6. Tjaldsvæðið á Hrafnagili

Tjaldsvæðið Hrafnagili er mjög fjölskylduvænt tjaldsvæði og þar er leiksvæði fyri rbörnin við grunnskólann og góð útisundlaug með rennibraut.

5. Tjaldsvæðið á Hofsósi

Tjaldsvæðið á Hofsósi er ágætis tjaldsvæði sem er staðsett við hlið grunnskóla bæjarins og því er stutt á skemmtilegan leikvöll. Einnig er mjög stutt í eina glæsilegustu sundlaug landsins.

Hofsós_(36844196201)
Gamla_bogabrúin_á_Fnjóská_og_Vaglaskógur

4. Tjaldsvæðið í Vaglaskógi

Tjaldsvæðið í Vaglaskógi skiptist í fimm mismunandi svæði. Á stærsta svæðinu, Hróarsstaðanesi, er mjög skemmtilegt leiksvæði fyrir börn þar sem m.a. er ærslabelgur og klifurpýramídi. Skógurinn sjálfur er svo ævintýri út af fyrir sig og auðvelt er að fara í skógarferðir vítt og breitt um Vaglaskóg af tjaldsvæðinu. Hægt er að fá göngustígakort hjá starfsfólki. Einnig verður að minnast á Tjaldsvæðið Systragil sem er skammt frá. Þar eru einnig leiktæki fyrir börn og stutt í skógarferðir í Vaglaskógi.

3. Tjaldsvæðið Ólafsfirði

Tjaldsvæðið í Ólafsfirði hefur allt sem þarf fyrir fjölskyldur. Á tjaldsvæðinu sjálfu er ærslabelgur fyrir krakkana. Sundlaug bæjarins er alveg við tjaldsvæðið og þar er ein stærri rennibraut og ein lítil fyrir yngri börnin. Grunnskóli Fjallabyggðar stendur þar rétt hjá og þar er fín skólalóð. Það sem gerir tjaldsvæðið mjög skemmtilegt er tjörnin, en þar er hægt að reyna að veiða síli eða gefa fuglunum brauð. Eini skíðastökkpallur landsins er einnig að finna fyrir ofan tjaldsvæðið.

Tjaldsvæðið Óló

2. Tjaldsvæðið Ásbyrgi

Tjaldsvæðið í þessari náttúruperlu er spennandi fyrir fjölskyldur því þar er í fyrsta lagi stutt í gríðarlega fallega náttúru. Það er leikvöllur á svæðinu og fjölbreytt dagskrá á sumrin, t.d. barnastundir, kvöldgöngur og varðeldur um verslunarmannahelgina.

1. Tjaldsvæðið Hömrum við Kjarnaskóg

Eitt glæsilegasta tjaldsvæði landsins er án efa á Hömrum við Kjarnaskóg. Fyrir utan mjög spennandi leiksvæði fyrir börn er einnig minigolfvöllur á svæðinu, þrjár mismunandi tjarnir, ein þar sem í boði er að leigja báta og róa á tjörninni, önnur sem er grunn tjörn til að vaða í og þar er líka þraut sem hægt er að spreyta sig á, í þriðju tjörninni eru leiktæki og rennibraut, risa fótboltaspil og frisbígolfvöllur. Auðvitað er svo skógur allt í kring og hægt að fara í alls kyns skemmtilegar gönguferðir frá tjaldsvæðinu.

Akureyri-12-Zentrum-2018-gje