Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Suðurlandi

Á Suðurlandi er margt hægt að gera og skoða með krökkunum. Suðurlandið á margar af helstu náttúruperlum Íslands og þangað sækja ansi margir ferðamenn sem koma hingað til lands. Það er virkilega gaman að ferðast um Suðurlandið og ekki verra að gista á flottu tjaldsvæðunum þar. 

 

Hér er listinn sem Heimilisvefurinn tók saman af mest spennandi tjaldsvæðunum fyrir fjölskyldur með börn fyrir komandi útilegur í sumar. Til þess að komast á listann þarf að vera afþreying fyrir börn á eða alveg við tjaldsvæðið. Þetta eru t.d. tjaldsvæði sem eru til dæmis nálægt sundlaugum og skólum eða tjaldsvæði sem hafa eitthvað sérlega spennandi fyrir krakkana að dunda eða leika með.

Mynd: Freysteinn G. Jónsson
Mynd: Freysteinn G. Jónsson

14. Tjaldsvæðið á Eyrarbakka

Tjaldsvæðið á Eyrarbakka er staðsett nálægt fjörunni og því er auðvelt að fara í fjöruferð. Þar er leikvöllur fyrir krakkana og góðar gönguleiðir.

13. Tjaldsvæðið við Geysi í Haukadal

Við Geysi í Haukadal er að finna gott tjaldsvæði. Þar er flottur leikvöllur fyrir börnin og fullt er af góðum gönguleiðum í næsta nágrenni. Tjaldsvæðið er einnig í göngufæri við hverina og Haukadalsskóg.

Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Einar Jónsson
Mynd: Einar Jónsson

12. Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni í Hafnarfirði

Hver segir að maður geti ekki farið í útilegu á höfuðborgarsvæðinu? Á tjaldsvæðinu á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er nóg hægt að gera. Þar er leikvöllur og ærslabelgur, tjörn, stutt í hraunið og hægt að fara í frisbígolf. Svo er líka listaverkagarður skammt frá.

11. Tjaldsvæðið í Úthlíð í Biskupstungum

Í Úthlíð í Biskupstungum er rekin alhliða ferðaþjónusta. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börnin og hægt er að komast í sund og heita potta á svæðinu.

10. Tjaldsvæðið Árnesi

Tjaldsvæðið Árnesi er í fallegu umhverfi og þar er leikvöllur, sundlaug og fótboltavöllur.

9. Tjaldsvæðið Reykholti

Tjaldsvæðið í Reykholti er fjölskyldusvæði og þar er gott leiksvæði fyrir börn. Stutt er í bæði sundlaug og grunnskóla staðarins.

8. Tjaldsvæðið í Hveragerði

Tjaldsvæðið í Hveragerði er vel staðsett og þar er leikvöllur fyrir krakkana. Gönguleið liggur í gegnum tjaldsvæðið og hinum megin við götuna er grunnskóli bæjarins og því er stutt að fara á flottan leikvöll. Sundlaugin er einnig skammt frá.

7. Tjaldsvæðið Þakgili

Það sem gerir þetta tjaldsvæði einstakt og virkilega spennandi er staðsetningin og umhverfið. Leikvöllur er á svæðinu fyrir börnin en það er spennandi upplifun að prófa matsalinn, sem er inni í náttúrulegum helli. Gönguleiðir eru allt í kring í þessu magnaða umhverfi.

6. Tjaldsvæðið Vatnsholti

Tjaldsvæðið er staðsett við Hótel Vatnsholt í Flóahreppi. Þar er flott leiksvæði fyrir krakkana. Þá er einnig hægt að fara í fótboltaminigolf og fótbolta. Á veitingastaðnum er hægt að komast í billjard, pílu og fótboltaspil.

5. Tjaldsvæðið Hraunborgum í Grímsnesi

Tjaldsvæðið er mjög barnvænt og þar er fullt af leiktækjum fyrir börnin. Sundlaug er staðsett alveg við tjaldsvæðið og það er því afskaplega stutt í sund.

4. Tjaldsvæðið Þorlákshöfn

Í Þorlákshöfn er fínasta tjaldsvæði sem er staðsett á góðum stað, rétt við íþróttamiðstöð bæjarins og grunnskólann. Það er því stutt í sund og á góðan leikvöll fyrir krakkana. Auk þess er svo auðvitað leikvöllur á tjaldsvæðinu sjálfu.

3. Tjaldsvæðið á Flúðum

Á tjaldsvæðinu á Flúðum er flott leiksvæði fyrir börnin og gönguleiðir í næsta nágrenni. Það sem gerir þetta tjaldsvæði þó extra skemmtilegt er Litla-Laxá sem rennur í gegnum það. Þar geta krakkarnir leikið og sullað tímunum saman.

2. Tjaldsvæðið Hellishólum

Á Hellishólum er glæsilegt tjaldsvæði fyrir fjölskyldur. Þar er stórt leiksvæði fyrir börn og heitur pottur. Hægt er að veiða í vatninu og golfvöllur er á staðnum. Lækur rennur við tjaldsvæðið og þar getur verið gaman að sulla.

Úlfljótsvatn_World_Scout_Moot_2017

1. Tjaldsvæðið Úlfljótsvatni

Við Úlfljótsvatn er glæsilegt tjaldsvæði sem Útilífsmiðstöð skáta hefur byggt upp. Auk þess að það eru ótal leiktæki á svæðinu er veiðileyfi innifalið í gjaldinu og krakkarnir geta leigt hjólabáta um helgar. Reyndar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá allar helgar í sumar þar sem fjölskyldur geta leigt báta, prófað bogfimi, klifur og fleira. Vatnasafarí og þrautabraut á staðnum, auk fótbolta- og frisbígolfvalla. Hundar eru leyfilegir á tjaldsvæðinu.