Nú nálgast júnímánuður óðfluga og líklega er kominn ferðahugur í marga. Það er fátt skemmtilegra en að nýta íslenska sumarið í góða útilegu. Þau sem ætla sér að fara í útilegur í sumar, keyra jafnvel hringinn í kringum landið, eru sjálfsagt farin að velta því fyrir sér hvert þau ættu að fara og hvar þau ættu að tjalda. Tjaldsvæði á Íslandi eru orðin ótalmörg og eru misspennandi auðvitað.
Heimilisvefurinn hefur hér tekið saman lista yfir tjaldsvæði á Vestfjörðum og Vesturlandi sem gætu verið spennandi og skemmtileg fyrir fjölskyldur með börn með það í huga að þar er spenanndi afþreying í boði fyrir krakkana í allra næsta nágrenni. Þetta eru t.d. tjaldsvæði sem eru nálægt skólalóðum og sundlaugum eða öðru skemmtilegu sem gerir tjaldsvæðið sérlega spennandi eins og fjara og skógur.
15. Tjaldsvæðið í Bolungarvík
Í Bolungarvík er tjaldsvæðið staðsett alveg við sundlaug bæjarins (hún er með rennibraut) og þar skammt frá er einnig grunnskólinn. Það er því mjög stutt í sund og á góðan leikvöll. Hólsá rennur meðfram tjaldsvæðinu.
14. Hverinn, Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði
Á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði er Hverinn, sem er notalegt tjaldsvæði í gróðursælu umhverfi. Tjaldsvæðið er staðsett við skóla og sundlaug, svo það er stutt í sund og á góðan leikvöll.
13. Laugar í Sælingsdal
Á Laugum í Sælingsdal er rekið hótel og tjaldsvæði. Góð sundlaug er á staðnum og leikvöllur fyrir krakkana. Lækur rennur í gegnum svæðið og góðar gönguleiðir eru allt í kring.
12. Tjaldsvæðið í Grundarfirði
Tjaldsvæðið í Grundarfirði er staðsett efst í bænum og er við grunnskólann og sundlaugina. Það er því stutt að komast í sund og að leika á skólalóðinni. Við tjaldsvæðið er einnig ærslabelgur og mjög stutt er í gönguleiðir í náttúrunni í kring.
11. Tjaldsvæðið á Þingeyri
Á Þingeyri er fínasta tjaldsvæði sem er staðsett við íþróttamiðstöð bæjarins. Í íþróttamiðstöðinni er innisundlaug, heitur pottur og sauna, við hann er svo strandblaksvöllur og ærslabelgur. Skammt frá tjaldsvæðinu er Víkingasvæðið á Þingeyri og þangað er gaman að kíkja.
10. Tjaldsvæðið á Tálknafirði
Tjaldsvæðið á Tálknafirði er staðsett við sundlaug og grunnskóla bæjarins. Það er því stutt að fara í mjög fína útisundlaug með vaðlaug og rennibraut og að leika á skólalóðinni.
9. Tjaldsvæðið á Ísafirði
Tjaldsvæðið á Ísafirði er stað sett í hinum gróna og skjólsæla Tungudal. Á tjaldsvæðinu er leiksvæði fyrir börn en það sem gerir tjaldsvæðið sérstakt er náttúran í kring. Skammt frá tjaldsvæðinu er skógrækt bæjarins og þar er hægt að fara í ævintýraferðir í skóginum. Við skóginn rennur svo Bunárfoss sem gaman er að skoða.
8. Tjaldsvæðið á Borðeyri
Borðeyri er eitt minnsta þorp á Íslandi og þar er þetta fína tjaldsvæði sem er staðsett við sjóinn og því er mjög stutt að fara í fjöruferð. Skammt frá er einnig grunnskólahús sveitarinnar og þar er ágætis leikvöllur.
7. Bjarteyjarsandur
Tjaldsvæðið á Bjarteyjarsandi er skjólgott og þar er að finna leikvöll fyrir börnin og margar gönguleiðir eru í nágrenninu. En það sem gerir þetta tjaldsvæði sérlega skemmtilegt er að það að þar er hægt að fá skoðunarferð um bóndabæinn.
6. Tjaldsvæðið í Súðavík
Tjaldsvæðið í Súðavík er kannski frekar venjulegt tjaldsvæði að mörgu leiti en það kemst á þennan lista vegna þess að í einungis fimm mínútna göngufjarlægð er Raggagarður. En Raggagarður er stór leikvöllur fyrir börn með mjög spennandi leiktækjum.
5. Tjaldsvæðið Djúpadal
Í Djúpadal er rekin bændagisting og þar er hægt að rekast á heimalinga og hunda í túninu. Á svæðinu er leikvöllur fyrir börn og ærslabelgur. Lítil innilaug og heitir pottar á palli eru í Djúpadal og skemmtilegar gönguleiðir eru í nágrenninu.
4. Tjaldsvæðið á Melanesi á Rauðasandi
Á tjaldsvæðinu á Melanesi á Rauðasandi er vissulega leikvöllur en hann er svo sannarlega ekki ástæða þess að tjaldsvæðið kemst á þennan lista. Tjaldsvæðið er nefnilega staðsett alveg við sandinn rauða og fagra. Þarf að segja meira?
3. Tjaldsvæðið í Húsafelli
Tjaldsvæðið í Húsafellsskógi er í göngufæri við sundlaug og skemmtileg leiktæki, m.a. ærslabelg. Á laugardagskvöldum yfir hásumarið er tendraður varðeldur ef veður leyfir. Í tjaldmiðstöðinni er líka hægt að leigja bolta og kubbaspil.
2. Tjaldsvæðið í Heydal í Mjóafirði
Að koma í Heydal í Mjóafirði er ævintýri líkast. Heydalur er skjólsæll dalur og þar er hótel ásamt tjaldsvæði og veitingastað. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börn en einnig er mjög skemmtileg sundlaug á svæðinu og er hún staðsett í gömlum uppgerðum fjárhúsum ásamt því að þar eru heitir pottar og náttúrulaug. Náttúran er allt í kring og skemmtilegar gönguferðir eru í nágrenninu og boðið er upp á hestaleigu á hótelinu og sömuleiðis er hægt að leigja kajaka. Síðast en ekki síst er talandi páfagaukur á staðnum!
1. Fossatún í Borgarfirði
Á Fossatúni er nokkuð sérstakt tjaldsvæði því þar er Tröllagarðurinn, sem er göngu-, leik- og útivistarsvæði fyrir fjölskyldur. Þar er hægt að fara í alls kyns tröllaleiki, leika sér á leikvellinum, fara í mini golf og margt fleira. Mjög mikil afþreying er þarna í boði fyrir krakkana.