Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin mín 2023

Nú þegar komið er fram í miðjan júní eru mörg sjálfsagt farin að huga að ferðalögum sumarsins, ef þau eru þá ekki þegar lögð af stað. En það er nú oft þannig að fólk fer að koma sér í frí eftir 17. júní. Gaman er að ferðast um landið og mörg fara líklega norður eða austur – eða annað að elta veðrið. Það er þó einn hluti ferðarinnar sem mörgum, sérstaklega börnum, finnst leiðilegri og það er að sitja lengi í bílnum. Auðvitað er hægt að leyfa börnunum að horfa á eitthvað í bílnum eða vera í símanum en það er langt frá því að vera fullkomin lausn. Í fyrsta lagi ekki hollt fyrir neinn að fá of mikinn skjátíma, í öðru lagi verða sum börn bílveik af því og í þriðja lagi hindrar það börnin í að tengjast bæði umhverfinu í kringum sig og hinum í bílnum. Fjórði punkturinn er svo sá að börnum má alveg leiðast. Það er ekki hættulegt. Það er meira að segja bara mjög hollt að láta sér leiðast af og til. Það er einmitt þegar manni leiðist sem maður finnur helst upp á hlutum til að gera. Einhvern veginn lifðum við eldri kynslóðirnar þetta af. 

Að sjálfsögðu eiga sum börn mjög erfitt með að láta sér leiðast og þurfa einhverja skemmtun í bílinn. Í stað þess að setja skjá fyrir framan börnin og breyta þeim í einhverja heilalausa zombie-a eru hér örfáar hugmyndir að skjálausri skemmtun í bílnum og í lokin er þrautahefti til útprentunar fyrir þau sem hafa gaman af svoleiðis. 

 

Mynd: Maksim Tarasov

Það er hægt að syngja öll skemmtilegu lögin sem börnin kunna úr leik- eða grunnskólanum. Þau gætu jafnvel kennt foreldrunum einhver lög eða öfugt.

Það er alveg klassískt að fara í leiki í bílnum. Leikir eins og Frúin í Hamborg, Hver er maðurinn? og að giska á hvernig næsti bíll sem þið mætið er á litinn geta stytt biðina eftir áfangastaðnum til muna. 

Hægt er að setja á einhverja góða sögu í bílnum eða hlaðvarp fyrir börn. Foreldrar geta líka haft gaman að slíku. Það er líka hægt að hlusta á lög og hægt er gera ýmislegt tengt því. Foreldrar geta t.d. sýnt börnunum hvað þau hlustuðu á sem börn eða það sem amma og afi hlustuðu á. Það er hægt að fara í leik þar sem allir eiga að giska á lagið þegar það byrjar að spilast. 

Fyrir þau sem verða ekki auðveldlega bílveik er möguleiki á að lesa góða bók eða tímarit eins og Lifandi vísindi eða Andrésblöð.

Það eru til spil sem eru gerð til að spila á ferðalögum. Það væri hægt að splæsa í eitt eða tvö slík spil til að grípa í á löngum ferðalögum. 

Svo er líka mjög mikilvægt fyrir börn sem eiga erfitt með að vera lengi í bílnum að stoppa reglulega fyrir þau og leyfa þeim að sprikla aðeins úti. Stoppin þurfa ekki að vera löng eða merkileg en það þarf oft að rétta aðeins úr fótunum á löngum ferðum. 

Að lokum er hægt að kaupa eða prenta út þrautahefti eða krossgátubækur fyrir krakkana. Heimilisvefurinn ætlar hér að bjóða upp á eitt slíkt. Í heftinu eru 24 blaðsíður af alls konar þrautum, leikjum, hugmyndum að orðaleikjum, bingó og margt fleira.  Vonandi getur það stytt stundir allra í fjölskyldunni því sumt í heftinu er fyrir alla í bílnum. 

Ýttu á myndina hér fyrir neðan til að fá þrautaheftið 🙂