Verslunarmannahelgin 2023 - Hvað er í boði?
Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og ert þú búin/nn/ð að ákveða hvað þú ætlar að gera? Frídagur verslunarmanna á sér langa sögu og er dagurinn 129 ára gamall í ár! Það er ýmislegt í boði þessa helgi víðsvegar um landið og allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Í boði er m.a. þessar hátíðir:
Berjadagar er þriggja daga klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Í ár verða frumflutt íslensk verk og kammermúsík frá ýmsum löndum, listasýning utan dyra, tónlistarviðburðir og fleira.
Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á dagskránni í ár er m.a. húllhringjagerð, tívolí, krakkahlaup í Kjarnaskógi, böll, evrópumót í torfæru, grill og margt fleira.
Hjalteyrarhátíð er haldin á Hjalteyri við Eyjafjörð um verslunarmannahelgina.
Innipúkinn er tónlistarhátíð fyrir höfuðborgarbúana sem nenna ekki í útilegu um verslunarmannahelgina. Alltaf eru fjölbreytt tónlistaratriði á dagskrá í miðbæ Reykjavíkur. Í ár koma m.a. Birnir, Daniil, GDRN, Langi Seli og Skuggarnir, Sykur og Valdimar fram.
– Kotmót Hvítasunnukirkjunnar –
Kotmót er árlegt mót Hvítasunnukirkjunnar sem er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Í ár verður sérstakt barnamót fyrir 5-12 ára krakka og aðalpredikari mótsins verður Daniel Karl-Olov Alm.
Neistaflug er bæjarhátíð Neskaupstaðar og í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni. Í ár kemur m.a. hljómsveitin Flott fram.
Norðanpaunk er rokkhátíð haldin á Laugarbakka. Í ár koma m.a. Dödsrit, Kælan mikla, Sangre de muerdago, Múr og Ghostigital fram.
Sæludagar eru árleg fjölskylduhátíð KFUM og KFUMK í Vatnaskógi.
Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Sauðárkróki í ár. Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára keppa í alls kyns íþróttagreinum. Auk þess er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
– Verslunarmannahelgin á Úlfljótsvatni –
Á Úlfljótsvatni er boðið upp á ævintýralega fjölskyldudagskrá um Verslunarmannahelgina.
Þjóðhátíð þarf vart að kynna. Stærsta útihátíð ársins er haldin í í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þau atriði sem þegar hafa verið tilkynnt eru; Bríet, Friðrik Dór, Klara Elias, Emmsjé Gauti, XXX Rottweiler, Una Torfa og Jón Ólafsson ásamt gestum.