júlí 2023

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði?

Verslunarmannahelgin 2023 - Hvað er í boði?

Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og ert þú búin/nn/ð að ákveða hvað þú ætlar að gera? Frídagur verslunarmanna á sér langa sögu og er dagurinn 129 ára gamall í ár! Það er ýmislegt í boði þessa helgi víðsvegar um landið og allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Í boði er m.a. þessar hátíðir:

– Berjadagar –

Berjadagar er þriggja daga klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Í ár verða frumflutt íslensk verk og kammermúsík frá ýmsum löndum, listasýning utan dyra, tónlistarviðburðir og fleira.

– Ein með öllu –

Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á dagskránni í ár er m.a. húllhringjagerð, tívolí, krakkahlaup í Kjarnaskógi, böll, evrópumót í torfæru, grill og margt fleira.

– Hjalteyrarhátíð –

Hjalteyrarhátíð er haldin á Hjalteyri við Eyjafjörð um verslunarmannahelgina. 

– Innipúkinn –

Innipúkinn er tónlistarhátíð fyrir höfuðborgarbúana sem nenna ekki í útilegu um verslunarmannahelgina. Alltaf eru fjölbreytt tónlistaratriði á dagskrá í miðbæ Reykjavíkur. Í ár koma m.a. Birnir, Daniil, GDRN, Langi Seli og Skuggarnir, Sykur og Valdimar fram.

– Kotmót Hvítasunnukirkjunnar – 

Kotmót er árlegt mót Hvítasunnukirkjunnar sem er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Í ár verður sérstakt barnamót fyrir 5-12 ára krakka og aðalpredikari mótsins verður Daniel Karl-Olov Alm. 

– Neistaflug í Neskaupstað –

Neistaflug er bæjarhátíð Neskaupstaðar og í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni. Í ár kemur m.a. hljómsveitin Flott fram. 

– Norðanpaunk –

Norðanpaunk er rokkhátíð haldin á Laugarbakka. Í ár koma m.a. Dödsrit, Kælan mikla, Sangre de muerdago, Múr og Ghostigital fram. 

– Sæludagar KFUM og KFUK –

Sæludagar eru árleg fjölskylduhátíð KFUM og KFUMK í Vatnaskógi. 

– Unglingalandsmót UMFÍ –

Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Sauðárkróki í ár. Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára keppa í alls kyns íþróttagreinum. Auk þess er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

– Verslunarmannahelgin á Úlfljótsvatni –

Á Úlfljótsvatni er boðið upp á ævintýralega fjölskyldudagskrá um Verslunarmannahelgina. 

– Þjóðhátíð í Eyjum –

Þjóðhátíð þarf vart að kynna. Stærsta útihátíð ársins er haldin í í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þau atriði sem þegar hafa verið tilkynnt eru; Bríet, Friðrik Dór, Klara Elias, Emmsjé Gauti, XXX Rottweiler, Una Torfa og Jón Ólafsson ásamt gestum. 

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði? Read More »

Leikir í barnaafmæli

Leikir í barnaafmæli

Þegar halda á barnaafmæli er oft sniðugt að vera búin að undirbúa einhverja leiki, sérstaklega ef afmælið á að vera í heimahúsi. Leikirnir þurfa að taka mið af þroska afmælisbarnsins og gestanna en vera um leið skemmtilegir. Leikir hjálpa mikið til við að halda afmælisgestunum uppteknum og passa að allt fari ekki úr böndunum. Hér eru nokkrar hugmyndir að leikjum sem hægt er að framkvæma í innandyra heimahúsi.

1. Stóladans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: Jafn margir stólar og þátttakendur og góð tónlist

Stólunum er raðað upp í lengju með bökin saman. Stjórnandi leiksins tekur einn stólinn burt og setur tónlistina í gang. Þátttakendur ganga í kringum stólana þar til tónlistin stoppar. Þegar tónlistin stoppar eiga þátttakendur að reyna að fá sér sæti en vegna þess að búið er að fjarlægja einn stól verður einn útundan. Hann er úr leik. Stjórnandi leiksins tekur þá annan stól burt og setur tónlistina í gang. Þannig gengur þetta koll af kolli þar til aðeins einn stóll er eftir. Sá er sigurvegari sem nær að setjast á þennan eina stól sem er eftir þegar tónlistin hættir í síðasta sinn.

Mynd: Hamid Roshaan
Mynd: Hamid Roshaan
2. Stoppdans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: tónlist

Stoppdans virkar þannig að þátttakendur dansa á meðan tónlistin hljómar en þurfa að stoppa um leið og tónlistin þagnar. Ef einhver þátttakendanna hreyfir sig eftir að tónlistin hefur verið stoppuð er hann úr leik. Svo fer tónlistin aftur í gang og er stoppuð aftur skömmu síðar. Þeir sem hreyfa sig eru úr leik og þannig gengur þetta koll af kolli. Leikinn er hægt að spila í ákveðinn tíma eða þar til einhver einn stendur uppi sem sigurvegari.

3. Setudans

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: tónlist

Setudans er mjög líkur stoppdansi nema að þegar tónlistin þagnar eiga allir þátttakendur að setjast á gólfið. Sá sem er síðastur til að setjast er úr leik. Leikurinn gengur þannig þar til aðeins einn keppandi er eftir.

4. Pakkaleikur

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: glaðningur sem hefur verið pakkað inn í mörg lög af pappír og tónlist

Til eru margar útgáfur af pakkaleikjum. Einfaldasta og algengasta útgáfan er þannnig að pakkinn gengur á milli þátttakenda á meðan tónlistin er spiluð. Þegar tónlistin stoppar má sá sem hélt á pakkanum reyna að opna hann. Þegar tónlistin fer aftur í gang heldur pakkinn áfram hringinn og þegar tónlistin stoppar aftur fær þátttakandinn að reyna að opna pakkann. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einhver þátttakendanna nær að opna pakkann og fá þá glaðninginn.

Mynd: Victoria Rodriguez
Mynd: Victoria Rodriguez
5. Pakkaleikur með teningi

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: pakki með  mörgum lögum af pappír, teningur og vettlingar eða ofnhanskar

Pakkaleikur með teningi er líkur hefðbundnum pakkaleik en ekki er notuð tónlist í þetta sinn heldur teningur og vettlingar. Pakkinn er hafður í miðjunni til að byrja með og teningi er kastað til skiptis af þátttakendum. Um leið og einhver þátttakendanna fær sexu hefst leikurinn fyrir alvöru. Þátttakandinn sem fékk sexuna lætur næsta þátttakenda hafa teninginn og tekur pakkann, setur á sig vettlinga eða ofnhanska og reynir að opna eins mörg lög af pappír og hann getur á meðan næsti þátttakandi kastar teningnum eins oft og hann getur þar til hann fær sexu. Þá lætur þátttakandinn með pakkann þann sem kastaði sexunni fá pakkann og hann reynir að opna eins mikið af pakkanum og hann getur með vettlinga á höndunum. Næsti leikmaður er þá byrjaður að kasta teningnum. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einhverjum tekst að opna pakkann og fá þá glaðninginn.

Mynd: Sirio
Mynd: Sirio
6. Söguleikur

Fjöldi þátttakenda: 3-20

Áhöld: miðar og skriffæri fyrir alla þátttakendur

Söguleikurinn gengur þannig fyrir sig að allir þátttakendur leiksins fá einn eða fleiri miða og eiga að skrifa eitt nafnorð (t.d. Ragga, skæri, sól, bak, kind) á miðann (það má líka ákveða að hafa t.d. sagnorð). Miðarnir eru svo brotnir saman og settir í eitthvað ílát eða poka. Sögumaðurinn byrjar þá að búa til sögu en stoppar söguna reglulega og dregur miða með orði og fléttar orðið inn í söguna. Dæmi: Einu sinni var … (miði dreginn) þvottavél… og hún hét … (miði dreginn)… Sól. Þannig gengur sagan áfram þar til allir  miðarnir eru búnir og úr þessu kemur vonandi skemmtileg og fyndin saga.

7. Spurningaleikir

Það er gaman að hafa spurningaleiki í afmælum og þeir geta verið alls konar og sérsniðnir að aldri og þörfum hópsins. Kahoot er mjög auðveldur og aðgengilegur leikur fyrir flesta (ef börnin/unglingarnir eiga síma). Ef símar eru ekki til staðar er hægt að hafa hefðbundinn “pub quiz” leik þar sem spyrillinn spyr og þátttakendur skrifa svarið niður á blað. Passið bara að hafa spurningarnar ekki of erfiðar en þær geta verið nánast um hvað sem er.

8. Hver er undir teppinu?

Fjöldi þátttakenda: 6-20

Áhöld: teppi

Hver er undir teppinu? er einfaldur leikur fyrir yngri börn. Þátttakendur setjast í hring og sá sem er hann fer fram. Á meðan ákveður stjórnandinn hver á að fara undir teppið. Þegar sá sem er hann kemur aftur inn á hann að giska hver það er sem er undir teppinu. Þegar fattast hefur hver er undir teppinu fær sá sem var undir teppinu að vera hann næst. Leik er lokið þegar allilr hafa fengið að prófa að fara undir teppið og vera hann.

Mynd: Hossein Azarbad
Mynd: Hossein Azarbad
9. Í grænni lautu

Fjöldi þátttakenda: 5-20

Áhöld: hringur

Hér er annar sígildur og einfaldur leikur fyrir börn frá 4 ára aldri. Leikurinn er þannig að einn er hann og sá grúfir sig í miðjum hringnum. Hringur er látinn í lóf eins þátttakandans í hringnum og síðan leiðast þátttakendur og ganga í hring á meðan þessi vísa er sungin: Í grænni lautu þar geymi ég hringinn, sem mér var gefinn og hvar er hann nú, sem mér var gefinn og hvar er hann nú? Þegar söngnum lýkur stendur sá sem er hann upp og þátttakendurnir rétta fram kreppta hnefa eins og ef þeir væru með hringinn. Sá sem er hann fær þá þrjár tilraunir til að finna út hver er með hringinn í lófa sínum. Ef hann finnur ekki hringinn grúfir hann aftur, en í næsta skipti eru hendurnar hafðar fyrir aftan bak sem slegið var á í fyrra skiptið.

Mynd: Hamid Roshaan
Mynd: Hamid Roshaan
10. Flöskustútur

Fjöldi þátttakenda: 4-20

Áhöld: flaska

Þátttakendur raða sér í hring sitjandi á gólfinu og einn byrjar að vera hann. Sá sem er hann byrjar á að segja: Sá sem flöskustútur lendir á… og svo eitthvað sem sá sem flöskustútur lendir á að gera eins og t.d. að hoppa fimm sinnum á einum fæti eða fara í kollhnís eða hvað sem honum dettur í hug. Síðan snýr þátttakandinn flöskunni og sá sem flaskan bendir þegar hún stoppar þarf að gera það sem átti að gera. Sá þátttakandi fær svo að gera næst.

11. Bingó

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: bingóspjöld o.fl.

Bingó er alltaf skemmtilegt að fara í og hægt er að prenta út bingóspjöld af netinu ef maður á ekki bingóspjöld og það sem þarf. Það er ekki nauðsynlegt að hafa verðlaun, þó það sé alveg skemmtilegt. Verðlaunin geta líka verið þau að fá að vera stjórnandinn í næsta leik.

12. Að fela hlut

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: einhver hlutur (t.d. spil úr spilastokki, lítil bók, leikfang)

Einn úr hópnum byrjar að fela hlutinn sem ákveðinn er. Hinir þátttakendurnir fara fram á meðan. Hlutinn er best að fela þannig að það sjáist örlítið í hann. Sá sem faldi segir hinum hvort hluturinn sé falinn hátt (fugl), lágt (fiskur) eða einhvers staðar þar á milli (kisa). Svo hefst leitin og sá sem finnur hlutinn fær að fela næst. Þannig gengur þetta koll af kolli. Það er einnig hægt að leika þennan leik þannig að þátttakendur fá að vita hvort þeir séu heitir eða kaldir eftir því hversu nálægt hlutnum þeir eru eða gefa aðrar vísbendingar.

cake, candles, birthday cake-947438.jpg
13. Feluleikur

Fjöldi þátttakenda: ótakmarkaður

Áhöld: engin

Feluleik þarf varla að útskýra fyrir neinum en gaman getur verið að fara í feluleik með öllum í afmælinu. Hægt er að fara í feluleik inni jafnt sem úti.

Leikir í barnaafmæli Read More »

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Disney hefur framleitt gríðarlegt magn af góðum og skemmtilegum teiknimyndum fyrir alla fjölskylduna. Raunar eru teiknimyndir Disney orðnar yfir 100 talsins á þessum 86 árum síðan fyrsta teiknimynd Walts Disneys kom út árið 1937. Það var myndin um Mjallhvíti og dvergana sjö. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir 89 bestu Disneymyndirnar. Myndirnar fá lang flestar góða dóma á síðum eins og IMDB en sumar fá þó að vera á listanum af öðrum sökum. Það er sjaldan sem framhaldsmyndir komast á listann, því yfirleitt eru þær mun slakari en sú fyrsta. Undantekning á því eru þó Toy Story-myndirnar. Allar fjórar myndirnar fá virkilega góða dóma, annað en t.d. Hringjarinn í Notre Dame 2, sem er með 4,6 í einkunn á IMDB.

Disneymyndirnar eru tilvaldar fyrir kósýkvöldin næstu vikurnar, eða jafnvel árin, þær eru svo margar. Börnin fá að kynnast eldri myndunum og foreldrarnir fá að rifja upp gamlar og góðar myndir og kynnast þeim nýrri. Það er hægt að taka myndirnar í tímaröð eða í hvaða röð sem manni hentar. 

Góða skemmtun!

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin Read More »

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen er eitt af fyrstu spilunum sem börnum er kennt. Þetta er klassískt og tilötlulega einfalt spil sem líklega allir Íslendingar þekkja og hafa prófað. Hér verður farið yfir reglur upprunalega spilsins, Ólsen Ólsen upp og niður (sem margir þekkja einnig) og svo fjórar aðrar útgáfur spilsins sem gaman er að prófa. Það er alveg tilvalið að prófa þessar nýju spilareglur í sumarbústaðarferðunum í sumar.

Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út laufa sexu.

Gangur spilsins: Sá sem er á vinstri hönd þess sem gaf byrjar spilið og svo gengur hringurinn réttsælis. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett niður spil af sömu sort eða sem er með sömu tölu og er á efsta spili kastbunkans. Sé t.d. laufa tvistur í borði getur leikmaðurinn sett út annað hvort tvist eða lauf. Sé leikmaður með fleiri en einn tvist getur hann sett þær allar út og þar með breytt um sort. Einnig er hægt að breyta um sort með því að settja niður áttu og segja þá í hvaða sort maður vill breyta. Áttur er hægt að leggja ofan á hvaða spil sem er, hún þarf ekki að vera í sömu sort og spilið í kastbunkanum. Ef leikmaður getur ekki sett neitt spil út má hann draga spil, þó að hámarki þrjú. Ef leikmaður dregur spil sem hann getur notað má hann nota það strax, ef ekki kemur nýtanlegt spil þarf leikmaður að segja pass og næsti leikmaður gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi verður hann að segja „Ólsen“ áður en næsti gerir. Ef það gleymist þarf leikmaðurinn að draga þrjú spil úr spilastokknum sem refsingu. Þótt leikmaður eigi tvö lík spil á hendi (t.d. tvær níur) þarf hann ekki að segja „Ólsen“ fyrr en hann hefur sett fyrra spilið niður og setur svo síðasta spilið sitt í kjölfarið. Þegar síðasta spilið er lagt út segir leikmaðurinn „Ólsen Ólsen“ og sigrar þar með spilið.

Ólsen Ólsen upp og niður

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður, nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við.

Markmið: Að vera fyrstur til að losa sig við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borðið og efsta spili stokksins er snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út annan þristinn.

Gangur spilsins: Í Ólsen Ólsen upp og niður skipta sortirnar engu máli, aðeins tölurnar. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en spilið sem er í kastbunkanum. Ef það er, sem dæmi, tvistur í borði má leikmaður setja annað hvort ás eða þrist út. Í kjölfarið má hann svo setja eins mörg spil út og hann getur, en alltaf þurfa þau að vera annað hvort einu hærra eða lægri en spilið á undan. Geti leikmaður ekki sett út spil má hann draga allt að þrjú spil. Ef hann getur ekki sett út neitt af þeim spilum segir hann pass og næsti gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi segir hann “Ólsen” og þegar síðasta spil af hendi er lagt í borðið segir leikmaðurinn “Ólsen Ólsen upp og niður” og vinnur þar með spilið. Eins og í venjulega spilinu þarf leikmaður að draga þrjú spil sem refsingu ef hann gleymir að segja “Ólsen”.

Ólsen Ólsen með stigum

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi og vera með sem fæst stig í lok spilsins.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum. Skrifblokk og blýantur/penni þarf að vera við höndina.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen með stigum spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema hvað refsistig eru gefin í lok hverrar umferðar. Spilað er upp í ákveðna tölu (t.d. 500) eða ákveðið margar umferðir spilaðar (t.d. 10). Sá vinnur sem er með fæst stig.

Ef leikmaður endar með þessi spil á hendi myndi hann fá 30 stig.

Stigagjöf: Þegar einn leikmaðurinn hefur unnið umferð þurfa aðrir leikmenn, sem enn eru með spil á hendi, að reikna út hvað þeir fengu mörg (refsi)stig. 

Ás-7 og 9 gilda sem 5 stig, 10 og mannspil gilda sem 10 stig og 8 gildir sem 25 stig

Hafi leikmaður t.d. níu, gosa og áttu á hendi við lok umferðar (þegar annar leikmaður hefur unnið) fær sá leikmaður 40 stig. Ef einhver leikmaður endar í t.d. 500 stigum eða meiru er spilinu lokið og sá sem er með lægstu stigin vinnur. Einnig er hægt að ákveða hversu margar umferðir verða spilaðar og þá vinnur sá leikmaður sem fæst stig hefur við lok t.d. tíundu umferðar.

Ólsen Ólsen klikk

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen klikk spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema að við reglurnar bætist að ef leikmaður setur út tvist þarf næsti leikmaður að draga tvö spil, ef ás er settur út snýst hringurinn við og ef drottning er látin út missir næsti leikmaður úr eina umferð. Áttur geta, eins og áður, breytt sortinni.

Hér þarf næsti leikmaður að draga tvö spil.

Langi Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Spilið gengur alveg eins fyrir sig og venjulegur Ólsen Ólsen nema hvað að þegar annar leikmaðurinn leggur út síðasta spilið og segir “Ólsen Ólsen” líkt og venjulega þarf hann að draga fimm spil og halda áfram með spilið en í þetta sinn eru sjöur orðnar að spilinu sem má breyta um sort. Ef sá leikmaður vinnur spilið svo aftur verða sexur að spilinu sem getur breytt um sort og svo koll af kolli þar til annar leikmaðurinn vinnur spilið þegar hann er kominn niður í ásana.

Svindl Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Þessi útgáfa af Ólsen Ólsen er ólík upprunalega spilinu því í því má reyna að svindla. Leikmaður getur reynt að fela spil án þess að aðrir leikmenn taki eftir eða leggja t.d. tvö niður í einu. Ef annar leikmaður tekur eftir svindlinu lætur hann vita og sá sem svindlaði dregur þrjú spil sem refsingu. Ef leikmaður ásakar annan leikmann ranglega um svindl, þarf sá sem ásakaði að draga sjálfur þrjú spil.



Ólsen Ólsen og fimm vinir hans Read More »

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur?

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur?

Það er að mörgu að huga áður en lítið kríli bætist við fjölskylduna. Lítil börn þurfa vissulega ekki margt og ást um umhyggja foreldranna er lang mikilvægust. Það geta samt ýmsir hlutir gagnast okkur vel að eiga þegar barnið mætir á svæðið til að gera allt auðveldara. Þarfir hverrar fjölskyldu og barns eru mismunandi svo það er erfitt að búa til lista sem gildir fyrir alla. Sumir foreldrar ætla t.d. að nota taubleyjur í stað bréfbleyja, á meðan aðrir ætla að láta barnið til að nota kopp frá fæðingu. En hér er engu að síður listi yfir hluti sem gagnlegt er að eiga þegar barnið kemur, eða fljótlega eftir það.

Neðst í færslunni er excel-skjal sem hægt er að nota við skipulagningu.

newborn, baby, feet-1399155.jpg

Fatnaður

  • Samfellur: gott er að eiga nokkrar samfellur, bæði síð- og stutterma. Sum börn æla t.d. mikið og þá getur verið gott að eiga nokkrar samfellur, svo ekki þurfi stanslaust að vera að þvo.
  • Náttgallar og heilgallar: það getur verið mjög þægilegt að hafa börn stundum í heilgalla og svo þarf náttgalla fyrir næturnar.
  • Buxur: eins og með samfellurnar er gott að eiga þó nokkrar buxur til skiptanna.
  • Peysur: gott er að eiga einhverjar peysur til að fara í yfir stutterma samfellur. 
  • Sokkar og/eða sokkabuxur: sokkar haldast oft mjög illa á fótum ungabarna, svo það getur verið gott að eiga sokkabuxur.
  • Klórvettlingar: ungabörn klóra sig gjarnan í andlitið fyrst eftir að þau fæðast og þá geta klórvettlingar hjálpa mikið.
  • Léttar húfur: á höfuðið bæði ef það er svalt inni eða ef það er hlýtt úti og sól.
  • Hlýr útigalli: það fer auðvitað eftir því hvenær barnið er fætt hvort það þurfi hlýjan útigalla. Barn fætt í júlí þarf líklega ekki útigalla í stærð 50 og 56.
  • Húfa, vettlingar og sokkar: alltaf gott að eiga hér á norðlægum slóðum.
  • Hlýjar peysur
  • Föðurland/sett eða galli úr þunnri ull: gott fyrir svefninn úti og fleira.
  • Slefsmekkir: sum börn byrja að slefa allt frá 2-3 mánaða aldri og slefið getur orðið mikið!
  • Smekkir: ekki nauðsynlegt að eiga fyrr en um 5-6 mánaða aldur, þegar barnið fer að smakka mat.
  • Taubleyjur: gott að eiga til að þurrka upp ælur o.fl.
  • Kjólar eða fín föt: ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni. 
  • Hárband: alls ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni.
  • Stuttbuxur undir kjóla: alls ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni.
  • Skór/bomsur: ekki er nauðsynlegt að eiga skó fyrr en barnið fer að ganga sjálft en mjúkir skór eða bomsur er gaman að eiga fyrir sérstök tilefni, en alls ekki nauðsynlegt.

Skiptiaðstaða

Hlutir sem er eða gæti verið gott að eiga við skiptiaðstöðuna.

  • Skiptidýna og yfirbreiðsla
  • Ferðaskiptidýna
  • Körfur undir krem, bleyjur o.fl.
  • Skiptitaska
  • Ruslafata: líka hægt að henda í ruslafötuna í eldhúsinu
  • Bleyjur (bréf eða tau)
  • Bossakrem
  • Blautþurrkur eða fjölnota þurrkur
  • Koppur (ef venja á barn á kopp frá fæðingu)

Barnaherbergið/svefn

Hlutir sem er eða gæti verið gott að hafa í barnaherberginu eða í tengslum við svefn.

  • Rimlarúm og dýna: ekki nauðsynlegt við fæðingu
  • Sængurver
  • Sæng eða svefnpokar
  • Reifar: ekki er algengt að reifa börn á Íslandi 
  • Lak
  • Teppi á gólfið
  • Vagga
  • Næturljós
  • Gúmmídúkur undir lak
  • Leikfangahirsla
  • White noise-tæki: getur hjálpað ungum börnum við að sofa betur og útiloka utanaðkomandi hávaða
  • Fataskápur/kommóða

Brjóstagjöf/pelagjöf

  • Pelar
  • Gjafapúði
  • Mexíkóhattar: ef brjóstagjöf gengur illa í byrjun eða ef sár koma
  • Pelabursti
  • Græðandi gelplástrar: fyrir sárar geirvörtur
  • Brjóstapumpa: ef þarf
  • Mjólkurpokar: ef þarf

Baðið

  • Handklæði
  • Naglaþjöl/skæri
  • Hárbursti
  • Þvottapokar/klútar
  • Baðbali: ekki nauðsynlegt en mjög þægilegt, en það er auðvitað hægt að baða börn í baðkörum, vöskum eða taka þau með í sturtu
  • Hitamælir í bað

Annað

  • Barnavagn: fyrir göngutúra og í mörgum tilvikum; lúra
  • Kerrustykki: fyrir göngutúra seinna meir
  • Burðarpoki: getur verið gagnlegt, sérstaklega fyrir börn sem vilja stöðugt láta halda á sér
  • Kerrupoki: svo það sé hlýtt og gott í kerrunni
  •  Nefsuga: fyrir stífluð nef, ekki endilega nauðsynlegt
  • Bílstóll
  • Bílstólapoki: svo það sé hlýtt og notalegt í bílstólnum, því það á ekki að hafa börn í þykkum lögum af fötum í bílstólum. 
  • Ungbarnahreiður: ekki nauðsynlegt en þægilegt til að hafa barnið í
  • Teppi
  • Snuð: gott er að kaupa nokkrar tegundir til að láta barnið prófa, þau taka ekki öll hvaða snuð sem er
  • Snudduband: svo snuðið fari ekki langt
  • Leikteppi
  • Barnapíutæki
  • Spjöld með svarthvítum myndum: fyrir barnið að skoða
  • Leikföng: mjög líklega fær barnið nóg af leikföngum gefins
  • D-vítamíndropar: nánari upplýsingar fáið þið í ungbarnavernd um hvenær á að byrja að gefa D-vítamíndropa
  • Matarstóll (með ungbarnasæti): mjög gagnlegt að eiga matarstól með ungbarnasæti eða ömmustól til að geta lagt barnið frá sér fyrstu mánuðina.
  • Ömmustóll
baby, child, cute-3149224.jpg

Skjal með öllu því helsta

Heimilisvefurinn hefur útbúið excel-skjal með öllu því helsta sem þarf að eiga þegar barnið loksins kemur. Hægt er að opna skjalið í excel og fylla það út jafnóðum í tölvunni eða þá að opna það með Google Drive. Ef síðari kosturinn er valinn er hægt að uppfæra skjalið í símanum. 

Í skjalinu er skýr tafla með barnafötum í mismunandi stærðum (fyrir fyrstu 9 mánuðina eða svo) og viðmið um hvað er gott að eiga mörg stykki af hverri flík. Þegar þú fyllir inn í skjalið það sem er nú þegar komið af barnafötum er hægt að setja tölu í réttan reið og svo þegar viðmiðinu er náð er hægt að merka við í reitinn þar sem stendur komið. Sumt í skjalinu er merkt með * eða ** og það eru þá hlutir sem er ekki nauðsynlegt að eiga eða að minnsta kosti ekki nauðsynlegt fyrst um sinn.

Þetta skjal mun vonandi hjálpa ykkur að hafa yfirsýn yfir það sem er til af barnafötum og kemur sér vonandi vel þegar þið standið í miðri verslun eða loppu og munið ekkert hvað vantar. Þá er hægt að opna skjalið í símanum og sjá hvort það vantaði nú ekki örugglega fleiri buxur. 

Auðvitað eru tölurnar í skjalinu ekki heilagar og auðvelt er að breyta og bæta við í skjalinu. Tölurnar eru eingöngu viðmið svo ekki sé allt stútfullt af fötum en einnig þannig að það þurfi ekki stöðugt að vera að þvo.

Til þess að geta notað skjalið í Google Drive og þar af leiðandi í símanum líka þarf að byrja á því að hala niður skjalinu hér að ofan, fara svo inn á Google Drive og búa til nýtt tómt sheets-skjal. Inni í því skjali þarf að smella á file og síðan open svo á upload og browse, finna rétta skjalið í tölvunni og smella á það. Þá ætti skjalið að birtast fljótlega í nýja sheets-skjalinu.

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur? Read More »

Afmæli Herdísar Egilsdóttur

Afmæli Herdísar Egilsdóttur

Þann 18. Júlí næstkomandi verður einn af okkar ástsælustu barnabókahöfundum 89 ára gömul. Það er hún Herdís Egilsdóttir sem fæddist á þeim degi árið 1934 á Húsavík. Hún gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi og fór síðan í Kennaraskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi árið 1953 og fór svo að kenna í Ísaksskóla í Reykjavík. Hún kenndi þar til ársins 1998 og hafði þá kennt um 1500 börnum. Herdís var merkilegur kennari og þróaði kennsluaðferðir eins og Landnámsaðferðina. 

Herdís er einnig afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað fjöldan allan af bókum, leikritum, sjónvarpsefni og námsefni fyrir börn. Meðal bóka sem Herdís skrifaði eru bækurnar um Siggu og skessuna, sem urðu ansi margar og vinsælar, og bækurnar um Pappírs-Pésa, sem einnig urðu nokkuð margar.

Bækurnar um Siggu og skessuna og Pappírs-Pésa eru auðlesnar bækur fyrir krakka í yngri kantinum. Þær eru tilvaldar í sumarlesturinn fyrir krakka sem eru búin að læra að lesa og vantar bækur til að lesa þetta sumar til að halda við lestrarfærninni. Bækurnar hennar Herdísar eru til á bókasöfnum víða um land.

 

Við hér á Heimilisvefnum skorum á alla krakka að prófa að lesa allavega eina bók eftir Herdísi Egilsdóttur í tilefni dagsins. 

Afmæli Herdísar Egilsdóttur Read More »

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Áfram höldum við með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Ártúnsholti í Reykjavík, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í tólf og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. Á sumum stöðum og á leiðinni milli staða þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

Gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa, og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, tólf talsins. Á lóð einkarekna leikskólans Regnbogans er ekki leyfilegt að leika sér. Hverfið er ekki stórt og leikvellirnir samtals tólf svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið alveg endilega senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Ævintýraferð um Ártúnsholt Read More »

Að búa til hefðir og góðar minningar

Að búa til hefðir og góðar minningar

Það er undir okkur, fullorðna fólkinu, komið að skapa hefðir og búa til góðar minningar fyrir börnin okkar. Þannig er það einfaldlega. Þegar ég hugsa til baka til æskuára minna fyllist hugur minn af góðum minningum, sem margar hverjar tengjast einmitt einhverjum fjölskylduhefðum. Gleðin við að sjá allt gamla jólaskrautið sett á sinn stað, lestur fyrir svefninn með mömmu, að búa til bolluvönd fyrir bolludaginn og Disney-myndin á föstudögum eru allt hefðir sem ég tengi við góðar minningar og mér verður hlýtt í hjartanu við að hugsa til baka til þessa tíma. Hefðir hverrar fjölskyldu færir fólkið nær hvoru öðru, skapa góðar minningar, yndislegar gæðastundir og býr þar að auki til ákveðinn fyrirsjáanleika sem sum börn þurfa alveg sérstaklega mikið af.

Rannsókn, sem gerð var á vegum Háskólans í Syracuse yfir 50 ára tímabil, sýnir að fjölskyldur sem halda í góðar og sterkar hefðir eru nánari, bundar traustari fjölskylduböndum, eru þrautseigari þegar upp koma vandamál sem þarf að leysa í sameiningu og ná að halda í bjartsýni og jákvæðni þótt eitthvað bjáti á. Börn í slíkum fjölskyldum upplifa sig elskuð og samþykkt sem manneskjur. Þau læra að þau geta treyst á aðra og fá oft sterkari persónulega sjálfsmynd – vita þá hvað það er sem gerir þau einstök og hvers konar manneskjur þau vilja vera.Þau standa sig einnig betur í námi. Gift pör eða pör í sambúð virðast einnig hamingjusamari og finna fyrir minni streitu í daglegu lífi (Fiese, B. H., Tomcho, T. J., Douglas, M., Josephs, K., Poltrock, S., & Baker, T., 2002).

Mynd: Libby Penner
Að búa til og þróa hefðir

Það er kannski rangt að kalla þetta að búa til hefðir því þær þróast kannski frekar. Við getum ákveðið að á aðventunni eigi alltaf að baka piparkökur en hefðin þróast kannski út í það að piparkökur eru keyptar og skreyttar, frekar en að þær séu bakaðar frá grunni eins og ætlunin var í upphafi. En í upphafi þurfum við samt sem áður að setja okkur markmið um að búa til einhverja hefð, sama hvernig hún svo þróast á endanum. 

Hefðir þurfa ekki að vera flóknar, sumar eru meira að segja framkvæmdar daglega. Sem dæmi er svefnrútínan í rauninni hefð, barninu þykir það sjálfsagt afskaplega notaleg stund þegar mamma eða pabbi syngja eða lesa fyrir það áður en það fer að sofa. Það er einnig hefð ef fjölskyldan borðar alltaf kvöldmat saman við matarborðið og spjallar um daginn. Þetta eru gæðastundir sem gefa okkur tækifæri til að eiga í góðum samskiptum við börnin okkar, styrkja tengslin og veitir þeim öryggi. 

En aftur að því að búa til og þróa hefðir. Ef maður vill vera skipulagður er gott að setjast niður og taka saman hefðir fjölskyldunnar. Hvað er það sem þið gerið saman á aðventunni eða á 17. júní? Ef það er lítið sem ekkert, gætuð þið þá gert eitthvað meira til að gera dagana eftirminnilega? Passið að hafa hefðirnar ekki flóknari eða tímafrekari en þið teljið ykkur ráða við. Hefðirnar þurfa alls ekkert að vera stórar og flóknar. Sem dæmi getur það alveg verið góð og skemmtileg hefð að baka fullt af smákökusortum fyrir jólin EN það er líka hægt að búa til (alveg jafn góða) hefð sem er þannig að foreldrarnir (eða foreldri) og börnin fara saman út í búð eða bakarí á fyrirfram ákveðnum degi og velja hvaða jólasmákökur eigi að kaupa fyrir þessi jól. Þessi hefð getur búið til alveg jafn góðar minningar og þær að baka smákökurnar frá grunni.

Ef fjölskyldan vill, eftir þessa lesningu, fara að búa til og þróa sínar eigin hefðir er hér listi af tilefnum til þess að vera með sérstakar hefðir. Þetta eru dagar sem eru miðaðir við meðal Íslendinginn, aðrar þjóðir eiga auðvitað sína eigin sérstöku daga. Listinn er ekki tæmandi, hvaða dagur sem er getur orðið sérstakur fyrir ykkar fjölskyldu ef þið bara viljið.

Mynd: Vitolda Klein
Yfir árið
Vetur (des-feb)
  • Fullveldisdagurinn
  • Aðventan
  • Þorláksmessa
  • Aðfangadagur
  • Jóladagur
  • Annar í jólum
  • Gamlársdagur
  • Nýjársdagur
  • Þrettándinn
  • Bóndadagur
  •  Þorrablót
  • Sólarkaffi
  • Bolludagur
  • Sprengidagur
  • Öskudagur
  • Valentínusardagur
  • Konudagur
  • Vetrarfrí
Vor (mar-maí)
  • Vorjafndægur
  • Fyrsti apríl
  • Páskar
  • Sumardagurinn fyrsti
  • Verkalýðsdagurinn
  • Mæðradagurinn
  • Uppstigningardagur
  • Hvítasunna
  • Eurovision
Sumar (jún-ágú)
Haust (sep-nóv)
  • Fyrsti skóladagurinn
  • Dagur íslenskrar náttúru
  • Haustjafndægur
  • Fyrsti vetrardagur
  • Hrekkjavaka
  • Haustfrí
  • Dagur íslenskrar tungu
Annað/ódagsett
  • Afmæli
  • Gifting
  • Skírn/nafngjöf
  • Barnsfæðing
  • Ættarmót
  • Fjölskyldumót
  • Ferming/siðfesta
  • Fjölskyldudeit
  • Kósýkvöld
  • Fjölskyldufundir
  • Kvöldmatur
  • Kvöldsaga
  • Daglegar hefðir
  • Vikulegar hefðir
  • Mæðgna/mægðina og feðga/feðgina-deit

Heimilisvefurinn hefur nú þegar tekið fyrir nokkra af þessum dögum og mun gera meira af því þegar að þeim kemur. Hægt er að smella á feitletruðu hátíðirnar til að fá hugmyndir og innblástur að hefðum og öðru skemmtilegu til að gera á þeim dögum.

Gangi ykkur vel!

Að búa til hefðir og góðar minningar Read More »

Hvernig getur gervigreind hjálpað okkur með heimilishald?

Hvernig getur gervigreind hjálpað okkur með heimilihald?

Nú á upphafsárum gervigreindar er gott að fara yfir hvernig hún getur gagnast okkur við heimilishaldið. Við höfum ekki hugmynd um hvernig þetta mun þróast en eitt er víst að gervigreind er nú þegar orðin til margra hluta nytsamleg. Það vita þó ekki allir alveg hvernig hún getur komið að gagni. Raunin er sú að gervigreind getur hjálpað til með hin ýmsu verkefni tengdum heimilishaldi. Líka gervigreind eins og Chat GPT sem að aðeins skrifar texta. Chat GPT talar þar að auki íslensku, vissulega ansi bjagaða og oft með ýmsum villum, þegar þetta er skrifað. Það sem slík gervigreind getur hjálpað okkur með eru upplýsingar, leiðbeiningar, hugmyndir og alls kyns uppástungur.  Hér eru nokkur dæmi um hvernig gervigreindin Chat GPT getur hjálpað okkur við heimilishald:

  1. Upplýsingar: Chat GPT hefur aðgang að gríðarlegu magni af upplýsingum um hinar ýmsu hliðar heimilishalds. Sem dæmi er hægt að spyrja gervigreindina um viðhald heimilisins og getur hún gefið nákvæmar útskýringar og leiðbeiningar um það. Einnig er hægt að ræða við hana um orkusparnað, eftirlitskerfi og fleira slíkt. 

  2. Skipulagning: Chat GPT gervigreindin getur hjálpað til við að skipuleggja verkefni tengd heimilinu. Hún getur aðstoðað við að búa til tímatöflur, áminningar og verkefnalista. Hvort sem það er áætlun um viðhald heimilisins, þrifaplan eða annað, þá getur gervigreindin boðið upp á ráðleggingar og hjálp tengt þessu.

  3. Lausnaleit: Ef þú ert í vandræðum með eitthvert heimilistækið getur Chat GPT hjálpað þér með algeng vandamál. Aðeins þarf að lýsa vandamálinu í smáatriðum fyrir henni og hún getur í staðinn  komið með leiðbeiningar skref fyrir skref um hvernig er hægt að leysa vandamálin eða þá hvert er hægt að hafa samband.

  4. Hugmyndir að endurbótum á heimilinu: Gervigreind getur hjálpað þér með að finna hugmyndir til að endurbæta heimili þitt, hvort sem það er innanhússhönnun, orkusparnaður eða uppsetning snjallheimilisins. Hægt er að fá ráðleggingar út frá þínum óskum og verðbili. 

  5. Uppskriftir: Gervigreind getur bæði stungið upp á hugmyndum að uppskriftum og búið þær til fyrir þig. Þú getur látið hana finna uppskriftir út frá alls kyns leitarskilyrðum, t.d. getur hún sleppt ákveðnum fæðutegundum, fundið uppskriftir frá ákveðnu landi eða búið til uppskrift út frá því hvað þú átt í ísskápnum. 

  6. Leiðbeiningar í eldhúsinu: Hægt er að spyrja gervigreind út í allt sem við kemur eldamennsku og bakstri. Það er t.d. hægt að spyrja hana út í hvernig á að úrbeina læri eða hvernig á að búa til marengs eða hvað sé hægt að nota í stað einhvers ofnæmisvalds. Hún getur útskýrt tæknileg atriði tengd matreiðslu og sett upp leiðbeiningar skref fyrir skref um hvernig á að gera tiltekinn hlut.

  7. Matseðlagerð: Eitt það gagnlegasta sem gervigreind getur gert er að hjálpa til við matseðlagerð. Gervigreindin getur búið til matseðil fyrir fjölskylduna þína og lagað hann að ykkar óskum. Finnst einhverjum paprika vond? Gervigreind getur sleppt öllum uppskriftum með papriku. Er einhver með ofnæmi fyrir eggjum? Þá sleppir gervigreind þeim uppskriftum líka. Eruð þið vegan? Eða sykurlaus? Ekkert mál. Gervigreind getur búið til matseðil út frá hvaða skilyrðum sem er og haft máltíðirnar hollar og næringarríkar. 

  8. Næringarfræði: Gervigreind veit allt um næringarfræði og sérstakt mataræði. Hægt er að spyrja hana hvað það er mikið af kolvetnum, fitu, próteini eða vítamínum í ákveðnum fæðutegundum. Þá getur hún sagt hversu margar hitaeiningar eru í hinum ýmsu fæðutegundum og réttum. 

  9. Innblástur í eldhúsinu: Ef þig langar að prófa eitthvað nýtt í kvöldmatinn er ekkert mál að spyrja gervigreind hvað þú gætir gert. Gervigreindin getur komið með uppástungur að réttum til að prófa. Þú getur líka spurt hana út í rétti til að prófa frá ákveðnu landi eða með ákveðnu hráefni eða öðru sem þér dettu í hug. 

  10. Fjárhagsáætlun: Gervigreind getur búið til fjárhagsáæltun fyrir þig út frá upplýsingum sem þú gefur henni eins og laun, helstu útgjöld og fjárhagsleg markmið. Saman getið þið fundið út úr því hvar er best að spara, leiðir til að spara o.fl.

  11. Uppeldið: Já, gervigreind getur jafn vel hjálpað þér við uppeldið, eða þ.e.a.s. getur frætt þig um mismunandi uppeldisaðferðir og komið með góð ráð við ýmsum vandamálum. Hún getur frætt þig um þroska barna, agastjórnun, hvernig er hægt að búa til gott samband við börnin þín, samskiptafærni og viðeigandi væntingar til barnsins miðað við aldur.  Einnig getur hún stungið upp á bókum og öðru gagnlegu sem hjálpar þér við uppeldið.

  12. Rútína: Gervigreind getur komið með hugmyndir um hvernig er hægt að búa til góða rútínu fyrir bæði þig og börnin. Rútínan tekur mið af svefnþörf, næringarþörf og hreyfiþörf allra í fjölskyldunni. Gervigreind getur stungið upp á hollum máltíðum og snarli fyrir börnin, hvernig hægt er að laga svefninn og hvernig hægt er að koma hreyfingu og leik  inn í skipulag dagsins. 

  13. Tiltekt: Er allt í drasli á heimilinu? Gervigreind getur hjálpað þér með það. Hún getur auðvitað ekki tekið til fyrir þig en hún getur sagt þér hvernig er best að gera það. Þá getur hún frætt þig um leiðir til að losa þig við drasl og dót af heimilinu, hvernig hægt er að taka ákvarðanir um hverju á að henda, gefa eða eiga.
     
  14. Skipulag heimilisins: Gervigreind getur auðveldlega hjálpað þér með að skipuleggja heimilið og hvernig er best að geyma hluti. Hún getur frætt þig um hvernig er best að raða hlutum og geyma og hvernig er hægt að halda öllu snyrtilegu til frambúðar.
    1.  

Eins og sést getur gervigreind hjálpað okkur með fjölmörg verkefni sem tengjast heimilinu og sjálfsagt eru þau enn fleiri en þessi. Gervigreindin þróast nú á ógnarhraða og hver veit hvað hún getur gert eftir mánuð, eða ár. En nú er bara næsta skref að prófa þetta sjálf og sjá hvað gervigreind getur gert. 

Athugið samt að það getur komið eitthvað algjört bull frá gervigreindinni, sérstaklega þegar hún er spurð á íslensku. Sem dæmi um villur sem hún getur gert er að búa til ný orð og þegar við báðum hana um að búa til matseðil fyrir okkur fyrir næstu viku var þetta í matinn:

  • Mánudagur: Ferskálgasúpa með hráu grænmeti, brúnað kalkúnabrjóst með sojasósu, sítrónu og hvítlauk og steiktar kartöflur og salat.
  • Þriðjudagur: Pönnusteiktur lax með smjörsósu, steikt hveiti eða kartöflugratín og graænmetissalat með sírópi.
  • Miðvikudagur: Grænmetislasagna með nýróti og salat með valhnetum. 
  • Fimmtudagur: Púðursuðuð kjúklingabringa, brúnaðar kartöflur með rósmaríni og steiktar gulrætur og blómkál.
  • Föstudagur: Steiktur fiskur með hveitisgrjónasalati og grænmetisgrjónasalat með olíu- og ediksósu.

Frekar skrítnar hugmyndir hjá henni en þetta getur veitt manni innblástur fyrir matseðilinn. Séu nákvæmlega sömu fyrirmæli þýdd yfir á ensku og gervigreindin spurð á ensku er matseðillinn mun betri og með leiðbeiningum:

  • Mánudagur: Ofnsteiktur kjúklingur með grænmeti 
    • Steikið kjúklingabringur með kryddjurtum og kryddum að eigin vali
    • Grænmeti (gulrætur, brokkolí, blómkál og kúrbítur) með ólífuolíu, salt og pipar.
    • Borið fram með hrísgrjónum eða kínóa.
  • Þriðjudagur: Veltisteikt naut
    • Veltisteikt naut með grænmeti eins og sveppum, sykurbaunum, gulrótum og bok choy. 
    • Notið heimatilbúna stir-fry sósu búna til úr sojasósu, engifer, hvítlauk og hunangi.
    • Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum. 
  • Miðvikudagur: Grænmetistaco
    • Grænmetistaco fyllt með svörtum baunum, lauk og papriku.
    • Toppað með salati, tómötum, avókadó og sýrðum rjóma. 
    • Berið fram með heilhveititortillum.

Það er líklega betra að spyrja gervigreindina á ensku, ef það er möguleiki, enn sem komið er en vonandi lagast íslenskan í framtíðinni. 

Hvernig getur gervigreind hjálpað okkur með heimilishald? Read More »

Skemmtipokar í bílinn

Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.

Skemmtipokar í bílinn Read More »