ágúst 2023

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn

Senn líður að því að skólarnir fari að byrja aftur, leikskólarnir eru þó reyndar flestir byrjaðir aftur. Mörg börn bíða spennt eftir að byrja í skólanum, kannski mest þau sem eru að byrja í 1. bekk, en þessi eldri mörg hver líka. Það er gaman að hitta alla vinina aftur og eignast kannski nýja. Önnur eru ekki eins spennt og margar ástæður geta legið þar að baki. En hvort sem barnið þitt er spennt eða ekki eru hér nokkrar hefðir (því hefðir eru jú svo mikilvægar LINKUR) sem tengjast skólabyrjun. Hefðirnar gætu einnig hjálpað sumum af ofurspenntu að stytta biðina eða kvíðnu börnunum við að byrja í skóla. Ef ykkur langar til að taka upp einhverjar af þessum hefðum er það bara frábært, en það er engin pressa – þið gerið bara það sem er best fyrir fjölskylduna ykkar. 

Áður en skólinn byrjar

 

Niðurtalning að skólabyrjun

Hægt er að byrja mánuði fyrir skólasetningu eða t.d. tíu dögum fyrr. Hægt er að krossa yfir daga á dagatali eða búa til eins konar tíu daga “jóladagatal” með smá gjöfum sem er gott að eiga þegar skólinn byrjar, t.d. blýantar, litir og strokleður. 

 

Skólaföt

Það er hefð hjá mörgum að kaupa sérstök föt fyrir skólann. Þetta eru auðvitað bara venjuleg hversdagsföt en þau eru keypt sérstaklega svo börnin séu í nýjum og fínum fötum fyrsta skóladaginn.

 

Skólaálfurinn Skólína

Skólaálfurinn Skólína getur hjálpað kvíðnum börnum við að byrja í skólanum en hún líka einfaldlega skemmtileg hefð fyrir alla. Skólína sendir börnunum bréf við skólabyrjun og oft fylgir lítil gjöf með sem tengist skólanum eða föndri. Skólína sendir smá töfraduft með í umslaginu, það mætti líka vera töfradrykkur í flösku. Ef barnið notar duftið eða drekkur töfradrykkinn getur Skólína komið með í skólann til að passa upp á barnið. Þetta útskýrir hún sjálf í bréfinu. Hún útskýrir líka að þetta sé algjört leyndarmál sem má ekki segja neinum nema foreldrum því annars hætta töfrarnir að virka. Skólína er ósýnileg en hún er alltaf til staðar í skólabyrjun. Börn geta líka skrifað Skólínu og beðið hana um að koma og hjálpa sér með að byrja aftur í skólanum næsta ár. Skólína svarar þá alltaf með bréfi og minnir á hvað það var gaman í skólanum árið áður. Góð regla er að bréfin frá Skólínu komi tveimur dögum fyrir skólasetningu. Þessa hugmynd getur hver fjölskylda þróað áfram sjálf.

 

Viðtal

Áður en skólinn byrjar er gaman að taka viðtal við börnin og spyrja þau út í væntingar sínar og markmið fyrir árið eða annað sem ykkur dettur í hug. Þetta er þá skrifað niður og geymt í möppu eða á öðrum góðum stað.

 

Skólaskemmtun

Nei, ekki skemmtun á vegum skólans heldur lítið partý heima áður en skólinn byrjar til að fagna nýju skólaári. Hægt er að fara í leiki og dansa. 

 

Lesa sögur um skólann

Á hverju kvöldi áður en skólinn byrjar aftur er hægt að lesa skólatengdar sögur fyrir svefninn. Alls konar bækur má finna á bókasöfnum landsins um skólann t.d. Asnaskólann, Skóladraugurinn, Skólaráðráðgátuna, Langelstur í bekknum og bækur úr bókaflokknum Bekkurinn minn.

 

Kaupa skólavörur saman

Í dag eru reyndar margir skólar farnir að bjóða upp á flest skriffæri og stílabækur ókeypis í skólanum en þrátt fyrir það þarf stundum að kaupa nýja skólatösku, pennaveski, nestisbox, brúsa og sundpoka sem dæmi. Það getur verið skemmtileg hefð að kaupa það sem vantar saman. Stundum er líka hægt að kaupa einhverja skemmtilega liti eða penna fyrir skólann, sem þau myndu annars ekki fá þar.

 

Skólaföndur

Fyrir föndrarana og krakkana sem elska að dunda sér er fullkomin hefð að föndra eitthvað skólatengt áður en skólinn byrjar. Hægt er að finna gríðarlega margar hugmyndir á pinterest.

Fyrsta skóladaginn

 

Skólabolur

Fyrsta skóladaginn væri það skemmtileg hefð að skreyta bol og skrifa á hann t.d. “Fyrsti skóladagurinn 2023”. Í myndatökunni er barnið svo í bolnum. Þegar barnið útskrifast svo úr grunnskóla á það vonandi alla bolina ennþá. 

Önnur hugmynd að skólabol væri að kaupa bara einn bol í fullorðins stærð og bæta við handarfari barnsins fyrsta dag hvers skólaárs, út alla skólagönguna. 

 

Morgunverður

Önnur skemmtileg hefð fyrir fyrsta skóladaginn er að búa til flottan morgunverð. Eitthvað sem er kannski í uppáhaldi hjá krökkunum, t.d. pönnukökur, egg og beikon. Skólasetningar eru yfirleitt í kringum 9 eða 10 og því ætti að vera tími í flottari morgunverð þennan morguninn.

 

Mynd

Sennilega er þetta auðveldasta og augljósasta hefðin en líka ein sú skemmtilegasta, að taka mynd af barninu með skólatöskuna, tilbúið til að fara í skólann. Í framtíðinni verður svo gaman að skoða allar myndirnar saman. 

 

Myndband

Það gæti líka verið gaman að taka smá myndband af barninu fyrsta skóladaginn. Spyrja það kannski aðeins út í skólann og hvernig því líður. Seinna verður þá hægt að klippa saman öll myndböndin og búa til eitt lengra. 

 

Snarl eftir skóla

Fyrir B-týpurnar þarna úti sem ekki gátu bakað pönnukökur um morguninn er hér kannski betri hefð fyrir ykkur. Að fara með krakkana í bakarí eftir skólasetningu og fá ykkur eitthvað gott að  borða saman. 

Aðrar skólatengdar hefðir

 

Skólaminningabók

Hægt er að búa til skólaminningabók eða möppu og í hana er hægt að safna myndum frá skólanum, sögum, listaverkum, handarförum og fleiru. Hægt er að skrifa niður það helsta sem barninu finnst skemmtilegt í skólanum, hverjir vinir þess séu og fleira í þeim dúr.

 

Tímahylki

Ekki að þetta þurfi að vera eitthvað hylki. Þetta getur líka bara verið kassi eða box sem þið geymið allar skólaminningarnar í, myndir og bestu verkefnin. Gaman er að skoða tímahylkið árlega.

 

Vonandi nýtast þessar hugmyndir ykkur við að búa til ykkar eigin hefðir í skólabyrjun!

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn Read More »

Afmæli Jóns Árnasonar

Afmæli Jóns Árnasonar

Þann 17. ágúst nk. eru 204 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar. Hver er Jón Árnason eiginlega, spyrja sum sig kannski. Í mjög stuttu máli er Jón Árnason maðurinn sem safnaði saman íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Hann er eins konar Grimm-bróðir Íslendinga, enda varð hann fyrir áhrifum frá bræðrunum þýsku. Hér verður farið yfir ævi hans og störf.

Jón Árnason fæddist þann 17. ágúst árið 1819 á Hofi á Skagaströnd, þar sem faðir hans var prestur. Þegar Jón var á sjöunda ári dó faðir hans og var Jón þá með Steinunni, móður sinni. Jón fór síðan í Bessastaðaskóla og lauk stúdentsprófi þar árið 1843. Jón bjó mest alla ævina í Reykjavík og starfaði m.a. sem landsbókavörður og þjóðminjavörður. 

Jón fór að safna þjóðsögum og ævintýrum víðs vegar af landinu í samstarfi við Magnús Grímsson. Þeir gáfu út Íslenzk æfintýri árið 1852 en sú bók hlaut dræmar viðtökur. Þeir héldu þó áfram söfnuninni. Magnús lést árið 1860 en Jón hélt þó söfnuninni áfram einn. Á árunum 1862-1864 kom út ritið Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri í tveimur bindum. 

Jón Árnason dó árið 1888. 

Í tilefni þessa dags er tilvalið að lesa nokkrar vel valdar þjóðsögur fyrir börnin. Hér á vef Snerpu má finna fjölmargar þjóðsögur úr safni Jóns Árnasonar. Þjóðsögurnar okkar eru dýrmætur menningararfur sem sýnir okkur inn í fortíð þjóðarinnar, sér í lagi alþýðunnar. Þjóðsögurnar gengu mann fram af manni í margar kynslóðir og það er okkar hlutverk að koma þeim til þeirrar næstu.

 

Annað sniðugt sem hægt er að gera í tilefni dagsins er að skrifa sína eigin þjóðsögu eða ævintýri. Hægt er að nota sögukastið hér fyrir neðan. Þar þarf að kasta teningum til að finna út hver aðalpersóna sögunnar á að vera, hvenær sagan gerist, hvar og hvað gerist. Svo þarf bara að skálda í eyðurnar. 

Í lokin eru hér nokkrar gátur sem Jón Árnason og Ólafur Davíðsson söfnuðu á 19. öld og gáfu út í ritinu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur árið 1887. Gáturnar gætu verið nokkuð skrýtnar fyrir okkur á 21. öldinni en þið getið reynt að spreyta ykkur á þeim. 

Á ári hverju einu sinni

alla menn ég sæki heim,

þá sem ei mig eiga í minni

eg óvörum finn, og hverf frá þeim.

Á björtum degi ei birtist lýð,

bragnar sjá þá eigi,

en um nætur alla tíð

er hún ljós á vegi.

Eg er hús með aungum tveim

í mér liggja bræður fimm;

í hörðum kulda hlífi eg þeim,

þó hríðin verði köld og grimm.

Svör: Afmælisdagur, stjarna og vettlingar.

Afmæli Jóns Árnasonar Read More »

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Spil er kannski full stórt til orða tekið. Þetta eru kannski frekar leikir með spilastokki fyrir ung börn heldur en eiginleg spil. Leikirnir henta börnum sem eru svona tveggja til þriggja ára. Þeir eru einfaldir og skemmtilegir fyrir þennan aldurshóp, sem er ekki alveg farinn að spila spil ennþá en eru kannski áhugasöm um spil. 

Leikirnir geta æft börnin í að þekkja spilin, ekki endilega tölurnar þó, heldur sortirnar og litina. Þetta ætti að undirbúa þau vel undir að spila alvöru spil þegar þau eru orðin aðeins eldri.

Auðvitað er þetta svo bara fínasta skemmtun fyrir þau og góð afþreying.

Athugað að það getur verið gott að nota spilastokk sem má eyðileggjast þegar um svona ung börn er að ræða. 

Flokkun

Flokkun er einfaldur leikur þar sem markmiðið er að flokka spilin eftir litum. Barnið fær 10-15 spil og á að flokka þau eftir því hvort þau eru rauð eða svört. Sjá myndina hér fyrir neðan.

Para saman

Til þess að spila para saman þarf að finna til 6-8 pör af mismunandi sortum (hjarta, spaði, tígull, lauf). Spilunum er raðað á hvolf á borð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Barnið getur svo flett tveimur spilum í einu og reynt að finna spil sem passa saman, t.d. tvo tígla eða tvö hjörtu. Spilið er nokkurn veginn eins og minnisspil en aðeins auðveldara og ekki með ströngum reglum. 

 

Giska og flokka

Í þessum leik eru spilin í hrúgu á hvolfi á borðinu og barnið dregur eitt spil í einu og giskar á hvort það komi svart eða rautt spil. Svörtu og rauðu spilin mega svo fara í hvor sinn bunkann, sama hvort giskað var rétt á eða ekki. 

Tína

Klassískt spil sem flest okkar þekkja en spila sennilega sem sjaldnast. 

Í Tínu er bunkanum hent á borðið eða gólfið og svo þarf einfaldlega að tína upp spilin. 

Mjög einföld spil fyrir ung börn Read More »

100 fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið

100 fæðutegundir fyrir 1 árs

Mynd: Hui Sang

Það getur verið mjög spennandi að bjóða litla barninu sínu upp á fasta fæðu í fyrsta skiptið. Í dag er mjög vinsælt að velja “baby-led weaning”-aðferðinni við að venja börn á fasta fæðu. Þá fær barnið að borða sjálft, heldur sjálft á matnum og matar sig sjálft. Maturinn er ekki maukaður fyrir það sérstaklega og ef það fær graut á það að nota skeið sjálft. Mikið áhersla er lögð á að börnin prófi sem flestar fæðutegundir og áferðir. Þessi aðferð á að skila sjálfstæðum börnum sem hlusta á eigin hungur- og seddutilfinningu og eru til í að prófa nýjan mat. Oft er talað um að börn ættu að vera búin að prófa 100 mismunandi fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið í sambandi við þessa aðferð. Það er ágætis markmið og vel gerlegt og kemur vonandi í veg fyrir matvönd börn. 

Heimilisvefurinn hefur búið til bækling með þeim fæðutegundum sem börn gætu prófað fyrir fyrsta afmælisdaginn til að hjálpa foreldrum við að halda utan um hvað er búið að prófa. Á listanum eru ávextir, grænmeti, prótein, kornvörur o.fl. en einnig auð pláss þar sem hægt er að bæta inn sínu eigin. Sumt á listanum þarf að passa sig vel á þegar verið er að gefa barnið, t.d. vínber og epli – það er þó nokkur köfnunarhætta sem stafar af þeim ef þau eru ekki gefin á viðeigandi hátt. Á listanum eru ekki þær fæðutegundir sem embætti landlæknis telur óæskilegar fyrir börn t.d. rabarbari, spínat, fennel, rauðrófur og sellerí. Sumt á listanum ætti aðeins að gefa börnum undir eins árs í hófi, t.d. kanil og skyr. Til gamans eru svo hægt að lita broskallana til hliðar til að sýna hvað barninu fannst um þessa fæðu.

En jafnvel þótt þú aðhyllist ekki „baby-led weaning“ aðferðina getur þessi litli bæklingur samt sem áður hentað ágætlega ef þig langar til að barnið smakki sem flest fyrir 1 árs.

100 fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið Read More »

Afmæli Tove Jansson – Múmíndagurinn

Afmæli Tove Jansson - Múmíndagurinn

Þann 9. ágúst næstkomandi er afmælisdagur Tove Jansson, höfundar Múmínálfanna. Tove fæddist árið 1914 í Helsinki í Finnlandi en var af finnlandssænskum ættum. Foreldrar hennar voru bæði listafólk, faðir hennar, Viktor, var myndhöggvari og móðir hennar, Signe, var grafískur hönnuður og myndskreytir. Tove átti tvo bræður, Per og Lars. Þeir fundu einnig köllun sína í listaheiminum, en Per varð ljósmyndari og Lars rithöfundur og teiknimyndasöguhöfundur. Tove skrifaði og skreytti sína fyrstu  bók aðeins 14 ára gömul og var farin að selja teikningar í tímarit á svipuðum tíma. 

Tove Jansson er fyrst og fremst þekkt fyrir að hafa skrifað sögurnar um Múmínálfana og þær verur þekkja sennilega flest. Fyrsta bókin um Múmínálfana kom út árið 1945 og kjölfarið fylgdu átta bækur til viðbótar um þá. Múmínálfarnir lenda í hinum ýmsu ævintýrum og persónur bókanna fjölbreyttar og skemmtilegar, þótt fyrst og fremst séu Múmínsnáðinn og Múmínmamma aðalpersónur bókanna. 

Tove Jansson hitti lífsförunaut sinn, Tuulikki Pietilä eða Tooti, eins og hún var kölluð, árið 1956. Þær bjuggu í sitt hvorri íbúðinni í Helsinki en innangengt var á milli því samkynhneigð varð ekki lögleg fyrr en á 8. áratugnum í Finnlandi. Tove dó úr krabbameini þann 27. Júní 2001, 86 ára að aldri. 

Til að halda upp á afmælisdag Tove Jansson og múmíndaginn er hægt að:

  • Lesa múmínálfana og kynnast lífinu í Múmíndal.
  • Halda múmínboð að hætti Múmínmömmu með því að;
    • skreyta
    • bjóða upp á pönnukökur með sultu
    • dansa
    • halda ræðu
    • drekka saft úr múmínbollum

Það er auðvitað skemmtilegast ef þetta er gert í garðinum, en hver gerir það sem hentar. Hér er svo uppskrift að finnskum pönnukökum sem eru bakaðar í ofni.

Finnskar pönnukökur í ofni (Pannukakku)

150 g hveiti

1 tsk lyftiduft

2 msk sykur

Smá salt

4 egg

600 ml mjólk

25 g smjör, bráðið

  1. Setjið hveiti, lyftiduft, sykur og salt í stóra skál og hrærið saman. 
  2. Bætið eggjunum út í skálina og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Á þessum tímapunkti er deigið mjög þykkt. Bætið mjólkinni við smátt og smátt, hærið á milli, þar til allt hefur blandast vel saman og deigið er kekkjalaust.
  3. Leyfið deiginu að standa í a.m.k. ½ klst. Það þykknar aðeins á þeim tíma.
  4. Um það bil 10 mínútum áður en pönnukökurnar fara í ofninn er hann hitaður í 180°C.
  5. Smyrjið eldfast mót með bráðna smjöinu og hellið deiginu í. Bakið í um 30 mínútur. Pönnukakan ætti að hafa risið vel og vera orðin gullinbrún að lit. 
  6. Berið fram með flórsykri, sultu og rjóma.

Afmæli Tove Jansson – Múmíndagurinn Read More »

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum

Fyrir nokkrum vikum birtist færsla hér á Heimilisvefnum um hvernig við getum hlúið að sambandi okkar við makann með því að fara á stefnumót reglulega. 

Loksins eru hér komnar 16 fleiri hugmyndir til að setja í krukkuna eða í umslög. Eins og áður er mikilvægt að þið takið úr þær hugmyndir sem henta ykkur ekki, eru t.d. of dýr eða einfaldlega eitthvað sem þið getið ekki hugsað ykkur að gera. 

Mynd: El Salanzo

Von er á enn fleiri hugmyndum að stefnumótum seinna. 

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum Read More »