desember 2023

Gleðileg jól!

Gleðileg jól!

Heimilisvefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi nýs árs. Vefurinn þakkar fyrir góða viðtökur á árinu. Við bjuggumst ekki við því að geta náð til svo margra eins og raun ber vitni en í kringum hundrað manns kíkja á síðuna á hverjum degi, þrátt fyrir að síðan sé ekkert auglýst. 

En sem jólagjöf til fjölskyldna þessi jólin hefur Heimilisvefurinn bætt við litamyndasíðu sem hægt er að finna hér. Þar er hægt að finna átta jólalitamyndir til að lita yfir hátíðirnar. 

Gleðileg jól! Read More »

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuunnendur þessa lands ættu ekki að láta þessa djúsí ostaköku fram hjá sér fara. Hér eru mömmukökur komnar í ostakökubúning og þetta gæti verið flottur eftirréttur um jólin eða í jólaboðið.

Botn
200 g mömmukökur án krems
85 g smjör

Fylling
200 g mascarponeostur
250 g vanilluskyr
100 g flórsykur
2 dl rjómi
4 matarlímsblöð
1 tsk vanillusykur

Sósa
75 g rjómatöggur
2-3 msk rjómi

Til skrauts
Rjómi
Litlar mömmukökur

1. Byrjið á að stilla ofninn á 170°C og blástur.
2. Takið fram 20 cm smelluform og setjið bökunarpappír í botninn.
3. Myljið mömmukökur án krems í matvinnsluvél og bræðið smjör. Blandið saman og hellið í smelluformið.
4. Þjappið mömmukökumylsnunum í botninn og til hliðanna á forminu. 
5. Bakið í ofni í 10 mínútur og kælið síðan.
6. Á meðan er hægt að byrja á fyllingunni með því að setja mascarponeost í skál og þeytið þangað til osturinn mýkist.
7. Bætið síðan við vanilluskyri, flórsykri og vanillusykri út í og þeytið saman þar til engir kekkir eru eftir.
8. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni.
9. Þeytið rjómann þar til hann er nokkuð mikið þeyttur og blandið honum svo varlega út í skyrblönduna. 
10. Setjið 3-4 msk af vatni í lítinn pott og hitið. Kreistið vatnið úr matarlímsblöðunum og setjið út í pottinn með vatninu. Hrærið þangað til þau bráðna.
11. Bætið við vænni skeið af ostakökufyllingunni út í matarlími og takið pottinn af hitanum. Hrærið vel og bætið svo öllu út í restina af fyllingunni og hrærið mjög vel.
12. Takið botninn fram og hellið fyllingunni ofan í hann. Setjið kökuna aftur í ísskápinn og kælið í minnst 4 klst, helst yfir nótt.
13. Ekki löngu áður en kakan verður borin fram er hægt að byrja á karamellunni. Til að gera hana þarf einfaldlega að setja rjómatöggur og rjóma í pott og hita á miðlungs hita þar til karamellurnar hafa bráðnað alveg út í rjómann. 
14. Dreifið karamellunni yfir kökuna.
15. Þeytið 1-2 dl af rjóma og skreytið kökuna með honum ásamt litlum mömmukökum. 

Verði ykkur að góðu!

Mömmukökuostakaka Read More »