Útigrill á höfuðborgarsvæðinu
Útigrill á höfuðborgarsvæðinu
Það er fátt sumarlegra, bragðbetra og skemmtilegra en að grilla á sumrin! Það er enn skemmtilegra að grilla úti í náttúrunni. Það að búa til skemmtilegan dag með vinum og ættingjum þar sem er farið út og grillað saman er ævintýri líkast fyrir unga sem aldna. Mjög oft er leiksvæði eða grasflöt við útigrillin og því hægt að leika sér í leiktækjum eða fara í leiki. Athugið að stundum geta grillin þurft á hreingerningu að halda áður en grillað er.
Þar sem grillin eru kolagrill er nauðsynlegt að taka með sér;
– kol
– grillvökva
– eldspýtur eða kveikjara
– grillbursta, töng og/eða spaða
– eldhúspappír, tusku og/eða viskustykki
Svo má ekki gleyma;
– mat á grillið og meðlæti
– diskum, glösum og hnífapörum (fer eftir því hvað á að grilla – stundum þarf líka skeiðar í meðlætið)
– eldhúspappír/servíettum
Annað sem gæti verið gaman að hafa með;
– teppi á grasið
– boltar, kubbur, frisbídiskar eða önnur útileikföng
Heimilisvefurinn hefur tekið saman staði á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru útigrill til notkunar fyrir almenning. Með tíð og tíma bætist vonandi við listann.
Aparóló við Rauðalæk
Staðsetning: opið grænt svæði milli Rauðalækjar og Bugðulækjar
Aðstaða: kolagrill og bekkir
Í kring: leiktæki og stórt tún
Bílastæði: í götum í kring
Bryggjuhverfið
Staðsetning: Við Gullinbrú
Aðstaða: eitt kolagrill og borð með bekkjum
Í kring: skjólgóður leikvöllur með leiktækjum fyrir börn á öllum aldri (ungbarnaróla líka), ærslabelgur, fótboltavöllur og stór grasflöt sem hentar til leikja
Bílastæði: við Básbryggju eða Naustabryggju, strætó stoppar einnig skammt frá
Grafarvogur
Staðsetning: Við Logafold, í botni Grafarvogs
Aðstaða: eitt kolagrill og eitt borð með bekkjum
Í kring: skjólgott og gróið leiksvæði með leiktækjum, körfuboltavöllur, ærslabelgur, svæði með æfingatækjum, grasflöt og völlur fyrir hjól/hjólabretti/hlaupahjól. Stundum sést í hestana við Keldur
Bílastæði: í götu við Logafold
Guðmundarlundur
Staðsetning: í Vatnsendahlíð í Vatnsendalandi í Kópavogi
Aðstaða: tvö kolagrill ásamt grillburstum og borð og bekkir, klósett
Í kring: skjólgóð skógrækt með mini-golfi, frisbígolfi, grasflöt og leiksvæðum
Bílastæði: við Guðmundarlund
Gufunesbær
Staðsetning: Við leikvöllinn í Gufunesbæ
Aðstaða: gott grillskýli og bekkir
Í kring: ótrúlega flottur og spennandi leikvöllur, strandbaksvellir, hjólabraut og náttúra
Bílastæði: Við Gufunesbæ
Heiðmörk
Í Heiðmörk eru nokkrir staðir með útigrilli:
- Fræðslurjóður – hlóðir til að kveikja eld, bekkir og borð
- Furulundur – leiktæki, blakvöllur og grillaðstaða
- Grenilundur – grillaðstaða, og leik- og klifurtæki
- Helluvatn – grillaðstaða undir þaki
- Hjallaflatir – fótboltavöllur og grillaðstaða
- Símamannalaut – grill, borð og bekkir
- Vífilsstaðahlíð – yfirbyggt útigrill
- Vígsluflöt – Rariklundur – grill, borð og bekkir
- Þjóðhátíðarlundur – grill, borð og bekkir, bílastæði, leiktæki og fótboltavöllur
Hljómskálagarðurinn
Staðsetning: miðborg Reykjavíkur
Aðstaða: eitt grill og borð með bekkjum
Í kring: grasflöt, tjörn og leiksvæði
Bílastæði: í nærliggjandi götum
Hvaleyrarvatn
Staðsetning: annað grillið er við austanvert vatnið, hitt vestanvert
Aðstaða: kolagrill, borð og stólar
Í kring: göngustígar, skógur og vatn
Bílastæði: norðan og vestan við vatnið
Nauthólsvík
Staðsetning: ylströndin Nauthólsvík
Aðstaða: grill og bekkir
Í kring: ylströndin, búningsklefar, heitur pottur, leiktæki, sjoppa og margt fleira
Bílastæði: við ylströndina, eða jafnvel við Háskóla Reykjavíkur
Rauðavatn
Staðsetning: við Hádegismóa við norðanvert vatnið
Aðstaða: grillskýli og bekkir
Í kring: Rauðavatn, bekkir og náttúran
Bílastæði: Hádegismóar
Stekkjarflöt
Staðsetning: milli leikvallar og tjarnarinnar
Aðstaða: kolagrill, grillskýli og ruslatunna
Í kring: ærslabelgur, leiktæki og tjörn
Bílastæði: við Stekkjarflöt og í Álafosskvos
Úlfarsárdalur
Staðsetning: við göngustíg í miðjum Úlfarsárdal
Aðstaða: tvö útigrill og fjórir bekkir með borðum í litlu skýli
Í kring: náttúra, nokkur spotti í leiksvæði en náttúran er allt í kring
Bílastæði: við Dalskóla eða íþróttahús Fram
Yndisgarðurinn í Fossvogi
Staðsetning: í botni Fossvogs
Aðstaða: grill, bekkir
Í kring: eplagarður, skógur og norrænn rósagarður
Bílastæði: við Fossvogsbrún eða Kjarrhólma
Viðey
Staðsetning: hesthúsið fyrir aftan Viðeyjarstofu
Aðstaða: kolagrill
Í kring: Viðeyjarstofa, leiksvæði, fjara, salernisaðstaða, náttúra
Ferja: sjö ferðir eru farnar á dag frá Skarfabakka á sumrin, ein frá gömlu höfninni
Ævintýragarðurinn
Staðsetning: Ullarnesbrekkur í Mosfellsbæ
Aðstaða: grillskýli, kolagrill, rusl, bekkur og borð
Í kring: leiktæki, grasflöt, ærslabelgur
Bílastæði: Við Varmárlaug
Útigrill á höfuðborgarsvæðinu Read More »