afþreying fyrir börn

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Spil er kannski full stórt til orða tekið. Þetta eru kannski frekar leikir með spilastokki fyrir ung börn heldur en eiginleg spil. Leikirnir henta börnum sem eru svona tveggja til þriggja ára. Þeir eru einfaldir og skemmtilegir fyrir þennan aldurshóp, sem er ekki alveg farinn að spila spil ennþá en eru kannski áhugasöm um spil. 

Leikirnir geta æft börnin í að þekkja spilin, ekki endilega tölurnar þó, heldur sortirnar og litina. Þetta ætti að undirbúa þau vel undir að spila alvöru spil þegar þau eru orðin aðeins eldri.

Auðvitað er þetta svo bara fínasta skemmtun fyrir þau og góð afþreying.

Athugað að það getur verið gott að nota spilastokk sem má eyðileggjast þegar um svona ung börn er að ræða. 

Flokkun

Flokkun er einfaldur leikur þar sem markmiðið er að flokka spilin eftir litum. Barnið fær 10-15 spil og á að flokka þau eftir því hvort þau eru rauð eða svört. Sjá myndina hér fyrir neðan.

Para saman

Til þess að spila para saman þarf að finna til 6-8 pör af mismunandi sortum (hjarta, spaði, tígull, lauf). Spilunum er raðað á hvolf á borð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Barnið getur svo flett tveimur spilum í einu og reynt að finna spil sem passa saman, t.d. tvo tígla eða tvö hjörtu. Spilið er nokkurn veginn eins og minnisspil en aðeins auðveldara og ekki með ströngum reglum. 

 

Giska og flokka

Í þessum leik eru spilin í hrúgu á hvolfi á borðinu og barnið dregur eitt spil í einu og giskar á hvort það komi svart eða rautt spil. Svörtu og rauðu spilin mega svo fara í hvor sinn bunkann, sama hvort giskað var rétt á eða ekki. 

Tína

Klassískt spil sem flest okkar þekkja en spila sennilega sem sjaldnast. 

Í Tínu er bunkanum hent á borðið eða gólfið og svo þarf einfaldlega að tína upp spilin. 

Mjög einföld spil fyrir ung börn Read More »

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen er eitt af fyrstu spilunum sem börnum er kennt. Þetta er klassískt og tilötlulega einfalt spil sem líklega allir Íslendingar þekkja og hafa prófað. Hér verður farið yfir reglur upprunalega spilsins, Ólsen Ólsen upp og niður (sem margir þekkja einnig) og svo fjórar aðrar útgáfur spilsins sem gaman er að prófa. Það er alveg tilvalið að prófa þessar nýju spilareglur í sumarbústaðarferðunum í sumar.

Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út laufa sexu.

Gangur spilsins: Sá sem er á vinstri hönd þess sem gaf byrjar spilið og svo gengur hringurinn réttsælis. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett niður spil af sömu sort eða sem er með sömu tölu og er á efsta spili kastbunkans. Sé t.d. laufa tvistur í borði getur leikmaðurinn sett út annað hvort tvist eða lauf. Sé leikmaður með fleiri en einn tvist getur hann sett þær allar út og þar með breytt um sort. Einnig er hægt að breyta um sort með því að settja niður áttu og segja þá í hvaða sort maður vill breyta. Áttur er hægt að leggja ofan á hvaða spil sem er, hún þarf ekki að vera í sömu sort og spilið í kastbunkanum. Ef leikmaður getur ekki sett neitt spil út má hann draga spil, þó að hámarki þrjú. Ef leikmaður dregur spil sem hann getur notað má hann nota það strax, ef ekki kemur nýtanlegt spil þarf leikmaður að segja pass og næsti leikmaður gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi verður hann að segja „Ólsen“ áður en næsti gerir. Ef það gleymist þarf leikmaðurinn að draga þrjú spil úr spilastokknum sem refsingu. Þótt leikmaður eigi tvö lík spil á hendi (t.d. tvær níur) þarf hann ekki að segja „Ólsen“ fyrr en hann hefur sett fyrra spilið niður og setur svo síðasta spilið sitt í kjölfarið. Þegar síðasta spilið er lagt út segir leikmaðurinn „Ólsen Ólsen“ og sigrar þar með spilið.

Ólsen Ólsen upp og niður

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður, nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við.

Markmið: Að vera fyrstur til að losa sig við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borðið og efsta spili stokksins er snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út annan þristinn.

Gangur spilsins: Í Ólsen Ólsen upp og niður skipta sortirnar engu máli, aðeins tölurnar. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en spilið sem er í kastbunkanum. Ef það er, sem dæmi, tvistur í borði má leikmaður setja annað hvort ás eða þrist út. Í kjölfarið má hann svo setja eins mörg spil út og hann getur, en alltaf þurfa þau að vera annað hvort einu hærra eða lægri en spilið á undan. Geti leikmaður ekki sett út spil má hann draga allt að þrjú spil. Ef hann getur ekki sett út neitt af þeim spilum segir hann pass og næsti gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi segir hann “Ólsen” og þegar síðasta spil af hendi er lagt í borðið segir leikmaðurinn “Ólsen Ólsen upp og niður” og vinnur þar með spilið. Eins og í venjulega spilinu þarf leikmaður að draga þrjú spil sem refsingu ef hann gleymir að segja “Ólsen”.

Ólsen Ólsen með stigum

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi og vera með sem fæst stig í lok spilsins.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum. Skrifblokk og blýantur/penni þarf að vera við höndina.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen með stigum spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema hvað refsistig eru gefin í lok hverrar umferðar. Spilað er upp í ákveðna tölu (t.d. 500) eða ákveðið margar umferðir spilaðar (t.d. 10). Sá vinnur sem er með fæst stig.

Ef leikmaður endar með þessi spil á hendi myndi hann fá 30 stig.

Stigagjöf: Þegar einn leikmaðurinn hefur unnið umferð þurfa aðrir leikmenn, sem enn eru með spil á hendi, að reikna út hvað þeir fengu mörg (refsi)stig. 

Ás-7 og 9 gilda sem 5 stig, 10 og mannspil gilda sem 10 stig og 8 gildir sem 25 stig

Hafi leikmaður t.d. níu, gosa og áttu á hendi við lok umferðar (þegar annar leikmaður hefur unnið) fær sá leikmaður 40 stig. Ef einhver leikmaður endar í t.d. 500 stigum eða meiru er spilinu lokið og sá sem er með lægstu stigin vinnur. Einnig er hægt að ákveða hversu margar umferðir verða spilaðar og þá vinnur sá leikmaður sem fæst stig hefur við lok t.d. tíundu umferðar.

Ólsen Ólsen klikk

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen klikk spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema að við reglurnar bætist að ef leikmaður setur út tvist þarf næsti leikmaður að draga tvö spil, ef ás er settur út snýst hringurinn við og ef drottning er látin út missir næsti leikmaður úr eina umferð. Áttur geta, eins og áður, breytt sortinni.

Hér þarf næsti leikmaður að draga tvö spil.

Langi Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Spilið gengur alveg eins fyrir sig og venjulegur Ólsen Ólsen nema hvað að þegar annar leikmaðurinn leggur út síðasta spilið og segir “Ólsen Ólsen” líkt og venjulega þarf hann að draga fimm spil og halda áfram með spilið en í þetta sinn eru sjöur orðnar að spilinu sem má breyta um sort. Ef sá leikmaður vinnur spilið svo aftur verða sexur að spilinu sem getur breytt um sort og svo koll af kolli þar til annar leikmaðurinn vinnur spilið þegar hann er kominn niður í ásana.

Svindl Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Þessi útgáfa af Ólsen Ólsen er ólík upprunalega spilinu því í því má reyna að svindla. Leikmaður getur reynt að fela spil án þess að aðrir leikmenn taki eftir eða leggja t.d. tvö niður í einu. Ef annar leikmaður tekur eftir svindlinu lætur hann vita og sá sem svindlaði dregur þrjú spil sem refsingu. Ef leikmaður ásakar annan leikmann ranglega um svindl, þarf sá sem ásakaði að draga sjálfur þrjú spil.



Ólsen Ólsen og fimm vinir hans Read More »

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Áfram höldum við með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Ártúnsholti í Reykjavík, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í tólf og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. Á sumum stöðum og á leiðinni milli staða þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

Gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa, og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, tólf talsins. Á lóð einkarekna leikskólans Regnbogans er ekki leyfilegt að leika sér. Hverfið er ekki stórt og leikvellirnir samtals tólf svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið alveg endilega senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Ævintýraferð um Ártúnsholt Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

Nú þegar vel er liðið á júní eru flest börn komin í sumarfrí og styttist í það hjá leikskólabörnunum líka. Sumir foreldrar geta ekki beðið eftir þessum tíma þar sem hægt að fara út að bralla eitthvað með börnunum dag eftir dag, á meðan aðrir foreldrar kvíða því að þurfa að hafa ofan af fyrir krökkunum í rútínuleysi sumarfrísins. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að þurfa hugmyndir að einhverju sem gerir sumarið skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana. Sumt er einfalt og ódýrt en annað er flóknara. Hægt er að setja sér markmið með krökkunum um að reyna að gera eitthvað eitt á listanum (eða ykkar eigin lista) á hverjum degi, eða t.d. annan hvern dag. 

Hér er listinn en auðvitað er gríðarlega margt fleira hægt að gera og líklega munu fleiri listar bætast við í framtíðinni hér á Heimilisvefnum. 

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar Read More »

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Já, það hugsa kannski ekki allir um Neðra-Breiðholtið sem ævintýralegt hverfi en engu að síður er hægt að fara í mjög skemmtilega ævintýraferð um hverfið. 

 

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum upp í 31 (já, það eru svona margir leikvellir í hverfinu!) og er það tillaga að því hvernig er hægt að fara um hverfið og prófa að leika sér á öllum leikvöllunum. Á sumum stöðunum þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

 Í ævintýraferðina er gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru 31 leikvöllur af öllum stærðum og gerðum  í hverfinu svo ævintýraferðin tekur mjög líklega stóran hluta af deginum, sérstaklega ef prófa á öll tækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið. 

 

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Margir leikvallanna í þessari ævintýraferð eru á einkalóðum fjölbýlishúsa. Það er því mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana og ef íbúarnir vilja, einhverra hluta vegna, ekki fá aðra á lóðina til sín skal virða það í einu og öllu. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna, sérstaklega við eldri fjölbýlishús og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Hægt er að sækja pdf-skjal af ævintýraferðinni til útprentunar hér. Það er líka vel hægt að hafa það í símanum en þá er ekki hægt að skrifa niður svörin í ratleiknum.

 

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt Read More »