Nú þegar vel er liðið á júní eru flest börn komin í sumarfrí og styttist í það hjá leikskólabörnunum líka. Sumir foreldrar geta ekki beðið eftir þessum tíma þar sem hægt að fara út að bralla eitthvað með börnunum dag eftir dag, á meðan aðrir foreldrar kvíða því að þurfa að hafa ofan af fyrir krökkunum í rútínuleysi sumarfrísins. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að þurfa hugmyndir að einhverju sem gerir sumarið skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana. Sumt er einfalt og ódýrt en annað er flóknara. Hægt er að setja sér markmið með krökkunum um að reyna að gera eitthvað eitt á listanum (eða ykkar eigin lista) á hverjum degi, eða t.d. annan hvern dag.
Hér er listinn en auðvitað er gríðarlega margt fleira hægt að gera og líklega munu fleiri listar bætast við í framtíðinni hér á Heimilisvefnum.
Já, það hugsa kannski ekki allir um Neðra-Breiðholtið sem ævintýralegt hverfi en engu að síður er hægt að fara í mjög skemmtilega ævintýraferð um hverfið.
Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum upp í 31 (já, það eru svona margir leikvellir í hverfinu!) og er það tillaga að því hvernig er hægt að fara um hverfið og prófa að leika sér á öllum leikvöllunum. Á sumum stöðunum þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.
Í ævintýraferðina er gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru 31 leikvöllur af öllum stærðum og gerðum í hverfinu svo ævintýraferðin tekur mjög líklega stóran hluta af deginum, sérstaklega ef prófa á öll tækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.
Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Margir leikvallanna í þessari ævintýraferð eru á einkalóðum fjölbýlishúsa. Það er því mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana og ef íbúarnir vilja, einhverra hluta vegna, ekki fá aðra á lóðina til sín skal virða það í einu og öllu. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna, sérstaklega við eldri fjölbýlishús og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.
Hægt er að sækja pdf-skjal af ævintýraferðinni til útprentunar hér. Það er líka vel hægt að hafa það í símanum en þá er ekki hægt að skrifa niður svörin í ratleiknum.
Góða skemmtun!
Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.