börn

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn

Senn líður að því að skólarnir fari að byrja aftur, leikskólarnir eru þó reyndar flestir byrjaðir aftur. Mörg börn bíða spennt eftir að byrja í skólanum, kannski mest þau sem eru að byrja í 1. bekk, en þessi eldri mörg hver líka. Það er gaman að hitta alla vinina aftur og eignast kannski nýja. Önnur eru ekki eins spennt og margar ástæður geta legið þar að baki. En hvort sem barnið þitt er spennt eða ekki eru hér nokkrar hefðir (því hefðir eru jú svo mikilvægar LINKUR) sem tengjast skólabyrjun. Hefðirnar gætu einnig hjálpað sumum af ofurspenntu að stytta biðina eða kvíðnu börnunum við að byrja í skóla. Ef ykkur langar til að taka upp einhverjar af þessum hefðum er það bara frábært, en það er engin pressa – þið gerið bara það sem er best fyrir fjölskylduna ykkar. 

Áður en skólinn byrjar

 

Niðurtalning að skólabyrjun

Hægt er að byrja mánuði fyrir skólasetningu eða t.d. tíu dögum fyrr. Hægt er að krossa yfir daga á dagatali eða búa til eins konar tíu daga “jóladagatal” með smá gjöfum sem er gott að eiga þegar skólinn byrjar, t.d. blýantar, litir og strokleður. 

 

Skólaföt

Það er hefð hjá mörgum að kaupa sérstök föt fyrir skólann. Þetta eru auðvitað bara venjuleg hversdagsföt en þau eru keypt sérstaklega svo börnin séu í nýjum og fínum fötum fyrsta skóladaginn.

 

Skólaálfurinn Skólína

Skólaálfurinn Skólína getur hjálpað kvíðnum börnum við að byrja í skólanum en hún líka einfaldlega skemmtileg hefð fyrir alla. Skólína sendir börnunum bréf við skólabyrjun og oft fylgir lítil gjöf með sem tengist skólanum eða föndri. Skólína sendir smá töfraduft með í umslaginu, það mætti líka vera töfradrykkur í flösku. Ef barnið notar duftið eða drekkur töfradrykkinn getur Skólína komið með í skólann til að passa upp á barnið. Þetta útskýrir hún sjálf í bréfinu. Hún útskýrir líka að þetta sé algjört leyndarmál sem má ekki segja neinum nema foreldrum því annars hætta töfrarnir að virka. Skólína er ósýnileg en hún er alltaf til staðar í skólabyrjun. Börn geta líka skrifað Skólínu og beðið hana um að koma og hjálpa sér með að byrja aftur í skólanum næsta ár. Skólína svarar þá alltaf með bréfi og minnir á hvað það var gaman í skólanum árið áður. Góð regla er að bréfin frá Skólínu komi tveimur dögum fyrir skólasetningu. Þessa hugmynd getur hver fjölskylda þróað áfram sjálf.

 

Viðtal

Áður en skólinn byrjar er gaman að taka viðtal við börnin og spyrja þau út í væntingar sínar og markmið fyrir árið eða annað sem ykkur dettur í hug. Þetta er þá skrifað niður og geymt í möppu eða á öðrum góðum stað.

 

Skólaskemmtun

Nei, ekki skemmtun á vegum skólans heldur lítið partý heima áður en skólinn byrjar til að fagna nýju skólaári. Hægt er að fara í leiki og dansa. 

 

Lesa sögur um skólann

Á hverju kvöldi áður en skólinn byrjar aftur er hægt að lesa skólatengdar sögur fyrir svefninn. Alls konar bækur má finna á bókasöfnum landsins um skólann t.d. Asnaskólann, Skóladraugurinn, Skólaráðráðgátuna, Langelstur í bekknum og bækur úr bókaflokknum Bekkurinn minn.

 

Kaupa skólavörur saman

Í dag eru reyndar margir skólar farnir að bjóða upp á flest skriffæri og stílabækur ókeypis í skólanum en þrátt fyrir það þarf stundum að kaupa nýja skólatösku, pennaveski, nestisbox, brúsa og sundpoka sem dæmi. Það getur verið skemmtileg hefð að kaupa það sem vantar saman. Stundum er líka hægt að kaupa einhverja skemmtilega liti eða penna fyrir skólann, sem þau myndu annars ekki fá þar.

 

Skólaföndur

Fyrir föndrarana og krakkana sem elska að dunda sér er fullkomin hefð að föndra eitthvað skólatengt áður en skólinn byrjar. Hægt er að finna gríðarlega margar hugmyndir á pinterest.

Fyrsta skóladaginn

 

Skólabolur

Fyrsta skóladaginn væri það skemmtileg hefð að skreyta bol og skrifa á hann t.d. “Fyrsti skóladagurinn 2023”. Í myndatökunni er barnið svo í bolnum. Þegar barnið útskrifast svo úr grunnskóla á það vonandi alla bolina ennþá. 

Önnur hugmynd að skólabol væri að kaupa bara einn bol í fullorðins stærð og bæta við handarfari barnsins fyrsta dag hvers skólaárs, út alla skólagönguna. 

 

Morgunverður

Önnur skemmtileg hefð fyrir fyrsta skóladaginn er að búa til flottan morgunverð. Eitthvað sem er kannski í uppáhaldi hjá krökkunum, t.d. pönnukökur, egg og beikon. Skólasetningar eru yfirleitt í kringum 9 eða 10 og því ætti að vera tími í flottari morgunverð þennan morguninn.

 

Mynd

Sennilega er þetta auðveldasta og augljósasta hefðin en líka ein sú skemmtilegasta, að taka mynd af barninu með skólatöskuna, tilbúið til að fara í skólann. Í framtíðinni verður svo gaman að skoða allar myndirnar saman. 

 

Myndband

Það gæti líka verið gaman að taka smá myndband af barninu fyrsta skóladaginn. Spyrja það kannski aðeins út í skólann og hvernig því líður. Seinna verður þá hægt að klippa saman öll myndböndin og búa til eitt lengra. 

 

Snarl eftir skóla

Fyrir B-týpurnar þarna úti sem ekki gátu bakað pönnukökur um morguninn er hér kannski betri hefð fyrir ykkur. Að fara með krakkana í bakarí eftir skólasetningu og fá ykkur eitthvað gott að  borða saman. 

Aðrar skólatengdar hefðir

 

Skólaminningabók

Hægt er að búa til skólaminningabók eða möppu og í hana er hægt að safna myndum frá skólanum, sögum, listaverkum, handarförum og fleiru. Hægt er að skrifa niður það helsta sem barninu finnst skemmtilegt í skólanum, hverjir vinir þess séu og fleira í þeim dúr.

 

Tímahylki

Ekki að þetta þurfi að vera eitthvað hylki. Þetta getur líka bara verið kassi eða box sem þið geymið allar skólaminningarnar í, myndir og bestu verkefnin. Gaman er að skoða tímahylkið árlega.

 

Vonandi nýtast þessar hugmyndir ykkur við að búa til ykkar eigin hefðir í skólabyrjun!

Hefðir fyrir fyrsta skóladaginn Read More »

Afmæli Jóns Árnasonar

Afmæli Jóns Árnasonar

Þann 17. ágúst nk. eru 204 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar. Hver er Jón Árnason eiginlega, spyrja sum sig kannski. Í mjög stuttu máli er Jón Árnason maðurinn sem safnaði saman íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Hann er eins konar Grimm-bróðir Íslendinga, enda varð hann fyrir áhrifum frá bræðrunum þýsku. Hér verður farið yfir ævi hans og störf.

Jón Árnason fæddist þann 17. ágúst árið 1819 á Hofi á Skagaströnd, þar sem faðir hans var prestur. Þegar Jón var á sjöunda ári dó faðir hans og var Jón þá með Steinunni, móður sinni. Jón fór síðan í Bessastaðaskóla og lauk stúdentsprófi þar árið 1843. Jón bjó mest alla ævina í Reykjavík og starfaði m.a. sem landsbókavörður og þjóðminjavörður. 

Jón fór að safna þjóðsögum og ævintýrum víðs vegar af landinu í samstarfi við Magnús Grímsson. Þeir gáfu út Íslenzk æfintýri árið 1852 en sú bók hlaut dræmar viðtökur. Þeir héldu þó áfram söfnuninni. Magnús lést árið 1860 en Jón hélt þó söfnuninni áfram einn. Á árunum 1862-1864 kom út ritið Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri í tveimur bindum. 

Jón Árnason dó árið 1888. 

Í tilefni þessa dags er tilvalið að lesa nokkrar vel valdar þjóðsögur fyrir börnin. Hér á vef Snerpu má finna fjölmargar þjóðsögur úr safni Jóns Árnasonar. Þjóðsögurnar okkar eru dýrmætur menningararfur sem sýnir okkur inn í fortíð þjóðarinnar, sér í lagi alþýðunnar. Þjóðsögurnar gengu mann fram af manni í margar kynslóðir og það er okkar hlutverk að koma þeim til þeirrar næstu.

 

Annað sniðugt sem hægt er að gera í tilefni dagsins er að skrifa sína eigin þjóðsögu eða ævintýri. Hægt er að nota sögukastið hér fyrir neðan. Þar þarf að kasta teningum til að finna út hver aðalpersóna sögunnar á að vera, hvenær sagan gerist, hvar og hvað gerist. Svo þarf bara að skálda í eyðurnar. 

Í lokin eru hér nokkrar gátur sem Jón Árnason og Ólafur Davíðsson söfnuðu á 19. öld og gáfu út í ritinu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur árið 1887. Gáturnar gætu verið nokkuð skrýtnar fyrir okkur á 21. öldinni en þið getið reynt að spreyta ykkur á þeim. 

Á ári hverju einu sinni

alla menn ég sæki heim,

þá sem ei mig eiga í minni

eg óvörum finn, og hverf frá þeim.

Á björtum degi ei birtist lýð,

bragnar sjá þá eigi,

en um nætur alla tíð

er hún ljós á vegi.

Eg er hús með aungum tveim

í mér liggja bræður fimm;

í hörðum kulda hlífi eg þeim,

þó hríðin verði köld og grimm.

Svör: Afmælisdagur, stjarna og vettlingar.

Afmæli Jóns Árnasonar Read More »

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Spil er kannski full stórt til orða tekið. Þetta eru kannski frekar leikir með spilastokki fyrir ung börn heldur en eiginleg spil. Leikirnir henta börnum sem eru svona tveggja til þriggja ára. Þeir eru einfaldir og skemmtilegir fyrir þennan aldurshóp, sem er ekki alveg farinn að spila spil ennþá en eru kannski áhugasöm um spil. 

Leikirnir geta æft börnin í að þekkja spilin, ekki endilega tölurnar þó, heldur sortirnar og litina. Þetta ætti að undirbúa þau vel undir að spila alvöru spil þegar þau eru orðin aðeins eldri.

Auðvitað er þetta svo bara fínasta skemmtun fyrir þau og góð afþreying.

Athugað að það getur verið gott að nota spilastokk sem má eyðileggjast þegar um svona ung börn er að ræða. 

Flokkun

Flokkun er einfaldur leikur þar sem markmiðið er að flokka spilin eftir litum. Barnið fær 10-15 spil og á að flokka þau eftir því hvort þau eru rauð eða svört. Sjá myndina hér fyrir neðan.

Para saman

Til þess að spila para saman þarf að finna til 6-8 pör af mismunandi sortum (hjarta, spaði, tígull, lauf). Spilunum er raðað á hvolf á borð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Barnið getur svo flett tveimur spilum í einu og reynt að finna spil sem passa saman, t.d. tvo tígla eða tvö hjörtu. Spilið er nokkurn veginn eins og minnisspil en aðeins auðveldara og ekki með ströngum reglum. 

 

Giska og flokka

Í þessum leik eru spilin í hrúgu á hvolfi á borðinu og barnið dregur eitt spil í einu og giskar á hvort það komi svart eða rautt spil. Svörtu og rauðu spilin mega svo fara í hvor sinn bunkann, sama hvort giskað var rétt á eða ekki. 

Tína

Klassískt spil sem flest okkar þekkja en spila sennilega sem sjaldnast. 

Í Tínu er bunkanum hent á borðið eða gólfið og svo þarf einfaldlega að tína upp spilin. 

Mjög einföld spil fyrir ung börn Read More »

100 fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið

100 fæðutegundir fyrir 1 árs

Mynd: Hui Sang

Það getur verið mjög spennandi að bjóða litla barninu sínu upp á fasta fæðu í fyrsta skiptið. Í dag er mjög vinsælt að velja “baby-led weaning”-aðferðinni við að venja börn á fasta fæðu. Þá fær barnið að borða sjálft, heldur sjálft á matnum og matar sig sjálft. Maturinn er ekki maukaður fyrir það sérstaklega og ef það fær graut á það að nota skeið sjálft. Mikið áhersla er lögð á að börnin prófi sem flestar fæðutegundir og áferðir. Þessi aðferð á að skila sjálfstæðum börnum sem hlusta á eigin hungur- og seddutilfinningu og eru til í að prófa nýjan mat. Oft er talað um að börn ættu að vera búin að prófa 100 mismunandi fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið í sambandi við þessa aðferð. Það er ágætis markmið og vel gerlegt og kemur vonandi í veg fyrir matvönd börn. 

Heimilisvefurinn hefur búið til bækling með þeim fæðutegundum sem börn gætu prófað fyrir fyrsta afmælisdaginn til að hjálpa foreldrum við að halda utan um hvað er búið að prófa. Á listanum eru ávextir, grænmeti, prótein, kornvörur o.fl. en einnig auð pláss þar sem hægt er að bæta inn sínu eigin. Sumt á listanum þarf að passa sig vel á þegar verið er að gefa barnið, t.d. vínber og epli – það er þó nokkur köfnunarhætta sem stafar af þeim ef þau eru ekki gefin á viðeigandi hátt. Á listanum eru ekki þær fæðutegundir sem embætti landlæknis telur óæskilegar fyrir börn t.d. rabarbari, spínat, fennel, rauðrófur og sellerí. Sumt á listanum ætti aðeins að gefa börnum undir eins árs í hófi, t.d. kanil og skyr. Til gamans eru svo hægt að lita broskallana til hliðar til að sýna hvað barninu fannst um þessa fæðu.

En jafnvel þótt þú aðhyllist ekki „baby-led weaning“ aðferðina getur þessi litli bæklingur samt sem áður hentað ágætlega ef þig langar til að barnið smakki sem flest fyrir 1 árs.

100 fæðutegundir fyrir 1 árs afmælið Read More »

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Disney hefur framleitt gríðarlegt magn af góðum og skemmtilegum teiknimyndum fyrir alla fjölskylduna. Raunar eru teiknimyndir Disney orðnar yfir 100 talsins á þessum 86 árum síðan fyrsta teiknimynd Walts Disneys kom út árið 1937. Það var myndin um Mjallhvíti og dvergana sjö. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir 89 bestu Disneymyndirnar. Myndirnar fá lang flestar góða dóma á síðum eins og IMDB en sumar fá þó að vera á listanum af öðrum sökum. Það er sjaldan sem framhaldsmyndir komast á listann, því yfirleitt eru þær mun slakari en sú fyrsta. Undantekning á því eru þó Toy Story-myndirnar. Allar fjórar myndirnar fá virkilega góða dóma, annað en t.d. Hringjarinn í Notre Dame 2, sem er með 4,6 í einkunn á IMDB.

Disneymyndirnar eru tilvaldar fyrir kósýkvöldin næstu vikurnar, eða jafnvel árin, þær eru svo margar. Börnin fá að kynnast eldri myndunum og foreldrarnir fá að rifja upp gamlar og góðar myndir og kynnast þeim nýrri. Það er hægt að taka myndirnar í tímaröð eða í hvaða röð sem manni hentar. 

Góða skemmtun!

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin Read More »

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen er eitt af fyrstu spilunum sem börnum er kennt. Þetta er klassískt og tilötlulega einfalt spil sem líklega allir Íslendingar þekkja og hafa prófað. Hér verður farið yfir reglur upprunalega spilsins, Ólsen Ólsen upp og niður (sem margir þekkja einnig) og svo fjórar aðrar útgáfur spilsins sem gaman er að prófa. Það er alveg tilvalið að prófa þessar nýju spilareglur í sumarbústaðarferðunum í sumar.

Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út laufa sexu.

Gangur spilsins: Sá sem er á vinstri hönd þess sem gaf byrjar spilið og svo gengur hringurinn réttsælis. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett niður spil af sömu sort eða sem er með sömu tölu og er á efsta spili kastbunkans. Sé t.d. laufa tvistur í borði getur leikmaðurinn sett út annað hvort tvist eða lauf. Sé leikmaður með fleiri en einn tvist getur hann sett þær allar út og þar með breytt um sort. Einnig er hægt að breyta um sort með því að settja niður áttu og segja þá í hvaða sort maður vill breyta. Áttur er hægt að leggja ofan á hvaða spil sem er, hún þarf ekki að vera í sömu sort og spilið í kastbunkanum. Ef leikmaður getur ekki sett neitt spil út má hann draga spil, þó að hámarki þrjú. Ef leikmaður dregur spil sem hann getur notað má hann nota það strax, ef ekki kemur nýtanlegt spil þarf leikmaður að segja pass og næsti leikmaður gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi verður hann að segja „Ólsen“ áður en næsti gerir. Ef það gleymist þarf leikmaðurinn að draga þrjú spil úr spilastokknum sem refsingu. Þótt leikmaður eigi tvö lík spil á hendi (t.d. tvær níur) þarf hann ekki að segja „Ólsen“ fyrr en hann hefur sett fyrra spilið niður og setur svo síðasta spilið sitt í kjölfarið. Þegar síðasta spilið er lagt út segir leikmaðurinn „Ólsen Ólsen“ og sigrar þar með spilið.

Ólsen Ólsen upp og niður

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður, nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við.

Markmið: Að vera fyrstur til að losa sig við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borðið og efsta spili stokksins er snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út annan þristinn.

Gangur spilsins: Í Ólsen Ólsen upp og niður skipta sortirnar engu máli, aðeins tölurnar. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en spilið sem er í kastbunkanum. Ef það er, sem dæmi, tvistur í borði má leikmaður setja annað hvort ás eða þrist út. Í kjölfarið má hann svo setja eins mörg spil út og hann getur, en alltaf þurfa þau að vera annað hvort einu hærra eða lægri en spilið á undan. Geti leikmaður ekki sett út spil má hann draga allt að þrjú spil. Ef hann getur ekki sett út neitt af þeim spilum segir hann pass og næsti gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi segir hann “Ólsen” og þegar síðasta spil af hendi er lagt í borðið segir leikmaðurinn “Ólsen Ólsen upp og niður” og vinnur þar með spilið. Eins og í venjulega spilinu þarf leikmaður að draga þrjú spil sem refsingu ef hann gleymir að segja “Ólsen”.

Ólsen Ólsen með stigum

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi og vera með sem fæst stig í lok spilsins.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum. Skrifblokk og blýantur/penni þarf að vera við höndina.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen með stigum spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema hvað refsistig eru gefin í lok hverrar umferðar. Spilað er upp í ákveðna tölu (t.d. 500) eða ákveðið margar umferðir spilaðar (t.d. 10). Sá vinnur sem er með fæst stig.

Ef leikmaður endar með þessi spil á hendi myndi hann fá 30 stig.

Stigagjöf: Þegar einn leikmaðurinn hefur unnið umferð þurfa aðrir leikmenn, sem enn eru með spil á hendi, að reikna út hvað þeir fengu mörg (refsi)stig. 

Ás-7 og 9 gilda sem 5 stig, 10 og mannspil gilda sem 10 stig og 8 gildir sem 25 stig

Hafi leikmaður t.d. níu, gosa og áttu á hendi við lok umferðar (þegar annar leikmaður hefur unnið) fær sá leikmaður 40 stig. Ef einhver leikmaður endar í t.d. 500 stigum eða meiru er spilinu lokið og sá sem er með lægstu stigin vinnur. Einnig er hægt að ákveða hversu margar umferðir verða spilaðar og þá vinnur sá leikmaður sem fæst stig hefur við lok t.d. tíundu umferðar.

Ólsen Ólsen klikk

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen klikk spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema að við reglurnar bætist að ef leikmaður setur út tvist þarf næsti leikmaður að draga tvö spil, ef ás er settur út snýst hringurinn við og ef drottning er látin út missir næsti leikmaður úr eina umferð. Áttur geta, eins og áður, breytt sortinni.

Hér þarf næsti leikmaður að draga tvö spil.

Langi Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Spilið gengur alveg eins fyrir sig og venjulegur Ólsen Ólsen nema hvað að þegar annar leikmaðurinn leggur út síðasta spilið og segir “Ólsen Ólsen” líkt og venjulega þarf hann að draga fimm spil og halda áfram með spilið en í þetta sinn eru sjöur orðnar að spilinu sem má breyta um sort. Ef sá leikmaður vinnur spilið svo aftur verða sexur að spilinu sem getur breytt um sort og svo koll af kolli þar til annar leikmaðurinn vinnur spilið þegar hann er kominn niður í ásana.

Svindl Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Þessi útgáfa af Ólsen Ólsen er ólík upprunalega spilinu því í því má reyna að svindla. Leikmaður getur reynt að fela spil án þess að aðrir leikmenn taki eftir eða leggja t.d. tvö niður í einu. Ef annar leikmaður tekur eftir svindlinu lætur hann vita og sá sem svindlaði dregur þrjú spil sem refsingu. Ef leikmaður ásakar annan leikmann ranglega um svindl, þarf sá sem ásakaði að draga sjálfur þrjú spil.



Ólsen Ólsen og fimm vinir hans Read More »

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur?

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur?

Það er að mörgu að huga áður en lítið kríli bætist við fjölskylduna. Lítil börn þurfa vissulega ekki margt og ást um umhyggja foreldranna er lang mikilvægust. Það geta samt ýmsir hlutir gagnast okkur vel að eiga þegar barnið mætir á svæðið til að gera allt auðveldara. Þarfir hverrar fjölskyldu og barns eru mismunandi svo það er erfitt að búa til lista sem gildir fyrir alla. Sumir foreldrar ætla t.d. að nota taubleyjur í stað bréfbleyja, á meðan aðrir ætla að láta barnið til að nota kopp frá fæðingu. En hér er engu að síður listi yfir hluti sem gagnlegt er að eiga þegar barnið kemur, eða fljótlega eftir það.

Neðst í færslunni er excel-skjal sem hægt er að nota við skipulagningu.

newborn, baby, feet-1399155.jpg

Fatnaður

  • Samfellur: gott er að eiga nokkrar samfellur, bæði síð- og stutterma. Sum börn æla t.d. mikið og þá getur verið gott að eiga nokkrar samfellur, svo ekki þurfi stanslaust að vera að þvo.
  • Náttgallar og heilgallar: það getur verið mjög þægilegt að hafa börn stundum í heilgalla og svo þarf náttgalla fyrir næturnar.
  • Buxur: eins og með samfellurnar er gott að eiga þó nokkrar buxur til skiptanna.
  • Peysur: gott er að eiga einhverjar peysur til að fara í yfir stutterma samfellur. 
  • Sokkar og/eða sokkabuxur: sokkar haldast oft mjög illa á fótum ungabarna, svo það getur verið gott að eiga sokkabuxur.
  • Klórvettlingar: ungabörn klóra sig gjarnan í andlitið fyrst eftir að þau fæðast og þá geta klórvettlingar hjálpa mikið.
  • Léttar húfur: á höfuðið bæði ef það er svalt inni eða ef það er hlýtt úti og sól.
  • Hlýr útigalli: það fer auðvitað eftir því hvenær barnið er fætt hvort það þurfi hlýjan útigalla. Barn fætt í júlí þarf líklega ekki útigalla í stærð 50 og 56.
  • Húfa, vettlingar og sokkar: alltaf gott að eiga hér á norðlægum slóðum.
  • Hlýjar peysur
  • Föðurland/sett eða galli úr þunnri ull: gott fyrir svefninn úti og fleira.
  • Slefsmekkir: sum börn byrja að slefa allt frá 2-3 mánaða aldri og slefið getur orðið mikið!
  • Smekkir: ekki nauðsynlegt að eiga fyrr en um 5-6 mánaða aldur, þegar barnið fer að smakka mat.
  • Taubleyjur: gott að eiga til að þurrka upp ælur o.fl.
  • Kjólar eða fín föt: ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni. 
  • Hárband: alls ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni.
  • Stuttbuxur undir kjóla: alls ekki nauðsynlegt, en gaman að eiga fyrir sérstök tilefni.
  • Skór/bomsur: ekki er nauðsynlegt að eiga skó fyrr en barnið fer að ganga sjálft en mjúkir skór eða bomsur er gaman að eiga fyrir sérstök tilefni, en alls ekki nauðsynlegt.

Skiptiaðstaða

Hlutir sem er eða gæti verið gott að eiga við skiptiaðstöðuna.

  • Skiptidýna og yfirbreiðsla
  • Ferðaskiptidýna
  • Körfur undir krem, bleyjur o.fl.
  • Skiptitaska
  • Ruslafata: líka hægt að henda í ruslafötuna í eldhúsinu
  • Bleyjur (bréf eða tau)
  • Bossakrem
  • Blautþurrkur eða fjölnota þurrkur
  • Koppur (ef venja á barn á kopp frá fæðingu)

Barnaherbergið/svefn

Hlutir sem er eða gæti verið gott að hafa í barnaherberginu eða í tengslum við svefn.

  • Rimlarúm og dýna: ekki nauðsynlegt við fæðingu
  • Sængurver
  • Sæng eða svefnpokar
  • Reifar: ekki er algengt að reifa börn á Íslandi 
  • Lak
  • Teppi á gólfið
  • Vagga
  • Næturljós
  • Gúmmídúkur undir lak
  • Leikfangahirsla
  • White noise-tæki: getur hjálpað ungum börnum við að sofa betur og útiloka utanaðkomandi hávaða
  • Fataskápur/kommóða

Brjóstagjöf/pelagjöf

  • Pelar
  • Gjafapúði
  • Mexíkóhattar: ef brjóstagjöf gengur illa í byrjun eða ef sár koma
  • Pelabursti
  • Græðandi gelplástrar: fyrir sárar geirvörtur
  • Brjóstapumpa: ef þarf
  • Mjólkurpokar: ef þarf

Baðið

  • Handklæði
  • Naglaþjöl/skæri
  • Hárbursti
  • Þvottapokar/klútar
  • Baðbali: ekki nauðsynlegt en mjög þægilegt, en það er auðvitað hægt að baða börn í baðkörum, vöskum eða taka þau með í sturtu
  • Hitamælir í bað

Annað

  • Barnavagn: fyrir göngutúra og í mörgum tilvikum; lúra
  • Kerrustykki: fyrir göngutúra seinna meir
  • Burðarpoki: getur verið gagnlegt, sérstaklega fyrir börn sem vilja stöðugt láta halda á sér
  • Kerrupoki: svo það sé hlýtt og gott í kerrunni
  •  Nefsuga: fyrir stífluð nef, ekki endilega nauðsynlegt
  • Bílstóll
  • Bílstólapoki: svo það sé hlýtt og notalegt í bílstólnum, því það á ekki að hafa börn í þykkum lögum af fötum í bílstólum. 
  • Ungbarnahreiður: ekki nauðsynlegt en þægilegt til að hafa barnið í
  • Teppi
  • Snuð: gott er að kaupa nokkrar tegundir til að láta barnið prófa, þau taka ekki öll hvaða snuð sem er
  • Snudduband: svo snuðið fari ekki langt
  • Leikteppi
  • Barnapíutæki
  • Spjöld með svarthvítum myndum: fyrir barnið að skoða
  • Leikföng: mjög líklega fær barnið nóg af leikföngum gefins
  • D-vítamíndropar: nánari upplýsingar fáið þið í ungbarnavernd um hvenær á að byrja að gefa D-vítamíndropa
  • Matarstóll (með ungbarnasæti): mjög gagnlegt að eiga matarstól með ungbarnasæti eða ömmustól til að geta lagt barnið frá sér fyrstu mánuðina.
  • Ömmustóll
baby, child, cute-3149224.jpg

Skjal með öllu því helsta

Heimilisvefurinn hefur útbúið excel-skjal með öllu því helsta sem þarf að eiga þegar barnið loksins kemur. Hægt er að opna skjalið í excel og fylla það út jafnóðum í tölvunni eða þá að opna það með Google Drive. Ef síðari kosturinn er valinn er hægt að uppfæra skjalið í símanum. 

Í skjalinu er skýr tafla með barnafötum í mismunandi stærðum (fyrir fyrstu 9 mánuðina eða svo) og viðmið um hvað er gott að eiga mörg stykki af hverri flík. Þegar þú fyllir inn í skjalið það sem er nú þegar komið af barnafötum er hægt að setja tölu í réttan reið og svo þegar viðmiðinu er náð er hægt að merka við í reitinn þar sem stendur komið. Sumt í skjalinu er merkt með * eða ** og það eru þá hlutir sem er ekki nauðsynlegt að eiga eða að minnsta kosti ekki nauðsynlegt fyrst um sinn.

Þetta skjal mun vonandi hjálpa ykkur að hafa yfirsýn yfir það sem er til af barnafötum og kemur sér vonandi vel þegar þið standið í miðri verslun eða loppu og munið ekkert hvað vantar. Þá er hægt að opna skjalið í símanum og sjá hvort það vantaði nú ekki örugglega fleiri buxur. 

Auðvitað eru tölurnar í skjalinu ekki heilagar og auðvelt er að breyta og bæta við í skjalinu. Tölurnar eru eingöngu viðmið svo ekki sé allt stútfullt af fötum en einnig þannig að það þurfi ekki stöðugt að vera að þvo.

Til þess að geta notað skjalið í Google Drive og þar af leiðandi í símanum líka þarf að byrja á því að hala niður skjalinu hér að ofan, fara svo inn á Google Drive og búa til nýtt tómt sheets-skjal. Inni í því skjali þarf að smella á file og síðan open svo á upload og browse, finna rétta skjalið í tölvunni og smella á það. Þá ætti skjalið að birtast fljótlega í nýja sheets-skjalinu.

Hvað er gott að eiga þegar barnið kemur? Read More »

Afmæli Herdísar Egilsdóttur

Afmæli Herdísar Egilsdóttur

Þann 18. Júlí næstkomandi verður einn af okkar ástsælustu barnabókahöfundum 89 ára gömul. Það er hún Herdís Egilsdóttir sem fæddist á þeim degi árið 1934 á Húsavík. Hún gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi og fór síðan í Kennaraskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi árið 1953 og fór svo að kenna í Ísaksskóla í Reykjavík. Hún kenndi þar til ársins 1998 og hafði þá kennt um 1500 börnum. Herdís var merkilegur kennari og þróaði kennsluaðferðir eins og Landnámsaðferðina. 

Herdís er einnig afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað fjöldan allan af bókum, leikritum, sjónvarpsefni og námsefni fyrir börn. Meðal bóka sem Herdís skrifaði eru bækurnar um Siggu og skessuna, sem urðu ansi margar og vinsælar, og bækurnar um Pappírs-Pésa, sem einnig urðu nokkuð margar.

Bækurnar um Siggu og skessuna og Pappírs-Pésa eru auðlesnar bækur fyrir krakka í yngri kantinum. Þær eru tilvaldar í sumarlesturinn fyrir krakka sem eru búin að læra að lesa og vantar bækur til að lesa þetta sumar til að halda við lestrarfærninni. Bækurnar hennar Herdísar eru til á bókasöfnum víða um land.

 

Við hér á Heimilisvefnum skorum á alla krakka að prófa að lesa allavega eina bók eftir Herdísi Egilsdóttur í tilefni dagsins. 

Afmæli Herdísar Egilsdóttur Read More »

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Áfram höldum við með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Ártúnsholti í Reykjavík, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í tólf og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. Á sumum stöðum og á leiðinni milli staða þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

Gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa, og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, tólf talsins. Á lóð einkarekna leikskólans Regnbogans er ekki leyfilegt að leika sér. Hverfið er ekki stórt og leikvellirnir samtals tólf svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið alveg endilega senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Ævintýraferð um Ártúnsholt Read More »

Skemmtipokar í bílinn

Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.

Skemmtipokar í bílinn Read More »