börn

Skemmtipokar í bílinn

Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.

Skemmtipokar í bílinn Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

Nú þegar vel er liðið á júní eru flest börn komin í sumarfrí og styttist í það hjá leikskólabörnunum líka. Sumir foreldrar geta ekki beðið eftir þessum tíma þar sem hægt að fara út að bralla eitthvað með börnunum dag eftir dag, á meðan aðrir foreldrar kvíða því að þurfa að hafa ofan af fyrir krökkunum í rútínuleysi sumarfrísins. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að þurfa hugmyndir að einhverju sem gerir sumarið skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana. Sumt er einfalt og ódýrt en annað er flóknara. Hægt er að setja sér markmið með krökkunum um að reyna að gera eitthvað eitt á listanum (eða ykkar eigin lista) á hverjum degi, eða t.d. annan hvern dag. 

Hér er listinn en auðvitað er gríðarlega margt fleira hægt að gera og líklega munu fleiri listar bætast við í framtíðinni hér á Heimilisvefnum. 

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar Read More »

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

Fyrstu tvö árin í lífi barnsins eru alveg einstök. Þau eru að uppgötva ALLT og læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Þau fara úr því að vera algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus yfir í að geta gengið, hlaupið, talað, borðað sjálf og svo margt fleira.

Það eru alveg takmörk fyrir því hvað svona lítil börn geta gert. Þau reyna gjarnan að stinga hlutum sem þau finna í munninn á sér, sum eru ekki farin að ganga og þessi yngstu leggja sig oft yfir daginn. Á móti kemur að fyrir þeim er flest allt nýtt og spennandi og það þarf yfirleitt ekki að hafa mikið fyrir því að hafa ofan af fyrir þeim. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman tíu einfaldar hugmyndir að hlutum til að gera með allra  yngstu börnunum í sumar sem allir ættu að geta gert með þeim óháð búsetu.

Mynd: Joshua Gaunt

1. Fjöruferð

Litlum börnum finnst mjög gaman að leika sér í sandinum og skoða allt sem leynist í fjörunni. Það getur verið sniðugt að taka sandkassadót með sér en það er ekki nauðsynlegt. Það er alveg hægt að leika með skeljar og greinar og annað sem maður finnur úti í náttúrunni. Svo er tilvalið að taka með sér nesti og gera sér ágætlega langa ferð úr þessu.

2. Leika í sandkassa

Eins og áður sagði hafa lítil börn mjög gaman af því að leika sér í sandi. Sandurinn getur alveg verið í garðinum heima eða á næsta róló. Gaman er að taka með sér fötu og skóflu til að leika með. Ef veðrið býður ekki upp á að leika úti í sandkassa er hægt að búa til svokallaðan leiksand. Leiksandur er búinn til úr hráefnum sem finnast í flestum eldhúsum og er því alveg ætur ef krökkunum langar að smakka sandinn. Það er t.d. hægt að búa til leiksand með því að mala cheerios eða blanda saman 8 pörtum af hveiti við 1 part af matarolíu (t.d. 4 dl hveiti og ½ dl matarolía). Svo þarf bara að finna eitthvað skemmtilegt dót til að leika með í sandinum eða fela dót í honum.

3. Sulla

Fátt finnst börnum skemmtilegra en að fá að sulla í vatni. Það eru margar útfærslur af sullinu og vel hægt að vera með það inni ef veðrið er ekki gott, eins og gerist reglulega á Íslandi þótt það eigi að vera sumar. Innisull er hægt að framkvæma í sturtunni eða baðinu (eða jafnvel í vaski) og leyfa þá barninu að fá ílát úr eldhúsinu til að sulla með. Ef veður leyfir er hægt að sulla úti í garði eða á svölunum. Skemmtilegast er að fá nokkur ílát og volgt vatn, eitthvað til að hræra með og annað sem manni dettur í hug. Þau geta dundað sér við þetta í dágóðan tíma. Klæddu barnið eftir veðri og þó það sé ekki sól er vel hægt að sulla í pollagalla og hlýjum fötum.

4. Sund

Það er mjög gaman að fara með börnum í sund. Þessi allra yngstu þurfa helst að vera í innilaug, sérstaklega ef það er kalt. Það þarf líka að muna að verja börnin fyrir sólinni. Eldri börnin geta auðvitað farið í sund í útilaugum og vaðlaugum. Ef foreldrarnir nenna ekki í sund með barninu þá er til önnur lausn; uppblásin sundlaug á svölunum eða í garðinum. Þau elska þetta flest og gaman er að fá eitthvað dót með sér í sundlaugina. Önnur hugmynd er að sameina boltalandið og uppblásnu sundlaugina og búa til sundboltaland. Eldri systkini hefðu sjálfsagt líka gaman af því.

Mynd: Rui Xu

5. Blása sápukúlur

Það síðasta vatnstengda er einfalt. Að blása sápukúlur með barninu, eða fyrir það. Fæst börn hafa styrkinn í að blása sápukúlur en hafa oft gaman af því að reyna að ná þeim. Það eru líka til alls konar sápukúluvélar sem blása fyrir mann og þá geta foreldrarnir tekið betur þátt í fjörinu.

6. Göngutúr

Það er alltaf gott og endurnærandi að fara í gönguferð. Þetta þarf ekki að vera flókið. Foreldrið röltir um nágrennið á meðan barnið sefur, ef það er ungt. Ef barnið er orðið eldra er hægt að hafa það í kerru og leyfa því að njóta umhverfisins og jafnvel stoppa á róló af og til.

Mynd: Janko Ferlic

7. Lautarferð

Lautarferð er nátengd göngutúrahugmyndinni hér að ofan en í þetta skiptið er markmiðið að taka með sér nesti í göngutúrinn og finna sér svo einhvern góðan stað til að borða mat saman. Reyndar þarf ekki einu sinni að fara lengra en út í garð.

8. Skógarferð

Gaman er að gera sér ferð í næsta skóg eða skógrækt. Í skóginum er margt að skoða; greinar, könglar, skordýr og fleira. Yngstu börnin geta verið í burðarpoka en þau sem eru farin að ganga geta spreytt sig á að ganga í nýju og krefjandi umhverfi. Ekki er vitlaust að taka með nesti.

Mynd: Jelleke Vanooteghem

9. Kríta

Að kríta er eitthvað sem smábörn og eldri  börn geta notið saman. Yngri börnin geta kannski ekki teiknað fallegar myndir ennþá en þeim finnst þau hluti af hópnum ef þau fá að vera með.

10. Mála með fingramálningu

Að mála með fingrunum er góður skynjunarleikur fyrir börn. Annað hvort er hægt að kaupa fingramálningu án allra eiturefna eða að búa til alveg örugga málningu með því að blanda saman mismunandi matarlitum við jógúrt. Þá er ekkert mál þótt eitthvað fari í munninn. Svo þarf bara að finna stað fyrir þau að mála á. Þetta verður subbulegt svo sturtan eða baðkarið er ágætiskostur ef ekki er í boði að vera úti.

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar Read More »

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Já, það hugsa kannski ekki allir um Neðra-Breiðholtið sem ævintýralegt hverfi en engu að síður er hægt að fara í mjög skemmtilega ævintýraferð um hverfið. 

 

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum upp í 31 (já, það eru svona margir leikvellir í hverfinu!) og er það tillaga að því hvernig er hægt að fara um hverfið og prófa að leika sér á öllum leikvöllunum. Á sumum stöðunum þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

 Í ævintýraferðina er gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru 31 leikvöllur af öllum stærðum og gerðum  í hverfinu svo ævintýraferðin tekur mjög líklega stóran hluta af deginum, sérstaklega ef prófa á öll tækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið. 

 

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Margir leikvallanna í þessari ævintýraferð eru á einkalóðum fjölbýlishúsa. Það er því mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana og ef íbúarnir vilja, einhverra hluta vegna, ekki fá aðra á lóðina til sín skal virða það í einu og öllu. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna, sérstaklega við eldri fjölbýlishús og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Hægt er að sækja pdf-skjal af ævintýraferðinni til útprentunar hér. Það er líka vel hægt að hafa það í símanum en þá er ekki hægt að skrifa niður svörin í ratleiknum.

 

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt Read More »

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? – Veturinn 2022-2023

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? - Veturinn 2022-2023

Fyrir mörgum er fæðingarorlofið dásamlegur tími þar sem maður kynnist litla barninu sínu. Fyrir öðrum er þetta krefjandi tími. Sumum leiðist í fæðingarorlofinu, finnst lítið að gera og dagarnir flestir eins. Það þarf alls ekki að vera svoleiðis. Það er margt hægt að gera með barninu í fæðingarorlofinu. Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkra hluti sem hægt  er að gera með 0-2 ára börnum á höfuðborgarsvæðinu – utan heimilisins.

Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Foreldramorgnar og krílastundir

Margir staðir bjóða upp á foreldramorgna eða krílastundir þar sem börn og foreldrar geta komið saman og hitt önnur börn og foreldra þeirra. Hér eru þeir viðburðir sem sem stendur foreldrum og börnum til boða eftir vikudögum. 

 

Mánudagar

Þriðjudagar

Miðvikudagar

Fimmtudagar

Föstudagar

Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Göngutúrar með vagn/kerru

Hér eru hugmyndir að fallegum stöðum á höfuðborgarsvæðinu til að fara í göngutúr með barnið í vagni eða kerru, svona þegar hverfið þitt er orðið leiðigjarnt og þú þarft tilbreytingu.

  • Borgarholt í Kópavogi
  • Elliðaárdalurinn í Reykjavík
  • Fossvogurinn og Fossvogsdalur í Reykjavík/Kópavogi
  • Grasagarðurinn í Laugardalnum í Reykjavík
  • Grótta á Seltjarnarnesi
  • Guðmundarlundur í Kópavogi
  • Hallargarðurinn í Reykjavík
  • Hlíðargarður í Kópavogi
  • Klambratún í Reykjavík
  • Kópavogsdalur í Kópavogi
  • Landakotstún í Reykjavík
  • Laugardalurinn í Reykjavík
  • Miðbær Hafnarfjarðar
  • Miðbær Reykjavíkur
  • Miðsvæði Efra-Breiðholts í Reykjavík
  • Seljatjörn í Seljahverfi í Reykjavík
  • Tjörnin og Hljómskálagarðurinn í Reykjavík
  • Víðistaðatún í Hafnarfirði
  • Úlfarsárdalur í Reykjavík
  • Öskjuhlíð í Reykjavík
Svo er auðvitað alltaf hægt að kanna nýtt hverfi.
Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Leiksvæði og önnur afþreying

 Staðir sem bjóða upp á leiksvæði eða afþreyingu fyrir 0-2 ára börn. 

Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Veitingastaðir og kaffihús 

Veitingastaðir og kaffihús með barnasvæðum sem henta 0-2 ára.

Ef þú veist um fleiri staði sem bjóða upp á eitthvað fyrir þessi allra yngstu eða sérð að sumt á ekki við lengur skaltu endilega senda okkur línu á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? – Veturinn 2022-2023 Read More »