innanlands

Ævintýraferð um Ólafsfjörð

Ævintýraferð um Ólafsfjörð

Þótt ágústmánuður sé hafinn er sumarið ekki alveg búið. Hér er því næsta ævintýraferð og sú fyrsta sem er úti á landi. Ólafsfjörður er bær við samnefndan fjörð utarlega á Tröllaskaga. Gaman er að ganga um bæinn og skoða hann.  

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum bæjarins. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í sex og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um bæinn og prófa að leika á öllum leikvöllunum. 

 

Gangan um bæinn er ekki erfið, þó eitthvað sé um brekkur, og gott er að taka með sér smá nesti og vatnsbrúsa. Eins og áður sagði eru leikvellir bæjarins sex talsins. 

Þar sem leikvellir hverfisins eru ekki nema sex talsins er þessi ævintýraferð ekki svo löng, en að vísu er hægt að gefa sér góðan tíma að skoða bæinn, prófa öll leiktækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (undir 2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur bæjarins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin gætu hugsanlega verið komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Náið í kortið af ævintýraferðinni hér:

Ævintýraferð um Ólafsfjörð Read More »

Hvað er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkum?

Hvað er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum?

Það er ansi margt hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum. Sennilega er hægt að fyllar margar vikur af afþreyingu innan Höfuðborgarsvæðisins án þess að gera það sama tvisvar. Sama hvort þið búið í borginni eða eruð í heimsókn í nokkra daga þá er þetta góður listi fyrir ykkur. Listinn inniheldur mjög fjölbreyttar hugmyndir að afþreyingu sem hentar börnum og unglingum og fjölskyldum þeirra. Sumt hentar yngri börnum, annað eldri, en allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

 

Á listanum eru ekki neinir hlutir sem þarf að skrá sig á, eins og námskeið fyrir börn, en sumt gæti þurft að bóka með örlitlum fyrirvara. Eins eru þetta ekki hlutir sem hægt er að gera hvar sem er, eins og að baka með krökkunum eða byggja virki, heldur hlutir sem er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu sérstaklega (eða nánar tiltekið, innan sveitarfélagsmarka Hafnarfjarðar, Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness). 

 

Listinn verður uppfærður eftir því sem úrvalið breytist og þegar við komumst að einhverju nýju. Nú eru 126 hugmyndir komnar inn:

Það sem hægt er að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkunum:

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn hentar börnum á öllum aldri. Þar eru dýr, leikföng, útigrill og búð, auk fjölda húsa og muna til að skoða. 

Ástjörn

Ástjörn er fallegt vatn í Hafnarfirði og er göngustígur þar í kring. Þar er mikið fuglalíf en athugið að það er ekki leyfilegt að fara að vatninu á varptíma fugla (1. maí – 15. júlí). 

Bíó

Nokkur kvikmyndahús eru staðsett á Höfuðborgarsvæðinu og sýna flest þeirra barnamyndir. 

Bíó ParadísLaugarásbíó Sambíóin Egilshöll – Sambíóin Kringlunni – Sambíóin ÁlfabakkaSmárabíó

Bogfimi

Bogfimisetrið býður upp á bogfimi fyrir alla fjölskylduna. Börn verða að vera í fylgd með fullorðnum. Gott er að panta tíma fyrir fram en það er ekki nauðsynlegt.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar er á nokkrum stöðum í gamla hluta Hafnarfjarðar. Þar er hægt að skoða sýningar á gömlum munum og byggingar.

Dótabúð

Að fara í dótabúð til að skoða dótið sem þar er til sölu getur verið góð skemmtun fyrir sum börn. Önnur ráða ekki við það að skoða bara og vilja kaupa eitthvað. 

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur er stórt og flott útivistarsvæði á miðju Höfuðborgarsvæðinu. Þar er hægt að ganga eða hjóla um, skoða kanínur, leika í leiktækjum, busla, klifra og margt fleira.

Elliðavatn

Hægt er að fara í fallega göngu í kringum Elliðavatn. Gangan í kringum vatnið er auðveld.

Fjallganga

Á og við Höfuðborgarsvæðið má finna fjölmörg fjöll sem skemmtilegt er að ganga á fyrir krakka. Þetta eru t.d.

     – Ásfjall 

     – Búrfell og Búrfellsgjá í Hafnarfirði

     – Esjan

     – Hafrafjall og Reykjafell við Hafravatn

     – Helgafell í Hafnarfirði

     – Mosfell

     – Reykjafell

     – Úlfarsfell

     – Æsustaðafjall

Fjölskylduland

Í Fjölskyldulandi er innileikvöllur fyrir börn frá u.þ.b. 1-6 ára. Á leikvellinum er kastali, sandkassi, rennibraut og alls kyns leikföng. Sér barnahorn er fyrir börn undir tveggja ára. Góð skiptiaðstaða og lítil búð með góðri aðstöðu til að borða. 

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þarf vart að kynna fyrir fólki. Þar er hægt að skoða íslensku dýrin, fara í leiktæki og sulla. Í garðinum er veitingasalur en einnig er fín aðstaða til að borða nesti og jafnvel grilla á útigrilli.

Fjöruferð

Á Höfuðborgarsvæðinu eru nokkrar skemmtilegar fjörur til að fara í fjöruferð. Þær eru t.d. þessar:

     – Álftanes 

     – Geldinganes

     – Grafarvogur

     – Grótta

     – Herjólfsgata í Hafnarfirði, samsíða götunni

     – Hvaleyri í Hafnarfirði

     – Kársnesströnd

     – Neðan við Staði í Grafarvogi

Fly Over Iceland

Í Fly Over Iceland er hægt að fara í flott sýndarútsýnisflug yfir Ísland með ýmsum tæknibrellum. Skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna, en börnin verða þó að vera orðin 100 cm.

Foreldramorgnar

Víðsvegar um Höfuðborgarsvæðið er hægt að fara á foreldramorgna hjá kirkjum og bókasöfnum fyrir foreldra með börn undir 2 ára. 

Fossvogsbakkar

Innst í Fossvogsdal eru svokallaðir Fossvogsbakkar. Þeir eru friðaðir en þar er hægt að sjá sjávarsetlög frá lok ísaldar og þar er hægt að finna ýmsa steingervinga, aðallega skeljar lindýra. Þó ekki megi taka steingervinga með sér eða spilla neinu gæti verið gaman að reyna að sjá hvort maður geti komið auga á einhverja.

Fossvogsdalur

Fossvogsdalur er mjög fallegur dalur og útivistarsvæði á miðju Höfuðborgarsvæðinu. Þar eru leikvellir og ýmislegt fleira skemmtilegt. Hægt er að ganga um eða hjóla.

Fótboltaland

Fótboltaland er fótboltaskemmtigarður með alls kyns afþreyingu fyrir börn og fullorðna sem tengist allt á einhvern hátt fótbolta. 

Frisbígolf

Á Höfuðborgarsvæðinu eru a.m.k. fimmtán folfvellir! Það er hálfur mánuður af folfi ef farið er á einn folfvöll á dag.

Geldinganes

Geldinganes er útivistarsvæði í Grafarvogi sem er tengt landi með eiði. Á Geldinganesi er lausaganga hunda leyfð og þar er gott að fara í göngutúr.

Geocaching

Í og við Reykjavík eru 275 staðir þar sem hægt er að finna geocach-hluti. Geocaching er app sem hjálpar þér að finna ákveðna hluti, sem eru faldir ákveðnum stöðum um allan heim. Þetta er eins konar fjársjóðsleit.

Golf

Á Höfuðborgarsvæðinu má finna allavega tólf golfvelli. Þetta eru 

     – Golfvöllurinn á Seltjarnarnesi

     – Hlíðavöllur í Mosfellsbæ

     – Bakkakot í Mosfellsdal

     – Hvaleyrarvöllur og Steinkotsvöllur í Hafnarfirði

     – Setbergsvöllur milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar

     – Brautarholt á Kjalarnesi

     – Leirdalsvöllur í Kópavogi

     – Vífiðsstaðavöllur í Garðabæ 

     – Korpúlfsstaðavöllur í Grafarvogi

     – Grafarholtsvöllur

     – Urriðavöllur

Einnig eru nokkrir golfhermar víðs vegar um Höfuðborgarsvæðið.

Grasagarðurinn

Það er ljúft að heimsækja Grasagarðinn í Laugardalnum á fallegum dögum og ganga þar um. Á sumrin er kaffihúsið opið og þar er hægt að sjá fiska í tjörn.

Grilla úti – lautarferð

Útigrill eru staðsett á ýmsum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu. Gaman er að fara með t.d. pylsur og grilla í góðu veðri og borða úti í náttúrunni.

Grótta

Hægt er að fara í bíltúr út á Gróttu og skoða fuglalífið og fjöruna. Grótta er líka yndislega fallegur staður í sólsetrinu.

Grundargerðisgarður

Grundargerðisgarður er skemmtilegur almenningsgarður í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík sem gaman er að kíkja á. Þar er fallegur blómagarður og leiksvæði fyrir börn.

Guðmundarlundur

Í Guðmundarlundi í Kópavogi er ýmislegt hægt að gera. Þar er skógrækt Kópavogs og fullt af gönguleiðum, folfvöllur, minigolfvöllur, útigrill, leiktæki og stór flöt til útileikja. 

Gufunesbær

Í Gufunesi í Reykjavík er Frístundagarðurinn staðsettur. Þetta er virkilega skemmtilegt útivistarsvæði fyrir fjölskyldur og börn. Þar er risastór kastali og ævintýrahóll, vatnsleiktæki, tjarnir, burstabær fyrir yngstu börnin, ærslabelgur, petanquevöllur, folfvöllur, rathlaupsbraut og strandblak. Þar er auk þess útigrill. 

Gæludýrabúð

Fyrir mörg yngri börn getur verið gaman að kíkja á dýrin í gæludýrabúðum. Það er alltaf heillandi að horfa á fiskana synda og naggrísi og hamstra leika sér. 

Göngutúr

Þar sem höfuðborgarsvæðið er mjög stórt er hægt að fara í marga göngutúra án þess að skoða það sama tvisvar. Það er hægt að ganga um hin fjölmörgu útivistarsvæði sem svæðið hefur upp á að bjóða eða skoða nýtt hverfi. Hér er hugmynd að Álfahring í Hafnarfirði, hér eru fleiri hugmyndir að gönguleiðum í Hafnarfirði og fyrir Garðabæ.

Hallgrímskirkjuturn

Í Hallgrímskirkju er hægt að fara upp í turninn og njóta útsýnisins yfir borgina. 

Hamarinn

Í Hamrinum í Hafnarfirði eiga að búa álfar. Þar er víðsýnt og í góðu skyggni er hægt að sjá fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Á Hamrinum er útsýnisskífa. Á leiðinni upp á Hamarinn er hægt að telja Flensborgartröppurnar og gá hvað þær eru margar.

Hádegishólar

Hádegishólar eru staðsettir í Salahverfi í Kópavogi. Árið 1992 var þar reyst stúba, en stúba er helgidómur þeirra sem aðhyllast Búdddadóm. Á Hádegishólum má einnig sjá jökulrispur frá því að síðustu ísöld lauk.

Heiðmörk

Hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum í Heiðmörk. Þar er hægt að ganga um skóginn og síðan eru nokkur svæði þar sem er hægt að stoppa og leika sér.

Heilög Barbara

Í Kapelluhrauni í Hafnarfirði, á móti álverinu í Straumsvík, er steinbyrgi þar sem líkneski heilagrar Barböru fannst árið 1950. Byrgið eru leifar kaþólskrar kapellu frá miðöldum og gaman getur verið að skoða byrgið fyrir þau sem hafa áhuga á slíku.

Hellisgerði

Í Hafnarfirði er fallegur almenningsgarður sem heitir Hellisgerði. Þar er tjörn og gaman er að taka með sér teppi og nesti og borða í garðinum. Á aðventunni er Hellisgerði breytt í töfraheim með seríum. 

Hestaferð

Með smá fyrirvara er hægt að panta hestaferð með fjölskyldunni á hestaleigum á og við Höfuðborgarsvæðið.

Himnastiginn

Himnastiginn er langur tröppustígur í Kópavogi sem liggur úr Kópavogsdal og upp á Digranesheiði. Alls eru tröppurnar 207 og það getur verið ágætis áskorun fyrir krakka að ganga eða hlaupa alla leið upp.

Hjólatúr

Ef maður hefur aðgang að hjóli er hægt að skella sér í hjólatúr með fjölskyldunni, t.d. um Fossvoginn eða Elliðaárdal. Hjólastígar á Höfuðborgarsvæðinu eru orðnir margir og eru mjög góðir.

Hlíðargarður

Hlíðargarður er fallegur skrúðgarður í Kópavogi og gaman er að labba um hann í góðu veðri.

Hljóðvapp 

Hljóðvapp er hljóðganga um sögu og samtíma í hlaðvarpsformi. Hægt er að setja hljóðvapp í gang og fara á upphafsreit. Síðan gengur maður leiðina og hlustar á fróðleik og ýmislegt skemmtilegt um umhverfið.

Hljómskálagarðurinn

Rétt sunnan við Tjörnina í Reykjavík er skemmtilegur lystigarður sem heitir Hljómskálagarðurinn. Þar eru leiktæki, útigrill og svo auðvitað hljómskálinn sjálfur.

Hraðastaðir í Mosfellssveit

Á Hraðastöðum í Mosfellsveit er hægt að koma og kíkja á dýrin og fara í reiðtúr.

Hvalasafnið

Úti á Granda er Hvalasafnið staðsett. Þar er hægt að sjá líkön í raunstærð af hvölunum sem lifa umhverfis Ísland. Þar er einnig kaffihús og ágætis barnahorn. 

Hvaleyrarvatn

Gaman er að fara með krökkum að Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði. Þar er flott útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. 

Höfuðstöðin

Í Höfuðstöðinni er litrík sýning sem gaman er að kíkja á, kaffihús og smiðjur fyrir krakkana. Í sumar (2024) býður Höfuðstöðin einnig upp á foreldramorgna mánudaga til fimmtudaga þar sem börn frá 0-14 ára eru velkomin. 

Hönnunarsafn Íslands

Á Hönnunarsafni Íslands er hægt að skoða alls kyns hönnun og listhandverk. 

IKEA

Það getur verið gaman fyrir krakka að fara í IKEA og skoða uppstilltu húsin, leikföngin eða þá að fara í Småland. Svo er alltaf gaman að fá sér að borða þar. 

Ísbúð

Á Höfuðborgarsvæðinu eru ísbúðir í nánast hverju hverfi og gaman er að fara í þær og fá sér smá ís og jafnvel göngutúr eða bíltúr á eftir.

Kaffihús

Fjölmörg kaffihús eru á Höfuðborgarsvæðinu og gaman er að setjast á þau og fá sér kaffi- eða kakósopa og eitthvað gott að borða. Sum þeirra eru extra skemmtileg fyrir krakka, t.d. 

     – Kattakaffihúsið

     – Kastalakaffi

     – Kaffi Dalur

     – Kaffi Laugalækur

     – Arna ís- og kaffibar

     – Kökulist í Firði

Kársnesstígur

Gaman er að ganga Kárnesið í góðu veðri. Gönguleiðin er falleg enda að mestu við sjóinn. 

Keila

Að fara í keilu er klassískt að gera með krökkunum. Í Keiluhöllinni er hægt að komast í keilu og síðan er hægt að fá sér að borða á Shake&Pizza eftir það.

Klambratún

Á Klambratúni er ýmislegt hægt að gera. Þar er strandblaksvöllur, frisbígolf, körfuboltavöllur, leikvöllur, stórt tún og síðan eru alltaf einhverjar myndlistarsýningar á Kjarvalsstöðum, ásamt því að þar er veitingastaður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga og er eitt af dýpstu vötnum landsins. Vatnið er fallegt og nóg að skoða í kringum vatnið. Áður fyrr var talið að ormskrímsli ætti heima í vatninu. Gaman er að ganga hjá vatninu og svo er hægt að veiða í því ef maður á Veiðikortið.

Klifur

Hægt er að komast í klifur í Klifurhúsinu. Það er staðsett á þremur stöðum á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta gæti verið skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna. 

Kópavogsdalur

Í Kópavogsdal er gott útivistarsvæði, leiktæki og fallegar gönguleiðir. Þar er einnig tjörn og hægt að gefa öndunum að borða. 

Kringlan

Í Kringlunni er að sjálfsögðu hægt að skoða búðir og versla ýmislegt. Þar er einnig hægt að fara með krakka á aldrinum 3-9 ára í Ævintýraland eða leika á litla leikvellinum á neðstu hæðinni. Eins finnst flestum ungum börnum mjög spennandi að fá að sitja í tækjunum sem eru á víð og dreif um verslunarmiðstöðina. 

Krýsuvík

Séu ekki of miklar jarðhræringar í gangi á Reykjanesi er hægt að fara og skoða Krýsuvík. Þar er litfagurt hverasvæði, Seltún, og stórbrotið landslag sem gaman er að ganga um í. Hægt er að skoða Grænavatn, Sveifluháls og Krýsuvíkurberg, sem er eitt stærsta fuglabjarg landsins. 

Landakotsstún

Landakotstún er opið svæði í Vesturbænum. Þar er fallegt tún, leikvöllur og síðan er hgæt að skoða Landakotskirkju. Þetta er tilvalinn staður fyrir lautarferð.

Landnámssýningin

Landnámssýningin er í miðbæ Reykjavíkur og þar geta gestir fengið að sjá hvernig Reykjavík þróaðist frá landnámi og til dagsins í dag. 

Laugardalur

Það er auðveldlega hægt að eyða heilum degi í Laugardalnum. Þar eru leikvellir, Grasagarðurinn, þvottalaugarnar og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Um dalinn liggja ótal göngustígar og Kaffihúsið og Hostelið Kaffi Dalur er þar einnig, en þar er mjög gott barnahorn fyrir yngstu börnin.

Lautarferð

Líkt og annars staðar á landinu er hægt að fara í lautarferð á Höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að finna sér einhvern flottan leikvöll, útivistarsvæði eða annað og borða þar nesti saman. Dæmi um góð svæði í slíkt eru:

     – Botn Grafarvogsins

     – Elliðaárdalur

     – Guðmundarlundur

     – Heiðmörk

     – Hvaleyrarvatn

     – Klambratún

     – Víðistaðatún

Lava Show

Í Lava Show í Reykjavík er hægt að sjá hvernig hraun myndast og rennur við 1100°C hita. 

Leikhópurinn Lotta

Leikhópurinn Lotta heldur sýningar fyrir börn alla miðvikudaga kl. 18:00 í Elliðaárdalnum (sumarið 2024).

Leikhús

Með örlitlum fyrirvara er hægt að fara í leikhús með krökkunum. Stundum getur þurft að bóka með fyrirvara á sýningar en það er líka hægt að vera heppin og fá miða á sýningu fljótlega. Í Reykjavík eru Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið starfandi. Einnig má skoða fleiri sýningar á tix.is.

Leikvellir

Það er gríðarlegt magn leikvalla á Höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru í það minnsta 695 talsins. Margir tilheyra leik- eða grunnskólum en öll sveitarfélögin hafa þó einnig almenna leikvelli sem eru opnir öllum hvenær sem er. 

     Garðabærleikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 60)

     Hafnarfjörður leikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 100)

     Kópavogurleikskólar | grunnskólar | gæsluvellir opnir leikvellir (a.m.k. 86)

     Mosfellsbær öll leiksvæði (44)

     Reykjavíkleikskólar | grunnskólar | opnir leikvellir (a.m.k. 390)

     Seltjarnarnes – leikskólar | grunnskólar | opin leiksvæði (~15)

Listasafn Einars Jónssonar

Fyrir þau sem hafa áhuga á listum er gaman að kíkja á Listasafn Einars Jónssonar en þar er hægt að sjá styttur eftir listamanninn.

Lækurinn í Hafnarfirði

Hamarkotslækur í Hafnarfirði er skemmtilegur lækur sem rennur neðan Kinnahverfis. Þar er hægt að ganga um og gefa öndunum að borða.

Magnúsarlundur

Í Vatnsendahverfi í Kópavogi er lundur sem kallast Magnúsarlundur. Þar er útikennslusvæði fyrir nálæga leik- og grunnskóla. Lundurinn er fullkominn í litla skógar-eða lautarferð.

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunraásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar. Hellarnir eru þrír, Urriðakosthellir, Vífilsstaðahellir og Draugahellir. Fyrir ævintýragjarna krakka er gaman að fara og skoða þessa hella. 

Memmm… Opni leikskólinn

Opni leikskólinn Memmm býður foreldrum og ungum börnum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til þess að leika og hitta aðrar fjölskyldur. Leikskólinn er opinn þrisvar í viku og er gjaldfrjáls.

Miðbær Hafnarfjarðar

Miðbær Hafnarfjarðar er lítill og krúttlegur en þar er þó gaman að labba um, skoða búðir og setjast á kaffihús.

Miðbær Reykjavíkur

Í miðbæ Reykjavíkur er ýmislegt hægt að skoða. Þar er gaman að ganga um, skoða búðir, setjast á kaffihús, borða góðan mat og skoða nokkra almenningsgarða.

Miðsvæði Efra-Breiðholts

Margir myndu kannski ekki halda það en Efra-Breiðholt leynir heldur betur á sér. Á miðsvæði Efra-Breiðholts er ýmislegt í boði. Þar eru leiksvæði, trjálundir, grasflatir, almenningsgarður, hoppubelgur og fleira. 

Minigolf

Minigolf er heldur aðgengilegri íþrótt en venjulegt golf og það eru nokkrir staðir á Höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á minigolf. Það eru t.d. Minigarðurinn, Skemmtigarðurinn og svo er minigolfvöllur í Guðmundarlundi í Kópavogi.

Minjagarður á Hofsstöðum

Í Minjagarðinum á Hofsstöðum er hægt að skoða leifar landnámsskála frá 10. eða 11. öld. Þar er nýuppfærð sýning með fræðsluskiltum og margmiðlunarsjónaukum sem gefa gestum tækifæri á að skyggnast inn í fortíðina. Það er opið allan sólarhringinn í Minjagarðinum en síðan er hgæt að fara á sýninguna Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7.

Nauthólsvík

Í Nauthólsvík í Reykjavík er dásamleg ylströnd með heitum pottum og góðri sturtuaðstöðu. Þar er einnig útigrill og lítil sjoppa. Gott er að taka með sundföt og skóflur og fötur til að  leika í sandinum. 

Náttúrufræðistofa Kópavogs

Náttúrufræðistofa Kópavogs er staðsett í Hamraborg. Þar er hægt að sjá uppstoppaða fugla, fiska og fleira úr náttúru Íslands, en það besta er að það kostar ekkert inn á safnið!

Noztra

Noztra er skapandi smiðja fyrir alla. Í Noztru er hægt að kaupa leirhluti til að mála, sem eru síðan brenndir fyrir viðskiptavini. Þetta getur verið góð skemmtun fyrir fjölskyldur.

Parísarhjólið

Við höfnina í Reykjavík er hægt að fara í parísarhjól. Hversu skemmtilegt! Það er ódýrara að panta miðana fyrirfram á netinu en það er líka hægt að mæta bara. 

Perlan

Í Perlunni er ýmislegt hægt að gera. Þar er ísbúð, veitingastaður, útsýni og nokkrar sýningar, t.d. norðurljósasýning, jökla- og íshellasýning, eldgosasýning og sýning um lífríkið í vötnum Íslands. Það kostar inn á sýningarnar en það er hægt að fá kort fyrir íslenska ríkisborgara til að komast ókeypis inn í Perluna ætli maður ekki inn á neina sýningu. 

Píla

Það er hægt að komast í pílu með krökkunum á nokkrum stöðum. Stundum eru einhver tímamörk á því hvenær krakkar mega vera með, en krakkar verða alltaf að vera í fylgd með fullorðnum á pílustöðum.

Staðir sem bjóða upp á pílu eru: Bullseye, Keiluhöllin, Skor, Oche

Ratleikur

Það getur verið gaman fyrir fjölskylduna að fara í ratleik en þeir krefjast oft töluverðrar fyrirhafnar. En örvæntið ekki, hér eru nokkrir tilbúnir ratleikir sem hægt er að fara í á höfuðborgarsvæðinu: 

     – Ratleikir í Hafnarfirði

     – Ratleikur í Heiðmörk

     – Ratleikur um Mosfellsbæ

     – Ratvís

Einnig má finna einhverja ratleiki á Turfhunt-appinu.

Reynisvatn og Sæmundarsel

Reynisvatn í Grafarholti er frábært útivistarsvæði. Þar geta krakkar fengið góða útrás við að klifra og hlaupa úti í náttúrunni. Sæmundarsel liggur austan við Reynisvatn en þar er fallegst skógarrjóður með þrautabraut og eldstæði.

Rútstún

Rútstún er skemmtilegur leikvöllur í Kársnesinu í Kópavogi. Þar eru óvenjuleg leiktæki sem gaman er að prófa. Síðan er Sundlaug Kópavogs við hliðina. 

Sandahlíð

Sandahlíð er útivistarsvæði í landi Vífilsstaða. Þar er gaman að ganga í skógræktinni og svo er leikvöllur fyrir krakkana.

Seljatjörn

Seljatjörn er skemmtileg tjörn í Seljahverfinu í Reykjavík. Þar er hægt að gefa öndunum, reyna að veiða síli eða vaða. 

Shuffleboard / Shufl

Hægt er að fara með fjölskylduna í Shuffleboard í Oche í Kringlunni.

Siglunes

Á Siglunesi við Nauthólsvík er bátaleiga en þar er hægt að leigja sér árabát eða kajak á ákveðnum tímum og sigla um fallega Fossvoginn.

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Á Sjóminjasafninu í Reykjavík er hægt að fræðast um hafið og sjósókn í Reykjavík síðustu 150 árin. Stundum eru viðburðir á safninu t.d. leiðsögn um varðskip. 

Skautar

Það er hægt að fara á skauta í Reykjavík nánast allt árið um kring og einnig úti yfir veturinn. Tveir staðir bjóða upp á skautasvelli inni:

     – Egilshöll

     – Skautahöllin í Laugardal

Eins hafa stundum verið sett upp tímabundin skautasvell í desember í Hafnarfirði og á Ingólfstorgi.

Skemmtigarðurinn

Skemmtigarðurinn býður upp á alls konar skemmtun fyrir fjölskyldur t.d. minigolf, lasertag, þrautaleiki, fótboltagolf og klessubolta.

Skemmtisvæði í Smáralind

Á skemmtisvæðinu í Smáralind er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt. Þar er meðal annars hægt að fara í lasertag og leika sér í leiktækjasalnum. 

Skíði og snjóbretti

Á veturna er hægt að komast á skíði og snjóbretti á Höfuðborgarsvæðinu. Stærsta svæðið er í Bláfjöllum en einnig eru litlar skíðalyftur í Skálafelli, Ártúnsbrekku, Grafarvogi og Seljahverfi (lokað tímabundið). 

Skopp

Trampólíngarðuinn Skopp er skemmtun sem höfðar til flestra barna. Sér svæði er fyrir yngstu börnin til að hoppa (0-5 ára). 

Skógarferð

Það er ævintýralegt að fara í góða skógarferð. Gaman er að taka með sér nesti eða heitt kakó. Hægt er að tína sveppi, köngla, steina, lauf og margt fleira. Klifra í trjám og skoða allt það sem skógurinn hefur upp á að bjóða. Á höfuðborgarsvæðinu eru 11 skógar eða skógræktarsvæði.

Smalaholt

Smalaholt er útivistarsvæði í landi Vífilsstaða. Smalaholt er fyrsta skógræktin í Garðabæ. Gaman er að ganga stígana í Smalaholti og staldra við á áningastöðunum. 

Smáralind

Í Smáralind eru litlir leikvellir og tæki fyrir unga krakka að leika sér í. Þetta getur t.d. hentað fólki með mjög lítil börn sem þarf að komast aðeins út úr húsi í brjáluðu veðri.

Spilavinir

Í Spilavinum er hægt að koma og spila alls kyns spil. Í kjallara Spilavina er dásamlegt leiksvæði fyrir yngri börnin og spilasalur fyrir fjölskyldur.

Stekkjarflöt

Stekkjarflöt er staðsett í nágrenni Álafosskvosarinnar í Mosfellsbæ. Þar er ærslabelgur og fleiri skemmtileg leiktæki, útigrill og tjörn til að veiða síli í.

Strandblak

Þegar veður leyfir er hægt að fara í strandblak á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Strandsblaksvellir eru staðsettir á þessum stöðum (og mögulega fleirum):

     – Klambratúni

     – Furulundi í Heiðmörk

     – Gufunesbæ

     – Nálægt Íþróttamiðstöðinni að Varmá

Straumur

Straumur er sérkennileg á með hraun allt í kring. Við ánna liggur falleg gönguleið sem gaman er að ganga. 

Strætóferð

Börn sem eru ekki vön að fara í strætó getur fundist mjög skemmtilegt og spennandi að fara ferð með strætó. 

Sund

Á höfuðborgarsvæðinu eru 18 sundlaugar til að prófa. Það má vel reyna að fara í þær allar á einu sumri.

Sögusafnið

Sögusafnið er staðsett úti á Granda í Reykjavík. Þar er hægt að kynnast Íslandssögunni á skemmtilegan og fræðandi hátt. Þar er hægt að fá að máta vopn og klæði víkinga.

Tjörnin í Reykjavík

Tjörnin í Reykjavík er alltaf falleg og hægt er að ganga hringinn í kringum hana. Þar eru yfirleitt margir fuglar sem vilja glaðir fá eitthvað í gogginn.

Vatnsleikjagarðurinn í Elliðaárdal

Við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal er virkilega skemmtilegur vatnsleikjagarður. Þar er hægt að leika sér í hlýju vatni, fara í sandkassann og skríða í gegnum röð. Við garðinn er starfrækt kaffihús, þar sem foreldrarnir geta setið í rólegheitunum á meðan krakkarnir leika sér.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er hægt að bralla margt skemmtilegt. Þar er tjörn, ærlsabelgur, leiktæki, frisbígolfvöllur, stórar grasflatir og fleira.

Urtagarður

Fyrir fjölskyldur sem hafa áhuga á lækningajurtum er hægt að kíkja í Urtagarðinn á Seltjarnarnesi. Þar er hægt að finna safn lækningajurta sem hafa verið nýttar til næringar og heilsubótar hér á landi. 

Úlfarsárdalur

Dalurinn á milli hverfanna í Grafarholti og Úlfarsárdal nefnist Úlfarsárdalur. Þar eru útigrill og skemmtileg á. Leiktæki eru á skólalóðinni við Dalskóla en annars er hægt að njóta þess að ganga í fallegri náttúru.

Út að borða

Það er alltaf gaman að fara út að borða og á höfuðborgarsvæðinu eru gríðarlega margir veitingastaðir af öllum stærðum og gerðum. Fyrir foreldra með yngri börn getur það hins vegar verið töluverð vinna að fara út að borða. En þá eru nokkrir staðir með góð barnahorn, þar sem krakkarnir geta leikið á meðan þau bíða eftir matnum eða eftir að þau eru búin með matinn. 

 

Þetta eru t.d. KFC í Mosfellsbæ, Mathús Garðabæjar, American Style á Höfða, Klambrar Bistró, IKEA, Hamborgarabúllan á Höfða, 27 mathús og bar, Metró í Skeifunni og við Smáratorg.

Valhúsahæð

Valhúsahæð er útivistarsvæði á Seltjarnarnesi sem hægt er að ganga um. Þar er útsýnisskífa, fótboltavöllur og frisbígolfvöllur, auk þess eru þar húsarústir og tóftir. 

Veiða

Hægt er að veiða á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að fara að dorga á smábátabryggjunni við Vogabyggð og með veiðikortinu er hægt að veiða í Kleifarvatni, Vífilssstaðavatni og Elliðavatni. Svo eru ótal tjarnir og vötn á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að reyna að veiða síli með háfum. 

Viðey

Út í Viðey er auðvelt að komast enda eru bátaferðir þangað nokkrar á dag yfir sumartímann og siglingin tekur aðeins um 5-10 mínútur. Eyjan á sér mikla sögu og eru ein elstu hús landsins en er einnig frábært útivistarsvæði. 

Víghóll

Víghóll er útivistarsvæði í Kópavogi. Þar er útsýnisskífa (og frábært útsýni) og jökulsorfnir klapparhólar. 

Wapp

Wapp er app sem fer með þér í gönguferð um leið og þú fræðist um umhverfið og sögur sem tengjast því. Í appinu eru leiðarlýsingar á gönguleiðum og nokkrar gönguleiðanna eru á höfuðborgarsvæðinu.

Ylströndin í Sjálandshverfi

Ylströndin er staðsett við Vesturbrú í Sjálandshverfi í Garðabæ. Þar er hægt að leika sér í sandinum og vaða.

Yndisgarðurinn í Fossvogi og fleiri garðar

Yndisgarðurinn er staðsettur vestan við Gróðrastöðina Mörk og fyrstu plönturnar þar voru gróðursettar árið 2010. Þetta er fallegur garður sem gaman er að ganga um í og skoða plönturnar. Á sömu slóðum má finna Aldingarðinn, þar sem verið er að ræka alls kyns ávaxtatré, Sígræna garðinn, trjásafnið og Rósagarðinn. 

Þjóðminjasafn Íslands

Á Þjóðminjasafninu er hægt að skoða sögu Íslands frá landnámi til okkar daga. Á safninu er sérstakt rými fyrir börn að leika sér í, eins eru smiðjur á sunnudögum yfir veturinn fyrir krakka og svo er boðið upp á ratleiki (á sjö tungumálum). 

Ærslabelgir

Á höfuðborgarsvæðinu eru um 30 ærlsabelgir og það getur verið ágætis verkefni að prófa þá sem flesta.

Ævintýraferð

Ævintýraferðir Heimilisvefsins eru ferðir um bæi og hverfi þar sem allir leikvellir svæðisins eru skoðaðir. Oft tekur þetta heilan dag (fer eftir aldri barnanna) og gaman er að taka með sér nesti og fleira.

Ævintýragarðurinn 

Ævintýragarðurinn í Ullarnesbrekkum í Mosfellsbæ er skemmtilegur staður. Þar eru skemmtileg leiktæki og ærslabelgur.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð er útivistarsvæði í Reykjavík. Þar er gaman að ganga um skóginn, skoða mannvistarleifar frá stríðsárunum, svo er stundum hægt að sjá kanínur.

Hvað er hægt að gera á Höfuðborgarsvæðinu með krökkum? Read More »

Ævintýraferð um Engjahverfi

Ævintýraferð um Engjahverfi

Nú þegar farið er að vora í höfuðborginni ætlum við að halda áfram með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Engjahverfi í Grafarvogi, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í sjö og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. 

Gangan um hverfið er létt og skemmtileg en þó er gott að taka með sér smá nesti og vatnsbrúsa. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, sjö talsins. Þrír leikvellir hverfisins eru á girtum lóðum fjölbýlishúsa og því vafasamt hvort leyfilegt sé að leika sér þar. 

 

Engjahverfi er frekar lítið og leikvellirnir samtals sjö svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt og ævintýraferðin um Ártúnsholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin gætu hugsanlega verið komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Náið í kortið af ævintýraferðinni hér:

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Engjahverfi Read More »

Bæjarhátíðir 2024

Bæjarhátíðir og viðburðir 2024

Þótt enn sé bara miður mars þegar þetta er skrifað er vel hægt að fara að skipuleggja sumarið. Hin skemmtilega íslenska bæjarhátíðahefð heldur áfram og vertíðin hefst strax um páskana með Skíðavikunni á Ísafirði og tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, sem fagnar 20 ára afmæli þetta árið.

Stór partur af íslenska sumrinu er að skella sér á bæjarhátíð eða aðra viðburði sem haldnir eru víða um land. Á bæjarhátíðunum er gjarnan stútfull dagskrá af viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Oft eru bæjarhátíðirnar haldnar til að lokka brottflutta til að kíkja aftur á gamla bæinn sinn en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að prófa nýja staði sem maður hefur enga tengingu við. Þá er bara um að gera að panta gistingu eða taka fram útilegubúnaðinn. Ef þú veist ekki hvað er gott að taka með í útileguna eru hér meiri upplýsingar um það.

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir bæjarhátíðir og viðburði sem staðfestir eru í ár. Listinn verður uppfærður þegar fleiri viðburðir og hátíðir verða staðfest. 

Mars

Maí

Júní

31. maí – 2. júní

Bjórhátíð á Hólum

Fjör í Flóa

Listahátíð í Reykjavík

Sjómannadagurinn víðsvegar um landið

Júlí

Ágúst

September

5.-8. september

Ljósanótt

 

13.-23. september

Ormsteiti

 

Nákvæmar dagsetningar koma síðar

Fjarðarhjólið, Ólafsfirði

Haustglæður – Ljóðahátíð

Bæjarhátíðir 2024 Read More »

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði?

Verslunarmannahelgin 2023 - Hvað er í boði?

Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og ert þú búin/nn/ð að ákveða hvað þú ætlar að gera? Frídagur verslunarmanna á sér langa sögu og er dagurinn 129 ára gamall í ár! Það er ýmislegt í boði þessa helgi víðsvegar um landið og allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Í boði er m.a. þessar hátíðir:

– Berjadagar –

Berjadagar er þriggja daga klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Í ár verða frumflutt íslensk verk og kammermúsík frá ýmsum löndum, listasýning utan dyra, tónlistarviðburðir og fleira.

– Ein með öllu –

Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á dagskránni í ár er m.a. húllhringjagerð, tívolí, krakkahlaup í Kjarnaskógi, böll, evrópumót í torfæru, grill og margt fleira.

– Hjalteyrarhátíð –

Hjalteyrarhátíð er haldin á Hjalteyri við Eyjafjörð um verslunarmannahelgina. 

– Innipúkinn –

Innipúkinn er tónlistarhátíð fyrir höfuðborgarbúana sem nenna ekki í útilegu um verslunarmannahelgina. Alltaf eru fjölbreytt tónlistaratriði á dagskrá í miðbæ Reykjavíkur. Í ár koma m.a. Birnir, Daniil, GDRN, Langi Seli og Skuggarnir, Sykur og Valdimar fram.

– Kotmót Hvítasunnukirkjunnar – 

Kotmót er árlegt mót Hvítasunnukirkjunnar sem er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Í ár verður sérstakt barnamót fyrir 5-12 ára krakka og aðalpredikari mótsins verður Daniel Karl-Olov Alm. 

– Neistaflug í Neskaupstað –

Neistaflug er bæjarhátíð Neskaupstaðar og í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni. Í ár kemur m.a. hljómsveitin Flott fram. 

– Norðanpaunk –

Norðanpaunk er rokkhátíð haldin á Laugarbakka. Í ár koma m.a. Dödsrit, Kælan mikla, Sangre de muerdago, Múr og Ghostigital fram. 

– Sæludagar KFUM og KFUK –

Sæludagar eru árleg fjölskylduhátíð KFUM og KFUMK í Vatnaskógi. 

– Unglingalandsmót UMFÍ –

Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Sauðárkróki í ár. Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára keppa í alls kyns íþróttagreinum. Auk þess er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

– Verslunarmannahelgin á Úlfljótsvatni –

Á Úlfljótsvatni er boðið upp á ævintýralega fjölskyldudagskrá um Verslunarmannahelgina. 

– Þjóðhátíð í Eyjum –

Þjóðhátíð þarf vart að kynna. Stærsta útihátíð ársins er haldin í í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þau atriði sem þegar hafa verið tilkynnt eru; Bríet, Friðrik Dór, Klara Elias, Emmsjé Gauti, XXX Rottweiler, Una Torfa og Jón Ólafsson ásamt gestum. 

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði? Read More »

Skemmtipokar í bílinn

Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.

Skemmtipokar í bílinn Read More »

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin 2023

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin mín 2023

Nú þegar komið er fram í miðjan júní eru mörg sjálfsagt farin að huga að ferðalögum sumarsins, ef þau eru þá ekki þegar lögð af stað. En það er nú oft þannig að fólk fer að koma sér í frí eftir 17. júní. Gaman er að ferðast um landið og mörg fara líklega norður eða austur – eða annað að elta veðrið. Það er þó einn hluti ferðarinnar sem mörgum, sérstaklega börnum, finnst leiðilegri og það er að sitja lengi í bílnum. Auðvitað er hægt að leyfa börnunum að horfa á eitthvað í bílnum eða vera í símanum en það er langt frá því að vera fullkomin lausn. Í fyrsta lagi ekki hollt fyrir neinn að fá of mikinn skjátíma, í öðru lagi verða sum börn bílveik af því og í þriðja lagi hindrar það börnin í að tengjast bæði umhverfinu í kringum sig og hinum í bílnum. Fjórði punkturinn er svo sá að börnum má alveg leiðast. Það er ekki hættulegt. Það er meira að segja bara mjög hollt að láta sér leiðast af og til. Það er einmitt þegar manni leiðist sem maður finnur helst upp á hlutum til að gera. Einhvern veginn lifðum við eldri kynslóðirnar þetta af. 

Að sjálfsögðu eiga sum börn mjög erfitt með að láta sér leiðast og þurfa einhverja skemmtun í bílinn. Í stað þess að setja skjá fyrir framan börnin og breyta þeim í einhverja heilalausa zombie-a eru hér örfáar hugmyndir að skjálausri skemmtun í bílnum og í lokin er þrautahefti til útprentunar fyrir þau sem hafa gaman af svoleiðis. 

 

Mynd: Maksim Tarasov

Það er hægt að syngja öll skemmtilegu lögin sem börnin kunna úr leik- eða grunnskólanum. Þau gætu jafnvel kennt foreldrunum einhver lög eða öfugt.

Það er alveg klassískt að fara í leiki í bílnum. Leikir eins og Frúin í Hamborg, Hver er maðurinn? og að giska á hvernig næsti bíll sem þið mætið er á litinn geta stytt biðina eftir áfangastaðnum til muna. 

Hægt er að setja á einhverja góða sögu í bílnum eða hlaðvarp fyrir börn. Foreldrar geta líka haft gaman að slíku. Það er líka hægt að hlusta á lög og hægt er gera ýmislegt tengt því. Foreldrar geta t.d. sýnt börnunum hvað þau hlustuðu á sem börn eða það sem amma og afi hlustuðu á. Það er hægt að fara í leik þar sem allir eiga að giska á lagið þegar það byrjar að spilast. 

Fyrir þau sem verða ekki auðveldlega bílveik er möguleiki á að lesa góða bók eða tímarit eins og Lifandi vísindi eða Andrésblöð.

Það eru til spil sem eru gerð til að spila á ferðalögum. Það væri hægt að splæsa í eitt eða tvö slík spil til að grípa í á löngum ferðalögum. 

Svo er líka mjög mikilvægt fyrir börn sem eiga erfitt með að vera lengi í bílnum að stoppa reglulega fyrir þau og leyfa þeim að sprikla aðeins úti. Stoppin þurfa ekki að vera löng eða merkileg en það þarf oft að rétta aðeins úr fótunum á löngum ferðum. 

Að lokum er hægt að kaupa eða prenta út þrautahefti eða krossgátubækur fyrir krakkana. Heimilisvefurinn ætlar hér að bjóða upp á eitt slíkt. Í heftinu eru 24 blaðsíður af alls konar þrautum, leikjum, hugmyndum að orðaleikjum, bingó og margt fleira.  Vonandi getur það stytt stundir allra í fjölskyldunni því sumt í heftinu er fyrir alla í bílnum. 

Ýttu á myndina hér fyrir neðan til að fá þrautaheftið 🙂

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin 2023 Read More »

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Suðurlandi

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Suðurlandi

Á Suðurlandi er margt hægt að gera og skoða með krökkunum. Suðurlandið á margar af helstu náttúruperlum Íslands og þangað sækja ansi margir ferðamenn sem koma hingað til lands. Það er virkilega gaman að ferðast um Suðurlandið og ekki verra að gista á flottu tjaldsvæðunum þar. 

 

Hér er listinn sem Heimilisvefurinn tók saman af mest spennandi tjaldsvæðunum fyrir fjölskyldur með börn fyrir komandi útilegur í sumar. Til þess að komast á listann þarf að vera afþreying fyrir börn á eða alveg við tjaldsvæðið. Þetta eru t.d. tjaldsvæði sem eru til dæmis nálægt sundlaugum og skólum eða tjaldsvæði sem hafa eitthvað sérlega spennandi fyrir krakkana að dunda eða leika með.

Mynd: Freysteinn G. Jónsson
Mynd: Freysteinn G. Jónsson

14. Tjaldsvæðið á Eyrarbakka

Tjaldsvæðið á Eyrarbakka er staðsett nálægt fjörunni og því er auðvelt að fara í fjöruferð. Þar er leikvöllur fyrir krakkana og góðar gönguleiðir.

13. Tjaldsvæðið við Geysi í Haukadal

Við Geysi í Haukadal er að finna gott tjaldsvæði. Þar er flottur leikvöllur fyrir börnin og fullt er af góðum gönguleiðum í næsta nágrenni. Tjaldsvæðið er einnig í göngufæri við hverina og Haukadalsskóg.

Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Einar Jónsson
Mynd: Einar Jónsson

12. Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni í Hafnarfirði

Hver segir að maður geti ekki farið í útilegu á höfuðborgarsvæðinu? Á tjaldsvæðinu á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er nóg hægt að gera. Þar er leikvöllur og ærslabelgur, tjörn, stutt í hraunið og hægt að fara í frisbígolf. Svo er líka listaverkagarður skammt frá.

11. Tjaldsvæðið í Úthlíð í Biskupstungum

Í Úthlíð í Biskupstungum er rekin alhliða ferðaþjónusta. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börnin og hægt er að komast í sund og heita potta á svæðinu.

10. Tjaldsvæðið Árnesi

Tjaldsvæðið Árnesi er í fallegu umhverfi og þar er leikvöllur, sundlaug og fótboltavöllur.

9. Tjaldsvæðið Reykholti

Tjaldsvæðið í Reykholti er fjölskyldusvæði og þar er gott leiksvæði fyrir börn. Stutt er í bæði sundlaug og grunnskóla staðarins.

8. Tjaldsvæðið í Hveragerði

Tjaldsvæðið í Hveragerði er vel staðsett og þar er leikvöllur fyrir krakkana. Gönguleið liggur í gegnum tjaldsvæðið og hinum megin við götuna er grunnskóli bæjarins og því er stutt að fara á flottan leikvöll. Sundlaugin er einnig skammt frá.

7. Tjaldsvæðið Þakgili

Það sem gerir þetta tjaldsvæði einstakt og virkilega spennandi er staðsetningin og umhverfið. Leikvöllur er á svæðinu fyrir börnin en það er spennandi upplifun að prófa matsalinn, sem er inni í náttúrulegum helli. Gönguleiðir eru allt í kring í þessu magnaða umhverfi.

6. Tjaldsvæðið Vatnsholti

Tjaldsvæðið er staðsett við Hótel Vatnsholt í Flóahreppi. Þar er flott leiksvæði fyrir krakkana. Þá er einnig hægt að fara í fótboltaminigolf og fótbolta. Á veitingastaðnum er hægt að komast í billjard, pílu og fótboltaspil.

5. Tjaldsvæðið Hraunborgum í Grímsnesi

Tjaldsvæðið er mjög barnvænt og þar er fullt af leiktækjum fyrir börnin. Sundlaug er staðsett alveg við tjaldsvæðið og það er því afskaplega stutt í sund.

4. Tjaldsvæðið Þorlákshöfn

Í Þorlákshöfn er fínasta tjaldsvæði sem er staðsett á góðum stað, rétt við íþróttamiðstöð bæjarins og grunnskólann. Það er því stutt í sund og á góðan leikvöll fyrir krakkana. Auk þess er svo auðvitað leikvöllur á tjaldsvæðinu sjálfu.

3. Tjaldsvæðið á Flúðum

Á tjaldsvæðinu á Flúðum er flott leiksvæði fyrir börnin og gönguleiðir í næsta nágrenni. Það sem gerir þetta tjaldsvæði þó extra skemmtilegt er Litla-Laxá sem rennur í gegnum það. Þar geta krakkarnir leikið og sullað tímunum saman.

2. Tjaldsvæðið Hellishólum

Á Hellishólum er glæsilegt tjaldsvæði fyrir fjölskyldur. Þar er stórt leiksvæði fyrir börn og heitur pottur. Hægt er að veiða í vatninu og golfvöllur er á staðnum. Lækur rennur við tjaldsvæðið og þar getur verið gaman að sulla.

Úlfljótsvatn_World_Scout_Moot_2017

1. Tjaldsvæðið Úlfljótsvatni

Við Úlfljótsvatn er glæsilegt tjaldsvæði sem Útilífsmiðstöð skáta hefur byggt upp. Auk þess að það eru ótal leiktæki á svæðinu er veiðileyfi innifalið í gjaldinu og krakkarnir geta leigt hjólabáta um helgar. Reyndar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá allar helgar í sumar þar sem fjölskyldur geta leigt báta, prófað bogfimi, klifur og fleira. Vatnasafarí og þrautabraut á staðnum, auk fótbolta- og frisbígolfvalla. Hundar eru leyfilegir á tjaldsvæðinu.

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Suðurlandi Read More »

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Austurlandi

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Austurlandi

Við höldum áfram umfjöllun okkar á skemmtilegum tjaldsvæðum fyrir fjölskyldur og höldum nú á Austurland. Þessa dagana virðist stefna í gott og hlýtt sumar á því svæði, svo mörg fara eflaust þangað í útilegu í sumar. Eins og áður voru tjaldsvæðin valin út frá því hversu mikil afþreying væri á þeim í allra næsta nágrenni. 

Hér eru þau tjaldsvæði á Austurlandi sem okkur á Heimilisvefnum þótti hljóma mest spennandi fyrir fjölskyldur fyrir komandi útilegur í sumar.  Þetta eru tjaldsvæði sem eru t.d. nálægt sundlaugum og skólum, tjaldsvæði sem hafa eitthvað alveg einstakt í næsta nágrenni við sig.

9. Tjaldsvæðið á Reyðarfirði

Tjaldsvæðið á Reyðarfirði er staðsett í útjaðri bæjarins og við Andapollinn sem er lítil tjörn. Stutt er út í náttúruna.

8. Tjaldsvæðið á Bakkafirði

Tjaldsvæðið á Bakkafirði er staðsett í miðju þorpinu. Þar er stutt í fjölmargar gönguleiðir en á tjaldsvæðinu er fótboltavölur, ærslabelgur og frisbígolfvöllur. 

7. Tjaldsvæðið á Seyðisfirði

Tjaldsvæðið á Seyðisfirði er staðsett mjög miðsvæðis svo stutt er að kíkja á aðalgötuna sem skreytt er í öllum regnbogans litum. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börn. 

6. Tjaldsvæðið í Sandafellsskógi

Eins og nafnið getur til kynna er tjaldsvæðið staðsett í skógivöxnu landi og mikið er af fallegum gönguleiðum en einnig er boðið upp á hestaferðir um skóginn. Um tjaldsvæðið rennur lítill lækur og hann getur haldið börnunum að leik tímunum saman. 

5. Tjaldsvæðið í Neskaupstað

Tjaldsvæðið í Neskaupstað er á fallegum útsýnisstað við snjóflóðarvarnargarðana í Drangagili. Á svæðinu er leikvöllur og strandblakvöllur. Hægt er að ganga upp á varnargarðana. 

4. Tjaldsvæðin í Hallormsstað - Atlavík og Höfðavík

Tjaldsvæðin í Hallormsstað eru í skógivöxnu umhverfi með yfir 40 km af gönguleiðum á svæðinu. Í skóginum er líka fjölskylduvænt trjásafn með yfir 90 trjátegundir. Leikvöllur og ærslabelgur eru á svæðinu og stutt á “ströndina” við Lagarfljót tjaldi fólk á neðsta svæðinu.

3. Tjaldsvæðið á Breiðdalsvík

Á Breiðdalsvík er fínasta tjaldsvæði í miðjum bænum. Stutt er í sundlaugina og skólalóðina við grunnskólann. Á tjaldsvæðinu sjálfu er leikvöllur.

eski

2. Tjaldsvæðið á Eskifirði

Tjaldsvæðið á Eskifirði er staðsett við Bleiksána og skógrækt er allt í kring. Það eru því fínar gönguleiðir í næsta nágrenni og leikvöllur er á svæðinu.  Mjög stutt er í sundlaugina, sem er mjög fín útilaug með þremur rennibrautum og barnavaðlaug.

1. Tjaldsvæðið á Borgarfirði eystra

Tjaldsvæðið á Borgarfirði eystra er staðsett við rætur Álfaborgar og er nálægt allri þjónustu. Í fimm mínútna göngufjarlægð er ærslabelgur og frisbígolfvöllur er inn af tjaldsvæðinu. Gönguleiðir eru fjölmargar allt í kring. Það sem gerir þetta tjaldsvæði hins vegar meira spennandi en önnur tjaldsvæði á Austurlandi, að okkar mati, er það að í þjónustuhúsinu við tjaldsvæðið er rými með litlu bókasafni og spilum, sem er eitthvað sem við höfum ekki rekist á áður á öðrum tjaldsvæðum. Þar að auki er hægt að leigja frisbídiska og fjallahjól í móttökunni.

Mynd: Wikimedia Commons

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Austurlandi Read More »

Bæjarhátíðir sumarið 2023

Bæjarhátíðir og viðburðir sumarið 2023

Stór partur af íslenska sumrinu er að skella sér á bæjarhátíð eða aðra viðburði sem haldnir eru víða um land. Á bæjarhátíðunum er gjarnan stútfull dagskrá af viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Oft eru bæjarhátíðirnar haldnar til að lokka brottflutta til að kíkja aftur á gamla bæinn sinn en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að prófa nýja staði sem maður hefur enga tengingu við. Þá er bara um að gera að panta gistingu eða taka fram útilegubúnaðinn. Ef þú veist ekki hvað er gott að taka með í útileguna eru hér meiri upplýsingar um það.

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir bæjarhátíðir og viðburði sem staðfestir eru í sumar. Listinn verður uppfærður þegar fleiri viðburðir og hátíðir verða staðfest. 

Júní

2.- 4. júní – Sjómannadagshelgin

– Fjör í Flóa 

Fjölskyldu- og menningarhátíð í Flóahreppi. Á dagskránni í ár er m.a.  útijóga, kökubasar, hjólarallý, kökuskreytingakeppni fyrir krakka, andlitsmálning, landbúnaðartækjasýning og margt fleira.

– Sjómannadagurinn víða um land –

Sjómannadagurinn er haldinn víðs vegar um landið. Heimilisvefurinn hefur þegar fjallað um daginn í annarri færslu.

 

9.-11. júní 

– The Color Run – 

Litríkasti viðburður ársins verður haldinn laugardaginn 10. júní í Laugardal í Reykjavík. Í The Color Run hlaupa keppendur 5 km og fá yfir sig litasprengju eftir hvern kílómetra. Ekkert aldurstakmark er í hlaupinu og foreldrum er velkomið að koma með barnavagna. Eftir hlaupið er tónlist og stuð.

 

16.-18. júní

– Bíladagar á Akureyri – 

Bíladagar eru haldnir af Bílaklúbbi Akureyrar. 

– Götubitinn í miðbæ Reykjavíkur – 

Götubitinn verður í miðbæ Reykjavíkur þessa helgina með alls kyns matarvagna.

– Tónlistarhátíðin Við Djúpið 

Tónlistarhátíðin er haldin á Ísafirði. Á dagskrá eru tónleikar með tónlistarfólki ásamt nemendum á námskeiðum hátíðarinnar. 

– Upp í sveit –

Sumarhátíð haldin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

– Þjóðhátíðardagur Íslendinga 17. júní –

Viðburðir og dagskrá víða um land.

23.-25. júní

– Á fætur í Fjarðabyggð –

Árleg gönguvika í Fjarðabyggð. Verður haldin dagana 24. júní – 1. júlí í ár. Ýmsar gönguferðir, m.a. fjölskyldugöngur í boði og kvöldvökur.

– Bakkafest –

Bæjarhátíð Bakkafjarðar. Í ár koma fram Færibandið, Sérfræingar að sunnan, Rúnar Eff, Júlí Heiðar, Þórdís Björk o.fl.

– Brákarhátíð – 

Brákarhátíð er sumarhátíð Borgarbyggðar. Á dagskrá í ár er bátasigling, götulist, útitónleikar, sundlaugarpartý, loppumarkaður o.fl.

– Danskir dagar – 

Bæjarhátíð Stykkishólms, Danskir dagar, er ein elsta bæjarhátíð Íslands. Á dagskránni í ár er m.a. garðpartý, brúðusýning, búningahlaup, dorgveiðikeppni fyrir krakkana, þarabolti, nornabrenna og stórdansleikur með Stjórninni.

Eldur í Húnaþingi – 

Bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi er haldin á Hvammstanga. Margt í boði. 

– Hofsós heim –

Bæjarhátíð á Hofsósi. Á dagskrá í ár er prjónahittingur, fimleikabraut, karamelluregn, andlistmálun, sápukúlufjör, varðeldur og sykurpúðar og margt fleira.

– Humarhátíð – 

Humarhátíð er haldin á Höfn í Hornafirði ár hvert. Á dagskrá í ár eru loppumarkaður, stórdansleikur, brekkusöngur, humarsúpa, hoppukastalar o.fl.

– Hvalfjarðardagar – 

Hvalfjarðardagar eru árlegur viðburður í Hvalfjarðarsveit. Þema ársins 2023 er sirkus. Á dagskrá í ár er kvöldvaka, víkingabúðir, skógarjóga, mandölugerð, Sirkus Íslands, hringekja og hoppukastalar, markaðstjöld og margt fleira.

– Jónsmessuhátíð Eyrarbakka – 

Jónsmessuhátíð Eyrarbakka er haldin árlega. Í ár eru á dagskrá Latibær, hoppukastalar, víkingatjald, karamellukast, hestvagnaferðir, Jónsmessubrenna í fjörunni og margt fleira spennandi. 

– Kjalarnesdagar –

Kjalarnesdagar eru skemmtileg fjölskylduhátíð. Í ár verða karamellukast, markaður og hoppukastalar m.a. á dagskrá. 

– Landsmót UMFÍ 50+ – 

UMFÍ stendur fyrir landsmóti UMFÍ 50+ sem hefur farið fram síðan 2011. Mótið er opið öllum 50 ára og eldri. Mótið er haldið í Stykkishólmi að þessu sinni (á sama tíma og Danskir dagar).

– Skógardagurinn mikli – 

Skógardagurinn mikli er fjölskylduhátíð í Hallormsstaðarskógi og íslandsmeistaramótið í skógarhöggi fer þar fram. 

Sólstöðuhátíð á Kópaskeri – 

Bæjarhátíð Kópaskers. 

– Sólstöðuhátíð í Grímsey –

Bæjarhátíð Grímseyinga og öllum er boðið að taka þátt í hátíðarhöldunum með heimafólki. 

– Sæludagur í Hörgársveit – 

Sæludagur í Hörgársveit er árlegur viðburður. Í ár zumba í sundlauginni, markaður, gönguferðir, vöfflukaffi, dansleikur og fleira á dagskrá.

Júlí

30. júní – 2. júlí

– Allt í blóma –

Allt í blóma er fjölskyldu- og menningarhátíð í Lystigarðinum í Hveragerði. Á dagskrá í ár eru m.a. fjölskyldutónleikar, Sirkus Íslands, hoppukastalar, matarvagnar, Solla stirða og Halla hrekkjusvín.

– Bíldudals grænar baunir – 

Bæjarhátíð Bíldudals. Á dagskrá í ár er m.a. tónleikar með Eyþóri Inga, golfmót, bumbubolti, dorgveiðikeppni, förðunarnámskeið fyrir unglinga, braunahlaup, markaðstjöld, dýragarður, slackline og margt fleira spennandi.

– Bjórhátíð á Hólum – 

Bjórsetur Íslands stendur fyrir bjórhátíð á Hólum þann 1. júlí. Miðasala hafin.

– Bryggjuhátíð á Stokkseyri –

Bryggjuhátíð er bæjar- og fjölskylduhátíð á Stokkseyri. Í ár koma m.a. BMX Brós og Leikhópurinn Lotta fram. 

– Hátíðni – 

Hátíðni er tónlistarhátíð sem fer fram á Borðeyri við Hrútafjörð. Fjölmargir flytjendur flytja tónlist sína á hátíðinni í ár m.a. KUSK og Óviti.

– Írskir dagar –

Fjölskylduhátíðin Írskir dagar eru haldnir á Akranesi ár hvert og alltaf er fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. 

– Markaðshelgin –

Markaðshelgin er fjölskylduhátíð  í Bolungarvík með markaðstorgi, tónlistaratriðum og leiktækjum. Á dagskrá í ár er skrúðganga, brekkusöngur, markaðstorg, hoppukastalar, andlitsmálning, loftboltar, vatnsrennibraut og margt fleira.

– Ólafsvíkurvaka – 

Ólafsvíkurvaka er haldin annað hvert ár í Ólafsvík. Á dagskrá í ár er Lára og Ljónsi, Auddi og Steindi, Íþróttaálfurinn, krakka cross fit, mótorkross, hraðskák, regnbogahlaup og margt fleira.

– Reykjavík Fringe Festival –

Reykjavík Fringe Festival er jaðarlistahátíð í Reykjavík. 

7.-9. júlí

– Goslokahátíð –

Í ár fagna Vestmannaeyingar því að 50 ár eru liðin frá því að gosi lauk í Eyjum. Hátíðin er haldin 3.-9. júlí. Á dagskrá í ár eru listasýningar, varðskip til sýnis, Leikhópurinn Lotta, spákona, Stebbi og Eyfi, handverksmarkaður, unglingaball, sundlaugarpartý og margt fleira.

– Hamingjudagar – 

Hamingjudagar eru bæjarhátíð Hólmavíkur.

– Hríseyjarhátíð – 

Fjölskylduhátíð sem haldin er ár hvert í Hrísey.

– Kótelettan –

Fjölskyldu-, tónlistar- og grillhátíðin Kótelettan er haldin á Selfossi í 13. sinn í ár. Í ár bjóða Selfyssingar upp á tívolí, veltibíl, grill, tónlistarhátíð, Íþróttaálfinn og Sollu, Línu langsokk og margt fleira.

– Støð í Stöð –

Dagana 6.-9. júlí verður bæjarhátíð Stöðvarfjarðar haldin. M.a. koma Vísinda Villi, Páll Óskar og Stebbi Jak fram í ár. 

– Sumarhátíð UÍA – 

Sumarhátíð UÍA verður haldin helgina 8.-9. júlí 2023. 

– Þjóðlagahátíðin á Siglufirði –

Árleg þjóðlagahátíð er haldin á Siglufirði í júlí. Í boði eru tónleikar, dansar, námskeið o.fl.

14.-16. júlí

– Bryggjudagar á Þórshöfn –

Bæjarhátíðin Bryggjudagar er haldin á Þórshöfn. Á dagskrá í ár er Þórhallur Þórhallsson, töframaðurinn Einar Mikael, töfranámskeið og fleira.

– Dýrafjarðardagar – 

Dýrafjarðardagar eru haldnir á Þingeyri. Á dagskrá í ár eru Hreimur og Vignir Snær, Jónsi úr Í svörtum fötum, grill, tónlist, leiksýningar og fleira.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum

Þótt hátíðin heiti hlaupahátíð er einnig keppt í hjólreiðum, skokki, þríþraut og sjósundi á nokkrum stöðum á norðanverðum Vestfjörðum.  

– Húnavaka –

Húnavaka er bæjarhátíðin á Blönduósi. Á dagskrá í ár er meðal annars Pallaball, stórdansleikur með Bandamönnum, Benedikt búálfur, Leikhópurinn Lotta, Íþróttaálfurinn og Solla stirða, slackline, brekkusöngur, grill, veltibíllinn, bíósýning, golfmót og margt fleira. 

– LungA –

LungA er listahátíð sem er haldin á Seyðisfirði ár hvert. Listum, sköpun og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og ýmsum viðburðum. Í ár er hátíðin haldin dagana 9.-16. júlí.

– Náttúrubarnahátíð á Ströndum –

Náttúrubarnahátíð á Ströndum er ókeypis fjölskylduhátíð sem haldin verður á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Á hátíðinni gefst gestum tækifæri til að finna og rækta náttúrubarnið í sér á skemmtilegri dagskrá sem er fulla af fróðleik og fjöri.

21.-23. júlí 

– Götubitahátíð –

Götubitahátíð er haldin í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Á svæðinu verða 30 matarvagnar eða sölubásar og keppt verður í „besta götubita Íslands“. Leiktæki og leiksvæði fyrir börn og tónlistaratriði. 

– Sápuboltinn – 

Keppt verður í sápubolta á Ólafsfirði þessa helgi, krakkasápubolti á föstudegi og fyrir fullorðna á laugardegi. Á dagskrá (fyrir utan keppnina) er ball með Stuðlabandinu, brekkusöngur, skrúðganga, útiskemmtun þar sem Diljá tekur lagið og lokapartý.

– Sumar & bjórhátíð LYST –

Laugardaginn 22. júlí stendur LYST fyrir sumar- og bjórhátíð í Lystigarðinum á Akureyri. Fjölmörg brugghús verða með sumarbjóra sína á dælu og ýmislegt góðgæti verður í boði með. Lifandi tónlist, sól og blíða.

– Ögurballið – 

Fyrir þau sem vilja fá að upplifa alvöru sveitaball er Ögurballið alveg málið. Ballið er haldið í litlu samkomuhúsi í Ögri í Ísafjarðardjúpi. Hægt er að gista á tjaldsvæðinu, fá sér smá rabarbaragraut með rjóma og dansa langt fram á nótt. 18 ára aldurstakmark.

28.-30. júlí

– Bræðslan –

Bræðslan er tónlistarhátíð á Borgarfirði eystra, sem hefur verið haldin síðan 2005. Í ár koma Maus, Bríet, Laddi, Karlotta, Una Torfa og Jói Pé & Króli fram. 

– Franskir dagar –

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði er menningarleg bæjarhátíð með frönsku ívafi. Í ár eru Íþróttaálfurinn og Solla stirða, BMX brós og Stuðlabandið m.a. á dagskrá.

Mærudagar – 

Bæjarhátíð Húsavíkur þar sem alltaf er nóg um að vera.

– Reykholtshátíð – 

Yfirskrift hátíðarinnar er sígild tónlist í sögulegu umhverfi. Hátíðin er haldin í Reykholtskirkju í Reykholti og er sannkölluð veisla fyrir unnendur klassískrar tónlistar.

– Smástund í Grundarfirði –

Bæjarhátíð Grundfirðinga. Hefur heitið Á góðri stund í Grundarfirði hingað til en hátíðin verður með minna sniði þetta árið. 

– Trilludagar á Siglufirði –

Trilludagar eru fjölskylduhátíð með áherslu á sjóinn. Í boði er sjóstöng, siglingar, matur, menning og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

Ágúst

4.-7. ágúst – Verslunarmannahelgin

– Berjadagar –

Berjadagar er þriggja daga klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Í ár verða frumflutt íslensk verk og kammermúsík frá ýmsum löndum, listasýning utan dyra, tónlistarviðburðir og fleira.

– Ein með öllu –

Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á dagskránni í ár er m.a. húllhringjagerð, tívolí, krakkahlaup í Kjarnaskógi, böll, evrópumót í torfæru, grill og margt fleira.

– Hjalteyrarhátíð –

Hjalteyrarhátíð er haldin á Hjalteyri við Eyjafjörð um verslunarmannahelgina. 

– Innipúkinn –

Innipúkinn er tónlistarhátíð fyrir höfuðborgarbúana sem nenna ekki í útilegu um verslunarmannahelgina. Alltaf eru fjölbreytt tónlistaratriði á dagskrá í miðbæ Reykjavíkur. Í ár koma m.a. Birnir, Daniil, GDRN, Langi Seli og Skuggarnir, Sykur og Valdimar fram.

– Kotmót Hvítasunnukirkjunnar – 

Kotmót er árlegt mót Hvítasunnukirkjunnar sem er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Í ár verður sérstakt barnamót fyrir 5-12 ára krakka og aðalpredikari mótsins verður Daniel Karl-Olov Alm. 

– Neistaflug í Neskaupstað –

Neistaflug er bæjarhátíð Neskaupstaðar og í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni. Í ár kemur m.a. hljómsveitin Flott fram. 

– Norðanpaunk –

Norðanpaunk er rokkhátíð haldin á Laugarbakka. Í ár koma m.a. Dödsrit, Kælan mikla, Sangre de muerdago, Múr og Ghostigital fram. 

– Sæludagar KFUM og KFUK –

Sæludagar eru árleg fjölskylduhátíð KFUM og KFUMK í Vatnaskógi. 

– Unglingalandsmót UMFÍ –

Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Sauðárkróki í ár. Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára keppa í alls kyns íþróttagreinum. Auk þess er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

– Verslunarmannahelgin á Úlfljótsvatni –

Á Úlfljótsvatni er boðið upp á ævintýralega fjölskyldudagskrá um Verslunarmannahelgina. 

– Þjóðhátíð í Eyjum –

Þjóðhátíð þarf vart að kynna. Stærsta útihátíð ársins er haldin í í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þau atriði sem þegar hafa verið tilkynnt eru; Bríet, Friðrik Dór, Klara Elias, Emmsjé Gauti, XXX Rottweiler, Una Torfa og Jón Ólafsson ásamt gestum. 

11.-13. ágúst

– Act Alone –

Act Alone er einstök leiklistarhátíð á Suðureyri. í boði er leiklist, tónlist, myndlist, dans og ritlist. 

– Fiskidagurinn mikli – 

Fiskidagurinn mikli á Dalvík á stórafmæli í ár, en hátíðin er haldin í 20. sinn í ár. 

– Grímsævintýri –

Grímsævintýri er sveitahátíð sem haldin er á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Hátíðin er haldin af Kvenfélagi Grímsneshrepps og alltaf er fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Frítt er inn á hátíðina og frítt í sund á meðan hátíðinni stendur.

– Hamingjan við Hafið –

Hamingjan við Hafið er fjölskylduhátíð í Þorlákshöfn þar sem hamingjan ræður ríkjum. 

– Hinsegin dagar –

Á hinsegin dögum í Reykjavík er fjölbreytileika mannflórunnar fagnað. Alls kyns viðburðir í boði en aðalviðburður daganna er svo gleðigangan sjálf. 

Hvanneyrarhátíð – 

Hvanneryarhátíð er haldin á Hvanneyri ár hvert. Í ár er hátíðin haldin laugardaginn 12. ágúst.

– Sumar á Selfossi – 

Fjölskylduhátíð sem haldin er ár hvert á Selfossi. Á dagskrá í ár eru m.a. Jón Jónsson, samsöngur með Guðrúnu Árnýju, Stuðlabandið, Diljá, froðufjör, Ragga Gísla, Daníel Ágúst og margt fleira.

18.-20. ágúst

– Blómstrandi dagar –

Blómstrandi dagar er árleg bæjarhátíð Hvergerðinga. 

– Fjölskyldudagar í Vogum –

Fjölskyldudagar í Vogum bjóða upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Í ár eru þrennir tónleikar, hoppukastalar, risa vatnsrennibraut, bubblubolti, lazer tag, axarkast og fleira skemmtilegt á dagskrá.

– Menningarnótt –

Það má segja að Menningarnótt sé eins konar bæjarhátíð Reykjavíkur. Ýmis viðburðir verða um allan bæ en að kvöldi laugardags eru stórir tónleikar niðri í bæ, ásamt flugeldasýningu. 

– Reykhóladagar –

Bæjarhátíð Reykhólahrepps. 

– Sveitasæla í Skagafirði –

Sveitasæla er landbúnaðarsýning og bændahátíð í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki. Þar verður véla- og fyrirtækjasýning, húsdýragarður og gleði. 

– Töðugjöld –

Töðugjöld eru bæjarhátíðin í Rangárþingi ytra (Hella og nágrenni). 

Útsæðið

Útsæðið er bæjarhátíð Eskifjarðar og er hátíð fyrir fjölskyldur þar sem gestir og gangandi koma saman og njóta samverunnar.

25.-27. ágúst

– Akureyrarvaka –

Dagskrá Akureyrarvöku verður auglýst þegar nær dregur.

– Blús milli fjalls og fjöru –

Blús milli fjalls og fjöru er blúshátíð þar sem ýmsir listamenn koma við fram. Hátíðin er haldin á Patreksfirði. 

– Bæjarhátíð í Suðurnesjabæ –

Dagana 21.-27. ágúst verður Bæjarhátíð í Suðurnesjabæ haldin. 

– Í túninu heima – 

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá.

– Kjötsúpuhátíð – 

Kjötsúpuhátíð er bæjarhátíð á Hvolsvelli þar sem fólk kemur saman og skemmtir sér. 

 

September

1.-3 september

– Ljósanótt –

Ljósanótt er bæjarhátíð Reykjanesbæjar og alltaf er þar mikið um að vera. 

15.-17. september

– Ormsteiti – 

Ormsteiti er uppskeru- og menningarhátíð á Egilsstöðum og víðar um Fljótsdalshérað. 

Ef þú hefur einhverjar ábendingar skaltu senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is 

Bæjarhátíðir sumarið 2023 Read More »