Fjölskyldan

Að búa til hefðir og góðar minningar

Að búa til hefðir og góðar minningar

Það er undir okkur, fullorðna fólkinu, komið að skapa hefðir og búa til góðar minningar fyrir börnin okkar. Þannig er það einfaldlega. Þegar ég hugsa til baka til æskuára minna fyllist hugur minn af góðum minningum, sem margar hverjar tengjast einmitt einhverjum fjölskylduhefðum. Gleðin við að sjá allt gamla jólaskrautið sett á sinn stað, lestur fyrir svefninn með mömmu, að búa til bolluvönd fyrir bolludaginn og Disney-myndin á föstudögum eru allt hefðir sem ég tengi við góðar minningar og mér verður hlýtt í hjartanu við að hugsa til baka til þessa tíma. Hefðir hverrar fjölskyldu færir fólkið nær hvoru öðru, skapa góðar minningar, yndislegar gæðastundir og býr þar að auki til ákveðinn fyrirsjáanleika sem sum börn þurfa alveg sérstaklega mikið af.

Rannsókn, sem gerð var á vegum Háskólans í Syracuse yfir 50 ára tímabil, sýnir að fjölskyldur sem halda í góðar og sterkar hefðir eru nánari, bundar traustari fjölskylduböndum, eru þrautseigari þegar upp koma vandamál sem þarf að leysa í sameiningu og ná að halda í bjartsýni og jákvæðni þótt eitthvað bjáti á. Börn í slíkum fjölskyldum upplifa sig elskuð og samþykkt sem manneskjur. Þau læra að þau geta treyst á aðra og fá oft sterkari persónulega sjálfsmynd – vita þá hvað það er sem gerir þau einstök og hvers konar manneskjur þau vilja vera.Þau standa sig einnig betur í námi. Gift pör eða pör í sambúð virðast einnig hamingjusamari og finna fyrir minni streitu í daglegu lífi (Fiese, B. H., Tomcho, T. J., Douglas, M., Josephs, K., Poltrock, S., & Baker, T., 2002).

Mynd: Libby Penner
Að búa til og þróa hefðir

Það er kannski rangt að kalla þetta að búa til hefðir því þær þróast kannski frekar. Við getum ákveðið að á aðventunni eigi alltaf að baka piparkökur en hefðin þróast kannski út í það að piparkökur eru keyptar og skreyttar, frekar en að þær séu bakaðar frá grunni eins og ætlunin var í upphafi. En í upphafi þurfum við samt sem áður að setja okkur markmið um að búa til einhverja hefð, sama hvernig hún svo þróast á endanum. 

Hefðir þurfa ekki að vera flóknar, sumar eru meira að segja framkvæmdar daglega. Sem dæmi er svefnrútínan í rauninni hefð, barninu þykir það sjálfsagt afskaplega notaleg stund þegar mamma eða pabbi syngja eða lesa fyrir það áður en það fer að sofa. Það er einnig hefð ef fjölskyldan borðar alltaf kvöldmat saman við matarborðið og spjallar um daginn. Þetta eru gæðastundir sem gefa okkur tækifæri til að eiga í góðum samskiptum við börnin okkar, styrkja tengslin og veitir þeim öryggi. 

En aftur að því að búa til og þróa hefðir. Ef maður vill vera skipulagður er gott að setjast niður og taka saman hefðir fjölskyldunnar. Hvað er það sem þið gerið saman á aðventunni eða á 17. júní? Ef það er lítið sem ekkert, gætuð þið þá gert eitthvað meira til að gera dagana eftirminnilega? Passið að hafa hefðirnar ekki flóknari eða tímafrekari en þið teljið ykkur ráða við. Hefðirnar þurfa alls ekkert að vera stórar og flóknar. Sem dæmi getur það alveg verið góð og skemmtileg hefð að baka fullt af smákökusortum fyrir jólin EN það er líka hægt að búa til (alveg jafn góða) hefð sem er þannig að foreldrarnir (eða foreldri) og börnin fara saman út í búð eða bakarí á fyrirfram ákveðnum degi og velja hvaða jólasmákökur eigi að kaupa fyrir þessi jól. Þessi hefð getur búið til alveg jafn góðar minningar og þær að baka smákökurnar frá grunni.

Ef fjölskyldan vill, eftir þessa lesningu, fara að búa til og þróa sínar eigin hefðir er hér listi af tilefnum til þess að vera með sérstakar hefðir. Þetta eru dagar sem eru miðaðir við meðal Íslendinginn, aðrar þjóðir eiga auðvitað sína eigin sérstöku daga. Listinn er ekki tæmandi, hvaða dagur sem er getur orðið sérstakur fyrir ykkar fjölskyldu ef þið bara viljið.

Mynd: Vitolda Klein
Yfir árið
Vetur (des-feb)
  • Fullveldisdagurinn
  • Aðventan
  • Þorláksmessa
  • Aðfangadagur
  • Jóladagur
  • Annar í jólum
  • Gamlársdagur
  • Nýjársdagur
  • Þrettándinn
  • Bóndadagur
  •  Þorrablót
  • Sólarkaffi
  • Bolludagur
  • Sprengidagur
  • Öskudagur
  • Valentínusardagur
  • Konudagur
  • Vetrarfrí
Vor (mar-maí)
  • Vorjafndægur
  • Fyrsti apríl
  • Páskar
  • Sumardagurinn fyrsti
  • Verkalýðsdagurinn
  • Mæðradagurinn
  • Uppstigningardagur
  • Hvítasunna
  • Eurovision
Sumar (jún-ágú)
Haust (sep-nóv)
  • Fyrsti skóladagurinn
  • Dagur íslenskrar náttúru
  • Haustjafndægur
  • Fyrsti vetrardagur
  • Hrekkjavaka
  • Haustfrí
  • Dagur íslenskrar tungu
Annað/ódagsett
  • Afmæli
  • Gifting
  • Skírn/nafngjöf
  • Barnsfæðing
  • Ættarmót
  • Fjölskyldumót
  • Ferming/siðfesta
  • Fjölskyldudeit
  • Kósýkvöld
  • Fjölskyldufundir
  • Kvöldmatur
  • Kvöldsaga
  • Daglegar hefðir
  • Vikulegar hefðir
  • Mæðgna/mægðina og feðga/feðgina-deit

Heimilisvefurinn hefur nú þegar tekið fyrir nokkra af þessum dögum og mun gera meira af því þegar að þeim kemur. Hægt er að smella á feitletruðu hátíðirnar til að fá hugmyndir og innblástur að hefðum og öðru skemmtilegu til að gera á þeim dögum.

Gangi ykkur vel!

Að búa til hefðir og góðar minningar Read More »

Skemmtipokar í bílinn

Skemmtipokar í bílinn

Leiðist börnunum þínum í bílnum? Er löng ferð fram undan? Viltu helst sleppa skjám? Hér er hugmynd fyrir þig! Langar ferðir í bíl með börnum geta verið erfiðar, stundum mjög erfiðar. Sérstaklega ef börnunum finnst ekkert gaman í bíl. Auðvitað er nú á dögum hægt að stoppa á hinum ýmsu stöðum til að gera eitthvað skemmtilegt eða borða góðan mat á leiðinni. Stundum höfum við hreinlega ekki tíma til að stoppa mjög oft. Þá geta skemmtipokar í bílinn hentað vel. 

Skemmtipokar eru alls konar og foreldrarnir geta sett saman poka sem henta þeirra eigin börnum. Það þarf bara nokkra poka, umslög eða eitthvað í þá áttina. Hér er t.d. verið að nota gamla gjafapoka sem voru til á heimilinu.

Pokarnir eru merktir með t.d. tíma eða staðsetningu sem segir til um hvenær má opna þá. Gott er að gera ráð fyrir að opna poka á sirka klukkustundar fresti, hugsanlega styttra ef börnin eru mjög ung. Hér er hægt að fá útprentanlega merkimiða (í tveimur útgáfum) sem hægt er að líma eða hefta á pokana. 

Í pokunum er, eins og áður sagði, alls konar dót. Dótið í pokunum fer eftir áhugamálum og aldri barnanna og foreldrarnir þurfa að hugsa aðeins hvað myndi halda börnunum uppteknum dálítinn tíma. Hægt er að finna alls konar dót og það þarf ekki að vera dýrt. Sumt er til á heimilinu, annað fæst ódýrt í búðum eins og Tiger og Söstrene Grene eða á nytjamörkuðum. Hér eru nokkrar hugmyndir að dóti til að setja í pokana:

  1. Þrautablöð (t.d. sudoku, orðasúpur, krossgátur o.þ.h.)
  2. Límmiðar (og eitthvað til að líma þá á)
  3. Lítil stílabók (með gormum) og penni
  4. Perlur og band
  5. Gestaþraut
  6. Ferðaspil  (t.d. eins og má sjá á mynd)

7. Lítið legosett

8. Fótboltaspil eða pokemonspil

9. Litabók eða litamynd og litir

10. Blöð með leiðbeiningum um hvað á að teikna

11. Tússtafla og túss

12. Nammihálsmen

13. Brandarar

14. Gátur

15. Límbandsrúlla (til að búa til fyndin andlit)

16. Gluggamálning eða túss sem hægt er að skreyta rúðuna með

17. Orðaleikir

18. Lítil bók til að lesa

19. Útprentuð saga til að lesa

20. Bingó

21. Leikjareglur

22. Setningar til að fá innblástur fyrir söguskrif

23. Fidget-dót

24. Bean boozled

25. Leir

26. Rubiks kubbur

27. Teiknimyndasögur

Þetta voru bara nokkrar hugmyndir, listinn er ekki tæmandi. Annað sem er sniðugt að setja í hvern poka er smá snarl eða eitthvað gotterí til að maula á. Þetta geta t.d. verið:

  1. Rúsínur
  2. Cheerios eða annað morgunkorn (þurrt)
  3. Ber
  4. Smarties/m&m
  5. Ávaxtanammi
  6. Niðuskornir ávextir
  7. Hnetur og fræ
  8. Snakk
  9. Saltkringlur
  10. Kanilsnúður/pizzasnúður
  11. Sykurpúðar
  12. Kinderegg
  13. Lillebror ostehaps/babybel ostur
  14. Skinkuhorn

Auðvitað er það má fyrirhöfn að útbúa pokana en vel þess virði ef það er ekki í boði að hanga í skjám alla leiðina í bílnum á langri ferð um landið. Svona pokar virka fyrir börn á öllum aldri, líka unglinga. 

 

Til að auðvelda ykkur undirbúninginn eru hér nokkur útprentanleg blöð sem hægt er að setja í pokana. Það er líka hægt að prenta út eldra efni af Heimilisvefnum. Það er hægt að finna hér.

Skemmtipokar í bílinn Read More »

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum

Það er mikilvægt að hlúa að sambandinu á þessum tímum þegar við erum öll eins og hamstrar í hjóli. Vinnandi daginn út og inn og höfum sjaldan tíma fyrir neitt, hvað þá að gera eitthvað sérstakt með makanum. En það er samt sem áður mjög mikilvægt að sýna makanum væntumþykju og gefa ykkur tíma til að rækta sambandið. Ein leið til að gera það er að ákveða að fara á t.d. eitt stefnumót í mánuði. Hægt er að búa til smá lista að hugmyndum að stefnumótum. Stefnumótin mega nefnilega alveg vera eitthvað annað heldur en bíó eða út að borða. Svo er hægt að raða stefnumótunum niður á mánuðina sem fram undan eru. Jafnvel er hægt að setja hugmyndirnar í umslög, sem er svo opnað á ákveðnum tíma fyrir stefnumótið.

Önnur leið er að útbúa krukku með stefnumótahugmyndum. Þá er hægt að skrifa niður fullt af stefnumótahugmyndum, brjóta saman og setja í krukku. Einn miði er svo dreginn í hverjum mánuði og það gert sem stendur á miðanum.

Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum. Stefnumótahugmyndirnar eru fjölbreyttar, sumar taka langan tíma aðrar stuttan, sumar hugmyndirnar eru nokkuð klikkaðar en aðrar mjög venjulegar, sumt er dýrt en annað mjög ódýrt eða ókeypis. Hægt er að prenta út hugmyndirnar og setja annað hvort í umslag eða krukku. Endilega takið burt þær hugmyndir sem henta ykkur ekki. Það hafa ekkert allir efni á því að fara í helgarferð út á land eða fá kannski ekki pössun fyrir börnin í svo langan tíma. Seinna koma fleiri hugmyndir að stefnumótum frá okkur svo hægt verður að fylla á krukkuna eða búa til fleiri umslög þá.

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum Read More »

Pakkað niður fyrir ferð í sólina

Pakkað niður fyrir ferð í sólina

Það er margt sem þarf að huga að þegar pakkað er niður fyrir ferðalag. Það er mjög leiðilegt að vera búin(n) að dröslast með þunga tösku, fulla af fötu, um flugvelli og nota svo kannski bara brot af því sem maður pakkaði niður. Þarf maður tíu boli fyrir tveggja vikna ferðalag til Spánar? Nei, mjög líklega ekki. En hvað þarf maður þá marga boli í raun og veru? Svarið við þeirri spurningu er ekki alveg einfalt en hér verður leitast við að svara þeirri spurningu og fleirum um hvernig maður pakkar niður fyrir ferð í sólina.

Mynd: Ethan Robertson

Áður en byrjað er að pakka niður er gott að spyrja sig þessara spurninga því þær skipta máli upp á hvað og hversu mikið af því er pakkað niður.

  • Hver er tilgangur ferðarinnar? Hvaða fatnað þarf fyrir það? Ferðu í veislu? Er þetta æfingaferð? 
  • Er þvottavél á staðnum? Ef það er þvottavél á staðnum þarf ekki að taka eins mikið með sér. Þá er hægt að pakka niður eins og ef um vikuferð væri að ræða, þótt ferðin verði kannski lengri.
  • Hvernig er hitinn venjulega á staðnum á þessum árstíma? Er mjög heitt? Eru líkur á rigningu? Getur orðið svalt á kvöldin?
  • Hvað er innifalið í gistingunni? Rúmföt? Handklæði?
  • Ætlar þú að æfa  í ferðinni eða fara út að hlaupa? Eða kannski í ræktina?
  • Á að djamma öll kvöld eða verður þetta róleg fjölskylduferð? 

Það er best að taka fyrirferðamesta fatnaðinn með inn í flugvélina. Ef þú ætlar að taka með úlpu eða jakka (svona ef það skyldi nú vera kalt eitt kvöldið), þá er best að taka jakkann með í flugvélina í stað þess að láta hann taka pláss í ferðatöskunni.

  • Hversu mikið ætlarðu á ströndina? Er strönd yfir höfuð? Eða sundlaug? Ef þú ætlar mikið að vera á strönd eða við sundlaugarbakka er líklega best að taka með fleiri en ein sundföt.
  • Er planið að hanga í verslunarmiðstöðinni allan tímann? Ef svo er gæti verið gott að taka aðeins minna með til að bæði búa til pláss fyrir nýju fötin og tilefni til að nota þau.
Mynd: Sean Oulashin

Hér er tafla sem sýnir hvað er gott að taka mikið af hverju miðað við lengd ferðar. Auðvitað þurfið þið að aðlaga listann að ykkar eigin þörfum, sum okkar svitna til dæmis mun meira en önnur og gætu því þurft að bæta aðeins við tölurnar. Allar tölurnar eru miðaðar að því að það sé ekki sett í þvott í ferðinni.

*Ef ekki er hægt að komast í þvottavél. Það er frekar erfitt að ferðast í mánuð eða meira án þess að setja í þvott. Betra væri að pakka niður fyrir 1-2 vikur og setja í þvottavél þegar hægt er.

**Oft innifalið.

Annað nytsamlegt

Fleira sem gott er að taka með í sólarlandaferð. Það er hægt að prenta myndina út. 

Góða ferð!

Pakkað niður fyrir ferð í sólina Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

Nú þegar vel er liðið á júní eru flest börn komin í sumarfrí og styttist í það hjá leikskólabörnunum líka. Sumir foreldrar geta ekki beðið eftir þessum tíma þar sem hægt að fara út að bralla eitthvað með börnunum dag eftir dag, á meðan aðrir foreldrar kvíða því að þurfa að hafa ofan af fyrir krökkunum í rútínuleysi sumarfrísins. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að þurfa hugmyndir að einhverju sem gerir sumarið skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana. Sumt er einfalt og ódýrt en annað er flóknara. Hægt er að setja sér markmið með krökkunum um að reyna að gera eitthvað eitt á listanum (eða ykkar eigin lista) á hverjum degi, eða t.d. annan hvern dag. 

Hér er listinn en auðvitað er gríðarlega margt fleira hægt að gera og líklega munu fleiri listar bætast við í framtíðinni hér á Heimilisvefnum. 

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar Read More »

Jónsmessan: hugmyndir að hefðum

Jónsmessan: hugmyndir að hefðum

Jónsmessa ber upp á 24. júní ár hvert. Hún er merkt á mörg íslensk dagatöl en ekki allir vita hvað þessi Jónsmessa er og af hverju hún er eitthvað sérstök. 

En Jónsmessa er sem sagt fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Talið er að Jóhannes hafi skírt Jesús og það er vegna hans sem ýmsir kristnir söfnuðir skíra safnaðarmeðlimi sína. Það er ekki vitað hvenær Jóhannes fæddist og líklega eru ekki miklar líkur á að það hafi verið nákvæmlega 24. júní. Þessi dagur var að sjálfsögðu valinn þegar kristna átti Evrópu og Rómverjar héldu upp á 24. júní sem sumarsólstöðuhátíð (24. des var einmitt vetrarsólstöðuhátíð). Í Norður-Evrópu voru sólstöðuhátíðir einnig haldnar hátíðlegar um svipað leyti. Þar voru haldin mikil blót á þessum dögum. Þegar kristni var tekin upp yfirtóku Jónsmessa (og Jólin) gömlu sólstöðuhátíðirnar. 

Á Íslandi var Jónsmessa líklega meiri hátíð í kaþólskum sið og Jónsmessa var reyndar helgidagur (og þá frídagur) þar til 1770. Í dag eru lítil sem engin hátíðarhöld tengd deginum, meira er um það í t.d. Svíþjóð og Finnlandi. Í þeim löndum eru haldnar miklar veislur, brennur og dansleikir sem tengdust oft yfirnáttúrulegum verum á borð við nornum, púkum og draugum. Það hefur ekki tíðkast hér, a.m.k. í ekki í seinni tíð. Við Íslendingar eigum þó nokkrar venjur og þjóðtrú tengda Jónsmessunótt.

Mynd: Daniel Wengel

Þjóðtrú tengd Jónsmessu

Jónsmessunótt hefur lengi verið álitin ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins hér á landi ásamt jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt. Allar þessar nætur eru nálægt sólhvörfum og eiga það sameiginlegt að þær þóttu góðar til útisetu á krossgötum, að kýr tali og að selir fari úr hömum sínum. Sú þjóðtrú er líka þekkt víða um Evrópu. Hjátrú sem er einungis tengd Jónsmessu er svo;

Döggin

Á Jónmessunótt átti fólk að velta sér nakið upp úr dögginni. Döggin átti að geta læknað kláða og fjöldan allan af öðrum húðmeinum. Helst átti að láta döggina þorna sjálfa á líkamanum. Margir láta það duga að setja dögg í andlit sitt eða ganga berfættir í henni.

Náttúrusteinar

Á Jónsmessunótt á að vera líklegra að finna náttúrusteina með töframátt en aðrar nætur ársins. Ýmsa töfrasteina má finna í náttúru Íslands, samkvæmt þjóðtrúnni. Lausnarsteinar eru steinar sem eiga að hjálpa konum við barnsburð og sömuleiðis kúm. Óskasteinar eða varnarsteinar geta hjálpað manni gegn illum öflum. Lífssteinar eiga að geta grætt sár og hulinhjálmssteinn veitir eiganda sínum hulinshjálm, gerir mann m.a.o. ósýnilegan. 

Sumir staðir á Íslandi eru taldir líklegri til að geyma náttúrusteina með töframætti. Það eru t.d. Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi, Klakkur milli Kolgrafarfjarðar og Grundarfjarðar, Kofri við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi, Tindastóll í Skagafirði upp undan Glerhallavík og Baula í Borgarfirði. Á síðastnefnda fjallinu á að vera tjörn á tindinum og í henni óskasteinn. Steininn flýtur aðeins upp á Jónsmessunótt og sá sem nær steininum fær óskir sínar uppfylltar.

Grös og blóm

Jónsmessunótt þykir góð nótt til að tína ýmsar lækningajurtir s.s. lyfjagras, horblöðku, brennisóley og mjaðjurt. Eiga þessar jurtir að hafa lækningamátt og sumar mátti meira að segja nota til annars. Mjaðjurt var t.d. hæg t að  nota til að vita hver hefði stolið af manni og með brönugrasi var hægt að vinna ástir einhvers. 

Önnur hjátrú eða hefð tengd Jónsmessunni er að ógiftar konur eða stúlkur geti tínt sjö (eða níu) mismunandi blómategundir á Jónsmessunótt en það þarf þó að gerast í hljóði. Blómvöndurinn er svo settur undir koddann og um nóttina á þær að dreyma framtíðar maka sinn.

Mynd: Davide Biscuso

Hin Norðurlöndin

Á hinum Norðurlöndunum, og sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi, er Jónsmessan stór fjölskyldu- og sumarhátíð. Þar eru margar eru margar hefðir tengdar deginum (og nóttunni auðvitað). Öll löndin eiga það sameiginlegt að hafa brennu á Jónsmessunótt og fara í leiki. Í Danmörku eru pappírsnornir brenndar og lög sungin við brennuna. 

Í Finnlandi er farið í miðsumarssauna, brennur haldnar og dansar dansaðir með fjölskyldu og vinum við maístöngina. Sveitarfélög hafa boðið upp á brennur og skemmtanir í seinni tíð. Hátíðarmatinn má ekki vanta og eru fiskréttir og kartöflur vinsælastar ásamt jarðarberjum. 

Miðsumarshátíðin í Svíþjóð er nokkuð lík þeirri í Finnlandi, þar er dansað í kringum maístöngina, sem er stöng sem er skreytt með laufum, blómum og marglitum borðum. Farið er í leik eftir dansinn og algengt fyrir konur og börn að vera með blómakrans í hárínu. Í Svíþjóð er algengasti maturinn á þessum degi, síld, sýrður rjómi, graslaukur, kartöflur og jarðarber í eftirrétt. Kartöflurnar eru gjarnan bornar fram með dilli og snaps drukkið með matnum.

Mynd: Sofia Holmberg

Að búa til Jónsmessuhefðir

Líklega verður Jónsmessa aldrei jafn stór hátíð hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Við getum hins vegar sjálf tekið það upp hjá okkur að halda aðeins upp á þennan dag með okkar nánustu fjölskyldu. Eins og áður hefur komið fram hér á Heimilisvefnum þá þurfum við að muna að það erum við sem sköpum minningar og búum til hefðir fyrir næstu kynslóð. Ef við búum eitthvað til úr Jónsmessunni verður hún sérstök fyrir börnunum okkar. 

Auðvitað má Jónsmessan vera jafn stór eða lítil og fólk vill en það er margt sem er hægt að gera með fjölskyldunni á þessum degi og nóttina áður. Af íslenskum hefðum er auðvelt að;

  • Velta sér upp úr dögginni eða a.m.k. labba um berfættur í henni. 
  • Tína sjö eða níu blómategundir og setja undir koddann hjá sér og fá þá að sjá væntanlega maka í draumi. 
  • Leita að óskasteinum, sem á að vera auðveldara þessa nótt en aðrar. Hugsanlega er hægt að fara í fjallgöngu þetta kvöld til að reyna að leita að steinum á fjöllum.

Af siðum og hefðum hinna Norðurlandanna er hægt að;

  • Brenna pappírsnornir að hætti Dana.
  • Fara í sauna að hætti Finna eða gufubað.
  • Búa til blómakrans til að hafa á hausnum. 
  • Fara í skemmtilega leiki úti. 
  • Borða góðan fiskrétt með kartöflum og jarðarber með rjóma í eftirrétt.
  • Ef maður vill fara “all in” þá er hægt að hafa brennu eða varðeld og syngja nokkur lög. Athugið að óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns, skv. 21. gr. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en 1 m³ af efni. Sjá hér.

Jónsmessan: hugmyndir að hefðum Read More »

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin 2023

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin mín 2023

Nú þegar komið er fram í miðjan júní eru mörg sjálfsagt farin að huga að ferðalögum sumarsins, ef þau eru þá ekki þegar lögð af stað. En það er nú oft þannig að fólk fer að koma sér í frí eftir 17. júní. Gaman er að ferðast um landið og mörg fara líklega norður eða austur – eða annað að elta veðrið. Það er þó einn hluti ferðarinnar sem mörgum, sérstaklega börnum, finnst leiðilegri og það er að sitja lengi í bílnum. Auðvitað er hægt að leyfa börnunum að horfa á eitthvað í bílnum eða vera í símanum en það er langt frá því að vera fullkomin lausn. Í fyrsta lagi ekki hollt fyrir neinn að fá of mikinn skjátíma, í öðru lagi verða sum börn bílveik af því og í þriðja lagi hindrar það börnin í að tengjast bæði umhverfinu í kringum sig og hinum í bílnum. Fjórði punkturinn er svo sá að börnum má alveg leiðast. Það er ekki hættulegt. Það er meira að segja bara mjög hollt að láta sér leiðast af og til. Það er einmitt þegar manni leiðist sem maður finnur helst upp á hlutum til að gera. Einhvern veginn lifðum við eldri kynslóðirnar þetta af. 

Að sjálfsögðu eiga sum börn mjög erfitt með að láta sér leiðast og þurfa einhverja skemmtun í bílinn. Í stað þess að setja skjá fyrir framan börnin og breyta þeim í einhverja heilalausa zombie-a eru hér örfáar hugmyndir að skjálausri skemmtun í bílnum og í lokin er þrautahefti til útprentunar fyrir þau sem hafa gaman af svoleiðis. 

 

Mynd: Maksim Tarasov

Það er hægt að syngja öll skemmtilegu lögin sem börnin kunna úr leik- eða grunnskólanum. Þau gætu jafnvel kennt foreldrunum einhver lög eða öfugt.

Það er alveg klassískt að fara í leiki í bílnum. Leikir eins og Frúin í Hamborg, Hver er maðurinn? og að giska á hvernig næsti bíll sem þið mætið er á litinn geta stytt biðina eftir áfangastaðnum til muna. 

Hægt er að setja á einhverja góða sögu í bílnum eða hlaðvarp fyrir börn. Foreldrar geta líka haft gaman að slíku. Það er líka hægt að hlusta á lög og hægt er gera ýmislegt tengt því. Foreldrar geta t.d. sýnt börnunum hvað þau hlustuðu á sem börn eða það sem amma og afi hlustuðu á. Það er hægt að fara í leik þar sem allir eiga að giska á lagið þegar það byrjar að spilast. 

Fyrir þau sem verða ekki auðveldlega bílveik er möguleiki á að lesa góða bók eða tímarit eins og Lifandi vísindi eða Andrésblöð.

Það eru til spil sem eru gerð til að spila á ferðalögum. Það væri hægt að splæsa í eitt eða tvö slík spil til að grípa í á löngum ferðalögum. 

Svo er líka mjög mikilvægt fyrir börn sem eiga erfitt með að vera lengi í bílnum að stoppa reglulega fyrir þau og leyfa þeim að sprikla aðeins úti. Stoppin þurfa ekki að vera löng eða merkileg en það þarf oft að rétta aðeins úr fótunum á löngum ferðum. 

Að lokum er hægt að kaupa eða prenta út þrautahefti eða krossgátubækur fyrir krakkana. Heimilisvefurinn ætlar hér að bjóða upp á eitt slíkt. Í heftinu eru 24 blaðsíður af alls konar þrautum, leikjum, hugmyndum að orðaleikjum, bingó og margt fleira.  Vonandi getur það stytt stundir allra í fjölskyldunni því sumt í heftinu er fyrir alla í bílnum. 

Ýttu á myndina hér fyrir neðan til að fá þrautaheftið 🙂

Skjálaus skemmtun í bílnum og Ferðabókin 2023 Read More »

Hugmyndir fyrir 17. júní

Hugmyndir fyrir 17. júní

Hæ, hó, jibbí jei! Það er að koma 17. júní! Hvað ætlar þú að gera til að fagna þjóðhátíðardeginum í ár? Sum ætla sjálfsagt að kíkja á skipulagða dagskrá og hugsanlega fá sér köku í tilefni dagsins. Önnur gera ekkert sérstakt á þessum degi. Íslendingar gætu og mættu alveg gera meira úr þessum degi en gert er núna. Hinum megin við hafið halda Norðmenn rækilega upp á sinn dag, 17. maí, með skrúðgöngum og skála í mímósum yfir morgunmatnum. 

Við hjá Heimilisvefnum værum til í að sjá Íslendinga halda betur og meira upp á þennan dag, bæði fyrir okkur fullorðnu og fyrir krakkana. Munum að það er í okkar höndum að búa til hefðir og skapa minningar fyrir næstu kynslóð. Ef við búum til okkar eigin góðu 17. júní-hefðir munu börnin vilja halda áfram með þær þegar þau vaxa úr grasi fyrir sín eigin börn. Og það er sko ýmislegt skemmtilegt hægt að gera í tilefni þessa merkilega dags. 

Hér eru nokkrar hugmyndir að skemmtilegum hlutum til að gera á 17. júní – að mörgu leyti er 17. maí Norðmanna innblásturinn að hugmyndunum.

Mynd: Young Shih
Skreytingar

Áður en dagurinn rennur upp er hægt að fara að byrja að skreyta heima hjá sér. Skreytingarnar þurfa ekki að vera flóknar og best er ef hægt er að nota þær ár eftir ár. Hægt er að kaupa íslenska fána af öllum stærðum og gerðum, servíettur, blöðrur, fánalengjur eða veifur o.fl. í búðum sem sérhæfa sig í partýskrauti. En fjölskyldan getur líka átt góða stund við að föndra skraut sjálf. Svo er fallegt að kaupa blómvönd í tilefni dagsins. Ef þið eigið fánastöng er auðvitað alveg nauðsynlegt að flagga.

Um gasblöðrur og fleira

Þetta tengist svolítið skreytingunum hér að ofan. Á 17. júní er auðvitað alveg klassískt að börnin fái gasblöðrur. Þetta er eitthvað sem mætti þó hreinlega sleppa. Því bæði búum við til óþarfa plastrusl og erum að sóa dýrmætri helíumauðlindinni. Stjörnu-Sævar útskýrði þetta vel og rökstuddi  í Facebook-færslu fyrir 17. júní árið 2020. Í stað gasblaðra er miklu betra að kaupa sér íslenskan fána til að veifa og hann er hægt að nota ár eftir ár. Fáni, candyfloss, pylsa og hoppukastali – þurfa börnin eitthvað meira en það?

Mynd: Skylar Zilka
Skipulög dagskrá og skrúðganga

Ef einhver skipulögð dagskrá eða skrúðganga er í þínu bæjarfélagi er auðvitað einfalt að kíkja á það. Skemmtunin er oft miðuð að börnum á leikskólaaldri svo þetta er kannski ekki spennandi fyrir alla aldurshópa en stundum er eitthvað eins og andlitsmálning og hoppukastalar í boði líka. Ræðuhöldin höfða sennilega til fárra af yngri kynslóðinni (og líka þeirrar eldri reynar). Munið eftir fánum til að veifa!

Klæðnaður

Sama hvað þú kýst að gera á þessum degi er samt mjög einfalt að fara að minnsta kosti í fín föt. Þetta er einn af þessum dögum þar sem hægt er að dusta rykið af gamla þjóðbúningnum hennar ömmu og nota hann. Við hin, sem eigum ekki þjóðbúning, getum bara farið í venjuleg fín föt.

En talandi um klæðnað, að þá er gott að vera við öllu búin hvað veður varðar. Við búum jú á Íslandi og hér er allra veðra von, líka í júní.

Mynd: Jóhannes Birgir Jensson
Matur og fjölskylda

Það sem Norðmenn gera svo vel á þessum degi er að hitta vini og ættingja, oftast í morgunmat, bröns, kaffiboð eða grill um kvöldið. Þetta er vel hægt að gera hér. Bjóða vinum og/eða fjölskyldunni í morgunmat eða bröns og borða góðan hátíðarmat saman og skála í mímósum, freyðivíni – ja, eða bara eplasíder. Skipulögð dagskrá er oft á milli 11 og 15 á daginn svo ef maður vill halda áfram með að bjóða fólki heim eða fara í boð er hægt að vera með kaffiboð seinni partinn eða grillveislu um kvöldið. Hver hefur það eins og hann vill. Nokkrar hugmyndir að þjóðlegum bröns eða kaffiboði væri að hafa:

  • Íslenskar pönnukökur, lummur eða vöfflur
  • Hjónabandssæla
  • Flatkökur með hangikjöti
  • Rúgbrauð með smjöri
  • Brauðterta og/eða heitur brauðréttur
  • Rjómaterta (að sjálfsögðu skreytt með jarðarberjum og bláberjum)
  • Kleinur

En auðvitað er hægt að hafa hvað sem er.

Leikir í garðinum

Tengt því að hitta fjölskylduna og vinina í mat þá er hægt að vera með leiki fyrir krakkana í garðinum. Sérstaklega á þetta vel við ef það er engin skipulögð dagskrá í bæjarfélaginu. Það er til dæmis hægt að fara í pokahlaup, stófiskaleik, fótbolta, pílu, badminton eða blása sápukúlur eða búa til einhverja þrautabraut eða þrautir fyrir þau. Önnur hugmyndi væri að hafa skrúðgöngu í kringum húsið eða dansa konga. Hvetjum fullorðna fólkið eindregið til að vera með í fíflalátunum. 

Ef maður á ekki garð er vel hægt að fara í einhvern almenningsgarð eða grasflöt í nágrenninu.

Sjónvarpið

Rétt eins og mörgum finnst ómissandi að hafa kveikt á messunni yfir jólamatnum á aðfangadagskvöld til að skapa réttu stemninguna er hægt að hafa kveikt á sjónvarpinu yfir daginn. Það þarf ekkert endilega að horfa með heilum hug á hátíðardagskránna við Austurvöll en það er pínu hátíðleiki í því að hafa kveikt á þessu í bakgrunni. Á RÚV er þó nokkur hátíðardagskrá þennan dag. Um kvöldið getur svo fjölskyldan sest saman eftir daginn og horft á stórmyndina Með allt á hreinu (árið 2023 allavega).

Mynd: Kaizen Nguyen
Aðrar hugmyndir

Það er margt annað hægt að gera á 17. júní en bara þetta. Það er líka hægt að fara í sund og fá sér ís á eftir. Það er mjög íslenskt. Eins er hægt að fara í fjallgöngu og kannski taka með sér sparinesti og borða á toppnum. Eða sleppa fjallinu og fara í göngutúr og stoppa á einhverjum fallegum og góðum stað til að borða nesti. Nestið getur alveg verið frekar hátíðlegt, t.d. pönnukökur, kleinur, hjónabandssæla og flatkökur. Það er líka hægt að gera þetta að hjólatúr. Ef veðrið er ekki gott, eins og gerist nú nokkuð oft á 17. júní á Íslandi er hægt að fara í bíltúr eitthvert og fá sér svo kannski ís líka. Allt er þetta mjög íslenskt og skemmtilegt. En fyrst og fremst snýst þetta um að gera eitthvað með fjölskyldunni og okkar nánustu. Flest börn óska sér einskis heitar en að fá að vera meira með foreldrum og fjölskyldu.

Að lokum eru hér litamyndir með 17. júní-þema. Ein myndin er af íslenska fánanum og hana er hægt að nota til að skreyta.

Góða skemmtun og til hamingju Ísland!

Hugmyndir fyrir 17. júní Read More »

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

Fyrstu tvö árin í lífi barnsins eru alveg einstök. Þau eru að uppgötva ALLT og læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Þau fara úr því að vera algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus yfir í að geta gengið, hlaupið, talað, borðað sjálf og svo margt fleira.

Það eru alveg takmörk fyrir því hvað svona lítil börn geta gert. Þau reyna gjarnan að stinga hlutum sem þau finna í munninn á sér, sum eru ekki farin að ganga og þessi yngstu leggja sig oft yfir daginn. Á móti kemur að fyrir þeim er flest allt nýtt og spennandi og það þarf yfirleitt ekki að hafa mikið fyrir því að hafa ofan af fyrir þeim. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman tíu einfaldar hugmyndir að hlutum til að gera með allra  yngstu börnunum í sumar sem allir ættu að geta gert með þeim óháð búsetu.

Mynd: Joshua Gaunt

1. Fjöruferð

Litlum börnum finnst mjög gaman að leika sér í sandinum og skoða allt sem leynist í fjörunni. Það getur verið sniðugt að taka sandkassadót með sér en það er ekki nauðsynlegt. Það er alveg hægt að leika með skeljar og greinar og annað sem maður finnur úti í náttúrunni. Svo er tilvalið að taka með sér nesti og gera sér ágætlega langa ferð úr þessu.

2. Leika í sandkassa

Eins og áður sagði hafa lítil börn mjög gaman af því að leika sér í sandi. Sandurinn getur alveg verið í garðinum heima eða á næsta róló. Gaman er að taka með sér fötu og skóflu til að leika með. Ef veðrið býður ekki upp á að leika úti í sandkassa er hægt að búa til svokallaðan leiksand. Leiksandur er búinn til úr hráefnum sem finnast í flestum eldhúsum og er því alveg ætur ef krökkunum langar að smakka sandinn. Það er t.d. hægt að búa til leiksand með því að mala cheerios eða blanda saman 8 pörtum af hveiti við 1 part af matarolíu (t.d. 4 dl hveiti og ½ dl matarolía). Svo þarf bara að finna eitthvað skemmtilegt dót til að leika með í sandinum eða fela dót í honum.

3. Sulla

Fátt finnst börnum skemmtilegra en að fá að sulla í vatni. Það eru margar útfærslur af sullinu og vel hægt að vera með það inni ef veðrið er ekki gott, eins og gerist reglulega á Íslandi þótt það eigi að vera sumar. Innisull er hægt að framkvæma í sturtunni eða baðinu (eða jafnvel í vaski) og leyfa þá barninu að fá ílát úr eldhúsinu til að sulla með. Ef veður leyfir er hægt að sulla úti í garði eða á svölunum. Skemmtilegast er að fá nokkur ílát og volgt vatn, eitthvað til að hræra með og annað sem manni dettur í hug. Þau geta dundað sér við þetta í dágóðan tíma. Klæddu barnið eftir veðri og þó það sé ekki sól er vel hægt að sulla í pollagalla og hlýjum fötum.

4. Sund

Það er mjög gaman að fara með börnum í sund. Þessi allra yngstu þurfa helst að vera í innilaug, sérstaklega ef það er kalt. Það þarf líka að muna að verja börnin fyrir sólinni. Eldri börnin geta auðvitað farið í sund í útilaugum og vaðlaugum. Ef foreldrarnir nenna ekki í sund með barninu þá er til önnur lausn; uppblásin sundlaug á svölunum eða í garðinum. Þau elska þetta flest og gaman er að fá eitthvað dót með sér í sundlaugina. Önnur hugmynd er að sameina boltalandið og uppblásnu sundlaugina og búa til sundboltaland. Eldri systkini hefðu sjálfsagt líka gaman af því.

Mynd: Rui Xu

5. Blása sápukúlur

Það síðasta vatnstengda er einfalt. Að blása sápukúlur með barninu, eða fyrir það. Fæst börn hafa styrkinn í að blása sápukúlur en hafa oft gaman af því að reyna að ná þeim. Það eru líka til alls konar sápukúluvélar sem blása fyrir mann og þá geta foreldrarnir tekið betur þátt í fjörinu.

6. Göngutúr

Það er alltaf gott og endurnærandi að fara í gönguferð. Þetta þarf ekki að vera flókið. Foreldrið röltir um nágrennið á meðan barnið sefur, ef það er ungt. Ef barnið er orðið eldra er hægt að hafa það í kerru og leyfa því að njóta umhverfisins og jafnvel stoppa á róló af og til.

Mynd: Janko Ferlic

7. Lautarferð

Lautarferð er nátengd göngutúrahugmyndinni hér að ofan en í þetta skiptið er markmiðið að taka með sér nesti í göngutúrinn og finna sér svo einhvern góðan stað til að borða mat saman. Reyndar þarf ekki einu sinni að fara lengra en út í garð.

8. Skógarferð

Gaman er að gera sér ferð í næsta skóg eða skógrækt. Í skóginum er margt að skoða; greinar, könglar, skordýr og fleira. Yngstu börnin geta verið í burðarpoka en þau sem eru farin að ganga geta spreytt sig á að ganga í nýju og krefjandi umhverfi. Ekki er vitlaust að taka með nesti.

Mynd: Jelleke Vanooteghem

9. Kríta

Að kríta er eitthvað sem smábörn og eldri  börn geta notið saman. Yngri börnin geta kannski ekki teiknað fallegar myndir ennþá en þeim finnst þau hluti af hópnum ef þau fá að vera með.

10. Mála með fingramálningu

Að mála með fingrunum er góður skynjunarleikur fyrir börn. Annað hvort er hægt að kaupa fingramálningu án allra eiturefna eða að búa til alveg örugga málningu með því að blanda saman mismunandi matarlitum við jógúrt. Þá er ekkert mál þótt eitthvað fari í munninn. Svo þarf bara að finna stað fyrir þau að mála á. Þetta verður subbulegt svo sturtan eða baðkarið er ágætiskostur ef ekki er í boði að vera úti.

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar Read More »

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Suðurlandi

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Suðurlandi

Á Suðurlandi er margt hægt að gera og skoða með krökkunum. Suðurlandið á margar af helstu náttúruperlum Íslands og þangað sækja ansi margir ferðamenn sem koma hingað til lands. Það er virkilega gaman að ferðast um Suðurlandið og ekki verra að gista á flottu tjaldsvæðunum þar. 

 

Hér er listinn sem Heimilisvefurinn tók saman af mest spennandi tjaldsvæðunum fyrir fjölskyldur með börn fyrir komandi útilegur í sumar. Til þess að komast á listann þarf að vera afþreying fyrir börn á eða alveg við tjaldsvæðið. Þetta eru t.d. tjaldsvæði sem eru til dæmis nálægt sundlaugum og skólum eða tjaldsvæði sem hafa eitthvað sérlega spennandi fyrir krakkana að dunda eða leika með.

Mynd: Freysteinn G. Jónsson
Mynd: Freysteinn G. Jónsson

14. Tjaldsvæðið á Eyrarbakka

Tjaldsvæðið á Eyrarbakka er staðsett nálægt fjörunni og því er auðvelt að fara í fjöruferð. Þar er leikvöllur fyrir krakkana og góðar gönguleiðir.

13. Tjaldsvæðið við Geysi í Haukadal

Við Geysi í Haukadal er að finna gott tjaldsvæði. Þar er flottur leikvöllur fyrir börnin og fullt er af góðum gönguleiðum í næsta nágrenni. Tjaldsvæðið er einnig í göngufæri við hverina og Haukadalsskóg.

Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Mauro-Fabio Cilurzo
Mynd: Einar Jónsson
Mynd: Einar Jónsson

12. Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni í Hafnarfirði

Hver segir að maður geti ekki farið í útilegu á höfuðborgarsvæðinu? Á tjaldsvæðinu á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er nóg hægt að gera. Þar er leikvöllur og ærslabelgur, tjörn, stutt í hraunið og hægt að fara í frisbígolf. Svo er líka listaverkagarður skammt frá.

11. Tjaldsvæðið í Úthlíð í Biskupstungum

Í Úthlíð í Biskupstungum er rekin alhliða ferðaþjónusta. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börnin og hægt er að komast í sund og heita potta á svæðinu.

10. Tjaldsvæðið Árnesi

Tjaldsvæðið Árnesi er í fallegu umhverfi og þar er leikvöllur, sundlaug og fótboltavöllur.

9. Tjaldsvæðið Reykholti

Tjaldsvæðið í Reykholti er fjölskyldusvæði og þar er gott leiksvæði fyrir börn. Stutt er í bæði sundlaug og grunnskóla staðarins.

8. Tjaldsvæðið í Hveragerði

Tjaldsvæðið í Hveragerði er vel staðsett og þar er leikvöllur fyrir krakkana. Gönguleið liggur í gegnum tjaldsvæðið og hinum megin við götuna er grunnskóli bæjarins og því er stutt að fara á flottan leikvöll. Sundlaugin er einnig skammt frá.

7. Tjaldsvæðið Þakgili

Það sem gerir þetta tjaldsvæði einstakt og virkilega spennandi er staðsetningin og umhverfið. Leikvöllur er á svæðinu fyrir börnin en það er spennandi upplifun að prófa matsalinn, sem er inni í náttúrulegum helli. Gönguleiðir eru allt í kring í þessu magnaða umhverfi.

6. Tjaldsvæðið Vatnsholti

Tjaldsvæðið er staðsett við Hótel Vatnsholt í Flóahreppi. Þar er flott leiksvæði fyrir krakkana. Þá er einnig hægt að fara í fótboltaminigolf og fótbolta. Á veitingastaðnum er hægt að komast í billjard, pílu og fótboltaspil.

5. Tjaldsvæðið Hraunborgum í Grímsnesi

Tjaldsvæðið er mjög barnvænt og þar er fullt af leiktækjum fyrir börnin. Sundlaug er staðsett alveg við tjaldsvæðið og það er því afskaplega stutt í sund.

4. Tjaldsvæðið Þorlákshöfn

Í Þorlákshöfn er fínasta tjaldsvæði sem er staðsett á góðum stað, rétt við íþróttamiðstöð bæjarins og grunnskólann. Það er því stutt í sund og á góðan leikvöll fyrir krakkana. Auk þess er svo auðvitað leikvöllur á tjaldsvæðinu sjálfu.

3. Tjaldsvæðið á Flúðum

Á tjaldsvæðinu á Flúðum er flott leiksvæði fyrir börnin og gönguleiðir í næsta nágrenni. Það sem gerir þetta tjaldsvæði þó extra skemmtilegt er Litla-Laxá sem rennur í gegnum það. Þar geta krakkarnir leikið og sullað tímunum saman.

2. Tjaldsvæðið Hellishólum

Á Hellishólum er glæsilegt tjaldsvæði fyrir fjölskyldur. Þar er stórt leiksvæði fyrir börn og heitur pottur. Hægt er að veiða í vatninu og golfvöllur er á staðnum. Lækur rennur við tjaldsvæðið og þar getur verið gaman að sulla.

Úlfljótsvatn_World_Scout_Moot_2017

1. Tjaldsvæðið Úlfljótsvatni

Við Úlfljótsvatn er glæsilegt tjaldsvæði sem Útilífsmiðstöð skáta hefur byggt upp. Auk þess að það eru ótal leiktæki á svæðinu er veiðileyfi innifalið í gjaldinu og krakkarnir geta leigt hjólabáta um helgar. Reyndar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá allar helgar í sumar þar sem fjölskyldur geta leigt báta, prófað bogfimi, klifur og fleira. Vatnasafarí og þrautabraut á staðnum, auk fótbolta- og frisbígolfvalla. Hundar eru leyfilegir á tjaldsvæðinu.

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Suðurlandi Read More »