samvera

70 hugmyndir fyrir samverudagatal

70 hugmyndir fyrir samverudagatal

Margar fjölskyldur eru farnar að hafa samverudagatal í desember til að eiga góðar stundir saman á meðan beðið er eftir jólunum. Það er ýmislegt hægt að gera og margt kostar lítið sem ekki neitt. Mikilvægt er að hafa þetta ekki of flókið, það þarf ekki vera full dagskrá alla daga, nóg annað er að gera á þessum tíma. Hér eru nokkrar hugmyndir að samverustundum fyrir fjölskyldur sem hægt er að gera nánast hvar sem maður er á landinu. 

Mynd: Jonathan Borba
  1. Hlusta saman á jólasögu.
  2. Hitta jólasvein.
  3. Fá lánaða jólabók á bókasafninu.
  4.  Höggva niður jólatré eða velja það á næsta sölustað.
  5. Fara í jólasunnudagaskóla.
  6. Kaupa eða búa til eitthvað jólaskraut á jólatréð.
  7.  Sjá þegar jólatré bæjarins er tendrað.
  8. Fara í jólagöngutúr með heitt kakó í brúsa.
  9. Fara á kaffihús og fá ykkur heitt súkkulaði.
  10. Fara í jólaljósbíltúr (á náttfötunum).
  11. Skrifa jólakort.
  12. Fara á jólasýningu.
  13. Renna á sleða eða snjósleða.
  14. Skrifa bréf til jólasveinsins.
  15. Syngja jólalög.
  16. Fara á skíði.
  17. Fara á jólatónleika.
  18. Skreyta fyrir jólin.
  19. Skoða gamlar fjölskyldumyndir og myndbönd og rifja upp gamla og góða tíma.
  20. Kynnið ykkur hvernig jólin eru haldin í örðu landi.
  21. Baka smákökur.
  22. Hafa jólasögustund við jólatréð.
  23. Baka piparkökur.
  24. Búa til piparkökuhús.
  25. Leysa jólaþrautir (t.d. orðasúpu með jólaþema).
  26. Fara á skauta.
  27. Búa til fuglamat og gefa fuglunum.
  28. Búa til jólakrans.
  29. Fara í göngutúr og skoða jólaljósin
  30. Baka smákökur og gefa í frísskáp/þeim sem minna mega sín
  31. Taka til leikföng sem eru ekki lengur notuð og gefa í gott málefni
  32. Horfa á jólamynd
  33. Horfa saman á jóladagatal sjónvarpsins
  34. Kveikja á aðventukransinum
  35. Föndra jólaskraut
  36. Klippa út snjókorn og hengja í gluggann
  37. Búa til ykkar eiginn gjafapappír
  38. Pakka inn jólagjöfum
  39. Lita jólalitamynd
  40. Föndra merkimiða á jólagjafirnar
  41. Gefa mat í frískáp
  42. Búa til og fara í jólaratleik
  43. Jólabingó!
  44. Búa til músastiga
  45. Perla eitthvað jólalegt
  46. Sauma út jólamynd
  47. Fara í heimsókn
  48. Búa til jólaskraut úr trölladeigi eða leir
  49. Búa til snjókarl
  50. Búa til jólakahoot
  51. Læra að segja „gleðileg jól“ á öðrum tungumálum
  52. Búa til jólakonfekt
  53. Spila saman
  54. Púsla saman
  55. Fara á jólamarkað
  56. Búa til (barnvænt) jólaglögg
  57. Vera í ljótum jólapeysum
  58. Fara í rautt freyðibað
  59. Ákveða saman hvað á að vera í jólamatinn
  60. Búa til heimatilbúnar gjafir
  61. Hafa jólabröns
  62. Skreyta gluggana með gluggapennum
  63. Skera út laufabrauð
  64. Baka lagköku
  65. Baka jólasmákökur frá öðru landi
  66. Dansa við jólalög
  67. Setja negulnagla í mandarínur eða appelsínur
  68. Jólalautarferð á gólfinu í stofunni
  69. Taka jólamynd af fjölskyldunni
  70. Smákökusamkeppni fjölskyldunnar
Mynd: S. B. Vonlanthen

70 hugmyndir fyrir samverudagatal Read More »

Hugmyndir að daglegum hefðum fjölskyldunnar

Hugmyndir að daglegum hefðum fjölskyldunnar

Eins og Heimilisvefurinn hefur áður fjallað um, eru hefðir mjög mikilvægar til að styrkja tengsl fjölskyldumeðlima. Við, fullorðan fólkið í fjölskyldunni, þurfum að búa til og þróa þessar hefðir til að búa til góðar minningar fyrir börnin okkar. Þessar hefðir þurfa ekki að vera flóknar, litlu hlutirnir skipta miklu máli. Hér eru nokkur dæmi um einfaldar hefðir fyrir fjölskyldur sem hægt er að framkvæma á hverjum degi:

  • Að bjóða góðan dag og góða nótt.
  • Að heilast þegar einhver kemur heim og kveðja þegar einhver fer.
  • Morgunknús á morgnana.
  • Gefa sér tíma til að lesa sama, t.d. sögu fyrir svefninn eða gera heimalestur grunnskólabarnanna að góðri og notalegri stund.
  • Kúra uppi í rúmi eftir langan dag eða kúr fyrir svefninn.
  • Elda kvöldmatinn saman.
  • Borða kvöldmatinn öll saman við matarborðið og tala saman um daginn með opnum spurningum. Opnar spurningar eru spurningar sem krefjast meira en að viðkomandi svari með já-i eða nei-i, t.d. “Hvað gerðir þú í skólanum í dag?“ frekar en “Var gaman í skólanum í dag?” Ef erfitt er að finna upp á einhverju til að tala um væri líka hægt að búa til krukku með alls konar miðum með hugmyndum og spurningum til að hefja samræðurnar.
  • Borða alltaf úti ef veðrið er nógu gott (og aðstæður leyfa).
  • Borða við kertaljós þegar það er orðið dimmt um kvöldmatarleytið.
  • Fara í göngutúr saman, t.d. eftir kvöldmat.
  • Fara út að leika, t.d. eftir leikskóla eða eftir kvöldmat.
  • Horfa á barnatímann í línulegri dagskrá.
  • Skrifa miða með fallegum orðum og skilja eftir á góðum stöðum. 
  • Hreyfa sig saman, fara t.d. út að hlaupa, í jóga eða annað slíkt.
  • Halda sameiginlega fjölskyldudagbók og skrifa um daginn.

Eins og þið sjáið eru þetta flest allt hugmyndir sem ætti ekki að vera mjög erfitt að koma að í amstri dagsins. Að sjálfsögðu er ekki ætlast til að allir geri þetta allt, fjölskyldur þurfa að velja og hafna eftir því sem hentar þeim.

Hugmyndir að daglegum hefðum fjölskyldunnar Read More »

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? – veturinn ’23-’24

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? - veturinn '23-'24

Fyrir mörgum er fæðingarorlofið dásamlegur tími þar sem maður kynnist litla barninu sínu. Fyrir öðrum er þetta krefjandi tími. Sumum leiðist í fæðingarorlofinu, finnst lítið að gera og dagarnir allir eins. Það þarf alls ekki að vera svoleiðis. Það er margt hægt að gera með barninu í fæðingarorlofinu. Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkra hluti sem hægt er að gera með 0-2 ára börnum – utan heimilisins. Endilega sendir skilaboð eða kommentið hér fyrir neðan ef þið vitið um eitthvað fleira skemmtilegt. Á listana bætast við hugmyndir um leið og þær uppgötvast.

Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Austurland

Fjarðabyggð

Leikskólalóðir í Fjarðabyggð.

Sundlaugar í Fjarðabyggð. 

Múlaþing

Foreldramorgnar í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju á fimmtudögum kl. 10-12, Hörgsási 4.

Leikskólalóðir í Múlaþingi.

Vopnafjörður

Leikskólinn Brekkubær.

Höfuðborgarsvæðið
Foreldramorgnar og krílastundir

Margir staðir bjóða upp á foreldramorgna eða krílastundir þar sem börn og foreldrar geta komið saman og hitt önnur börn og foreldra þeirra. Hér eru þeir viðburðir sem standa foreldrum og börnum til boða eftir vikudögum.

Mánudagar

Þriðjudagar

Miðvikudagar

Fimmtudagar

Föstudagar

Laugardagar

Göngutúrar með vagn eða kerru

Hér eru hugmyndir að fallegum stöðum á höfuðborgarsvæðinu til að fara í göngutúr með barnið í vagni eða kerru, svona þegar hverfið þitt er orðið leiðigjarnt og þú þarft tilbreytingu.

  • Borgarholt í Kópavogi
  • Elliðaárdalurinn í Reykjavík
  • Fossvogurinn og Fossvogsdalur í Reykjavík/Kópavogi
  • Grasagarðurinn í Laugardalnum í Reykjavík
  • Grótta á Seltjarnarnesi
  • Guðmundarlundur í Kópavogi
  • Hallargarðurinn í Reykjavík
  • Hlíðargarður í Kópavogi
  • Klambratún í Reykjavík
  • Kópavogsdalur í Kópavogi
  • Landakotstún í Reykjavík
  • Laugardalurinn í Reykjavík
  • Miðbær Hafnarfjarðar
  • Miðbær Reykjavíkur
  • Miðsvæði Efra-Breiðholts í Reykjavík
  • Seljatjörn í Seljahverfi í Reykjavík
  • Tjörnin og Hljómskálagarðurinn í Reykjavík
  • Víðistaðatún í Hafnarfirði
  • Úlfarsárdalur í Reykjavík
  • Öskjuhlíð í Reykjavík

Svo er auðvitað alltaf hægt að kanna nýtt hverfi.

Leiksvæði og önnur afþreying

Staðir sem bjóða upp á leiksvæði eða afþreyingu fyrir 0-2 ára börn. 

Veitingastaðir og kaffihús

Veitingastaðir og kaffihús með barnasvæðum eða öðru sem hentar eða vekur áhuga 0-2 ára barna.

Rustic Minimal Wedding Print Banner (2)
Norðurland

Akureyri

Foreldramorgnar í Glerárkirkju alla fimmtudaga kl. 10-12, Bugðusíðu 3.

 

Húsavík

Foreldramorgnar í Húsavíkurkirkju.

 

Sauðárkrókur

Foreldramorgnar í Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju alla miðvikudaga kl. 10-12.

Suðurland og Suðurnes

Grindavík

Foreldramorgnar í Grindavíkurkirkju á þriðjudögum kl. 10-12, við Ránargötu.

Leikskólalóðir í Grindavík.

Sundlaug Grindavíkur, Austurvegi 1.

Reykjanesbær

Bókasafn Reykjanesbæjar er með barnahorn með bókum og sætum.

Fjölskyldudagar á Bókasafni Reykjanesbæjar á laugardögum.

Foreldramorgnar á Bókasafni Reykjanesbæjar á fimmtudögum kl. 11.

Krílakrútt í safnaðarheimilinu Innri Njarðvík á miðvikudögum kl. 10:30-12.

Leikskólalóðir í Reykjanesbæ.

Sundlaugar í Reykjanesbæ.

Ungbarnasund í Reykjanesbæ. Skráning nauðsynleg.

Selfoss

Foreldramorgnar í Selfosskirkju á miðvikudögum kl. 11-12:30, Kirkjuvegi.

Suðurnesjabær

Foreldramorgnar í Kiwanishúsinu í Garði alla miðvikudaga kl. 10:30-12/12:30, Heiðartúni 4.

Fjöruferð á Garðskaga.

Leikskólalóðir í Suðurnesjabæ.

Sundlaugar í Suðurnesjabæ.

Þorlákshöfn

Foreldramorgnar í Þorlákskirkju á miðvikudögum kl. 10-12, Skálholtsbraut.

Vesturland og Vestfirðir

Akranes

Foreldramorgnar á Bókasafni Akraness á fimmtudögum kl. 10.

 

Ísafjarðarbær

Foreldramorgnar á Bókasafninu á Ísafirði á þriðjudögum.

Leikskólalóðir í Ísafjarðarbæ.

 

Stykkishólmur

Foreldramorgnar í Stykkishólmskirkju á fimmtudögum kl. 11.

Ef þú veist um fleiri staði sem bjóða upp á eitthvað fyrir þessi allra yngstu eða sérð að sumt á ekki við lengur skaltu endilega senda okkur línu á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Hvað get ég gert með barninu í fæðingarorlofinu? – veturinn ’23-’24 Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum á haustin

40 hlutir til að gera með krökkunum á haustin

Nú þegar fyrstu laufin eru farin að gulna er hægt að fara að huga að haustinu. Haustið getur verið dásamlegur tími. Tími þar sem fjölskyldan gerir eitthvað kósý saman eða fer út að hoppa í pollum. Það er svo margt hægt að gera á þessum árstíma til að búa til góðar minningar og gæðastundir með börnunum okkar. Hér eru nokkrar hugmyndir að einhverju til að gera á haustin með krökkunum.

Njótið!

40 hlutir til að gera með krökkunum á haustin Read More »

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Mjög einföld spil fyrir ung börn

Spil er kannski full stórt til orða tekið. Þetta eru kannski frekar leikir með spilastokki fyrir ung börn heldur en eiginleg spil. Leikirnir henta börnum sem eru svona tveggja til þriggja ára. Þeir eru einfaldir og skemmtilegir fyrir þennan aldurshóp, sem er ekki alveg farinn að spila spil ennþá en eru kannski áhugasöm um spil. 

Leikirnir geta æft börnin í að þekkja spilin, ekki endilega tölurnar þó, heldur sortirnar og litina. Þetta ætti að undirbúa þau vel undir að spila alvöru spil þegar þau eru orðin aðeins eldri.

Auðvitað er þetta svo bara fínasta skemmtun fyrir þau og góð afþreying.

Athugað að það getur verið gott að nota spilastokk sem má eyðileggjast þegar um svona ung börn er að ræða. 

Flokkun

Flokkun er einfaldur leikur þar sem markmiðið er að flokka spilin eftir litum. Barnið fær 10-15 spil og á að flokka þau eftir því hvort þau eru rauð eða svört. Sjá myndina hér fyrir neðan.

Para saman

Til þess að spila para saman þarf að finna til 6-8 pör af mismunandi sortum (hjarta, spaði, tígull, lauf). Spilunum er raðað á hvolf á borð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Barnið getur svo flett tveimur spilum í einu og reynt að finna spil sem passa saman, t.d. tvo tígla eða tvö hjörtu. Spilið er nokkurn veginn eins og minnisspil en aðeins auðveldara og ekki með ströngum reglum. 

 

Giska og flokka

Í þessum leik eru spilin í hrúgu á hvolfi á borðinu og barnið dregur eitt spil í einu og giskar á hvort það komi svart eða rautt spil. Svörtu og rauðu spilin mega svo fara í hvor sinn bunkann, sama hvort giskað var rétt á eða ekki. 

Tína

Klassískt spil sem flest okkar þekkja en spila sennilega sem sjaldnast. 

Í Tínu er bunkanum hent á borðið eða gólfið og svo þarf einfaldlega að tína upp spilin. 

Mjög einföld spil fyrir ung börn Read More »

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum

Fyrir nokkrum vikum birtist færsla hér á Heimilisvefnum um hvernig við getum hlúið að sambandi okkar við makann með því að fara á stefnumót reglulega. 

Loksins eru hér komnar 16 fleiri hugmyndir til að setja í krukkuna eða í umslög. Eins og áður er mikilvægt að þið takið úr þær hugmyndir sem henta ykkur ekki, eru t.d. of dýr eða einfaldlega eitthvað sem þið getið ekki hugsað ykkur að gera. 

Mynd: El Salanzo

Von er á enn fleiri hugmyndum að stefnumótum seinna. 

Fleiri hugmyndir að stefnumótum með makanum Read More »

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði?

Verslunarmannahelgin 2023 - Hvað er í boði?

Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og ert þú búin/nn/ð að ákveða hvað þú ætlar að gera? Frídagur verslunarmanna á sér langa sögu og er dagurinn 129 ára gamall í ár! Það er ýmislegt í boði þessa helgi víðsvegar um landið og allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Í boði er m.a. þessar hátíðir:

– Berjadagar –

Berjadagar er þriggja daga klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Í ár verða frumflutt íslensk verk og kammermúsík frá ýmsum löndum, listasýning utan dyra, tónlistarviðburðir og fleira.

– Ein með öllu –

Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á dagskránni í ár er m.a. húllhringjagerð, tívolí, krakkahlaup í Kjarnaskógi, böll, evrópumót í torfæru, grill og margt fleira.

– Hjalteyrarhátíð –

Hjalteyrarhátíð er haldin á Hjalteyri við Eyjafjörð um verslunarmannahelgina. 

– Innipúkinn –

Innipúkinn er tónlistarhátíð fyrir höfuðborgarbúana sem nenna ekki í útilegu um verslunarmannahelgina. Alltaf eru fjölbreytt tónlistaratriði á dagskrá í miðbæ Reykjavíkur. Í ár koma m.a. Birnir, Daniil, GDRN, Langi Seli og Skuggarnir, Sykur og Valdimar fram.

– Kotmót Hvítasunnukirkjunnar – 

Kotmót er árlegt mót Hvítasunnukirkjunnar sem er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Í ár verður sérstakt barnamót fyrir 5-12 ára krakka og aðalpredikari mótsins verður Daniel Karl-Olov Alm. 

– Neistaflug í Neskaupstað –

Neistaflug er bæjarhátíð Neskaupstaðar og í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni. Í ár kemur m.a. hljómsveitin Flott fram. 

– Norðanpaunk –

Norðanpaunk er rokkhátíð haldin á Laugarbakka. Í ár koma m.a. Dödsrit, Kælan mikla, Sangre de muerdago, Múr og Ghostigital fram. 

– Sæludagar KFUM og KFUK –

Sæludagar eru árleg fjölskylduhátíð KFUM og KFUMK í Vatnaskógi. 

– Unglingalandsmót UMFÍ –

Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Sauðárkróki í ár. Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára keppa í alls kyns íþróttagreinum. Auk þess er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

– Verslunarmannahelgin á Úlfljótsvatni –

Á Úlfljótsvatni er boðið upp á ævintýralega fjölskyldudagskrá um Verslunarmannahelgina. 

– Þjóðhátíð í Eyjum –

Þjóðhátíð þarf vart að kynna. Stærsta útihátíð ársins er haldin í í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þau atriði sem þegar hafa verið tilkynnt eru; Bríet, Friðrik Dór, Klara Elias, Emmsjé Gauti, XXX Rottweiler, Una Torfa og Jón Ólafsson ásamt gestum. 

Verslunarmannahelgin 2023 – Hvað er í boði? Read More »

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin

Disney hefur framleitt gríðarlegt magn af góðum og skemmtilegum teiknimyndum fyrir alla fjölskylduna. Raunar eru teiknimyndir Disney orðnar yfir 100 talsins á þessum 86 árum síðan fyrsta teiknimynd Walts Disneys kom út árið 1937. Það var myndin um Mjallhvíti og dvergana sjö. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir 89 bestu Disneymyndirnar. Myndirnar fá lang flestar góða dóma á síðum eins og IMDB en sumar fá þó að vera á listanum af öðrum sökum. Það er sjaldan sem framhaldsmyndir komast á listann, því yfirleitt eru þær mun slakari en sú fyrsta. Undantekning á því eru þó Toy Story-myndirnar. Allar fjórar myndirnar fá virkilega góða dóma, annað en t.d. Hringjarinn í Notre Dame 2, sem er með 4,6 í einkunn á IMDB.

Disneymyndirnar eru tilvaldar fyrir kósýkvöldin næstu vikurnar, eða jafnvel árin, þær eru svo margar. Börnin fá að kynnast eldri myndunum og foreldrarnir fá að rifja upp gamlar og góðar myndir og kynnast þeim nýrri. Það er hægt að taka myndirnar í tímaröð eða í hvaða röð sem manni hentar. 

Góða skemmtun!

Bestu Disneymyndirnar fyrir kósýkvöldin Read More »

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen og fimm vinir hans

Ólsen Ólsen er eitt af fyrstu spilunum sem börnum er kennt. Þetta er klassískt og tilötlulega einfalt spil sem líklega allir Íslendingar þekkja og hafa prófað. Hér verður farið yfir reglur upprunalega spilsins, Ólsen Ólsen upp og niður (sem margir þekkja einnig) og svo fjórar aðrar útgáfur spilsins sem gaman er að prófa. Það er alveg tilvalið að prófa þessar nýju spilareglur í sumarbústaðarferðunum í sumar.

Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út laufa sexu.

Gangur spilsins: Sá sem er á vinstri hönd þess sem gaf byrjar spilið og svo gengur hringurinn réttsælis. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett niður spil af sömu sort eða sem er með sömu tölu og er á efsta spili kastbunkans. Sé t.d. laufa tvistur í borði getur leikmaðurinn sett út annað hvort tvist eða lauf. Sé leikmaður með fleiri en einn tvist getur hann sett þær allar út og þar með breytt um sort. Einnig er hægt að breyta um sort með því að settja niður áttu og segja þá í hvaða sort maður vill breyta. Áttur er hægt að leggja ofan á hvaða spil sem er, hún þarf ekki að vera í sömu sort og spilið í kastbunkanum. Ef leikmaður getur ekki sett neitt spil út má hann draga spil, þó að hámarki þrjú. Ef leikmaður dregur spil sem hann getur notað má hann nota það strax, ef ekki kemur nýtanlegt spil þarf leikmaður að segja pass og næsti leikmaður gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi verður hann að segja „Ólsen“ áður en næsti gerir. Ef það gleymist þarf leikmaðurinn að draga þrjú spil úr spilastokknum sem refsingu. Þótt leikmaður eigi tvö lík spil á hendi (t.d. tvær níur) þarf hann ekki að segja „Ólsen“ fyrr en hann hefur sett fyrra spilið niður og setur svo síðasta spilið sitt í kjölfarið. Þegar síðasta spilið er lagt út segir leikmaðurinn „Ólsen Ólsen“ og sigrar þar með spilið.

Ólsen Ólsen upp og niður

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður, nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við.

Markmið: Að vera fyrstur til að losa sig við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borðið og efsta spili stokksins er snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Hér getur leikmaður sett út annan þristinn.

Gangur spilsins: Í Ólsen Ólsen upp og niður skipta sortirnar engu máli, aðeins tölurnar. Leikmaðurinn sem byrjar getur sett út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en spilið sem er í kastbunkanum. Ef það er, sem dæmi, tvistur í borði má leikmaður setja annað hvort ás eða þrist út. Í kjölfarið má hann svo setja eins mörg spil út og hann getur, en alltaf þurfa þau að vera annað hvort einu hærra eða lægri en spilið á undan. Geti leikmaður ekki sett út spil má hann draga allt að þrjú spil. Ef hann getur ekki sett út neitt af þeim spilum segir hann pass og næsti gerir. Þegar leikmaður á aðeins eitt spil eftir á hendi segir hann “Ólsen” og þegar síðasta spil af hendi er lagt í borðið segir leikmaðurinn “Ólsen Ólsen upp og niður” og vinnur þar með spilið. Eins og í venjulega spilinu þarf leikmaður að draga þrjú spil sem refsingu ef hann gleymir að segja “Ólsen”.

Ólsen Ólsen með stigum

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi og vera með sem fæst stig í lok spilsins.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum. Skrifblokk og blýantur/penni þarf að vera við höndina.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen með stigum spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema hvað refsistig eru gefin í lok hverrar umferðar. Spilað er upp í ákveðna tölu (t.d. 500) eða ákveðið margar umferðir spilaðar (t.d. 10). Sá vinnur sem er með fæst stig.

Ef leikmaður endar með þessi spil á hendi myndi hann fá 30 stig.

Stigagjöf: Þegar einn leikmaðurinn hefur unnið umferð þurfa aðrir leikmenn, sem enn eru með spil á hendi, að reikna út hvað þeir fengu mörg (refsi)stig. 

Ás-7 og 9 gilda sem 5 stig, 10 og mannspil gilda sem 10 stig og 8 gildir sem 25 stig

Hafi leikmaður t.d. níu, gosa og áttu á hendi við lok umferðar (þegar annar leikmaður hefur unnið) fær sá leikmaður 40 stig. Ef einhver leikmaður endar í t.d. 500 stigum eða meiru er spilinu lokið og sá sem er með lægstu stigin vinnur. Einnig er hægt að ákveða hversu margar umferðir verða spilaðar og þá vinnur sá leikmaður sem fæst stig hefur við lok t.d. tíundu umferðar.

Ólsen Ólsen klikk

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Ólsen Ólsen klikk spilast alveg eins og venjulegur Ólsen nema að við reglurnar bætist að ef leikmaður setur út tvist þarf næsti leikmaður að draga tvö spil, ef ás er settur út snýst hringurinn við og ef drottning er látin út missir næsti leikmaður úr eina umferð. Áttur geta, eins og áður, breytt sortinni.

Hér þarf næsti leikmaður að draga tvö spil.

Langi Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Spilið gengur alveg eins fyrir sig og venjulegur Ólsen Ólsen nema hvað að þegar annar leikmaðurinn leggur út síðasta spilið og segir “Ólsen Ólsen” líkt og venjulega þarf hann að draga fimm spil og halda áfram með spilið en í þetta sinn eru sjöur orðnar að spilinu sem má breyta um sort. Ef sá leikmaður vinnur spilið svo aftur verða sexur að spilinu sem getur breytt um sort og svo koll af kolli þar til annar leikmaðurinn vinnur spilið þegar hann er kominn niður í ásana.

Svindl Ólsen Ólsen

Fjöldi: 2-6

Aldur: 5 ára og eldri

Spilastokkur: Einn spilastokkur er notaður í spilinu nema ef fleiri en sex ætla að spila saman, þá er hægt að bæta öðrum við. 

Markmið: Markmið spilsins er að vera fyrstur til að losna við öll spil af hendi.

Uppsetning: Hver leikmaður fær fimm spil á hendi. Restin af spilastokknum er lögð á grúfu á mitt borð og efsta spili stokksins snúið við og lagt við hlið spilastokksins og er það fyrsta spilið í kastbunkanum.

Gangur spilsins: Þessi útgáfa af Ólsen Ólsen er ólík upprunalega spilinu því í því má reyna að svindla. Leikmaður getur reynt að fela spil án þess að aðrir leikmenn taki eftir eða leggja t.d. tvö niður í einu. Ef annar leikmaður tekur eftir svindlinu lætur hann vita og sá sem svindlaði dregur þrjú spil sem refsingu. Ef leikmaður ásakar annan leikmann ranglega um svindl, þarf sá sem ásakaði að draga sjálfur þrjú spil.



Ólsen Ólsen og fimm vinir hans Read More »

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Áfram höldum við með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Ártúnsholti í Reykjavík, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í tólf og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. Á sumum stöðum og á leiðinni milli staða þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

Gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa, og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, tólf talsins. Á lóð einkarekna leikskólans Regnbogans er ekki leyfilegt að leika sér. Hverfið er ekki stórt og leikvellirnir samtals tólf svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið alveg endilega senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Ævintýraferð um Ártúnsholt Read More »