samvera

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Ævintýraferð um Ártúnsholt

Áfram höldum við með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Ártúnsholti í Reykjavík, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í tólf og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. Á sumum stöðum og á leiðinni milli staða þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

Gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa, og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, tólf talsins. Á lóð einkarekna leikskólans Regnbogans er ekki leyfilegt að leika sér. Hverfið er ekki stórt og leikvellirnir samtals tólf svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið alveg endilega senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is.

Ævintýraferð um Ártúnsholt Read More »

Að búa til hefðir og góðar minningar

Að búa til hefðir og góðar minningar

Það er undir okkur, fullorðna fólkinu, komið að skapa hefðir og búa til góðar minningar fyrir börnin okkar. Þannig er það einfaldlega. Þegar ég hugsa til baka til æskuára minna fyllist hugur minn af góðum minningum, sem margar hverjar tengjast einmitt einhverjum fjölskylduhefðum. Gleðin við að sjá allt gamla jólaskrautið sett á sinn stað, lestur fyrir svefninn með mömmu, að búa til bolluvönd fyrir bolludaginn og Disney-myndin á föstudögum eru allt hefðir sem ég tengi við góðar minningar og mér verður hlýtt í hjartanu við að hugsa til baka til þessa tíma. Hefðir hverrar fjölskyldu færir fólkið nær hvoru öðru, skapa góðar minningar, yndislegar gæðastundir og býr þar að auki til ákveðinn fyrirsjáanleika sem sum börn þurfa alveg sérstaklega mikið af.

Rannsókn, sem gerð var á vegum Háskólans í Syracuse yfir 50 ára tímabil, sýnir að fjölskyldur sem halda í góðar og sterkar hefðir eru nánari, bundar traustari fjölskylduböndum, eru þrautseigari þegar upp koma vandamál sem þarf að leysa í sameiningu og ná að halda í bjartsýni og jákvæðni þótt eitthvað bjáti á. Börn í slíkum fjölskyldum upplifa sig elskuð og samþykkt sem manneskjur. Þau læra að þau geta treyst á aðra og fá oft sterkari persónulega sjálfsmynd – vita þá hvað það er sem gerir þau einstök og hvers konar manneskjur þau vilja vera.Þau standa sig einnig betur í námi. Gift pör eða pör í sambúð virðast einnig hamingjusamari og finna fyrir minni streitu í daglegu lífi (Fiese, B. H., Tomcho, T. J., Douglas, M., Josephs, K., Poltrock, S., & Baker, T., 2002).

Mynd: Libby Penner
Að búa til og þróa hefðir

Það er kannski rangt að kalla þetta að búa til hefðir því þær þróast kannski frekar. Við getum ákveðið að á aðventunni eigi alltaf að baka piparkökur en hefðin þróast kannski út í það að piparkökur eru keyptar og skreyttar, frekar en að þær séu bakaðar frá grunni eins og ætlunin var í upphafi. En í upphafi þurfum við samt sem áður að setja okkur markmið um að búa til einhverja hefð, sama hvernig hún svo þróast á endanum. 

Hefðir þurfa ekki að vera flóknar, sumar eru meira að segja framkvæmdar daglega. Sem dæmi er svefnrútínan í rauninni hefð, barninu þykir það sjálfsagt afskaplega notaleg stund þegar mamma eða pabbi syngja eða lesa fyrir það áður en það fer að sofa. Það er einnig hefð ef fjölskyldan borðar alltaf kvöldmat saman við matarborðið og spjallar um daginn. Þetta eru gæðastundir sem gefa okkur tækifæri til að eiga í góðum samskiptum við börnin okkar, styrkja tengslin og veitir þeim öryggi. 

En aftur að því að búa til og þróa hefðir. Ef maður vill vera skipulagður er gott að setjast niður og taka saman hefðir fjölskyldunnar. Hvað er það sem þið gerið saman á aðventunni eða á 17. júní? Ef það er lítið sem ekkert, gætuð þið þá gert eitthvað meira til að gera dagana eftirminnilega? Passið að hafa hefðirnar ekki flóknari eða tímafrekari en þið teljið ykkur ráða við. Hefðirnar þurfa alls ekkert að vera stórar og flóknar. Sem dæmi getur það alveg verið góð og skemmtileg hefð að baka fullt af smákökusortum fyrir jólin EN það er líka hægt að búa til (alveg jafn góða) hefð sem er þannig að foreldrarnir (eða foreldri) og börnin fara saman út í búð eða bakarí á fyrirfram ákveðnum degi og velja hvaða jólasmákökur eigi að kaupa fyrir þessi jól. Þessi hefð getur búið til alveg jafn góðar minningar og þær að baka smákökurnar frá grunni.

Ef fjölskyldan vill, eftir þessa lesningu, fara að búa til og þróa sínar eigin hefðir er hér listi af tilefnum til þess að vera með sérstakar hefðir. Þetta eru dagar sem eru miðaðir við meðal Íslendinginn, aðrar þjóðir eiga auðvitað sína eigin sérstöku daga. Listinn er ekki tæmandi, hvaða dagur sem er getur orðið sérstakur fyrir ykkar fjölskyldu ef þið bara viljið.

Mynd: Vitolda Klein
Yfir árið
Vetur (des-feb)
  • Fullveldisdagurinn
  • Aðventan
  • Þorláksmessa
  • Aðfangadagur
  • Jóladagur
  • Annar í jólum
  • Gamlársdagur
  • Nýjársdagur
  • Þrettándinn
  • Bóndadagur
  •  Þorrablót
  • Sólarkaffi
  • Bolludagur
  • Sprengidagur
  • Öskudagur
  • Valentínusardagur
  • Konudagur
  • Vetrarfrí
Vor (mar-maí)
  • Vorjafndægur
  • Fyrsti apríl
  • Páskar
  • Sumardagurinn fyrsti
  • Verkalýðsdagurinn
  • Mæðradagurinn
  • Uppstigningardagur
  • Hvítasunna
  • Eurovision
Sumar (jún-ágú)
Haust (sep-nóv)
  • Fyrsti skóladagurinn
  • Dagur íslenskrar náttúru
  • Haustjafndægur
  • Fyrsti vetrardagur
  • Hrekkjavaka
  • Haustfrí
  • Dagur íslenskrar tungu
Annað/ódagsett
  • Afmæli
  • Gifting
  • Skírn/nafngjöf
  • Barnsfæðing
  • Ættarmót
  • Fjölskyldumót
  • Ferming/siðfesta
  • Fjölskyldudeit
  • Kósýkvöld
  • Fjölskyldufundir
  • Kvöldmatur
  • Kvöldsaga
  • Daglegar hefðir
  • Vikulegar hefðir
  • Mæðgna/mægðina og feðga/feðgina-deit

Heimilisvefurinn hefur nú þegar tekið fyrir nokkra af þessum dögum og mun gera meira af því þegar að þeim kemur. Hægt er að smella á feitletruðu hátíðirnar til að fá hugmyndir og innblástur að hefðum og öðru skemmtilegu til að gera á þeim dögum.

Gangi ykkur vel!

Að búa til hefðir og góðar minningar Read More »

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum

Það er mikilvægt að hlúa að sambandinu á þessum tímum þegar við erum öll eins og hamstrar í hjóli. Vinnandi daginn út og inn og höfum sjaldan tíma fyrir neitt, hvað þá að gera eitthvað sérstakt með makanum. En það er samt sem áður mjög mikilvægt að sýna makanum væntumþykju og gefa ykkur tíma til að rækta sambandið. Ein leið til að gera það er að ákveða að fara á t.d. eitt stefnumót í mánuði. Hægt er að búa til smá lista að hugmyndum að stefnumótum. Stefnumótin mega nefnilega alveg vera eitthvað annað heldur en bíó eða út að borða. Svo er hægt að raða stefnumótunum niður á mánuðina sem fram undan eru. Jafnvel er hægt að setja hugmyndirnar í umslög, sem er svo opnað á ákveðnum tíma fyrir stefnumótið.

Önnur leið er að útbúa krukku með stefnumótahugmyndum. Þá er hægt að skrifa niður fullt af stefnumótahugmyndum, brjóta saman og setja í krukku. Einn miði er svo dreginn í hverjum mánuði og það gert sem stendur á miðanum.

Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum. Stefnumótahugmyndirnar eru fjölbreyttar, sumar taka langan tíma aðrar stuttan, sumar hugmyndirnar eru nokkuð klikkaðar en aðrar mjög venjulegar, sumt er dýrt en annað mjög ódýrt eða ókeypis. Hægt er að prenta út hugmyndirnar og setja annað hvort í umslag eða krukku. Endilega takið burt þær hugmyndir sem henta ykkur ekki. Það hafa ekkert allir efni á því að fara í helgarferð út á land eða fá kannski ekki pössun fyrir börnin í svo langan tíma. Seinna koma fleiri hugmyndir að stefnumótum frá okkur svo hægt verður að fylla á krukkuna eða búa til fleiri umslög þá.

Nokkrar hugmyndir að stefnumótum með makanum Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar

Nú þegar vel er liðið á júní eru flest börn komin í sumarfrí og styttist í það hjá leikskólabörnunum líka. Sumir foreldrar geta ekki beðið eftir þessum tíma þar sem hægt að fara út að bralla eitthvað með börnunum dag eftir dag, á meðan aðrir foreldrar kvíða því að þurfa að hafa ofan af fyrir krökkunum í rútínuleysi sumarfrísins. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að þurfa hugmyndir að einhverju sem gerir sumarið skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana. Sumt er einfalt og ódýrt en annað er flóknara. Hægt er að setja sér markmið með krökkunum um að reyna að gera eitthvað eitt á listanum (eða ykkar eigin lista) á hverjum degi, eða t.d. annan hvern dag. 

Hér er listinn en auðvitað er gríðarlega margt fleira hægt að gera og líklega munu fleiri listar bætast við í framtíðinni hér á Heimilisvefnum. 

40 hlutir til að gera með krökkunum í sumar Read More »

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar

Fyrstu tvö árin í lífi barnsins eru alveg einstök. Þau eru að uppgötva ALLT og læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Þau fara úr því að vera algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus yfir í að geta gengið, hlaupið, talað, borðað sjálf og svo margt fleira.

Það eru alveg takmörk fyrir því hvað svona lítil börn geta gert. Þau reyna gjarnan að stinga hlutum sem þau finna í munninn á sér, sum eru ekki farin að ganga og þessi yngstu leggja sig oft yfir daginn. Á móti kemur að fyrir þeim er flest allt nýtt og spennandi og það þarf yfirleitt ekki að hafa mikið fyrir því að hafa ofan af fyrir þeim. 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman tíu einfaldar hugmyndir að hlutum til að gera með allra  yngstu börnunum í sumar sem allir ættu að geta gert með þeim óháð búsetu.

Mynd: Joshua Gaunt

1. Fjöruferð

Litlum börnum finnst mjög gaman að leika sér í sandinum og skoða allt sem leynist í fjörunni. Það getur verið sniðugt að taka sandkassadót með sér en það er ekki nauðsynlegt. Það er alveg hægt að leika með skeljar og greinar og annað sem maður finnur úti í náttúrunni. Svo er tilvalið að taka með sér nesti og gera sér ágætlega langa ferð úr þessu.

2. Leika í sandkassa

Eins og áður sagði hafa lítil börn mjög gaman af því að leika sér í sandi. Sandurinn getur alveg verið í garðinum heima eða á næsta róló. Gaman er að taka með sér fötu og skóflu til að leika með. Ef veðrið býður ekki upp á að leika úti í sandkassa er hægt að búa til svokallaðan leiksand. Leiksandur er búinn til úr hráefnum sem finnast í flestum eldhúsum og er því alveg ætur ef krökkunum langar að smakka sandinn. Það er t.d. hægt að búa til leiksand með því að mala cheerios eða blanda saman 8 pörtum af hveiti við 1 part af matarolíu (t.d. 4 dl hveiti og ½ dl matarolía). Svo þarf bara að finna eitthvað skemmtilegt dót til að leika með í sandinum eða fela dót í honum.

3. Sulla

Fátt finnst börnum skemmtilegra en að fá að sulla í vatni. Það eru margar útfærslur af sullinu og vel hægt að vera með það inni ef veðrið er ekki gott, eins og gerist reglulega á Íslandi þótt það eigi að vera sumar. Innisull er hægt að framkvæma í sturtunni eða baðinu (eða jafnvel í vaski) og leyfa þá barninu að fá ílát úr eldhúsinu til að sulla með. Ef veður leyfir er hægt að sulla úti í garði eða á svölunum. Skemmtilegast er að fá nokkur ílát og volgt vatn, eitthvað til að hræra með og annað sem manni dettur í hug. Þau geta dundað sér við þetta í dágóðan tíma. Klæddu barnið eftir veðri og þó það sé ekki sól er vel hægt að sulla í pollagalla og hlýjum fötum.

4. Sund

Það er mjög gaman að fara með börnum í sund. Þessi allra yngstu þurfa helst að vera í innilaug, sérstaklega ef það er kalt. Það þarf líka að muna að verja börnin fyrir sólinni. Eldri börnin geta auðvitað farið í sund í útilaugum og vaðlaugum. Ef foreldrarnir nenna ekki í sund með barninu þá er til önnur lausn; uppblásin sundlaug á svölunum eða í garðinum. Þau elska þetta flest og gaman er að fá eitthvað dót með sér í sundlaugina. Önnur hugmynd er að sameina boltalandið og uppblásnu sundlaugina og búa til sundboltaland. Eldri systkini hefðu sjálfsagt líka gaman af því.

Mynd: Rui Xu

5. Blása sápukúlur

Það síðasta vatnstengda er einfalt. Að blása sápukúlur með barninu, eða fyrir það. Fæst börn hafa styrkinn í að blása sápukúlur en hafa oft gaman af því að reyna að ná þeim. Það eru líka til alls konar sápukúluvélar sem blása fyrir mann og þá geta foreldrarnir tekið betur þátt í fjörinu.

6. Göngutúr

Það er alltaf gott og endurnærandi að fara í gönguferð. Þetta þarf ekki að vera flókið. Foreldrið röltir um nágrennið á meðan barnið sefur, ef það er ungt. Ef barnið er orðið eldra er hægt að hafa það í kerru og leyfa því að njóta umhverfisins og jafnvel stoppa á róló af og til.

Mynd: Janko Ferlic

7. Lautarferð

Lautarferð er nátengd göngutúrahugmyndinni hér að ofan en í þetta skiptið er markmiðið að taka með sér nesti í göngutúrinn og finna sér svo einhvern góðan stað til að borða mat saman. Reyndar þarf ekki einu sinni að fara lengra en út í garð.

8. Skógarferð

Gaman er að gera sér ferð í næsta skóg eða skógrækt. Í skóginum er margt að skoða; greinar, könglar, skordýr og fleira. Yngstu börnin geta verið í burðarpoka en þau sem eru farin að ganga geta spreytt sig á að ganga í nýju og krefjandi umhverfi. Ekki er vitlaust að taka með nesti.

Mynd: Jelleke Vanooteghem

9. Kríta

Að kríta er eitthvað sem smábörn og eldri  börn geta notið saman. Yngri börnin geta kannski ekki teiknað fallegar myndir ennþá en þeim finnst þau hluti af hópnum ef þau fá að vera með.

10. Mála með fingramálningu

Að mála með fingrunum er góður skynjunarleikur fyrir börn. Annað hvort er hægt að kaupa fingramálningu án allra eiturefna eða að búa til alveg örugga málningu með því að blanda saman mismunandi matarlitum við jógúrt. Þá er ekkert mál þótt eitthvað fari í munninn. Svo þarf bara að finna stað fyrir þau að mála á. Þetta verður subbulegt svo sturtan eða baðkarið er ágætiskostur ef ekki er í boði að vera úti.

10 hlutir til að gera með 0-2 ára barni í sumar Read More »

Sjómannadagurinn 2023 – Hvað er um að vera og hvað er hægt að gera?

Mynd: Matheus Bertelli
Mynd: Matheus Bertelli

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur fyrsta sunnudag í júní hvert ár, nema ef hvítasunnu ber upp þann dag og er þá sjómannadagurinn haldinn helgina eftir. Í ár verður sjómannadagurinn haldinn hátiðlegur þann 4. júní. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en það var ekki fyrr en 1987 sem dagurinn varð lögskipaður frídagur sjómanna. 

Á sjómannadaginn heiðrum við sjómenn. Ísland er eyja og því haf allt í kringum okkur. Í gegnum aldinar hefur hafið gefið og tekið frá okkur. Hafið hefur haldið í okkur lífinu hér á þessu hrjóstuga landi lengst í norðri og stuðlað að velmegun íslensks samfélags. 

 

Víða um land er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur með skemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Það er tilvalið að skella sér á einhverra þeirra ef tækifæri gefst. Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir bæi þar sem sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í ár:

Ef þú sérð að einhvern bæinn vantar skaltu endilega hafa samband og láta okkur vita á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is 

Fyrir þau sem komast ekki á sjómannadagsskemmtanir eða langar að gera meira þá er auðvitað mjög gaman að skella sér í fjöruferð. Ef það er heldur ekki í boði eru hér nokkrar hugmyndri að einhverju sjómannalegu til að dunda við inni.

 

Heimilisvefurinn býður upp á ókeypis skemmtihefti fyrir börn með sjávar- og sjómannadagsþema. Hægt er að ná í það hér.

 

Svo er gaman að perla, leira eða teikna eitthvað tengt sjónum.

 

Enn fleiri hugmyndir er hægt að finna á pinterestsíðu Heimilisvefsins. 

 

Góða skemmtun!

Sjómannadagurinn 2023 – Hvað er um að vera og hvað er hægt að gera? Read More »

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Já, það hugsa kannski ekki allir um Neðra-Breiðholtið sem ævintýralegt hverfi en engu að síður er hægt að fara í mjög skemmtilega ævintýraferð um hverfið. 

 

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum upp í 31 (já, það eru svona margir leikvellir í hverfinu!) og er það tillaga að því hvernig er hægt að fara um hverfið og prófa að leika sér á öllum leikvöllunum. Á sumum stöðunum þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

 Í ævintýraferðina er gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru 31 leikvöllur af öllum stærðum og gerðum  í hverfinu svo ævintýraferðin tekur mjög líklega stóran hluta af deginum, sérstaklega ef prófa á öll tækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið. 

 

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Margir leikvallanna í þessari ævintýraferð eru á einkalóðum fjölbýlishúsa. Það er því mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana og ef íbúarnir vilja, einhverra hluta vegna, ekki fá aðra á lóðina til sín skal virða það í einu og öllu. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna, sérstaklega við eldri fjölbýlishús og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Hægt er að sækja pdf-skjal af ævintýraferðinni til útprentunar hér. Það er líka vel hægt að hafa það í símanum en þá er ekki hægt að skrifa niður svörin í ratleiknum.

 

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt Read More »

28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir fyrir kósýkvöldin

Það kemur eflaust nokkrum á óvart að sjá að það eru til allavega 28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir – kvikmyndir gerðar sérstaklega með börn í huga. Í þessari tölu eru engar myndir sem teljast sérstaklega til grínmynda þó margar þeirra séu vissulega mjög fyndnar. Kvikmyndirnar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Þær höfða ekki allar til allra (en það á líka við um allar myndir) og hæfa mismunandi aldri. 

Ef áhugi er á að reyna að setja sér það markmið að reyna að sjá allar myndirnar er hægt að prenta út gátlistann og haka við myndir sem búið er að horfa á. Eins væri hægt að gefa hverri kvikmynd einkunn eða stjörnur. 

Góða skemmtun!

28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir fyrir kósýkvöldin Read More »

Seinni undanúrslit Eurovision 2023

Nú er minna en vika í að Diljá, fulltrúi Íslands í Eurovision í ár, stígi á svið í Liverpool þann 11. maí. Við hér á Heimilisvefnum erum handviss um að hún eigi eftir að fljúga í úrslitin með þessu frábæra lagi. 
Flestir landsmenn munu að öllum líkindum setjast niður við sjónvarpið þetta kvöld og horfa á Ísland keppa. Til að gera kvöldið enn betra og skemmtilegra væri gaman að bjóða upp á veitingar frá löndunum sem eru að keppa þetta kvöld. En eins og í áður útgefinni færslu Heimilisvefsins um fyrra undanúrslitakvöldið verða hér upp taldar veitingar sem þarfnast lítils undirbúnings, eitthvað sem hægt er að kaupa í næstu verslun. 

  • Danmörk: Dagana 4.-14. maí eru einmitt danskir dagar í Hagkaup, þar ætti að vera hægt að finna fullt í Eurovisionpartýið. Annars er Owl-snakkið danskt og sömuleiðis Kim’s og Gestus-vörumerkin. Cocio-kókómjólkin er framleidd í Esbjerg í Danmörku og svo er ekki erfitt að kaupa eða búa til einfalt smurbrauð.
  • Rúmenía og Albanía: Ef fólk hefur tök á að kíkja á Istanbul market gæti verið til eitthvað af snakki, nammi og öðrum vörum frá löndunum á Balkanskaga.
  • Belgía: Belgar fundu upp á frönskum og því er við hæfi að bjóða upp á slíkt en þar eru þær alltaf borðaðar með mæjónesi. Belgar eru líka frægir fyrir belgískar vöfflur og súkkulaði. Af belgísku súkkulaði má nefna Godiva, Guylian, Cavalier (sykurlaust) og Cote d’Or vörumerkin. Cote d’Or er fyrirtækið sem framleiðir fílakaramellur, sem allir Íslendingar ættu að þekkja.
  • Kýpur: Halloumi-ostur (kallast grillostur hjá MS), ólífur og pítubrauð.
  • Ísland: snakk og nammi í næstu búð?
  • Grikkland: Fetaostur, ólífur og pítubrauð. Baklava er líka vinsæl þar (og reyndar í mörgum löndum á Balkanskaga), hana er hægt að fá í miðausturlenskum búðum. 
  • Pólland: Prins póló og svo er til fullt í næstu pólsku verslun. Endilega prófið eitthvað nýtt og skemmtilegt. 
  • Austurríki: Eins og Mozart var sjálfur, eru mozartkúlur frá Austurríki og Red Bull líka. Það ætti að halda öllum vakandi fram yfir úrslit! (Red Bull er samt auðvitað bara fyrir fullorðna)

Til að gera áhorfið enn meira spennandi og skemmtilegt er hægt að prenta út þetta stigablað hér fyrir neðan. Á blaðinu er hægt að gefa hverju atriði fyrir sig stig fyrir flutning, lag og atriði. Stigin geta verið í Eurovision-stíl, frá 1-8, 10 eða 12 stig eða eins og hver vill. Með þessu er hugsanlega hægt að spá fyrir um hvaða lönd komast áfram. Það er einnig hægt að leggja saman stig allra áhorfendanna í stofunni og sjá hvort að það sé betri spá.

Góða skemmtun og gleðilega Eurovisionhátíð!

Seinni undanúrslit Eurovision 2023 Read More »

Fyrri undanúrslit Eurovision 2023

Senn líður að fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision, sem fer fram þann 9. maí . Ísland keppir reyndar á seinna undanúrslitakvöldinu þetta árið en það þýðir ekki að það megi ekki hafa gaman og horfa á fyrra kvöldið líka. En á fyrra kvöldinu eru tvö sigurstranglegustu lög keppninnar að keppa – Svíþjóð og Finnland. Þar að auki eru Noregur og Ísrael líka talin enda í top 10. 

Að horfa á Eurovision saman með allri fjölskyldunni er góð samvera. Hægt er að gera daginn og dagana í Eurovision-vikunni nokkuð hátíðlega. Fyrir sumar fjölskyldur gæti verið gaman að föndra skreytingar saman til að hengja upp. Skreytingarnar geta verið alls kyns fánar og veifur – bæði íslenski fáninn og fánar þeirra þjóða sem maður heldur með. 

Á sjálfum deginum getur verið gaman að bjóða upp á veitingar frá löndunum eða einhverju landinu sem er að keppa það kvöld. Það þarf ekki að vera að flókið að finna veitingar, margt er hægt að kaupa tilbúið úti í búð. Við vitum að það er ekki mikill tími fyrir venjulegar fjölskyldur að búa til einhverjar glæsilegar kræsingar á mánudegi eða þriðjudegi fyrir Eurovisionkvöld sem við keppum ekki einu sinni á.

Hér er því Eurovisionveisla fyrir þau sem hafa engan tíma til að dúllast í eldhúsinu:

  • Noregur: Upphituð Grandiosa-pizza (a.m.k. til í Nettó og á Heimkaup). Tilbúinn graflax sem fæst í hvaða búð sem er, hægt að bera hann fram á korni-hrökkbrauði en kavíar væri líka við hæfi. Maarud-snakk er líka frá Noregi.
  • Balkanskaginn: Ajvar-sósa og burek fæst tilbúið í miðausturlenskum verslunum (t.d. Istanbul market). Gott væri að kaupa flatbrauð til að dýfa í ajvar-sósuna. 
  • Portúgal: Pastel de nata fékkst einhvern tímann tilbúið í frysti í Costco.
  • Írland: Bailey’s er frá Írlandi. Þetta er auðvitað ekki við hæfi ef börn eru í partýinu en það er til sælgæti sem er búið til úr Bailey’s líka, sem fullorðna fólkið gæti gætt sér á yfir Eurovision.
  • Sviss: Það er gríðarlega margt hægt að bjóða frá Sviss. Í fyrsta lagi er hægt að bjóða upp á svissneska osta eins og Gruyère og Emmentaler. Sviss er einnig frægt fyrir að hafa fundið upp á múslí og því væri hægt að bjóða upp á granolastykki. Toblerone er svissnesk súkkulaði sem á að líkjast, Matterhorn, frægasta fjalli Sviss. Milka-súkkulaði er líka upphaflega svissneskt og sömuleiðis Nesquick.
  • Ísrael: Auðvelt! Hummus og falafel, bæði fæst tilbúið í næstu verslun. 
  •  Svíþjóð: Við bendum á sænska matarhornið í IKEA til að finna tilbúinn mat frá Svíþjóð. En í flestum verslunum er hægt að finna tilbúnar sænskar kjötbollur, kladdköku, bilar, marabou-súkkulaði, daim, kanilsnúða, gifflar-snúða, polarbrauð, Fun djús, hrökkbrauð og graflax.
  •  Holland: Hollenskir ostar eins og gouda, edam, Old Amsterdam og Prima Donna-ostur. Tony’s súkkulaði, sem fæst í mörgum búðum, er hollenskt. Svo er mögulega hægt að fá stroopwafel í einhverri búðinni.
  • Finnland: Dumle-karamellur, skólakrít og tyrkisk pepper eru frá Finnlandi. Panda-lakkrís, sem er vegan, er líka þaðan.

Til að gera áhorfið enn meira spennandi og skemmtilegt er hægt að prenta út þetta stigablað hér fyrir neðan. Á blaðinu er hægt að gefa hverju atriði fyrir sig stig fyrir flutning, lag og atriði. Stigin geta verið í Eurovision-stíl, frá 1-8, 10 eða 12 stig eða eins og hver vill. Með þessu er hugsanlega hægt að spá fyrir um hvaða lönd komast áfram. Það er einnig hægt að leggja saman stig allra áhorfendanna í stofunni og sjá hvort að það sé betri spá.

Góða skemmtun!

Fyrri undanúrslit Eurovision 2023 Read More »