uppskriftir

Sólarkaffi

Sólarkaffi

Sólarkaffi er hefð sem upprunalega varð til á Ísafirði og er enn mjög stór hefð þar, en hefur svo einnig dreift sér víðar um landið. Einkum til staða þar sem fjöllin eru það há að sólin hverfi á bak við þau í svartasta skammdeginu. Þegar aftur fer að sjást til sólar, sem er oft seint í janúar, er haldið upp á það með sólarkaffi til að fagna hækkandi sól. Á sólarkaffinu eru borðaðar sólarpönnukökur, sem bragðast mun betur en aðrar pönnukökur.

Mynd af Seyðisfirði, en þar er einnig haldið upp á sólarkaffi. Mynd: Sveinn Birkir Björnsson.

Sama hvort fólk býr undir bröttum fjallshlíðum eða á víðáttumikilli sléttu geta allir tekið þátt í sólarkaffihefðinni og fagnað því að dagurinn sé nú orðinn töluvert lengri en hann var fyrir um mánuði síðan. Það eina sem þarf er góð pönnukökupanna og hráefni í pönnukökur. Það er vitaskuld enn betra að bjóða góðu fólki að bragða á pönnukökunum með sér. Þetta er fín ástæða til að halda upp á eitthvað í janúar (þó vissulega séu þorrablótin um þetta leyti líka) og lífga upp á tilveruna. En samkvæmt því sem bresk ferðaskriftstofa komst að fyrir um tuttugu árum er þriðji mánudagurinn í janúar versti dagur ársins og dagurinn hefur verið nefndur “blár mánudagur” (e. Blue Monday). Er ekki tilvalið að breyta því og kætast yfir gómsætum pönnukökum? Hér er allavega uppskrift að sólarpönnukökum fyrir áhugasama.

Mynd: Philippe Murray-Pietsch

Sólarpönnukökur

50 g brætt smjör

4 dl hveiti

½ tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

½ tsk salt

2 egg

2 tsk vanilludropar eða aðrir dropar

Mjólk eins og þarf

 

Aðferð: 

  1. Bræðið smjörið á pönnukökupönnunni og leyfið því svo að kólna aðeins.
  2. Setjið hveiti, matarsóda, lyftiduft, salt, egg og vanilludropa í stóra skál. Það má einnig prófa sig áfram með t.d. sítrónudropa eða möndludropa ef maður er í stuði. 
  3. Hellið smjörinu út í þegar það hefur kólnað aðeins.
  4. Bætið við mjólk og hrærið öllu saman, bætið svo við meiri mjólk þar til deigið verður mjög þunnt. 
  5. Hitið pönnukökupönnuna aftur og hafið hana miðlungs heita. 
  6. Hellið deigi á pönnuna og dreifið úr því með réttum handtökum. Pönnukakan á að sjálfsögðu að vera mjög þunn. 
  7. Steikið pönnukökuna þar til hún er orðin gullinbrún undir og snúið henni þá við og steikið hinum megin. Munið að fyrsta pönnukakan er alltaf skrýtin. 
  8. Berið fram eins og ykkur lystir, upprúlluð með sykri eða með sultu og rjóma. Það má einnig prófa sig áfram með alls kyns fyllingum. Hægt væri að prófa t.d. nutella eða súkkulaðisósu, hnetusmjör, ávexti, karamellusósu eða lemon curd.

Sólarkaffi Read More »

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuunnendur þessa lands ættu ekki að láta þessa djúsí ostaköku fram hjá sér fara. Hér eru mömmukökur komnar í ostakökubúning og þetta gæti verið flottur eftirréttur um jólin eða í jólaboðið.

Botn
200 g mömmukökur án krems
85 g smjör

Fylling
200 g mascarponeostur
250 g vanilluskyr
100 g flórsykur
2 dl rjómi
4 matarlímsblöð
1 tsk vanillusykur

Sósa
75 g rjómatöggur
2-3 msk rjómi

Til skrauts
Rjómi
Litlar mömmukökur

1. Byrjið á að stilla ofninn á 170°C og blástur.
2. Takið fram 20 cm smelluform og setjið bökunarpappír í botninn.
3. Myljið mömmukökur án krems í matvinnsluvél og bræðið smjör. Blandið saman og hellið í smelluformið.
4. Þjappið mömmukökumylsnunum í botninn og til hliðanna á forminu. 
5. Bakið í ofni í 10 mínútur og kælið síðan.
6. Á meðan er hægt að byrja á fyllingunni með því að setja mascarponeost í skál og þeytið þangað til osturinn mýkist.
7. Bætið síðan við vanilluskyri, flórsykri og vanillusykri út í og þeytið saman þar til engir kekkir eru eftir.
8. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni.
9. Þeytið rjómann þar til hann er nokkuð mikið þeyttur og blandið honum svo varlega út í skyrblönduna. 
10. Setjið 3-4 msk af vatni í lítinn pott og hitið. Kreistið vatnið úr matarlímsblöðunum og setjið út í pottinn með vatninu. Hrærið þangað til þau bráðna.
11. Bætið við vænni skeið af ostakökufyllingunni út í matarlími og takið pottinn af hitanum. Hrærið vel og bætið svo öllu út í restina af fyllingunni og hrærið mjög vel.
12. Takið botninn fram og hellið fyllingunni ofan í hann. Setjið kökuna aftur í ísskápinn og kælið í minnst 4 klst, helst yfir nótt.
13. Ekki löngu áður en kakan verður borin fram er hægt að byrja á karamellunni. Til að gera hana þarf einfaldlega að setja rjómatöggur og rjóma í pott og hita á miðlungs hita þar til karamellurnar hafa bráðnað alveg út í rjómann. 
14. Dreifið karamellunni yfir kökuna.
15. Þeytið 1-2 dl af rjóma og skreytið kökuna með honum ásamt litlum mömmukökum. 

Verði ykkur að góðu!

Mömmukökuostakaka Read More »

Madesu – baunaréttur frá Kongó

Madesu - baunaréttur frá Kongó

Hér kemur uppskrift að vegan baunarétti frá Kongó. Nafnið þýðir einfaldlega baunir á lingala og rétturinn er borðaður víða í mið-Afríku. Stundum er kjöti eða fiski bætt út í en það er ekki nauðsynlegt, rétturinn bragðast dásamlega einn og sér og það er tilvalið að elda hann þegar kólna fer í veðri.

Það getur verið vandasamt að fá pálmaolíu en hún fæst í öllum afrískum verslunum og í Fisku. Ef olían fæst ekki á þínu svæði er vel hægt að nota venjulega matarolíu.

1 laukur, saxaður
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
3 vorlaukar, sneiddir
1 dós hakkaðir tómatar
1 tsk chilimauk
2 lárviðarlauf
1 tsk kóríanderduft
500 g blandaðar baunir í dós
2 grænmetisteningar
1/4 tsk múskat
1 lúka blandaðar kryddjurtir (ég notaði steinselju og kóríander)

rauð pálmaolía (eða matarolía)
salt (ef þarf)

1. Byrjið á að skera niður grænmetið og hafa það tilbúið.
2. Hitið olíu á pönnu og steikið lauk, hvítlauk og vorlauk í nokkrar mínútur.
3. Bætið við tómötum, lárviðarlaufum og chilimauki og látið malla í 10-15 mínútur.
4. Setjið kóríanderduft, baunir, grænmetisteninga, múskat og kryddjurtir út á pönnuna og hrærið vel.
5. Bætið við 2 dl af vatni, hrærið og leyfið svo sósunni að þykkna aftur í 15-20 mínútur.
6. Smakkið til með salti ef þarf og berið fram með hrísgrjónum. 

Þennan bragðmikla rétt er vel hægt að frysta og borða síðar. Rétturinn versnar síður en svo við upphitun, eins og á við um marga pottrétti.

Madesu – baunaréttur frá Kongó Read More »

Einfalt Caprese-salat

Einfalt Caprese-salat

Caprese-salat er salat sem er upphaflega frá eyjunni Capri við Ítalíu. Þetta sígilda salat  er fullkominn forréttur í matarboð, á brönshlaðborðið eða ofan á snittur. Það er ótrúlega einfalt að búa það til og það þarf ekki langan lista af hráefnum. Svo er það líka svo yndislega ferskt og gott.

Caprese-salat

1-2 tómatar

1-2 mozzarellakúlur

basilika

ólífuolía

salt

pipar

balsamgljái

Aðferð:

  1. Sneiðið tómata og mozzarellakúlur. Rífið basilikublöðin af basilikunni.
  2. Raðið mozzarellasneið, tómatsneið og basilikublaði til skiptis.
  3. Setjið örlítið af ólífuolíu yfir salatið.
  4. Saltið og piprið, en passið að það þarf alls ekki mikið.
  5. Gott er að setja balsamgljáa yfir salatið rétt áður en það er borið fram. 

Buon appetito! Verði ykkur að góðu!

Einfalt Caprese-salat Read More »