Sólarkaffi
Sólarkaffi
Sólarkaffi er hefð sem upprunalega varð til á Ísafirði og er enn mjög stór hefð þar, en hefur svo einnig dreift sér víðar um landið. Einkum til staða þar sem fjöllin eru það há að sólin hverfi á bak við þau í svartasta skammdeginu. Þegar aftur fer að sjást til sólar, sem er oft seint í janúar, er haldið upp á það með sólarkaffi til að fagna hækkandi sól. Á sólarkaffinu eru borðaðar sólarpönnukökur, sem bragðast mun betur en aðrar pönnukökur.
Sama hvort fólk býr undir bröttum fjallshlíðum eða á víðáttumikilli sléttu geta allir tekið þátt í sólarkaffihefðinni og fagnað því að dagurinn sé nú orðinn töluvert lengri en hann var fyrir um mánuði síðan. Það eina sem þarf er góð pönnukökupanna og hráefni í pönnukökur. Það er vitaskuld enn betra að bjóða góðu fólki að bragða á pönnukökunum með sér. Þetta er fín ástæða til að halda upp á eitthvað í janúar (þó vissulega séu þorrablótin um þetta leyti líka) og lífga upp á tilveruna. En samkvæmt því sem bresk ferðaskriftstofa komst að fyrir um tuttugu árum er þriðji mánudagurinn í janúar versti dagur ársins og dagurinn hefur verið nefndur “blár mánudagur” (e. Blue Monday). Er ekki tilvalið að breyta því og kætast yfir gómsætum pönnukökum? Hér er allavega uppskrift að sólarpönnukökum fyrir áhugasama.
Sólarpönnukökur
50 g brætt smjör
4 dl hveiti
½ tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
2 egg
2 tsk vanilludropar eða aðrir dropar
Mjólk eins og þarf
Aðferð:
- Bræðið smjörið á pönnukökupönnunni og leyfið því svo að kólna aðeins.
- Setjið hveiti, matarsóda, lyftiduft, salt, egg og vanilludropa í stóra skál. Það má einnig prófa sig áfram með t.d. sítrónudropa eða möndludropa ef maður er í stuði.
- Hellið smjörinu út í þegar það hefur kólnað aðeins.
- Bætið við mjólk og hrærið öllu saman, bætið svo við meiri mjólk þar til deigið verður mjög þunnt.
- Hitið pönnukökupönnuna aftur og hafið hana miðlungs heita.
- Hellið deigi á pönnuna og dreifið úr því með réttum handtökum. Pönnukakan á að sjálfsögðu að vera mjög þunn.
- Steikið pönnukökuna þar til hún er orðin gullinbrún undir og snúið henni þá við og steikið hinum megin. Munið að fyrsta pönnukakan er alltaf skrýtin.
- Berið fram eins og ykkur lystir, upprúlluð með sykri eða með sultu og rjóma. Það má einnig prófa sig áfram með alls kyns fyllingum. Hægt væri að prófa t.d. nutella eða súkkulaðisósu, hnetusmjör, ávexti, karamellusósu eða lemon curd.