Jól

Gleðileg jól!

Gleðileg jól!

Heimilisvefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi nýs árs. Vefurinn þakkar fyrir góða viðtökur á árinu. Við bjuggumst ekki við því að geta náð til svo margra eins og raun ber vitni en í kringum hundrað manns kíkja á síðuna á hverjum degi, þrátt fyrir að síðan sé ekkert auglýst. 

En sem jólagjöf til fjölskyldna þessi jólin hefur Heimilisvefurinn bætt við litamyndasíðu sem hægt er að finna hér. Þar er hægt að finna átta jólalitamyndir til að lita yfir hátíðirnar. 

Gleðileg jól! Read More »

Bestu jólamyndirnar

Bestu jólamyndirnar

Eitt af því sem við tengjum flest við jólin eru jólamyndirnar. Flest eigum við okkar uppáhalds jólamynd sem er ómissandi hluti af jólahátíðinni. Sum verða að horfa á allar Harry Potter-myndirnar yfir jólin, önnur mega ekki sleppa því að horfa á Christmas Vacation fyrir jól og enn önnur myndu segja að það kæmu engin jól án þess að horfa á Home Alone. En sama hver við teljum að sé besta jólamynd allra tíma er vel hægt að bæta við nokkrum nýjum í safnið. Í gegnum árin hafa verið gefnar út ótal margar jólamyndir og margar þeirra eru… vægast sagt hræðilegar, en inn á milli leynast gullmolar. Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkrar af ástsælustu jólamyndum allra tíma (sumar falla þó inn í „elska að hata“-flokkinn) og þær sem fá ágætis einkunnir á IMDB. Allar myndirnar á listanum eru með yfir 5,5 í einkunn á síðunni.  Listinn er settur upp sem áskorun um að horfa á allar myndirnar og gefa þeim einkunn. Alls eru 60 bíómyndir á listanum (og því er um að gera að byrja sem fyrst til að ná að klára fyrir áramót.) Bíómyndirnar eru fjölbreyttar, allt frá væmnum rómantískum gamanmyndum og barnamyndum yfir í hrollvekjur og mynd um fyrri heimstyrjöldina. 

Góða skemmtun!

Bestu jólamyndirnar Read More »

Hugmyndir að skógjöfum

Hugmyndir að skógjöfum

Það getur verið yfirþyrmandi verkefni fyrir sum að reyna að finna þrettán skógjafir fyrir desembermánuð, og þá tala ég nú ekki um ef börnin eru fleiri og finna þarf kannski 26, 39 eða 52 skógjafir! Auðvitað er oft hægt að gefa börnunum svipað eða það sama í skóinn frá sumum eða flestum jólasveinunum. Svo vill maður heldur ekki sitja uppi með fullt af litlu dóti og drasli sem krakkarnir léku sér með í fimm mínútur og svo aldrei meir. Eins þarf að passa að sveinki gefi ekki of stórar og dýrar gjafir því börn bera sig mikið saman við önnur börn og það getur verið sárt að fá mun minna en aðrir í skóinn. Áður en farið er út í að kaupa skógjafirnar er gott að pæla aðeins í því hvað krökkunum raunverulega vantar. Jólasveinarnir gætu nefnilega reddað því. 

Hér eru nokkrar hugmyndir að skógjöfum sem vonandi nýtast betur en eru jafnframt ódýrar og ættu ekki að særa önnur börn:

1. Eitthvað bragðgott

Börnunum finnst æðislegt að fá eitthvað bragðgott í skóinn og yfirleitt hverfur það á nokkrum mínútum. Þetta getur verið t.d. nammi, ávaxtanammi, rúsínur, mandarína, smákökur eða eitthvað slíkt.

Mynd: Nicolas J. Leclercq
2. Heitt kakó

Annað sem börnunum finnst æðislegt og safnar ekki ryki upp á hillu er heitt kakó. Hægt er að kaupa t.d. Swiss Miss í pokum eða súkkulaðibombur sem settar eru út í heitt vatn eða mjólk.

3. Lego, duplo eða playmo

Að sjálfsögðu á ekki að kaupa stóru dýru settin. Betra er að geyma þau fyrir jólapakkana. Vissulega er hægt að kaupa einn stóran pakka og skipta honum í nokkrar minni gjafir eða að kaupa minnstu pakkana og gefa í skóinn. Einnig er stundum hægt að finna lego, duplo og playmo á flóamörkuðum. 

4. Þroskaleikföng

Fyrir allra yngstu börnin (sem eiga eldri systkini sem fá í skóinn) er hægt að gefa þroskaleikföng, naghringi, hristur eða fleira slíkt.

Mynd: Thomas Despeyroux
5. Baðbomba eða freyðibað

Baðbombur eru skemmtilegar fyrir allan aldur (a.m.k. ef það er til baðkar á heimilinu).

6. Naglalakk
7. Krem eða maskar

Ef barnið hefur áhuga á kremum og möskum verður þetta líklegast notað fljótt.

Mynd: Myriam Zilles
8. Kerti

Eitthvað fallegt jólakerti eða gott ilmkerti er gaman að fá í skóinn fyrir krakka í eldri kantinum (ef þau hafa áhuga á slíku).

9. Snyrtivörur

Snyrtivörur eru ágætis skógjafir fyrir unglinga. Passið samt að hafa þær ekki dýrar.

10. Pennar og blýantar

Það er alltaf gaman að fá nýjan og skemmtilegan penna eða blýant í pennaveskið.

Mynd: Aaron Burden
11. Litir

Trélitir, tússlitir, vaxlitir, klessulitir… alls konar litir til að búa til fallegar myndir.

12. Andlitsmálning

Flestum börnum finnst ótrúlega skemmtilegt að láta mála á sér andlitið og fá að vera eitthvað annað en þau eru, t.d. ljón eða prinsessa.

13. Bolli, glas, peli eða stútkanna

Gott og gagnlegt að eiga á hverju heimili.

Mynd: Valeriia Miller
14. Sokkar eða sokkabuxur

Það þurfa allir að eiga sokka eða sokkabuxur.

15. Lyklakippa

Gaman er að fá flotta lyklakippu fyrir lyklana.

16. Veski eða budda

Vesti fyrir kortin eða budda fyrir klinkið.

17. Gjafabréf

Séu gjafabréfin ekki of dýr er hægt að gefa slíkt í skóinn. Þetta geta t.d. verið gjafabréf í ís, bíó eða annað slíkt. Einnig má búa til heimatilbúin gjafabréf sem gilda t.d. til að fá að velja hvað er í matinn eða að velja bíómynd fyrir næsta kósýkvöld.

18. Teygjur og spennur

Börn með sítt hár þurfa oft nýjar teygjur eða spennur.

19. Popp

Einn popppoki í örbylgjuofninn og málið er dautt.

20. Tyggjó

Tyggjópakki er mjög spennandi fyrir börnum á ákveðnum aldri sem fá kannski ekki oft tyggjó.

21. Skrúbbur

Hentar vel í skógjöf fyrir unglinga.

22. Leir

Það er ofsalega gaman og mikil núvitund í því að leira.

Mynd: Kelly Sikkema
23. Límmiðar og límmiðabók

Að safna límmiðum í límmiðabók var mikið sport í mínu ungdæmi. 

24. Vatnslitir, málning eða fingramálning

Fer eftir aldri og áhuga en allt er þetta mjög góð og skemmtileg afþreying.

25. Spil

Hér verður að passa sig að hafa spilin ekki of dýr eða „flott“. Það er eitt að fá fallegan spilastokk í skóinn og annað að fá Ticket to Ride eða álíka spil. Ferðaútgáfur af spilum gætu hentað, eða klassísk og einföld spil eins og slönguspilið, minnisspil, lúdó og slíkt.

26. Jólaskraut

Það er gaman fyrir krakkana að jólaskraut í herbergið eða jólakúlu til að hengja á jólatréð.

Mynd: Markus Spiske
27. Bók

Hér þarf aftur að passa að hafa bókina ekki of dýra. Litlar bækur eins og litlu smábarnabækurnar eru tilvaldar í skóinn.

28. Bangsi

Lítill krúttlegu bangsi í skóinn fyrir þessi yngstu er góð gjöf.

29. Fótboltamyndir eða pókemonspil

Fyrir þau börn sem eru að safna slíkum myndum er þetta fyrirtaks gjöf.

Mynd: Christopher Paul High
30. Púsl

Lítið púsluspil í skóinn er frábær gjöf.

31. Perlur

Einn poki af perlum eða nýtt perluspjald fyrir börn sem hafa gaman af því að perla. Einnig er hægt að prenta út perl-„uppskriftir“ á netinu.

32. Litamynd eða litabók

Litabók eða vel valin litamynd er tilvalin skógjöf.

Mynd: Kelly Brito
33. Stílabók, teikniblokk eða dagbók

Þá geta krakkarnir skrifað sögur, teiknað myndir eða skrifað í dagbók.

34. Húfur og vettlingar

Eitthvað hlýtt til að leika sér í snjónum.

Mynd: Michal Janek
35. Náttföt

Sígild gjöf frá síðasta jólasveininum, Kertasníki.

36. Handavinna

Skemmtileg handavinna getur stytt biða eftir jólnunum. Hægt er að gefa krökkunum litla útsaumsmynd, garn og prjóna eða annað slíkt.

37. Smákökuuppskrift og hráefni (eða tilbúið deig)
38. Þrautabók eða krossgátubók
39. Tannbursti
40. Morgunverður

Eitthvað sem barnið getur borðaði í morgunmat, t.d. jólajógúrt, lítill morgunkornspakki eða annað slíkt.

Fyrir þessi allra yngstu

Fyrir þessi allra yngstu, undir tveggja ára aldurinn, er hægt að kaupa eitthvað sem vantar. Slefsmekkur, nagdót, samfella, bleyjur, snuð, skvísur/barnamatur og fleira í þeim dúr er sniðugt að nýta sem skógjafir fyrir þau. Þau bera sig að sjálfsögðu ekki saman við önnur börn svo óhætt er að gefa ýmislegt dýrara ef þarf og ef eldri systkini fatta ekki að þetta sé „stærri“ gjöf.

Hugmyndir að skógjöfum Read More »