Hvernig getur gervigreind hjálpað okkur með heimilihald?

Nú á upphafsárum gervigreindar er gott að fara yfir hvernig hún getur gagnast okkur við heimilishaldið. Við höfum ekki hugmynd um hvernig þetta mun þróast en eitt er víst að gervigreind er nú þegar orðin til margra hluta nytsamleg. Það vita þó ekki allir alveg hvernig hún getur komið að gagni. Raunin er sú að gervigreind getur hjálpað til með hin ýmsu verkefni tengdum heimilishaldi. Líka gervigreind eins og Chat GPT sem að aðeins skrifar texta. Chat GPT talar þar að auki íslensku, vissulega ansi bjagaða og oft með ýmsum villum, þegar þetta er skrifað. Það sem slík gervigreind getur hjálpað okkur með eru upplýsingar, leiðbeiningar, hugmyndir og alls kyns uppástungur.  Hér eru nokkur dæmi um hvernig gervigreindin Chat GPT getur hjálpað okkur við heimilishald:

  1. Upplýsingar: Chat GPT hefur aðgang að gríðarlegu magni af upplýsingum um hinar ýmsu hliðar heimilishalds. Sem dæmi er hægt að spyrja gervigreindina um viðhald heimilisins og getur hún gefið nákvæmar útskýringar og leiðbeiningar um það. Einnig er hægt að ræða við hana um orkusparnað, eftirlitskerfi og fleira slíkt. 

  2. Skipulagning: Chat GPT gervigreindin getur hjálpað til við að skipuleggja verkefni tengd heimilinu. Hún getur aðstoðað við að búa til tímatöflur, áminningar og verkefnalista. Hvort sem það er áætlun um viðhald heimilisins, þrifaplan eða annað, þá getur gervigreindin boðið upp á ráðleggingar og hjálp tengt þessu.

  3. Lausnaleit: Ef þú ert í vandræðum með eitthvert heimilistækið getur Chat GPT hjálpað þér með algeng vandamál. Aðeins þarf að lýsa vandamálinu í smáatriðum fyrir henni og hún getur í staðinn  komið með leiðbeiningar skref fyrir skref um hvernig er hægt að leysa vandamálin eða þá hvert er hægt að hafa samband.

  4. Hugmyndir að endurbótum á heimilinu: Gervigreind getur hjálpað þér með að finna hugmyndir til að endurbæta heimili þitt, hvort sem það er innanhússhönnun, orkusparnaður eða uppsetning snjallheimilisins. Hægt er að fá ráðleggingar út frá þínum óskum og verðbili. 

  5. Uppskriftir: Gervigreind getur bæði stungið upp á hugmyndum að uppskriftum og búið þær til fyrir þig. Þú getur látið hana finna uppskriftir út frá alls kyns leitarskilyrðum, t.d. getur hún sleppt ákveðnum fæðutegundum, fundið uppskriftir frá ákveðnu landi eða búið til uppskrift út frá því hvað þú átt í ísskápnum. 

  6. Leiðbeiningar í eldhúsinu: Hægt er að spyrja gervigreind út í allt sem við kemur eldamennsku og bakstri. Það er t.d. hægt að spyrja hana út í hvernig á að úrbeina læri eða hvernig á að búa til marengs eða hvað sé hægt að nota í stað einhvers ofnæmisvalds. Hún getur útskýrt tæknileg atriði tengd matreiðslu og sett upp leiðbeiningar skref fyrir skref um hvernig á að gera tiltekinn hlut.

  7. Matseðlagerð: Eitt það gagnlegasta sem gervigreind getur gert er að hjálpa til við matseðlagerð. Gervigreindin getur búið til matseðil fyrir fjölskylduna þína og lagað hann að ykkar óskum. Finnst einhverjum paprika vond? Gervigreind getur sleppt öllum uppskriftum með papriku. Er einhver með ofnæmi fyrir eggjum? Þá sleppir gervigreind þeim uppskriftum líka. Eruð þið vegan? Eða sykurlaus? Ekkert mál. Gervigreind getur búið til matseðil út frá hvaða skilyrðum sem er og haft máltíðirnar hollar og næringarríkar. 

  8. Næringarfræði: Gervigreind veit allt um næringarfræði og sérstakt mataræði. Hægt er að spyrja hana hvað það er mikið af kolvetnum, fitu, próteini eða vítamínum í ákveðnum fæðutegundum. Þá getur hún sagt hversu margar hitaeiningar eru í hinum ýmsu fæðutegundum og réttum. 

  9. Innblástur í eldhúsinu: Ef þig langar að prófa eitthvað nýtt í kvöldmatinn er ekkert mál að spyrja gervigreind hvað þú gætir gert. Gervigreindin getur komið með uppástungur að réttum til að prófa. Þú getur líka spurt hana út í rétti til að prófa frá ákveðnu landi eða með ákveðnu hráefni eða öðru sem þér dettu í hug. 

  10. Fjárhagsáætlun: Gervigreind getur búið til fjárhagsáæltun fyrir þig út frá upplýsingum sem þú gefur henni eins og laun, helstu útgjöld og fjárhagsleg markmið. Saman getið þið fundið út úr því hvar er best að spara, leiðir til að spara o.fl.

  11. Uppeldið: Já, gervigreind getur jafn vel hjálpað þér við uppeldið, eða þ.e.a.s. getur frætt þig um mismunandi uppeldisaðferðir og komið með góð ráð við ýmsum vandamálum. Hún getur frætt þig um þroska barna, agastjórnun, hvernig er hægt að búa til gott samband við börnin þín, samskiptafærni og viðeigandi væntingar til barnsins miðað við aldur.  Einnig getur hún stungið upp á bókum og öðru gagnlegu sem hjálpar þér við uppeldið.

  12. Rútína: Gervigreind getur komið með hugmyndir um hvernig er hægt að búa til góða rútínu fyrir bæði þig og börnin. Rútínan tekur mið af svefnþörf, næringarþörf og hreyfiþörf allra í fjölskyldunni. Gervigreind getur stungið upp á hollum máltíðum og snarli fyrir börnin, hvernig hægt er að laga svefninn og hvernig hægt er að koma hreyfingu og leik  inn í skipulag dagsins. 

  13. Tiltekt: Er allt í drasli á heimilinu? Gervigreind getur hjálpað þér með það. Hún getur auðvitað ekki tekið til fyrir þig en hún getur sagt þér hvernig er best að gera það. Þá getur hún frætt þig um leiðir til að losa þig við drasl og dót af heimilinu, hvernig hægt er að taka ákvarðanir um hverju á að henda, gefa eða eiga.
     
  14. Skipulag heimilisins: Gervigreind getur auðveldlega hjálpað þér með að skipuleggja heimilið og hvernig er best að geyma hluti. Hún getur frætt þig um hvernig er best að raða hlutum og geyma og hvernig er hægt að halda öllu snyrtilegu til frambúðar.
    1.  

Eins og sést getur gervigreind hjálpað okkur með fjölmörg verkefni sem tengjast heimilinu og sjálfsagt eru þau enn fleiri en þessi. Gervigreindin þróast nú á ógnarhraða og hver veit hvað hún getur gert eftir mánuð, eða ár. En nú er bara næsta skref að prófa þetta sjálf og sjá hvað gervigreind getur gert. 

Athugið samt að það getur komið eitthvað algjört bull frá gervigreindinni, sérstaklega þegar hún er spurð á íslensku. Sem dæmi um villur sem hún getur gert er að búa til ný orð og þegar við báðum hana um að búa til matseðil fyrir okkur fyrir næstu viku var þetta í matinn:

  • Mánudagur: Ferskálgasúpa með hráu grænmeti, brúnað kalkúnabrjóst með sojasósu, sítrónu og hvítlauk og steiktar kartöflur og salat.
  • Þriðjudagur: Pönnusteiktur lax með smjörsósu, steikt hveiti eða kartöflugratín og graænmetissalat með sírópi.
  • Miðvikudagur: Grænmetislasagna með nýróti og salat með valhnetum. 
  • Fimmtudagur: Púðursuðuð kjúklingabringa, brúnaðar kartöflur með rósmaríni og steiktar gulrætur og blómkál.
  • Föstudagur: Steiktur fiskur með hveitisgrjónasalati og grænmetisgrjónasalat með olíu- og ediksósu.

Frekar skrítnar hugmyndir hjá henni en þetta getur veitt manni innblástur fyrir matseðilinn. Séu nákvæmlega sömu fyrirmæli þýdd yfir á ensku og gervigreindin spurð á ensku er matseðillinn mun betri og með leiðbeiningum:

  • Mánudagur: Ofnsteiktur kjúklingur með grænmeti 
    • Steikið kjúklingabringur með kryddjurtum og kryddum að eigin vali
    • Grænmeti (gulrætur, brokkolí, blómkál og kúrbítur) með ólífuolíu, salt og pipar.
    • Borið fram með hrísgrjónum eða kínóa.
  • Þriðjudagur: Veltisteikt naut
    • Veltisteikt naut með grænmeti eins og sveppum, sykurbaunum, gulrótum og bok choy. 
    • Notið heimatilbúna stir-fry sósu búna til úr sojasósu, engifer, hvítlauk og hunangi.
    • Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum. 
  • Miðvikudagur: Grænmetistaco
    • Grænmetistaco fyllt með svörtum baunum, lauk og papriku.
    • Toppað með salati, tómötum, avókadó og sýrðum rjóma. 
    • Berið fram með heilhveititortillum.

Það er líklega betra að spyrja gervigreindina á ensku, ef það er möguleiki, enn sem komið er en vonandi lagast íslenskan í framtíðinni.