maí 2023

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Norðurlandi

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Norðurlandi

Þegar maí fer senn að ljúka heldur Heimilisvefurinn áfram ferð sinni um tjaldsvæði landsins og erum við nú stödd á Norðurlandi. Tjaldsvæðin voru valin eftir því hversu mikil skemmtun og afþreying er fyrir börnin í allra næsta nágrenni, helst á eða alveg við tjaldsvæðið sjálft (þó stundum séu gerðar smá undantekningar). 

 

Hér eru þau tjaldsvæði á Norðurlandi sem okkur á Heimilisvefnum þótti hljóma mest spennandi fyrir fjölskyldur fyrir komandi útilegur í sumar.  Þetta eru tjaldsvæði sem eru t.d. nálægt sundlaugum og skólum, tjaldsvæði sem hafa eitthvað alveg einstakt í næsta nágrenni við sig eða bjóða jafnvel upp á dagskrá.

12. Tjaldsvæðið á Sauðárkróki

Við hlið Sundlaugar Sauðárkróks er að finna ágætis tjaldsvæði með ærlsabelg fyrir krakkana. Stutt í alla helstu þjónustu.

11. Tjaldsvæðið á Raufarhöfn

Tjaldsvæðið á Raufarhöfn er vel staðsett hvað varðar afþreyingu, alveg upp við sundlaugina og grunnskólann. Þar að auki er tjörn alveg við tjaldsvæðið.

freysteinn-g-jonsson-6AXFYOOtY3k-unsplash
Grenivík

10. Tjaldsvæðið á Grenivík

Á Grenivík er tjaldsvæðið staðsett alveg við sundlaugina og grunnskólann og því er mjög stutt í sund og á góðan leikvöll.

9. Tjaldsvæðið á Hauganesi

Á tjaldsvæðinu á Hauganesi er fínasta aðstaða og þar er stutt í leikvöll fyrir krakkana með nýjum leiktækjum og í fallega sandfjöru með heitum pottum og sturtuaðstöðu.

8. Tjaldsvæðið í Varmahlíð

Tjaldsvæðið í Varmahlíð er gróið og fín svæði með ærslabelg fyrir krakkana. Í 250 metra fjarlægð er sundlaug og grunnskóli svo það er stutt að fara í sund og á góðan leikvöll.

7. Tjaldsvæðið á Dalvík

Á Dalvík er ágætis tjaldsvæði sem er staðsett við hlið sundlaugarinnar og grunnskólans í bænum. Þar er því góður leikvöllur og stutt í útisundlaug með rennibraut.

freysteinn-g-jonsson-DvXzEvyFI8Q-unsplash
freysteinn-g-jonsson-0AJy9qPFhZc-unsplash

6. Tjaldsvæðið á Hrafnagili

Tjaldsvæðið Hrafnagili er mjög fjölskylduvænt tjaldsvæði og þar er leiksvæði fyri rbörnin við grunnskólann og góð útisundlaug með rennibraut.

5. Tjaldsvæðið á Hofsósi

Tjaldsvæðið á Hofsósi er ágætis tjaldsvæði sem er staðsett við hlið grunnskóla bæjarins og því er stutt á skemmtilegan leikvöll. Einnig er mjög stutt í eina glæsilegustu sundlaug landsins.

Hofsós_(36844196201)
Gamla_bogabrúin_á_Fnjóská_og_Vaglaskógur

4. Tjaldsvæðið í Vaglaskógi

Tjaldsvæðið í Vaglaskógi skiptist í fimm mismunandi svæði. Á stærsta svæðinu, Hróarsstaðanesi, er mjög skemmtilegt leiksvæði fyrir börn þar sem m.a. er ærslabelgur og klifurpýramídi. Skógurinn sjálfur er svo ævintýri út af fyrir sig og auðvelt er að fara í skógarferðir vítt og breitt um Vaglaskóg af tjaldsvæðinu. Hægt er að fá göngustígakort hjá starfsfólki. Einnig verður að minnast á Tjaldsvæðið Systragil sem er skammt frá. Þar eru einnig leiktæki fyrir börn og stutt í skógarferðir í Vaglaskógi.

3. Tjaldsvæðið Ólafsfirði

Tjaldsvæðið í Ólafsfirði hefur allt sem þarf fyrir fjölskyldur. Á tjaldsvæðinu sjálfu er ærslabelgur fyrir krakkana. Sundlaug bæjarins er alveg við tjaldsvæðið og þar er ein stærri rennibraut og ein lítil fyrir yngri börnin. Grunnskóli Fjallabyggðar stendur þar rétt hjá og þar er fín skólalóð. Það sem gerir tjaldsvæðið mjög skemmtilegt er tjörnin, en þar er hægt að reyna að veiða síli eða gefa fuglunum brauð. Eini skíðastökkpallur landsins er einnig að finna fyrir ofan tjaldsvæðið.

Tjaldsvæðið Óló

2. Tjaldsvæðið Ásbyrgi

Tjaldsvæðið í þessari náttúruperlu er spennandi fyrir fjölskyldur því þar er í fyrsta lagi stutt í gríðarlega fallega náttúru. Það er leikvöllur á svæðinu og fjölbreytt dagskrá á sumrin, t.d. barnastundir, kvöldgöngur og varðeldur um verslunarmannahelgina.

1. Tjaldsvæðið Hömrum við Kjarnaskóg

Eitt glæsilegasta tjaldsvæði landsins er án efa á Hömrum við Kjarnaskóg. Fyrir utan mjög spennandi leiksvæði fyrir börn er einnig minigolfvöllur á svæðinu, þrjár mismunandi tjarnir, ein þar sem í boði er að leigja báta og róa á tjörninni, önnur sem er grunn tjörn til að vaða í og þar er líka þraut sem hægt er að spreyta sig á, í þriðju tjörninni eru leiktæki og rennibraut, risa fótboltaspil og frisbígolfvöllur. Auðvitað er svo skógur allt í kring og hægt að fara í alls kyns skemmtilegar gönguferðir frá tjaldsvæðinu.

Akureyri-12-Zentrum-2018-gje

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Norðurlandi Read More »

Hvað er gott að taka með í útileguna?

Hvað er gott að taka með í útileguna?

Það er yndislegt að fara með fjölskyldu og/eða vinum í útilegu á Íslandi. Veðrið er kannski ekki alltaf að vinna með manni en minningarnar eru ómetanlegar. Það sem gerir útilegur líklegri til að verða vel heppnaðar er auvitað góður undirbúningur og réttur búnaður. Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir hluti og búnað sem gott er að taka með sér í útilegu á Íslandi. Það eru ekki allir hlutir á listanum bráðnauðsynlegir en margir gætu komið sér mjög vel. Þið finnið auðvitað út úr því sjálf hvað hentar fyrir ykkur.

Grunnurinn

Tjald og tjaldhælar

Bönd

Svefnpokar/sængur

Dýnur 

Koddar

Teppi

Vasaljós

Vasahnífur

Límband/teip

Borð og stólar

Matreiðsla

Prímus

Ferðagrill

Kol og grillvökvi eða gaskútur

Grilláhöld og bakkar

Álpappír

Litlir plastpokar og ruslapokar

Eldspýtur eða kveikjari

Pottur og panna

Áhöld (t.d. Spaði, hnífur og sleif)

Hnífapör

Diskar, glös, bollar, skálar

Skæri

Skurðarbretti

Tappatogari eða dósaopnari

Vatnsflaska

Kælitaska

Matur/nesti

Matarolía/smjör

Salt, pipar og krydd

Kaffi og allt tengt því

Uppþvottalögur og bursti

Viskustykki og tuskur

Eldhúspappír

 

Ef ungt barn er með

Ferðarúm/burðarrúm

Svefnpoki/kerrupoki

Ferðakerra

Bleyjur

Snuð

White noise

Barnamatur

Blautþurrkur

Skiptitaskan

Leikföng (ekki of mikið)

Fatnaður

Hlý ullarnærföt

Bolir og stuttbuxur

Sundföt

Yfirhafnir (regnjakki, úlpa…)

Lopapeysa eða önnur hlý peysa

Góðir skór og sokkar

Náttföt

Húfa og vettlingar

Buxur og peysur

Nærföt

 

Hreinlæti o.fl.

Tannkrem og tannbursti

Sólarvörn

Blautþurrkur

Handklæði

Skyndihjálparkassi (plástrar o.fl.)

Ofnæmistöflur og lyf

Skordýrafæla 

Handspritt

Rakvél

Kælikrem/after sun

Sjampó og hárnæring

Svitalyktareyðir

Dömubindi og tappar

Rakakrem

 

Annað

Hamar (fyrir tjaldhæla)

Lítill bakpoki/sundpokar

Afþreying (t.d. Bók, krossgátublað, tímarit, spilastokkur, kubbur, boltar, frisbídiskur, leikföng)

Sólgleraugu

Eyrnatappar

Kort/peningar

Ökuskírteini

Hleðslutæki

Sími

Myndavél

Fyrir þau sem finnst gott að fá lista til að prenta út er hér pdf-skjal með tékklista. Á listanum eru auðar línur svo hægt sé að bæta við hlutum á hann.

Hvað er gott að taka með í útileguna? Read More »

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Vestfjörðum og Vesturlandi

Nú nálgast júnímánuður óðfluga og líklega er kominn ferðahugur í marga. Það er fátt skemmtilegra en að nýta íslenska sumarið í góða útilegu. Þau sem ætla sér að fara í útilegur í sumar, keyra jafnvel hringinn í kringum landið, eru sjálfsagt farin að velta því fyrir sér hvert þau ættu að fara og hvar þau ættu að tjalda. Tjaldsvæði á Íslandi eru orðin ótalmörg og eru misspennandi auðvitað.

Heimilisvefurinn hefur hér tekið saman lista yfir tjaldsvæði á Vestfjörðum og Vesturlandi sem gætu verið spennandi og skemmtileg fyrir fjölskyldur með börn með það í huga að þar er spenanndi afþreying í boði fyrir krakkana í allra næsta nágrenni. Þetta eru t.d. tjaldsvæði sem eru nálægt skólalóðum og sundlaugum eða öðru skemmtilegu sem gerir tjaldsvæðið sérlega spennandi eins og fjara og skógur.

bolungarvik

15. Tjaldsvæðið í Bolungarvík

Í Bolungarvík er tjaldsvæðið staðsett alveg við sundlaug bæjarins (hún er með rennibraut) og þar skammt frá er einnig grunnskólinn. Það er því mjög stutt í sund og á góðan leikvöll. Hólsá rennur meðfram tjaldsvæðinu.

14. Hverinn, Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði

Á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði er Hverinn, sem er notalegt tjaldsvæði í gróðursælu umhverfi. Tjaldsvæðið er staðsett við skóla og sundlaug, svo það er stutt í sund og á góðan leikvöll.

13. Laugar í Sælingsdal

Á Laugum í Sælingsdal er rekið hótel og tjaldsvæði. Góð sundlaug er á staðnum og leikvöllur fyrir krakkana. Lækur rennur í gegnum svæðið og góðar gönguleiðir eru allt í kring.

12. Tjaldsvæðið í Grundarfirði

Tjaldsvæðið í Grundarfirði er staðsett efst í bænum og er við grunnskólann og sundlaugina. Það er því stutt að komast í sund og að leika á skólalóðinni. Við tjaldsvæðið er einnig ærslabelgur og mjög stutt er í gönguleiðir í náttúrunni í kring.

11. Tjaldsvæðið á Þingeyri

Á Þingeyri er fínasta tjaldsvæði sem er staðsett við íþróttamiðstöð bæjarins. Í íþróttamiðstöðinni er innisundlaug, heitur pottur og sauna, við hann er svo strandblaksvöllur og ærslabelgur. Skammt frá tjaldsvæðinu er Víkingasvæðið á Þingeyri og þangað er gaman að kíkja.

10. Tjaldsvæðið á Tálknafirði

Tjaldsvæðið á Tálknafirði er staðsett við sundlaug og grunnskóla bæjarins. Það er því stutt að fara í mjög fína útisundlaug með vaðlaug og rennibraut og að leika á skólalóðinni. 

9. Tjaldsvæðið á Ísafirði

Tjaldsvæðið á Ísafirði er stað sett í hinum gróna og skjólsæla Tungudal. Á tjaldsvæðinu er leiksvæði fyrir börn en það sem gerir tjaldsvæðið sérstakt er náttúran í kring. Skammt frá tjaldsvæðinu er skógrækt bæjarins og þar er hægt að fara í ævintýraferðir í skóginum. Við skóginn rennur svo Bunárfoss sem gaman er að skoða.

8. Tjaldsvæðið á Borðeyri

Borðeyri er eitt minnsta þorp á Íslandi og þar er þetta fína tjaldsvæði sem er staðsett við sjóinn og því er mjög stutt að fara í fjöruferð. Skammt frá er einnig grunnskólahús sveitarinnar og þar er ágætis leikvöllur.

7. Bjarteyjarsandur

Tjaldsvæðið á Bjarteyjarsandi er skjólgott og þar er að finna leikvöll fyrir börnin og margar gönguleiðir eru í nágrenninu. En það sem gerir þetta tjaldsvæði sérlega skemmtilegt er að það að þar er hægt að fá skoðunarferð um bóndabæinn. 

6. Tjaldsvæðið í Súðavík

Tjaldsvæðið í Súðavík er kannski frekar venjulegt tjaldsvæði að mörgu leiti en það kemst á þennan lista vegna þess að í einungis fimm mínútna göngufjarlægð er Raggagarður. En Raggagarður er stór leikvöllur fyrir börn með mjög spennandi leiktækjum.

5. Tjaldsvæðið Djúpadal

Í Djúpadal er rekin bændagisting og þar er hægt að rekast á heimalinga og hunda í túninu. Á svæðinu er leikvöllur fyrir börn og ærslabelgur. Lítil innilaug og heitir pottar á palli eru í Djúpadal og skemmtilegar gönguleiðir eru í nágrenninu.

4. Tjaldsvæðið á Melanesi á Rauðasandi

Á tjaldsvæðinu á Melanesi á Rauðasandi er vissulega leikvöllur en hann er svo sannarlega ekki ástæða þess að tjaldsvæðið kemst á þennan lista. Tjaldsvæðið er nefnilega staðsett alveg við sandinn rauða og fagra. Þarf að segja meira?

freysteinn-g-jonsson-1_qqYCOhVuU-unsplash

3. Tjaldsvæðið í Húsafelli

Tjaldsvæðið í Húsafellsskógi er í göngufæri við sundlaug og skemmtileg leiktæki, m.a. ærslabelg. Á laugardagskvöldum yfir hásumarið er tendraður varðeldur ef veður leyfir. Í tjaldmiðstöðinni er líka hægt að leigja bolta og kubbaspil.

2. Tjaldsvæðið í Heydal í Mjóafirði

Að koma í Heydal í Mjóafirði er ævintýri líkast. Heydalur er skjólsæll dalur og þar er hótel ásamt tjaldsvæði og veitingastað. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börn en einnig er mjög skemmtileg sundlaug á svæðinu og er hún staðsett í gömlum uppgerðum fjárhúsum ásamt því að þar eru heitir pottar og náttúrulaug. Náttúran er allt í kring og skemmtilegar gönguferðir eru í nágrenninu og boðið er upp á hestaleigu á hótelinu og sömuleiðis er hægt að leigja kajaka. Síðast en ekki síst er talandi páfagaukur á staðnum!

1. Fossatún í Borgarfirði

Á Fossatúni er nokkuð sérstakt tjaldsvæði því þar er Tröllagarðurinn, sem er göngu-, leik- og útivistarsvæði fyrir fjölskyldur. Þar er hægt að fara í alls kyns tröllaleiki, leika sér á leikvellinum, fara í mini golf og margt fleira. Mjög mikil afþreying er þarna í boði fyrir krakkana. 

Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Vestfjörðum og Vesturlandi Read More »

Sjómannadagurinn 2023 – Hvað er um að vera og hvað er hægt að gera?

Mynd: Matheus Bertelli
Mynd: Matheus Bertelli

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur fyrsta sunnudag í júní hvert ár, nema ef hvítasunnu ber upp þann dag og er þá sjómannadagurinn haldinn helgina eftir. Í ár verður sjómannadagurinn haldinn hátiðlegur þann 4. júní. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en það var ekki fyrr en 1987 sem dagurinn varð lögskipaður frídagur sjómanna. 

Á sjómannadaginn heiðrum við sjómenn. Ísland er eyja og því haf allt í kringum okkur. Í gegnum aldinar hefur hafið gefið og tekið frá okkur. Hafið hefur haldið í okkur lífinu hér á þessu hrjóstuga landi lengst í norðri og stuðlað að velmegun íslensks samfélags. 

 

Víða um land er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur með skemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Það er tilvalið að skella sér á einhverra þeirra ef tækifæri gefst. Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir bæi þar sem sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í ár:

Ef þú sérð að einhvern bæinn vantar skaltu endilega hafa samband og láta okkur vita á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is 

Fyrir þau sem komast ekki á sjómannadagsskemmtanir eða langar að gera meira þá er auðvitað mjög gaman að skella sér í fjöruferð. Ef það er heldur ekki í boði eru hér nokkrar hugmyndri að einhverju sjómannalegu til að dunda við inni.

 

Heimilisvefurinn býður upp á ókeypis skemmtihefti fyrir börn með sjávar- og sjómannadagsþema. Hægt er að ná í það hér.

 

Svo er gaman að perla, leira eða teikna eitthvað tengt sjónum.

 

Enn fleiri hugmyndir er hægt að finna á pinterestsíðu Heimilisvefsins. 

 

Góða skemmtun!

Sjómannadagurinn 2023 – Hvað er um að vera og hvað er hægt að gera? Read More »

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt

Já, það hugsa kannski ekki allir um Neðra-Breiðholtið sem ævintýralegt hverfi en engu að síður er hægt að fara í mjög skemmtilega ævintýraferð um hverfið. 

 

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins ásamt ratleik með níu spurningum. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum upp í 31 (já, það eru svona margir leikvellir í hverfinu!) og er það tillaga að því hvernig er hægt að fara um hverfið og prófa að leika sér á öllum leikvöllunum. Á sumum stöðunum þarf að leita að rétta svarinu við spurningunum sem fylgja.

 Í ævintýraferðina er gott er að taka með sér nesti og vatnsbrúsa og blýant eða penna til að skrifa niður svörin. Eins og áður sagði eru 31 leikvöllur af öllum stærðum og gerðum  í hverfinu svo ævintýraferðin tekur mjög líklega stóran hluta af deginum, sérstaklega ef prófa á öll tækin á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið. 

 

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Margir leikvallanna í þessari ævintýraferð eru á einkalóðum fjölbýlishúsa. Það er því mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana og ef íbúarnir vilja, einhverra hluta vegna, ekki fá aðra á lóðina til sín skal virða það í einu og öllu. Farið líka varlega, sum leiktækin eru komin til ára sinna, sérstaklega við eldri fjölbýlishús og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Hægt er að sækja pdf-skjal af ævintýraferðinni til útprentunar hér. Það er líka vel hægt að hafa það í símanum en þá er ekki hægt að skrifa niður svörin í ratleiknum.

 

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Neðra-Breiðholt Read More »

28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir fyrir kósýkvöldin

Það kemur eflaust nokkrum á óvart að sjá að það eru til allavega 28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir – kvikmyndir gerðar sérstaklega með börn í huga. Í þessari tölu eru engar myndir sem teljast sérstaklega til grínmynda þó margar þeirra séu vissulega mjög fyndnar. Kvikmyndirnar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Þær höfða ekki allar til allra (en það á líka við um allar myndir) og hæfa mismunandi aldri. 

Ef áhugi er á að reyna að setja sér það markmið að reyna að sjá allar myndirnar er hægt að prenta út gátlistann og haka við myndir sem búið er að horfa á. Eins væri hægt að gefa hverri kvikmynd einkunn eða stjörnur. 

Góða skemmtun!

28 íslenskar barna- og fjölskyldumyndir fyrir kósýkvöldin Read More »

Seinni undanúrslit Eurovision 2023

Nú er minna en vika í að Diljá, fulltrúi Íslands í Eurovision í ár, stígi á svið í Liverpool þann 11. maí. Við hér á Heimilisvefnum erum handviss um að hún eigi eftir að fljúga í úrslitin með þessu frábæra lagi. 
Flestir landsmenn munu að öllum líkindum setjast niður við sjónvarpið þetta kvöld og horfa á Ísland keppa. Til að gera kvöldið enn betra og skemmtilegra væri gaman að bjóða upp á veitingar frá löndunum sem eru að keppa þetta kvöld. En eins og í áður útgefinni færslu Heimilisvefsins um fyrra undanúrslitakvöldið verða hér upp taldar veitingar sem þarfnast lítils undirbúnings, eitthvað sem hægt er að kaupa í næstu verslun. 

  • Danmörk: Dagana 4.-14. maí eru einmitt danskir dagar í Hagkaup, þar ætti að vera hægt að finna fullt í Eurovisionpartýið. Annars er Owl-snakkið danskt og sömuleiðis Kim’s og Gestus-vörumerkin. Cocio-kókómjólkin er framleidd í Esbjerg í Danmörku og svo er ekki erfitt að kaupa eða búa til einfalt smurbrauð.
  • Rúmenía og Albanía: Ef fólk hefur tök á að kíkja á Istanbul market gæti verið til eitthvað af snakki, nammi og öðrum vörum frá löndunum á Balkanskaga.
  • Belgía: Belgar fundu upp á frönskum og því er við hæfi að bjóða upp á slíkt en þar eru þær alltaf borðaðar með mæjónesi. Belgar eru líka frægir fyrir belgískar vöfflur og súkkulaði. Af belgísku súkkulaði má nefna Godiva, Guylian, Cavalier (sykurlaust) og Cote d’Or vörumerkin. Cote d’Or er fyrirtækið sem framleiðir fílakaramellur, sem allir Íslendingar ættu að þekkja.
  • Kýpur: Halloumi-ostur (kallast grillostur hjá MS), ólífur og pítubrauð.
  • Ísland: snakk og nammi í næstu búð?
  • Grikkland: Fetaostur, ólífur og pítubrauð. Baklava er líka vinsæl þar (og reyndar í mörgum löndum á Balkanskaga), hana er hægt að fá í miðausturlenskum búðum. 
  • Pólland: Prins póló og svo er til fullt í næstu pólsku verslun. Endilega prófið eitthvað nýtt og skemmtilegt. 
  • Austurríki: Eins og Mozart var sjálfur, eru mozartkúlur frá Austurríki og Red Bull líka. Það ætti að halda öllum vakandi fram yfir úrslit! (Red Bull er samt auðvitað bara fyrir fullorðna)

Til að gera áhorfið enn meira spennandi og skemmtilegt er hægt að prenta út þetta stigablað hér fyrir neðan. Á blaðinu er hægt að gefa hverju atriði fyrir sig stig fyrir flutning, lag og atriði. Stigin geta verið í Eurovision-stíl, frá 1-8, 10 eða 12 stig eða eins og hver vill. Með þessu er hugsanlega hægt að spá fyrir um hvaða lönd komast áfram. Það er einnig hægt að leggja saman stig allra áhorfendanna í stofunni og sjá hvort að það sé betri spá.

Góða skemmtun og gleðilega Eurovisionhátíð!

Seinni undanúrslit Eurovision 2023 Read More »