Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Austurlandi
Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur - á Austurlandi
Við höldum áfram umfjöllun okkar á skemmtilegum tjaldsvæðum fyrir fjölskyldur og höldum nú á Austurland. Þessa dagana virðist stefna í gott og hlýtt sumar á því svæði, svo mörg fara eflaust þangað í útilegu í sumar. Eins og áður voru tjaldsvæðin valin út frá því hversu mikil afþreying væri á þeim í allra næsta nágrenni.
Hér eru þau tjaldsvæði á Austurlandi sem okkur á Heimilisvefnum þótti hljóma mest spennandi fyrir fjölskyldur fyrir komandi útilegur í sumar. Þetta eru tjaldsvæði sem eru t.d. nálægt sundlaugum og skólum, tjaldsvæði sem hafa eitthvað alveg einstakt í næsta nágrenni við sig.
9. Tjaldsvæðið á Reyðarfirði
Tjaldsvæðið á Reyðarfirði er staðsett í útjaðri bæjarins og við Andapollinn sem er lítil tjörn. Stutt er út í náttúruna.
8. Tjaldsvæðið á Bakkafirði
Tjaldsvæðið á Bakkafirði er staðsett í miðju þorpinu. Þar er stutt í fjölmargar gönguleiðir en á tjaldsvæðinu er fótboltavölur, ærslabelgur og frisbígolfvöllur.
7. Tjaldsvæðið á Seyðisfirði
Tjaldsvæðið á Seyðisfirði er staðsett mjög miðsvæðis svo stutt er að kíkja á aðalgötuna sem skreytt er í öllum regnbogans litum. Á tjaldsvæðinu er leikvöllur fyrir börn.
6. Tjaldsvæðið í Sandafellsskógi
Eins og nafnið getur til kynna er tjaldsvæðið staðsett í skógivöxnu landi og mikið er af fallegum gönguleiðum en einnig er boðið upp á hestaferðir um skóginn. Um tjaldsvæðið rennur lítill lækur og hann getur haldið börnunum að leik tímunum saman.
5. Tjaldsvæðið í Neskaupstað
Tjaldsvæðið í Neskaupstað er á fallegum útsýnisstað við snjóflóðarvarnargarðana í Drangagili. Á svæðinu er leikvöllur og strandblakvöllur. Hægt er að ganga upp á varnargarðana.
4. Tjaldsvæðin í Hallormsstað - Atlavík og Höfðavík
Tjaldsvæðin í Hallormsstað eru í skógivöxnu umhverfi með yfir 40 km af gönguleiðum á svæðinu. Í skóginum er líka fjölskylduvænt trjásafn með yfir 90 trjátegundir. Leikvöllur og ærslabelgur eru á svæðinu og stutt á “ströndina” við Lagarfljót tjaldi fólk á neðsta svæðinu.
3. Tjaldsvæðið á Breiðdalsvík
Á Breiðdalsvík er fínasta tjaldsvæði í miðjum bænum. Stutt er í sundlaugina og skólalóðina við grunnskólann. Á tjaldsvæðinu sjálfu er leikvöllur.
2. Tjaldsvæðið á Eskifirði
Tjaldsvæðið á Eskifirði er staðsett við Bleiksána og skógrækt er allt í kring. Það eru því fínar gönguleiðir í næsta nágrenni og leikvöllur er á svæðinu. Mjög stutt er í sundlaugina, sem er mjög fín útilaug með þremur rennibrautum og barnavaðlaug.
1. Tjaldsvæðið á Borgarfirði eystra
Tjaldsvæðið á Borgarfirði eystra er staðsett við rætur Álfaborgar og er nálægt allri þjónustu. Í fimm mínútna göngufjarlægð er ærslabelgur og frisbígolfvöllur er inn af tjaldsvæðinu. Gönguleiðir eru fjölmargar allt í kring. Það sem gerir þetta tjaldsvæði hins vegar meira spennandi en önnur tjaldsvæði á Austurlandi, að okkar mati, er það að í þjónustuhúsinu við tjaldsvæðið er rými með litlu bókasafni og spilum, sem er eitthvað sem við höfum ekki rekist á áður á öðrum tjaldsvæðum. Þar að auki er hægt að leigja frisbídiska og fjallahjól í móttökunni.
Skemmtileg tjaldsvæði fyrir fjölskyldur – á Austurlandi Read More »