cloe

Útigrill á höfuðborgarsvæðinu

Útigrill á höfuðborgarsvæðinu

Það er fátt sumarlegra, bragðbetra og skemmtilegra en að grilla á sumrin! Það er enn skemmtilegra að grilla úti í náttúrunni. Það að búa til skemmtilegan dag með vinum og ættingjum þar sem er farið út og grillað saman er ævintýri líkast fyrir unga sem aldna. Mjög oft er leiksvæði eða grasflöt við útigrillin og því hægt að leika sér í leiktækjum eða fara í leiki. Athugið að stundum geta grillin þurft á hreingerningu að halda áður en grillað er. 

 

Þar sem grillin eru kolagrill er nauðsynlegt að taka með sér;

– kol

– grillvökva

– eldspýtur eða kveikjara

– grillbursta, töng og/eða spaða

– eldhúspappír, tusku og/eða viskustykki

Svo má ekki gleyma;

– mat á grillið og meðlæti

– diskum, glösum og hnífapörum (fer eftir því hvað á að grilla – stundum þarf líka skeiðar í meðlætið)

– eldhúspappír/servíettum

Annað sem gæti verið gaman að hafa með;

– teppi á grasið

– boltar, kubbur, frisbídiskar eða önnur útileikföng

 

Heimilisvefurinn hefur tekið saman staði á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru útigrill til notkunar fyrir almenning. Með tíð og tíma bætist vonandi við listann. 

Aparóló við Rauðalæk

Staðsetning: opið grænt svæði milli Rauðalækjar og Bugðulækjar

Aðstaða: kolagrill og bekkir

Í kring: leiktæki og stórt tún

Bílastæði: í götum í kring

Bryggjuhverfið

Staðsetning: Við Gullinbrú

Aðstaða: eitt kolagrill og borð með bekkjum

Í kring: skjólgóður leikvöllur með leiktækjum fyrir börn á öllum aldri (ungbarnaróla líka), ærslabelgur, fótboltavöllur og stór grasflöt sem hentar til leikja

Bílastæði: við Básbryggju eða Naustabryggju, strætó stoppar einnig skammt frá

Grafarvogur

Staðsetning: Við Logafold, í botni Grafarvogs

Aðstaða: eitt kolagrill og eitt borð með bekkjum

Í kring: skjólgott og gróið leiksvæði með leiktækjum, körfuboltavöllur, ærslabelgur, svæði með æfingatækjum, grasflöt og völlur fyrir hjól/hjólabretti/hlaupahjól. Stundum sést í hestana við Keldur

Bílastæði: í götu við Logafold

Guðmundarlundur

Staðsetning: í Vatnsendahlíð í Vatnsendalandi í Kópavogi 

Aðstaða: tvö kolagrill ásamt grillburstum og borð og bekkir, klósett

Í kring: skjólgóð skógrækt með mini-golfi, frisbígolfi, grasflöt og leiksvæðum

Bílastæði: við Guðmundarlund

 

Gufunesbær

Staðsetning: Við leikvöllinn í Gufunesbæ

Aðstaða: gott grillskýli og bekkir

Í kring: ótrúlega flottur og spennandi leikvöllur, strandbaksvellir, hjólabraut og náttúra

Bílastæði: Við Gufunesbæ

Heiðmörk

Í Heiðmörk eru nokkrir staðir með útigrilli:

  • Fræðslurjóður – hlóðir til að kveikja eld, bekkir og borð
  • Furulundur – leiktæki, blakvöllur og grillaðstaða
  • Grenilundur – grillaðstaða, og leik- og klifurtæki
  • Helluvatn – grillaðstaða undir þaki
  • Hjallaflatir – fótboltavöllur og grillaðstaða
  • Símamannalaut – grill, borð og bekkir
  • Vífilsstaðahlíð – yfirbyggt útigrill
  • Vígsluflöt – Rariklundur – grill, borð og bekkir
  • Þjóðhátíðarlundur – grill, borð og bekkir, bílastæði, leiktæki og fótboltavöllur
Hér má finna kort af Heiðmörk
Hljómskálagarðurinn

Staðsetning: miðborg Reykjavíkur

Aðstaða: eitt grill og borð með bekkjum

Í kring: grasflöt, tjörn og leiksvæði

Bílastæði: í nærliggjandi götum

Hvaleyrarvatn

Staðsetning: annað grillið er við austanvert vatnið, hitt vestanvert

Aðstaða: kolagrill, borð og stólar

Í kring: göngustígar, skógur og vatn

Bílastæði: norðan og vestan við vatnið

Nauthólsvík

Staðsetning: ylströndin Nauthólsvík

Aðstaða: grill og bekkir

Í kring: ylströndin, búningsklefar, heitur pottur, leiktæki, sjoppa og margt fleira

Bílastæði: við ylströndina, eða jafnvel við Háskóla Reykjavíkur

Rauðavatn

Staðsetning: við Hádegismóa við norðanvert vatnið 

Aðstaða: grillskýli og bekkir

Í kring: Rauðavatn, bekkir og náttúran

Bílastæði: Hádegismóar

Stekkjarflöt

Staðsetning: milli leikvallar og tjarnarinnar

Aðstaða: kolagrill, grillskýli og ruslatunna

Í kring: ærslabelgur, leiktæki og tjörn

Bílastæði: við Stekkjarflöt og í Álafosskvos

Úlfarsárdalur

Staðsetning: við göngustíg í miðjum Úlfarsárdal

Aðstaða: tvö útigrill og fjórir bekkir með borðum í litlu skýli

Í kring: náttúra, nokkur spotti í leiksvæði en náttúran er allt í kring

Bílastæði: við Dalskóla eða íþróttahús Fram

Yndisgarðurinn í Fossvogi

Staðsetning: í botni Fossvogs

Aðstaða: grill, bekkir

Í kring: eplagarður, skógur og norrænn rósagarður

Bílastæði: við Fossvogsbrún eða Kjarrhólma

Viðey

Staðsetning: hesthúsið fyrir aftan Viðeyjarstofu

Aðstaða: kolagrill

Í kring: Viðeyjarstofa, leiksvæði, fjara, salernisaðstaða, náttúra

Ferja: sjö ferðir eru farnar á dag frá Skarfabakka á sumrin, ein frá gömlu höfninni

Ævintýragarðurinn

Staðsetning: Ullarnesbrekkur í Mosfellsbæ

Aðstaða: grillskýli, kolagrill, rusl, bekkur og borð

Í kring: leiktæki, grasflöt, ærslabelgur

Bílastæði: Við Varmárlaug

Útigrill á höfuðborgarsvæðinu Read More »

Hugmyndir fyrir sumardaginn fyrsta

Hugmyndir fyrir sumardaginn fyrsta

Það styttist í sumarið, eða a.m.k. sumardaginn fyrsta. Sumardagurinn fyrsti er fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl ár hvert og er fyrsti dagur Hörpu. Harpa er því fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. 

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar. Það þýðir að ef hiti fer niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta á sumarið að verða gott.

Hefðir á sumardaginn fyrsta

Haldið hefur verið upp á sumardaginn fyrsta á Íslandi í margar aldir og var hann lengi talinn fyrsti dagur ársins. Nokkrar hefðir hafa tengst þessum degi í gegnum aldirnar:

  • Fyrsti dagur sumars var frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við önnur börn. Þess vegna er dagurinn oft sagður vera dagur barnanna og Reykjavíkurborg heldur barnamenningarhátíð í kringum þennan dag. 
  • Þessi dagur var einnig helgaður ungum stúlkum áður fyrr og nefndur yngismeyjadagur. Strákar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Dagurinn er því sambærilegur við bóndadaginn og konudaginn á fyrsta degi þorra og góu.
  • Matarveisla var haldin þennan dag og í dag halda margir grillveislu þennan dag. Ekki er vitlaust að bjóða upp á góðan eftirrétt eða hafa eitthvað með kaffinu.
  • Vitað er til þess að sumargjafir hafi verið gefnar að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Sá siður hefur haldist og enn í dag fá flest íslensk börn sumargjafir þennan dag.
Hugmyndir að sumargjöfum

Á sumardaginn fyrsta er oft farið að hlýna aðeins í veðri en þó er oftast nokkuð svalt ennþá. Sumargjafir eru oftast gjafir sem eiga að nýtast til leikja á sumarmánuðunum þegar hlýrra er í veðri og kosta yfirleitt ekki mikið. Hér eru nokkrar hugmyndir að sumargjöfum fyrir káta krakka:

Þessar klassísku:

  • Krítar
  • Sápukúlur
  • Vatnsblöðrur (hægt að fá fjölnota)
  • Vatnsbyssur
  • Flugdreki
  • Sandleikföng (skófla, fata o.fl.)

Boltar

  • Fótbolti
  • Körfubolti
  • Brennibolti
  • Skopparabolti

Tengt hreyfingu:

  • Trampólín
  • Hjól
  • Hlaupahjól
  • Hjóla- eða línuskautar
  • Hjólabretti
  • Hjálmur
  • Sultur
  • Húllahringur
  • Sippuband/snúsnúband
  • Frisbídiskur
  • Uppblásin sundlaug eða annað vatnsleikjadót
  • Fótboltamark
  • Badmintonspaðar
  • Minigolf
  • Útileikir/spil (krokkett og kubb)

Annað:

  • Gjafabréf (t.d. í ísbúð eða í húsdýragarð)
  • Hátalari eða útvarp
  • Jójó
  • Ísform
  • Hengirúm
  • Fræ

Gjafir tengdar sundi:

  • Sundföt
  • Kútar
  • Froskalappir
  • Sunddýna
  • Sundhringur
  • Sundbolti
  • Sundgleraugu

Fatnaður:

  • Jakki
  • Sumarkjóll
  • Stuttbuxur
  • Derhúfa
  • Sólgleraugu
  • Strigaskór

Fyrir ævintýri sumarsins:

  • Bakpoki
  • Vatnsbrúsi
  • Ferðataska
  • Tjald
  • Útilegustóll
  • Háfur
  • Veiðistöng

Fyrir dundarann:

  • Bók
  • Krossgátur
  • Þrautabók
  • Sudoku
  • Spil
  • Málning
  • Litir
  • Blómapressa
  • Smásjá
  • Dagbók

Hugmyndir fyrir sumardaginn fyrsta Read More »

Ævintýraferð um Engjahverfi

Ævintýraferð um Engjahverfi

Nú þegar farið er að vora í höfuðborginni ætlum við að halda áfram með ævintýraferðir um hverfi og bæi. Í þetta sinn er komið að Engjahverfi í Grafarvogi, sem er gamalt og gróið hverfi sem gaman er að ganga um í góðu veðri.

Heimilisvefurinn hefur útbúið kort af öllum leikvöllum hverfisins. Leikvellirnir eru númeraðir frá einum og upp í sjö og er það tillaga að því hvernig hægt er að fara um hverfið og prófa að leika á öllum leikvöllunum þar. 

Gangan um hverfið er létt og skemmtileg en þó er gott að taka með sér smá nesti og vatnsbrúsa. Eins og áður sagði eru leikvellir, þar sem leyfilegt er að leika sér í hverfinu, sjö talsins. Þrír leikvellir hverfisins eru á girtum lóðum fjölbýlishúsa og því vafasamt hvort leyfilegt sé að leika sér þar. 

 

Engjahverfi er frekar lítið og leikvellirnir samtals sjö svo þessi ævintýraferð er mun styttri en t.d. ævintýraferðin um Neðra-Breiðholt og ævintýraferðin um Ártúnsholt. En það er þó vel hægt að eyða öllum deginum í þetta, sérstaklega ef prófa á öll tækin, á öllum leikvöllunum. Fyrir foreldra með mjög ung börn (0-2 ára) er búið að merkja inn allar ungbarnarólur hverfisins á kortið.

Nokkrum reglum þarf að fylgja ef fara á í ævintýraferðina og þær eru að það er mjög mikilvægt að fara vel með öll leiktækin og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Það er stranglega bannað að skilja eftir sig rusl og drasl og vera með sóðaskap. Þó að leikvellirnir í þessari ævintýraferð séu ekki á einkalóðum er samt sem áður mjög mikilvægt að ónáða ekki íbúana í kring. Farið líka varlega, sum leiktækin gætu hugsanlega verið komin til ára sinna og það er á ykkar ábyrgð ef þið eða börnin ykkar slasa sig í leiktækjum sem þyrfti að fara að endurnýja.

 

Náið í kortið af ævintýraferðinni hér:

Góða skemmtun!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar skuluð þið senda póst á heimilisvefurinn@heimilisvefurinn.is

Ævintýraferð um Engjahverfi Read More »

Bæjarhátíðir 2024

Bæjarhátíðir og viðburðir 2024

Þótt enn sé bara miður mars þegar þetta er skrifað er vel hægt að fara að skipuleggja sumarið. Hin skemmtilega íslenska bæjarhátíðahefð heldur áfram og vertíðin hefst strax um páskana með Skíðavikunni á Ísafirði og tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, sem fagnar 20 ára afmæli þetta árið.

Stór partur af íslenska sumrinu er að skella sér á bæjarhátíð eða aðra viðburði sem haldnir eru víða um land. Á bæjarhátíðunum er gjarnan stútfull dagskrá af viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Oft eru bæjarhátíðirnar haldnar til að lokka brottflutta til að kíkja aftur á gamla bæinn sinn en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að prófa nýja staði sem maður hefur enga tengingu við. Þá er bara um að gera að panta gistingu eða taka fram útilegubúnaðinn. Ef þú veist ekki hvað er gott að taka með í útileguna eru hér meiri upplýsingar um það.

Heimilisvefurinn hefur tekið saman lista yfir bæjarhátíðir og viðburði sem staðfestir eru í ár. Listinn verður uppfærður þegar fleiri viðburðir og hátíðir verða staðfest. 

Mars

Maí

Júní

31. maí – 2. júní

Bjórhátíð á Hólum

Fjör í Flóa

Listahátíð í Reykjavík

Sjómannadagurinn víðsvegar um landið

Júlí

Ágúst

September

5.-8. september

Ljósanótt

 

13.-23. september

Ormsteiti

 

Nákvæmar dagsetningar koma síðar

Fjarðarhjólið, Ólafsfirði

Haustglæður – Ljóðahátíð

Bæjarhátíðir 2024 Read More »

Enn fleiri stefnumót með makanum

Enn fleiri stefnumót með makanum

Í tilefni þess að líða fer að valentínusardeginum og konudeginum eru hér loksins fleiri hugmyndir að sniðugum stefnumótahugmyndum með makanum til að prenta út. Áður hefur Heimilisvefurinn birt þessar og þessar hugmyndir til að segja í krukku eða umslög. Eins og áður er mikilvægt að þið takið úr þær hugmyndir sem henta ykkur ekki, eru t.d. of dýrar eða einfaldlega eitthvað sem þið getið ekki hugsað ykkur að gera. 

Enn fleiri stefnumót með makanum Read More »

Sólarkaffi

Sólarkaffi

Sólarkaffi er hefð sem upprunalega varð til á Ísafirði og er enn mjög stór hefð þar, en hefur svo einnig dreift sér víðar um landið. Einkum til staða þar sem fjöllin eru það há að sólin hverfi á bak við þau í svartasta skammdeginu. Þegar aftur fer að sjást til sólar, sem er oft seint í janúar, er haldið upp á það með sólarkaffi til að fagna hækkandi sól. Á sólarkaffinu eru borðaðar sólarpönnukökur, sem bragðast mun betur en aðrar pönnukökur.

Mynd af Seyðisfirði, en þar er einnig haldið upp á sólarkaffi. Mynd: Sveinn Birkir Björnsson.

Sama hvort fólk býr undir bröttum fjallshlíðum eða á víðáttumikilli sléttu geta allir tekið þátt í sólarkaffihefðinni og fagnað því að dagurinn sé nú orðinn töluvert lengri en hann var fyrir um mánuði síðan. Það eina sem þarf er góð pönnukökupanna og hráefni í pönnukökur. Það er vitaskuld enn betra að bjóða góðu fólki að bragða á pönnukökunum með sér. Þetta er fín ástæða til að halda upp á eitthvað í janúar (þó vissulega séu þorrablótin um þetta leyti líka) og lífga upp á tilveruna. En samkvæmt því sem bresk ferðaskriftstofa komst að fyrir um tuttugu árum er þriðji mánudagurinn í janúar versti dagur ársins og dagurinn hefur verið nefndur “blár mánudagur” (e. Blue Monday). Er ekki tilvalið að breyta því og kætast yfir gómsætum pönnukökum? Hér er allavega uppskrift að sólarpönnukökum fyrir áhugasama.

Mynd: Philippe Murray-Pietsch

Sólarpönnukökur

50 g brætt smjör

4 dl hveiti

½ tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

½ tsk salt

2 egg

2 tsk vanilludropar eða aðrir dropar

Mjólk eins og þarf

 

Aðferð: 

  1. Bræðið smjörið á pönnukökupönnunni og leyfið því svo að kólna aðeins.
  2. Setjið hveiti, matarsóda, lyftiduft, salt, egg og vanilludropa í stóra skál. Það má einnig prófa sig áfram með t.d. sítrónudropa eða möndludropa ef maður er í stuði. 
  3. Hellið smjörinu út í þegar það hefur kólnað aðeins.
  4. Bætið við mjólk og hrærið öllu saman, bætið svo við meiri mjólk þar til deigið verður mjög þunnt. 
  5. Hitið pönnukökupönnuna aftur og hafið hana miðlungs heita. 
  6. Hellið deigi á pönnuna og dreifið úr því með réttum handtökum. Pönnukakan á að sjálfsögðu að vera mjög þunn. 
  7. Steikið pönnukökuna þar til hún er orðin gullinbrún undir og snúið henni þá við og steikið hinum megin. Munið að fyrsta pönnukakan er alltaf skrýtin. 
  8. Berið fram eins og ykkur lystir, upprúlluð með sykri eða með sultu og rjóma. Það má einnig prófa sig áfram með alls kyns fyllingum. Hægt væri að prófa t.d. nutella eða súkkulaðisósu, hnetusmjör, ávexti, karamellusósu eða lemon curd.

Sólarkaffi Read More »

40 hlutir til að gera með krökkunum á veturna

40 hlutir til að gera með krökkunum á veturna

Það getur vafist fyrir sumum hvað hægt sé að gera með krökkunum þegar allt er í snjó og ís og ískalt úti. En það er fullt hægt að gera þótt það sé kalt og snjór, bæði inni og úti. Hér eru fjörtíu hugmyndir að einhverju til að gera saman í vetur, óháð búsetu:

Góða skemmtun!

40 hlutir til að gera með krökkunum á veturna Read More »

Gleðileg jól!

Gleðileg jól!

Heimilisvefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi nýs árs. Vefurinn þakkar fyrir góða viðtökur á árinu. Við bjuggumst ekki við því að geta náð til svo margra eins og raun ber vitni en í kringum hundrað manns kíkja á síðuna á hverjum degi, þrátt fyrir að síðan sé ekkert auglýst. 

En sem jólagjöf til fjölskyldna þessi jólin hefur Heimilisvefurinn bætt við litamyndasíðu sem hægt er að finna hér. Þar er hægt að finna átta jólalitamyndir til að lita yfir hátíðirnar. 

Gleðileg jól! Read More »

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuostakaka

Mömmukökuunnendur þessa lands ættu ekki að láta þessa djúsí ostaköku fram hjá sér fara. Hér eru mömmukökur komnar í ostakökubúning og þetta gæti verið flottur eftirréttur um jólin eða í jólaboðið.

Botn
200 g mömmukökur án krems
85 g smjör

Fylling
200 g mascarponeostur
250 g vanilluskyr
100 g flórsykur
2 dl rjómi
4 matarlímsblöð
1 tsk vanillusykur

Sósa
75 g rjómatöggur
2-3 msk rjómi

Til skrauts
Rjómi
Litlar mömmukökur

1. Byrjið á að stilla ofninn á 170°C og blástur.
2. Takið fram 20 cm smelluform og setjið bökunarpappír í botninn.
3. Myljið mömmukökur án krems í matvinnsluvél og bræðið smjör. Blandið saman og hellið í smelluformið.
4. Þjappið mömmukökumylsnunum í botninn og til hliðanna á forminu. 
5. Bakið í ofni í 10 mínútur og kælið síðan.
6. Á meðan er hægt að byrja á fyllingunni með því að setja mascarponeost í skál og þeytið þangað til osturinn mýkist.
7. Bætið síðan við vanilluskyri, flórsykri og vanillusykri út í og þeytið saman þar til engir kekkir eru eftir.
8. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni.
9. Þeytið rjómann þar til hann er nokkuð mikið þeyttur og blandið honum svo varlega út í skyrblönduna. 
10. Setjið 3-4 msk af vatni í lítinn pott og hitið. Kreistið vatnið úr matarlímsblöðunum og setjið út í pottinn með vatninu. Hrærið þangað til þau bráðna.
11. Bætið við vænni skeið af ostakökufyllingunni út í matarlími og takið pottinn af hitanum. Hrærið vel og bætið svo öllu út í restina af fyllingunni og hrærið mjög vel.
12. Takið botninn fram og hellið fyllingunni ofan í hann. Setjið kökuna aftur í ísskápinn og kælið í minnst 4 klst, helst yfir nótt.
13. Ekki löngu áður en kakan verður borin fram er hægt að byrja á karamellunni. Til að gera hana þarf einfaldlega að setja rjómatöggur og rjóma í pott og hita á miðlungs hita þar til karamellurnar hafa bráðnað alveg út í rjómann. 
14. Dreifið karamellunni yfir kökuna.
15. Þeytið 1-2 dl af rjóma og skreytið kökuna með honum ásamt litlum mömmukökum. 

Verði ykkur að góðu!

Mömmukökuostakaka Read More »

Bestu jólamyndirnar

Bestu jólamyndirnar

Eitt af því sem við tengjum flest við jólin eru jólamyndirnar. Flest eigum við okkar uppáhalds jólamynd sem er ómissandi hluti af jólahátíðinni. Sum verða að horfa á allar Harry Potter-myndirnar yfir jólin, önnur mega ekki sleppa því að horfa á Christmas Vacation fyrir jól og enn önnur myndu segja að það kæmu engin jól án þess að horfa á Home Alone. En sama hver við teljum að sé besta jólamynd allra tíma er vel hægt að bæta við nokkrum nýjum í safnið. Í gegnum árin hafa verið gefnar út ótal margar jólamyndir og margar þeirra eru… vægast sagt hræðilegar, en inn á milli leynast gullmolar. Heimilisvefurinn hefur tekið saman nokkrar af ástsælustu jólamyndum allra tíma (sumar falla þó inn í „elska að hata“-flokkinn) og þær sem fá ágætis einkunnir á IMDB. Allar myndirnar á listanum eru með yfir 5,5 í einkunn á síðunni.  Listinn er settur upp sem áskorun um að horfa á allar myndirnar og gefa þeim einkunn. Alls eru 60 bíómyndir á listanum (og því er um að gera að byrja sem fyrst til að ná að klára fyrir áramót.) Bíómyndirnar eru fjölbreyttar, allt frá væmnum rómantískum gamanmyndum og barnamyndum yfir í hrollvekjur og mynd um fyrri heimstyrjöldina. 

Góða skemmtun!

Bestu jólamyndirnar Read More »